
Ég er búinn að skrifa svo mikið í dagbókina mína síðustu tvær vikur að ég veit ekki hvort ég get litið á sjálfan mig sem bloggara lengur. Það hefur verið talsverður fortíðarfílingur í lífinu þessa daga í Bláskógabyggð – Rás 1 í gangi allan sólarhringinn, takkasími, aldrei neitt opið í tölvunni nema ritvinnsluforritið. Ég skrifaði meira að segja svolítið af bréfum, fór með þau niður á Selfoss og póstlagði. Fyrstu póstferðina fór ég sama dag og kvennaverkfallið var haldið og það kom í ljós að það vinna sennilega bara konur hjá póstinum á Selfossi – nema karlarnir hafi bara ekki treyst sér til að halda opnu, því það var allavega lokað. En ég gat farið í Pennann handan götunnar og látið tvær ungar konur afgreiða mig um frímerki og umslag, póstlagt bréfin í póstkassa, og látið svo fimm (fimm!) ungar konur afgreiða mig um hræðilegan mat á KFC áður en ég hélt aftur í karlavinnuna mína í bústaðnum. Prósaverksmiðjuna.
Ég ætti kannski að stoppa hér og útskýra titilinn á bloggfærslunni áður en lengra er haldið. Fyrst kvennaverkfallið barst í tal. Það er sem sagt ekki „litla tussudeilan“. Ég tengdist netinu aftur í gær eftir tveggja vikna hlé og fór að kíkja á fréttamiðlana og það fyrsta sem ég rak mig á var sænskur bókmenntadebatt – Svíar eru mjög duglegir við að varpa menningarbombum og starta fæting, sérstaklega miðað við Íslendinga sem eru alltaf að þrátta bara um sömu hlutina (aðallega listamannalaun – við erum með, einhver nettröll eru á móti). Mikið af þessum bombum hafa fallið í útgefnum dagbókum skálda sem hafa verið della frá því Lars Norén byrjaði á þessu fyrir nærri tveimur áratugum – í fimm bókum og sex þúsund blaðsíðum.
Ein af þeim sem hafa gengið í þessi dagbókarbjörg er sænski súrrealistinn Aase Berg – frábært ljóðskáld, algerlega einstök, róttækur femínisti, fædd 1967 – sem gaf út sitt fyrsta bindi fyrir nokkrum árum. Aase Berg skrifar talsvert fyrir Dagens Nyheter, stærsta dagblað Svía, bæði pistla og gagnrýni, og þegar þannig stendur á – að mikilvægt skáld er líka starfsmaður blaðsins (þótt viðkomandi sé ekki inni á ritstjórn) – er hefð fyrir því í sænskum miðlum að ráðinn sé utanaðkomandi gagnrýnandi til þess að rýna í verk þeirra. Þegar dagbókin kom út var fengin yngri kona, Selma Brodrej, fædd 1996, til þess að rýna í bókina. Ég veit ekki margt um hana annað en að hún hefur gefið út feminískt debattrit, Testosteron, sem fjallar aðallega um karlmenn.
Allavegana, Selma var ekkert ægilega ánægð með dagbókarbókina hennar Aase – þótti hún mest bara ómerkileg, fljúga lágt. Það er auðvitað einkenni á venjulegum dagbókarskrifum – stundum eru þær bara um hvað maður át í morgunmat – en þessar útgefnu bækur hafa þótt þurfa einhverja meiri réttlætingu. Fólk talar um prósann hjá Norén, sem hafi verið alveg einstakur, skerandi. Og Selma Brodrej fann ekki neitt þvílíkt hjá Aase Berg. So what, shit happens. En svona dagbækur eru aldrei bara ein og ein – þetta er alltaf spurning um fjölda binda – og nú var Aase Berg að gefa út annað bindi. Og þar er heilmikið talað um Selmu Brodrej og hún aldrei kölluð annað en „lill-fittan“ – eða litla tussan. Og þess vegna logar bókmenntasvíþjóð. Eða logaði – svona gengur hratt yfir. Í gær eða fyrradag skrifaði menningarritstjóri Expressen (eða var það Aftonbladet) að svo til allar sænskar barnabækur sem hafa komið út síðustu 40 árin séu drasl (hér er ég að endursegja grein sem ég hef ekki lesið – en bara séð viðbrögðin við á Facebook). Og það best ég get séð eru allir hættir að tala um fittur og farnir að verja barnabókahöfunda.
Ég át annars egg og ostaslaufu í morgunmat. Það er ekki dæmigert. Ég er að reyna að klára matinn sem ég tók með mér í bústaðinn – sem mun ekki takast. Ég átti von á manni að sunnan með flugi í dag sem ætlaði að keyra bílinn vestur fyrir mig – ég er að fara til Svíþjóðar og Póllands og Nadja er bíllaus – en veðrið bíður sennilega ekki upp á flug. Ég þarf því að huga að því hvað ég geri við bílinn.
Það birtust afar jákvæðir dómar um Naturlagarna í Expressen og Kult Magasin. Engin ástæða til að uppnefna þá gagnrýnendur. Þegar ég var yngri átti ég einhverja gagnrýnendur sem ég sá sem hálfgerða óvini – og gat hreinlega glaðst ef þeim mislíkaði það sem ég skrifaði. En það er langt síðan. Kannski er ég bara ekki nógu edgy lengur. Eða bara ´oþægilega vinsæll. Kannski ætti ég að gefa út dagbækurnar mínar.
Ég komst út á enda í bók. Stuttri skáldsögu. Því fylgja blendnar tilfinningar. Það er hrikalega margt enn óunnið. Þetta er sem sagt ekki góð bók sem stendur, þótt það „standi til bóta“. Og ég er ekki vanur því að vinna svona, að eiga svona mikið óunnið þegar ég kem út á enda. Svona er sjálfsagt tilfinningin að eiga fokhelt hús. Ég hef gjarnan klárað veggina bara alveg áður en ég sný mér að næsta vegg. Er búinn að hengja upp myndir á vesturveggnum áður en ég byrja á suðurveggnum. Flyt inn í hvert horn fyrir sig. Þetta er alveg nýtt. En það er samt gott að vera kominn hingað. Þetta var mjög pródúktíf dvöl.
Mér hefur mikið verið hugsað til nútímans og þeirra ofurkrafta sem hann veitir manni. Gervigreindin er auðvitað augljóst dæmið, en líka bara að geta gúglað, geta komist inn á timarit.is og flett upp í orðabókum á netinu, að hafa ótal sérfræðinga á fb-vinalistanum, bara við fingurgómana. Að geta lesið fréttir í rauntíma af því sem er að gerast bókstaflega út um allan heim. Og þetta nær lengra – það eru ofurkraftar í útvarpstækjum líka, í bílum (og vetrardekkjum) og lestum og flugvélum og skipum. Það eru ofurkraftar í bókasöfnum og hver einasta prentaða bók er saga sem maður þarf ekki að hafa lært utanbókar. Nútíminn gengur út á meiri og meiri ofurkrafta. Við dáumst stundum að því hvernig fólk gat bara lært Hómerskviður og farið með þær – og hugsum hvað minni mannsins hafi hrakað síðan þá. En gleymum því auðvitað að menn kunnu kannski ekki mjög margar bækur. Sami maðurinn kunni ekki heilt bókasafn – sennilega hefur þótt ágætt lífsverk að kunna fjórar-fimm bækur.
Það eru líka ofurkraftar að muna eina langa bók. Að muna eina Ódysseifskviðu. Eða þekkja einhvern sem man hana. Ég las um daginn The Odyssey eftir fjölfræðinginn Stephen Fry (sem ég þekki ekki) og stóð mig að því hvað eftir annað að dást að því hvað hann væri fróður. Ég veit ekki hvers vegna ég trúi því að hann muni svona margt af þessu, kannski af því honum tekst að draga svo margt saman. Hann túlkar kannski ekkert voðalega margt og er takmarkaður að mörgu öðru leyti. Það sem hann hugsar um merkingu Ódysseifskviðu er aldrei byltingarkennt. En hann dregur hana og ýmsan fróðleik henni tengdan mjög vel saman. Og þá er voða gott, fyrir okkur sem þekkjum ekki Stephen Fry, að geta fengið þetta í ódýrri og afar læsilegri flugvallarkilju.
En það sem sagt hvarflaði líka að mér hérna í pródúktífu fortíðinni að það að vera án alls þess erils sem fylgir gervigreindum, símalandi álitsgjöfum, pípandi snjallsímum og viðstöðulausum fréttaflutningi er líka ofurkraftur. Það er ofurkraftur að vera aldrei fastur í umferðinni. En af einhverjum orsökum eru þessir ofurkraftar ekki jafn lokkandi og hinir. Nú er ég ekki bara að tala um mig – þótt ég sé oft illa haldinn af ofurkrafta-FOMO – því ég er líka sannfærður um að það skipti ekki nokkru máli hvort gervigreindin reynist svo orkufrek að hún beinlínis svelti mannkyn og geri út af við líf á jörðinni, hún fær það sem hún krefst.