Máttur stíls og forms (úr Ferdydurke)

Oh, the power of Form! Nations die because of it. It is the cause of wars. It creates something in us that is not of us. If you make light of it you’ll never understand stupidity nor evil nor crime. It governs our slightest impulses. It is at the base of our collective life. For you, however, Form and Style still belong strictly to the realm of the aesthetic – for you style is on paper only, in the style of your stories. Gentlemen, who will slap your pupa which you dare turn toward others as you kneel at the altar of art? For you form is not something that is human and alive, something – I’d say – practical and everyday, but just a feature for the holidays. And while you’re leaning over a piece of paper you forget your own self – you don’t care about perfecting your own individual and concrete style, you merely practice an abstract stylization in a vacuum. Instead of art serving you, you serve art – and with a sheeplike docility you let it impede your development, and you let it push you into the hell of indolence. Witold Gombrowicz – Ferdydurke

París, Frans, 23. nóvember 2015, tíu dögum eftir árásirnar í 10. og 11. hverfi

Á leiðinni upp að Bataclan rákumst við á samískan rithöfund sem ég þekki, Sigbjörn Skåden. Þetta var fyrir fjórum-fimm dögum, áður en við fórum til Caen, áður en við komum til baka. Við töluðum um veitingastaði með Michelinstjörnur, fjármögnun menningarverkefna fyrir ungt fólk og langferðalög um Bandaríkin. Síðan kvöddum við Sigbjörn og konuna hans og héldum áleiðis að Bataclan, skoðuðum blómin og áletranirnar. Það vakti athygli mína hversu mikið af tjáningunni á grindverkinu handan götunnar – þar sem blómahafið breiðir úr sér – var yfirlýsing um samstöðu. Víetnamar sýna samstöðu, Alsíringar sýna samstöðu, kaþólikkar sýna samstöðu, múslimar sýna samstöðu, strætóbílstjórar sýna samstöðu, háskólakennarar sýna samstöðu, grunnskólabekkur 3. GK sýnir samstöðu. Og svo voru gjafir, eins konar fórnir – eða ég veit ekki. Skartgripir, skraut, tónlist – ég sá fyrstu plötu Rage Against the Machine á vínyl liggja þarna í regninu. Og úti um allt fólk með kökkinn í hálsinum. Í Caen var okkur sagt að orðið hefði messufall á suma viðburði, sérstaklega tónleika. Á eina tónleikana mættu bara 100 manns þótt 300 miðar hefðu selst í forsölu. Við Jón Kalman sungum og dönsuðum samt fyrir fullu húsi. Svo fórum við í mat til Erics Boury og töluðum um kynlíf í bókmenntum, stöðu jaðartungumála í Frakklandi, fagurfræði játningabóka, ævisöguna, beaujolais-æðið (aldrei hefur verið jafn illa talað um beaujolais), viskí, breytingar og styttingar í þýðingum og skort á fagmennsku í bókmenntarýni. Já og svo rifumst við svolítið um Mávinn í Borgarleikhúsinu. Í gær komum við aftur til Parísar. Eyddum bróðurparti dagsins í Belleville-hverfinu, sem hefur á sér svipað orð og Rosengård í Malmö, sem Jónas Kristjánsson froðufellti svona um á dögunum: Í Málmey er heilt hverfi, Rosengård, orðið að múslimalandi, þar sem löggan þorir ekki inn. Glæpir og ofbeldi, einkum nauðganir, hafa magnast í hverfinu. Börnin þar læra ekki sænsku í skólum, heldur arabísku. Víðar í Svíþjóð þorir fólk ekki út á kvöldin. Sænski draumurinn leikur á reiðiskjálfi. Svona lýsingar – einsog margt af rasismanum sem vellur upp úr Jónasi þessa dagana – eru auðvitað fyrst og fremst hlægilegar öllum sem þekkja til. Orðsporið á í báðum tilfellum uppruna sinn í þvælingi af Fox-sjónvarpsstöðinni, sem ber takmarkaða virðingu fyrir sannleikanum. Belleville er í öllu falli dásamlegt hverfi. Við röltum um og reyndum að ákveða okkur hvort við ættum að fá okkur arabískt eða ísraelskt eða franskt eða kínverskt eða norður-afrískt en enduðum auðvitað á víetnömsku og átum gersamlega yfir okkur af goi cuon tom og pho bo. Helvítis útlendingarnir voru að vísu mjög lengi að afgreiða okkur og gáfu okkur sæti við gluggann þar sem var kalt. Ég er viss um að þeir eru kommúnistar og terroristar og vonandi útrýmir lögreglan þeim sem fyrst. Síðan fórum við í Belleville-garðinn og horfðum á París af hæðinni – Nadja fullyrðir að þetta sé besta útsýnið í borginni, hún þekkir til og ég treysti henni. Þar var líka fallegt. Um kvöldið fórum við í bíó. Sáum Some Like it Hot í pínulitlu parísarbíói með öllu tilheyrandi – sýningarstjórinn keðjureykti bakvið gamla skrollandi filmuvél og hér og hvar sátu pör á deitum, stúlkur í fangi stráka, strákar í fangi stúlkna (frekar heteronormatíf mynd, miðað við hvað hún var hómónormatíf fyrir sinn tíma – endar á hálfgerðu loforði um fyrsta hommabrúðkaupið í bandarískri menningarsögu). Svo fórum við í göngutúr, töluðum um peninga, börn, mat, gyðingahatur í gullaldar-hollívúdd, fitufellingar Marilyn Monroe og hvort hún hafi verið gegnumírónísk eða gersamlega einlæg. Pizza og heim.

Vögguvísa fyrir ástvin eftir Daivu Cepauskaite

Flónið mitt, litla flónið mitt, við tvö erum ein eftir, allir aðrir löngu dauðir, þrifnir, rakaðir, greiddir, meikaðir, syrgðir, grafnir, snyrtilega uppstillt, skreyttir blómum, hvíla í friði hættulaust. Bara þú og ég finnum enga leið til að deyja hröpum með höfuðið á undan alltaf ofan í sama himin alltaf þar til næst. Í jaðri augna okkar standa tveir kanarífuglar, jafn ólíkir og tvö augu sömu manneskjunnar, flónið mitt, litla flónið mitt, í kvöld finnum við enn á ný enga leið til að deyja, í kvöld græt ég kanarífuglum og tár mín syngja. *** Hvernig hefurðu það? – Fínt bara, segi ég, fínt. Ég svaf vel. Dreymdi ekkert. Vaknaði af sjálfri mér. Leit í spegilinn. Sá ekkert óvenjulegt. Mundi eina eða tvær manneskjur. Eina eða tvær mundi ég ekki. Sópaði mylsnunni af borðinu. Fann rúsínu. Opnaði glugga. Var hamingjusöm einu sinni. Óhamingjusöm tvisvar. Fann ekki fyrir neinu þrisvar. Hugsaði um merkingu lífsins þrisvar. Hóstaði. Var hvergi illt. Skorti ekkert. Enginn hafði áhyggjur af mér. Horfði á fréttirnar. Þau klipptu bandið. Fóru í viðtal. Sprengdu í loft upp. Tvö börn og bíll drukknuðu (sitt í hvoru lagi). Þau töluðu lengur um bílinn en um börnin. Leit út í garð. Leit ofan í veskið mitt. Skoðaði fortíðina. Lagði fram tap mitt. Fagnaði uppgötvunum mínum. Gaumgæfði atburði. Íhugaði samhengið. Lagði mat á hlutinn. Uppgötvaði tengingar. Útskýrði ástæðurnar. Heiðraði þá dauðu með mínútu þögn. Andvarpaði vegna elskhuga míns. Hugsaði um móður mína. Skipti um föt. Klóraði mér í höfuðið. Fínt bara, segi ég, fínt. Þýtt úr enskri þýðingu Jonas Sdanys.

Gjöf andskotans eftir Tran Wu Khang

skáldin yrkja ljóð – ég terrorísera strákar og stelpur kela – ég terrorísera saumakonur fara á stofuna, börnin yfirgefa skólana – ég terrorísera þau stunda fjárhættuspil – ég terrorísera þau baða sig í hafinu – ég terrorísera þau örvinglast, slasast, deyja – ég terrorísera kirkjur, ríkisstjórnir, hótel, markaði, vitlausraspítala, neðanjarðarlestir í sól, regni, roki, stormum, umferðarteppum, bandaríkjadalur sveiflast – ég terrorísera prestar predika, söngvarar fara á pöbbarölt, yfirstéttin kúgar, milljarðamæringar svíkja út sjóði, fátæklingar svelta – ég terrorísera þau elskast þau fjölga sér þau ala hvert annað upp og mennta þau hæla eða níða hvert annað þau blekkja eða eru hreinskiptin hvert við annað þau hafa áhyggjur af eyðni svartholinu grænu byltingunni hvíta dauðanum ég terrorísera enginn terroríserar – ég terrorísera það skiptir ekki máli hvort nokkur einstaklingur, hópur eða flokkur terroríserar – ég terrorísera ég gengst við því að vera terroristi, hvort sem það var ég sem terroríseraði eða ekki þau mótmæla og fordæma mig – ég terrorísera mannkyn alþjóðavæðist eða snýr aftur í hellana – ég held áfram að terrorísera ég terrorísera á jörðinni, tunglinu, mars, halastjörnunum, ég terrorísera alls staðar á reikistjörnum sem uppgötvast ekki fyrren eftir milljónir ára deyi ég í þessu lífi mun ég halda áfram að terrorísera út í eilífðina í öllum mínum eftirlífum glaður – ég terrorísera; dapur – ég terrorísera; hvorki glaður né dapur – ég terrorísera ég ét sef ríð míg bara til að terrorísera þau gera sprengjur, ég kaupi – ég terrorísera geti ég ekki keypt þær, bý ég til mínar eigin – ég terrorísera TERRORISTI er nafn MITT það er það sem ég geri, það eru örlög mín, ást mín og hatur, leikur minn og stríð, mitt fyrirheitna land, raunveruleiki minn og tómið, trú mín og ástríða, himnaríki mitt … ég terrorísera ég terrorísera ég terrorísera terrorísera terrorísera terrorísera r a d d i r f u g l a r t í s t a s y n g j a s y n g j a f u g l a r t í s t a TERRORISMI æ p a á h j á l p s á r b æ n a s á r b æ n a æ p a á h j á l p k j ö k r a ÉG TERRORÍSERA ÉG TERROR ÉG TERR ÉG T ÉG É .

Þýtt úr enskri þýðingu Linh Dinh.

Dagur íslenskrar tungu: Heimska í Edinborgarhúsinu

Í kvöld verður dagskrá helguð Degi íslenskrar tungu í Edinborgarhúsinu, þar mun Eiríkur Örn Norðdahl lesa upp úr Heimsku, nýjustu skáldsögu sinni, á Degi íslenskrar tungu. Líkt og í útgáfuhófi Eiríks í síðasta mánuði verður gjörningurinn sendur út á veraldarvefnum, í þetta sinn af Jakanum TV, sem þaulvanir eru hverjum hnúti í slíkum útsendingum, en þeir hafa um árabil sent út frá leikjum KFÍ. sem og tónlistarviðburðum og öðru slíku.
Eirík Örn þarf vart að kynna, hann hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem einn helsti rithöfundur vorra tíma hér á landi og hafa verk hans verið gefin út í fjölmörgum löndum. Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og hlaut síðasta skáldsaga hans, Illska, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012. Heimska er skáldsaga um að sjá allt og sjást alls staðar, um óstjórnlega forvitni mannsins og þörf hans fyrir að vekja athygli, um fánýti bókmennta og lista – og mikilvægi – um líkindi mismunarins, um hégóma, ást og svik. Og síðast en ekki síst um framtíðina.
Slóðin fyrir netútsendinguna er jakinn.tv/live BB.is – Frétt – Annska

Úr Snúið aftur úr stríði

Fyrir utan hermannaskálanna
bíður fólkið kvíðafullt
líkt og þegar trompetið kalli
sé stríðinu lokið
Eftirlifendurnir snúa aftur
Í fjarlægð má sjá glitta í hertrukkana,
byssurnar eru hífðar upp langsum
yfir höfuð hermannanna,
líkt og þær fljóti upp að hálsum þeirra
Þetta eru leifar þeirra sem enn eru í fullu fjöri
Axlir eru án axlaskúfa
búningar án hnappa,
handleggir þeirra eins og árar í uppþornuðum árfarvegi
væla Nói, Nói, Nói
Leifar þeirra sem enn eru í fullu fjöri.
Á samkomu sem þessari
grætur enginn tapaða útlimi.
Minnstu manneskjutætlur eru nóg.
Það sem skiptir mestu er að vera á lífi,
tapaðir útlimir skipta engu. Hver einasti kjaftur á hertrukkunum
er talinn lifandi og dauður – bæði í senn
Lifandi og dauður bæði í senn
Óvissa og vissa,
líf og dauði,
eru nú samofin.
Eftir augnablik verður sannleikurinn ljós,
hinir dauðu verða að eilífu dauðir,
og hinir lifandi lifa að hluta.
Krítísku augnablikin tvístra, þykist ég vita,
þau geta frelsað, eða drepið, tafarlaust
í þrumandi skyndingu, grípa þig óforvarendis
eins og flóð, þú færð engan fyrirvara
til að safna saman eigum þínum
eða klæða þig.
Á samkomu sem þessari
verða gleði og harmur fljótt sitthvor hluturinn
og sjálfselskan sýnir sig
vera öflugasti þáttur mannlegs eðlis. Hún er eins og bátur sem tekur á sig brot
kona sem leitar að syni sínum
er eins og bátur sem tekur á sig brot.
Skammt undan, faðmlag
svo þétt að
það verður aldrei rofið.
Veislur og útfarir
eru nágrannatré
Fingur þeirra fléttast saman,
en mikið eru þau ólík. Salah Niazi
Þýðing: EÖN úr enskri þýðingu höfundar.

Andspyrna í einu rúmi

Þú skríður upp í rúm, kveikir á símanum og skyndilega hrekkurðu upp einsog þú hafir verið að falla í draumi: Allt þetta fólk er dáið. Þú veist varla hvar þú liggur lengur, fylgist með dánartölunni vaxa og dvína, kippist við í augnablik einsog á þig sé skotið, kippist svo aftur við af hræsninni: á þig er ekki skotið, þú liggur í rúminu, þér er hlýtt og fjöllin skýla þér, lúpínubreiðurnar, blámi fjallanna, fjarlægðin. Afsakið tilfinningasemina en þið skríðið upp í rúm, hvort sínu megin, kveikið á símunum og setjið í brýnnar; þið hafið ekki unnið fyrir tárum en langar að grenja eða að minnsta kosti andvarpa, fórna höndum. Börnin eru sofnuð og þér skilst að Disneylandi Parísar hafi verið lokað í fyrsta sinn frá því það opnaði fyrir 25 árum síðan. Svo gerðist víst eitthvað í Beirút. Og eitthvað alls staðar, úti um allt, kannski drepast aldrei færri en í París, hugsarðu, og verður ósegjanlega leiður. Þessi leiði er að fara að bjarga heiminum. Svo ferðu bara að gera eitthvað annað. Hvað sem er. Sofa. Dreyma. Þú þekkir fólk í París. Þú ferð þangað á fimmtudag, þið farið þangað bæði, hótelið er skotspöl frá Bataclan, þar sem fasistarnir vinna, þar sem Marine Le Pen verður bráðum forseti og salafistarnir plotta uppreisn. Þú hugsar eitthvað um skriðþunga mannkynssögunnar og réttir upp hendur, sendir inn afsögnina, þetta er ekki gerlegt – fimmtán ára, þeir voru fimmtán ára. Þú skríður upp í rúm. Það er alveg sama hvað þú lest þessa frétt oft, hún er alltaf eins. Klukkan er orðin margt og bráðum hefst andspyrnan.

Rímar við tímana #hasstaggvantar

Höfundurinn og verk hans eru eitt, It’s my life. Hann á helst að ganga svo nærri sjálfum sér að ekkert er eftir, svo mætir hann í viðtöl eins og sprungin blaðra, algerlega tæmdur, spyrillinn situr fyrir framan hann alveg gáttaður, honum dettur ekkert annað í hug en þetta: Þú hlýtur að vera algerlega úrvinda eftir að hafa komið þessu á bók! Og höfundurinn, loftlaus og aðframkominn, muldrar upp úr eins manns hljóði: Ég skrifaði bókina því hún rímar svo vel við tímana. Bókmenntirnar þrá nú flóðlýsinguna, hættan er sú að þær samlagist okkar athyglisóða samtíma í stað þess að veita viðnám, og hvernig er þá komið fyrir hugarfarinu og sálinni, svo vitnað sé í þann sem ekki má nefna. Eiríkur Guðmundsson skrifar á Víðsjárvefinn | RÚV :