Hins vegar er ég ennþá til, þótt furðulega megi virðast. Ég hef ekki gefist upp á tilvistinni sem slíkri, heldur spólað aftur til ársins 2004, 2005, 2006, 2007, 2008 jafnvel, til þess tíma áður en samtíminn hófst, þegar enn var til sjálf sem var ekki vortex heldur perspektíf. Ég vaknaði klukkan sjö, einn í rúminu. Aino hafði gubbað (samt alveg hress) og Nadja farið með hana inn á skrifstofuna sína, sem er líka gestaherbergi. Svo komu börnin mín bæði og gáfu mér kraftknús og ég dröslaðist á fætur. Borðaði Havre Fras kodda í morgunmat, pakkaði í ferðatöskuna, drakk espresso sem við köllum ekki lengur espresso heldur mokkakaffi, frá því að semantísk nákvæmni hipstersins tók völdin í heimum bragðlaukana. Las nokkur ljóð í ljóðasafni Gyrðis. Síðan keyrði ég Aino Magneu á leikskólann og fór sjálfur út á flugvöll. Konan fyrir framan mig á leiðinni út í vél virtist aldrei hafa flogið áður. Hún spurði flugfreyjuna hvort maður mætti bara setjast hvar sem er. Og var svo vísað til sætis. Í sætisröðinni fyrir aftan mig var strákur, svona átta ára kannski, eða tíu ára, eða tólf í mesta lagi, með grænan hanakamb. Hinumegin við gangin var dóttir Billu og Elfars Loga ásamt barnabarninu. Ég svaf stærstan hluta flugsins, með hattinn í andlitinu. Þegar ég sagði leigubílstjóranum í Vatnsmýrinni að ég ætlaði bara út á BSÍ spurði hann hvort ég ætlaði ekkert að spila í kvöld; ég sagði nei og spurði svo Mugison í tölvupósti hvort hann ætlaði ekkert að spila í bænum fljótlega, hann sagði já, jújú, næstu helgi, nokkrir miðar lausir og ég bar þau skilaboð áfram án þess að taka fram að ég væri ekki þessi sem gerir það hljóðlega, ég væri hinn, þessi sem er alltaf að þrátta við fólk. Hvert ertu að fara? Köben? spurði leigubílstjórinn vinalega þegar hann hafði fengið upplýsingar um veðurfar á Ísafirði í haust. Til Svíþjóðar, sagði ég. Tómar óeirðir þar, sagði hann. Vinalega. Ég hváði. Innflytjendur, hélt hann áfram, vinalega. Til tómra vandræða. Ég svaraði engu og réttlætti það fyrir sjálfum mér með því að maður geti ekki tekið alla slagi. Í rútunni til Keflavíkur var dóttir Ólínu og Sigga Péturs, Saga, og barnabarnið. Ég kláraði ljóðasafnið hans Gyrðis (það var frábært) og áður en ég tékkaði töskuna inn dró ég fram Þegar að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino og Feigðaróra Kristófers Páls Viðarssonar. Ég er byrjaður á hvorugri. Á flugvellinum er líka snjóbrettakappinn sem ég held að heiti Eiríkur, einsog ég. Fyrir framan mig, yfir tímaritarekkanum, eru stór plaköt með andlitum: Björk, Arnaldur, Siggi Páls, Yrsa, HKL, Einar Kára, Auður Ava, Jón Kalman, Guðrún Eva og Stephen King. Alltaf þessi Stephen King. Og gott ef ég sé ekki líka glitta í hana Auju í horninu. Ég tók strax eftir því að það var engin mynd af mér. Ekkert stingur jafn mikið í augun og þegar mig vantar. Kannski ég líti í búðina og sjái hvort það sé í öllu falli til einhver bók sem ég hef skrifað. Ég sit á Joe & the Juice, át samloku, drakk sjeik og kaffi. Ég er að reyna að klára ljóð fyrir morgundaginn. Það er ennþá þögn í höfðinu á mér. Guði sé lof.
Offline
Ég lokaði flipunum, slökkti á reikningunum – facebook, twitter, google plus – eyddi öppunum og nú ríkir þögnin ein. Aldrei aftur? Aldrei aftur. Þetta er krabbamein fyrir egóið, rotþró narsissismans, og ég mátti aldrei við því.
Tvær vikur af Heimsku (líkamshiti, þyngd, hreyfing og matarvenjur)
Bókin er komin út – var það komið fram? Ég er alls ekki nógu duglegur að sinna þessu bloggi, sem er hvort eð er löngu hætt að snúast um bókina. En hún er engu að síður komin út – fáanleg í öllum helstu bókabúðum sem svokölluð royal-kilja, fáanleg sem epub-rafbók hjá Forlaginu og Amazonrafbók fyrir kindil , fáanleg sem hljóðbók á Hljóðbókasafni Íslands (í lestri Hjálmars Hjálmarssonar) eða á hinum frjálsa markaði í mínum lestri . Fimm formött, enn sem komið er. Já og svo er búið að selja réttinn á henni til Svíþjóðar og Frakklands, þar sem hún kemur út á næsta ári. Hún var dæmd í Kiljunni – Sigurður og Friðrika stilltu sér upp í sitthvort hornið hvað varðar hið kaldhamraða neytendamat, Frikka með, Siggi á móti, en Egill hélt sig á hlutlausa svæðinu – og svo fékk hún fyrirtaksdóm á Hugrásarvefnum , þar sem Ásta Kristín Benediktsdóttir rýndi og greindi af móð, andríki og íþrótt. Loks hafa birst um hana styttri umsagnir á samfélagsmiðlum – Halldór Laxness DNA var „ GÍRAÐUR “, María Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, líkti bókinni við verk Henrys Miller (kannski út af dónaskapnum), Össur Skarphéðinsson, fv. … ritstjóri DV … sagði einfaldlega „frábær bók“ og Bjarni Harðarson, bókaútgefandi , sagði hana „afar vel skrifaða“ og að hún ætti „sannarlega erindi við samtímann“. Þess utan hafa það mest verið vinir og kunningjar sem hafa ausið á mig hóli. Nadja, konan mín, er til dæmis mjög ánægð. Börnunum mínum finnst ég frábær (þau fá samt ekki að lesa bókina fyrren þau eru átján ára). Mamma og pabbi eru mjög stolt. Og svo framvegis. * * * Það er alltaf verið að spyrja mig um hvað Heimska sé. Og ég mala eitthvað. Hún er vísindaskáldsaga, glæpasaga, reyfari, tilgátubókmenntir, metafiksjón, ljóðræn hugleiðing um mann og náttúru, frumspekileg hugleiðing um eðli tímans og inniheldur þess utan meira að segja einlægan og blóðugan játningaskáldskap rithöfunda, ritgerð um tilgang bókmennta, og tvær rammpólitískar skáldsögur (sem eru að vísu keimlíkar). Og þetta allt á rétt rúmum 160 blaðsíðum. En svo er ég ekki einu sinni alltaf viss sjálfur nákvæmlega um hvað hún er – og ef ég er viss um eitthvað þá er það það að litlar bækur séu viðkvæmar fyrir umtali höfunda sinna og eiginlega ætti ég að gæta mín að segja sem minnst um hana. * * * Í dag einhvern tíma verður tilkynnt um Medici verðlaunin í Frakklandi. Við Jón Kalman erum tilnefndir – hann fyrir fótalausu fiskana og ég fyrir Illsku. Lítill fugl sagði mér að ég ætti nokkra grjótharða í nefndinni en líklega muni Javier Cercas taka þetta. Ég ætla samt að naga neglurnar niður í kviku í dag. Ég sem þarf eiginlega að hafa hugarró til að klára ljóð sem ég á að flytja á norræna vatnslitasafninu í Svíþjóð á laugardaginn. * * * Í næstu viku ætla ég að lesa upp úr bókinni í streymi á netinu, beinni útsendingu úr skúrinni við Sjökvist. Hugsanlega geri ég það í hádeginu, hugsanlega bæði, og alveg áreiðanlega nokkrum sinnum. Ætli ég auglýsi það ekki betur síðar. * * * Einu sinni bloggaði ég af trúfestu um þyngd mína og matarvenjur. Ekki af neinni lútersku, vel að merkja, þetta var aldrei líkamsræktarblogg. Og nei, nú man ég, það var ekki þyngdin – það var líkamshitinn. Ég er þeim ósköpum búinn að vera undir mennskum meðalhita – yfirleitt ekki nema rétt rúmlega 36 gráður. Ef ég er með 37 gráður þá er ég fárlasinn. En ég sem sagt át Havre Fras kodda í morgunmat, ætla að steikja mér egg í hádeginu og hafa pizzu í kvöldmat. Valur bróðir kemur með fjölskylduna, alla leiðina úr næsta húsi. Ég er 86,6 kíló (3-4 kílóum yfir því sem ég á að mér að vera), í gær hljóp ég fimm kílómetra, á morgun ætla ég til Skärhamn, ég er 36,1 gráða og háður samfélagsmiðlum, kaupið bókina mína!
Síðasti í viðskiptabanni
Ég er aðeins of seinn að skila skýrslunni; hef verið á ferðalagi. Ég hugsa að ég láti alveg vera að draga af þessu verkefni neinar almennar ályktanir, því þótt bækur eftir konur hafi hugsanlega einhver sérkenni sem skilji þær frá bókum karlmanna eru sá munur ekki mikill – munurinn á dönskum og sænskum bókmenntum er miklu meiri, munurinn á eitís og næntís bókmenntum miklu meiri – og bækurnar sem ég hef lesið á þessu hálfa ári miklu ólíkari innbyrðis en svo að þær eigi skilið að fara allar undir sama hatt. En sem sagt. Maya Angelou – I know why the caged bird sings Klassík, auðvitað – fáránlega ljóðræn og falleg. Nú eru líklega tveir mánuðir síðan ég las hana og sagan virðist ekki hafa setið fast í höfðinu á mér, hvernig sem á því stendur. Ég man eftir því að hafa hugsað á meðan á lestri stóð að bókin væri – þrátt fyrir allt fallegt og gott sem má segja um hana – kannski líka svolítið full af blökkumannaklisjum. En fyrst og fremst sterkur texti og sterkur persónuleiki. Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande (Í leyfisleysi)
Ég las bókina á sænsku en ekki í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur, sem er áreiðanlega samt frábær (þótt mér finnist þýðingin á titlinum alltof skvísubókaleg – þetta er lögfræðihugtak sem á ensku útleggst sem Wilful disregard). Bókin er svona semísjálfsævisöguleg og fjallar um samband aðalsöguhetjunnar við flagarann og kvikmyndaleikstjórann Hugo Rask (það ölli talsverðu „raski“ (hó hó) í sænskum bókmenntaheimi þegar Roy Andersson tók að sér að vera Hugo Rask og sagði frá ástarsambandi sínu við Lenu). Það sem ég hafði lesið um bókina einblíndi mikið á hugmyndina um kúltúrmanninn og hvernig hann nýtir sér stöðu sína til að tæla ungar konur án þess að meina neitt með því en það kom mér á óvart hvað bókin virkaði miklu meira á mig sem svona raskolnikovskur óður til ástarinnar, ástarþráarinnar og ástsýkinnar. Aðalsöguhetjan er með alls konar þráhyggjur og þær taka miklu meira pláss en hegðun Hugo Rask, sem maður fær eiginlega aldrei neitt sérstaklega mikla innsýn í (enda fer hann leynt með hana). Í öllu falli frábær bók. Virginia Woolf – Út í vitann
Fjölskylda ætlar að fara út í vita en veðrið er ekki alveg nógu gott. Í rosalega merkilegum texta. Vel þýddum af Herdísi Hreiðarsdóttur. Anna Axfors – Veckan innan
Stutt ljóðabók eftir sænska skáldið Önnu Axfors, sem hefur vakið talsverða athygli í Svíþjóð upp á síðkastið. Ég þýddi tvö ljóð úr bókinni – annað þeirra birtist á 2015 er gildra á dögunum og hitt birtist áreiðanlega líka fljótlega. Frábær bók – minnir að mörgu leyti á Miru Gonzalez eða Julie Steen Knudsen. Einhver afhjúpandi nánd í bland við truflandi ágengni. Einsog hún dragi mann inn og hrelli mann til skiptis. Tíst og bast – Eydís Blöndal
Eydís Blöndal var ekki mjög gömul þegar ég las viðtal við hugsjónafrjálshyggjumanninn pabba hennar þar sem fram kom að hann greiddi börnunum sínum fyrir hin ýmsu viðvik á heimilinu – svo sem að búa um rúmið og svona. Af því peningar eru hvati. Sem gerir það auðvitað sérstaklega áhugavert (og skemmtilegt) að dóttir hans skuli hafa valið sér sjálfsagt starfsvettvanginn í heiminum þar sem óhugsandi er að maður búi nokkurn tíma til neina peninga – það er hægt að fá greitt fyrir svo til allt (svo sem að búa um rúmið) og lifa af þeim tekjum, en það er ekki hægt að lifa af því að skrifa ljóð. Í það minnsta er ekkert hæpnara. Að því sögðu er ekki heldur beinlínis leiðinlegt að bókin er góð og áhugaverð. Sum ljóðin bera að vísu með sér að hafa verið skrifuð af ungmenni (þau eru vel að merkja samt miklu betri en nokkuð sem ég skrifaði tvítugur) en önnur þeirra hafa til að bera talsverða spennu, húmor og fegurð. Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir
Síðustu árin hef ég varast jólabókaflóðið og tekið meðvitaða ákvörðun um að leyfa bókum að bíða aðeins (ég mæli ekki með þessu sem neinu skilyrðislausu skylduboði því þá fer bókabransinn á hausinn). Og hafði þess vegna ekki lesið Hvítfeld – og kannski hreinlega óttaðist ég hana af einhverri svona faglegri afbrýðissemi gagnvart hæfileikum Kristínar (sem er vinkona mín). Og var svo sem alveg ástæða til. Hvítfeld er alveg hryllilega góð bók – en samt allt öðruvísi en ég hélt hún yrði. Minna „plottuð“ og meiri ákefð, meira blóð og meiri átök. Ég held ég verði með hnút í maganum a.m.k. fram yfir áramót. Wisława Szymborska – Selected poems Ég ákvað að rifja upp Szymborsku eftir að hafa lesið grein Hermanns Stefánssonar um háskólasamfélagið, Skýrsla handa akademíu , þar sem hann vitnar í ljóð eftir hana: Þegar ég ber fram orðið Þögn / eyðilegg ég það. Nú myndi ég finna til fyrir ykkur eitthvað gott ljóð ef ég hefði bókina við höndina, en hún er heima hjá mér en það er ég ekki. Ég veit ekki hvernig maður ætti að lýsa svona bók – sem er yfirlitsrit yfir heilan feril, heila ævi. Hún er einhvern veginn bæði margbrotin og einföld, ólíkindaleg og sjálfri sér lík og alls engum öðrum. Og maður verður bara að lesa hana sjálfur. Clarice Lispector – The Hour of the Star
Aftur bók sem erfitt er að lýsa. Bók sem fjallar eiginlega mest um textann sem er í henni. Hún gerist í fátækrahverfi í Rio, er sögð af manni, fjallar um konu og kærastann hennar, um skítinn og heiminn og hamingjuna. Ef að Borges og Gertrude Stein myndu eignast barn, og Italo Calvino og Jane Austen myndu eignast annað barn, og þessi tvö börn myndu svo eignast sitt eigið barn, þá væri það barn kannski Clarice Lispector. Þessi brasilíska skáldkona hefur víst lengi verið bókmenntasamfélaginu í Brasilíu kær, en er fyrst að slá í gegn á heimsvísu núna – hún dó rétt áður en bókin kom út, árið 1977. Og stundum hugsa ég að fyrst hún gat skyndilega tekið af stað í útrás, þá sé enn von fyrir Þórberg … Joyce Carol Oates – The Falls (p.s.)
Bókin hefst á því að ungur nýgiftur maður sem er í brúðkaupsferð í Niagara Falls fer og steypir sér í einn af fossunum – hugsanlega vegna þess að honum hafi ofboðið svo gagnkynhneigðu kynmökin sem hann neyddist til að stunda um nóttina. Ekkjan giftist síðan áhrifamanni í bænum, þau eignast saman börn, hann kynnist fátækri konu hverrar börn eru mjög veik vegna eiturefna í hinum svonefnda Love Canal. Verandi lögfræðingur og rosalega góð manneskja ákveður hann að hjálpa henni. Og svo framvegis og svo framvegis. Ég á enn smá eftir af henni – hún er hryllilega löng en að mörgu leyti góð. Miklu meiri „spennubókmenntir“ en ég hélt að Oates skrifaði, miklu meiri saga – kannski er ég bara svona hellaður eftir Woolf og Lispector og ljóðabækurnar, en textinn er allavega alveg meinstrím. Ég hef tekið stóran hluta bókarinnar á hljóðbók í ágætis lestri konu sem ég man ekki hvað heitir og reikna með að klára hana þegar ég keyri vestur (sem verður annað hvort á eftir eða á morgun, eftir því hvenær helvítis WOW-flugið mitt fer í loftið frá CDG). Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök
Þórdís á besta titil ljóðabókaflóðsins (sem er annars svakalegt í ár). Og fyrsta ljóðið í bókinni – sem fjallar um mann sem situr í strætó og starir á konu (þetta myndi ég staðreyna ef ég hefði ekki tékkað bókina inn – ég er svo minnislaus, gæti verið að snúa þessu á haus) – er eitt það besta sem Þórdís hefur skrifað. Síðasta ljóðið er líka mjög sterkt og í sama móð og byrjunin – en miðjan er meira einsog bálkur um ólíkt fólk og minnti mig dálítið á Spoon River Anthology eftir Edgar Lee Masters, sem Magnús Ásgeirsson þýddi einhvern tíma sem … Skeiðarárljóðin? Skeiðarárbálkinn? Ég man það ekki. En miðjan er sem sagt líka góð. Og miklu fyndnari en Masters. Wildlives – Sarah Jean Alexander
Það er einhvers konar endurreisn í játningaljóðabransanum þessi misserin. Og autofiksjón almennt, auðvitað – Knausgaard og það allt saman (ég ætlaði reyndar eitthvað að nefna Knausgaard hérna í Frakklandi um daginn og þá hafði enginn heyrt á hann minnst). Eydís og Mira og Julia og Anna (og jafnvel Lena) sem nefndar eru hér að ofan eru allar í þessum bransa og það er Sarah Jean Alexander að einhverju leyti líka – nema hún er miklu hlýlegri og ekki jafn nístandi. Mira skrifar til dæmis alveg ástarljóð en hún gerir það ekki hæðnislaust – og ekki án þess að því fylgi nokkuð myrk sýn á bakvið allan húmorinn. Wildlives er hins vegar einhvern veginn … ekki jafn vonlaus. Ég veit ekki hvort ég meina það sem hól eða last – kannski er það bara sagt án dæmandi eiginleika. Hér er dæmi: Sarah Jean Alexander / from Wild Lives A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Sep 25, 2015 at 5:23am PDT Mr. West – Sarah Blake
Mr. West er óður til Kanye West skrifaður af konu sem gengur með sitt fyrsta barn – og fjallar um tengsl konunnar við þessi tvö líf, svörtu súperstjörnuna með sprengistjörnuegóið og barnið sem vex innra með henni. Og kannski að litlum hluta líka um manninn hennar. Ég sá að hún hafði fengið útreið fyrir að misnota hinn svarta líkama og la tí da – altso fyrir að vera rasisti (einsog er að verða algengari og algengari útlistun á ljóðabókum þar vestra). Ég veit ekki hvort ég tek mikla afstöðu til þess – ég hef verið að útskýra fyrir alls kyns frökkum síðustu daga að ég skilji ekki grunnhugsunina á bakvið laïcite, mér finnist hún ekki ganga upp nema svo takmarkað (meðal annars því hún dregur of skýra milli þess sem er menningarlegt og þess sem er trúarlegt, á meðan sú lína er alls ekki skýr). En ég útiloka ekki að þar sé ég haldinn einhverri menningarblindu. Og að sama skapi skil ég ekki afstöðu bandarískra intelektúala til líkams- og ídentítetspólitíkur – mér finnst einsog þeir blandi öllu saman í einn óskiljanlegan hrærigraut, þar sem bókmenntaverk sem varpa fram erfiðum spurningum um kyn eða kynþætti verða skyndilega að rasískum eða kvenhatandi gjörningum. Svipaða tendensa mátti reyndar sjá í umfjöllun um Kynleikasýninguna í ráðhúsinu. Þetta er ætandi vitleysa. En hvað um það. Mr. West fjallar líka um höfundarétt – það þurfti að sverta allar tilvitnanir í texta Kanyes eða greiða himinhátt gjald fyrir notkun þeirra – og mikið af henni er kópípeist af netinu (í rasistadebattinum græðir hún áreiðanlega ekkert á því að Kenny Goldsmith skrifar s.k. blörb á bakkápu). Og frægðina, samfélagið, hið stóra ameríska þjóðerni. Og er góð (ég geri nú ekki annað en að hrósa bókum þessa dagana, líklega er ég að verða fullgóður í að velja ofan í mig lesefni – ég þyrfti að fara að lesa eitthvað verulega lélegt fljótlega, þó ekki væri nema bara til að halda krítísku tólunum beittum). Sorrowtoothpaste Mirrorcream eftir Kim Hyesoon Suðurkóresk ljóðabók í þýðingu Don Mee Cho. Ég þekki ekki kóreskan kúltúr – og er illa lesinn í asískri samtímaljóðlist, rétt svo ég kannist aðeins við víetnömsku skáldin – en þessi ljóð eru líklega eins langt frá því sem flest fólk heldur að asísk ljóðlist sé og hugsast getur. Þetta er brútal, agressíft, súperintelektúalt og voða lítið um ró hækunnar eða kúl kóansins. Dæmi: Víetnömsk ljóð eru reyndar líka miklu grófari en maður gæti haldið. Líklega þýðum við ekki asísk ljóð hérna á vesturhvelinu nema þau séu að minnsta kosti 2 þúsund ára gömul, eða í það minnsta sannfærandi eftirlíking af slíkum bókmenntum. Ég er enn að lesa Sorrowtoothpaste Mirrorcream – hún er ekkert rosalega löng en það er meiri texti í henni en mörgum ljóðabókum og textinn er þungur aflestrar. Hitt
Bækurnar sem ég las voru: 1 mánuður: Station Eleven – Emily St. John Mandel We Are All Completely Beside Ourselves – Karen Joy Fowler
Paradise of the Blind – Duong Thu Huong
Rilke Shake – Angelica Freitas
Bright-sided: how the relentless promotion of positive thinking has undermined America – Barbara Ehrenreich
Delta of Venus – Anaïs Nin
Sense and Sensibility – Jane Austen
i will never be beautiful enough to make us beautiful together – Mira Gonzalez 2 mánuður
Muminpappans memoarer – Tove Jansson
Norrut åker man för att dö – Ida Linde
What I Loved – Siri Hustvedt
A Summer Without Men – Siri Hustvedt
Days of Abandonment – Elena Ferrante
Bedwetter – Sarah Silverman
Story of O – Pauline Reage
S. A Novel about the Balkans – Slavenka Drakulic
Both Ways is the Only Way I Want It – Maile Meloy 3 mánuður
Everything I Never Told You – Celeste Ng 4 mánuður
En Plastig Trea – Petra Hulova
Tweeting Gone With the Wind – Vanessa Place
Vitsvit – Athena Farrokhzad
Landið sem ekki er til – Edith Södergran
Det här är hjärtat – Bodil Malmsten
Nervsystem – Ýmsir (en las bara konurnar)
Ljósmóðirin – Katja Kettu 5 mánuður
Maya Angelou – I Know Why the Caged Bird Sings
Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande
Virginia Woolf – Út í vitann
Anna Axfors – Veckan innan 6 mánuður
Tíst og Bast – Eydís Blöndal
Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir
Wisława Szymborska – Selected Poems
Clarice Lispector – The Hour of the Star
Joyce Carol Oates – The Falls (P.S.)
Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök
Wildlives – Sarah Jean Alexander
Mr. West – Sarah Blake
Sorrowtoothpaste Mirrorcream – Kim Hyesoon Þjóðasamantekt, að gamni:
Bandarískar: 13 (þá tel ég Anaïs og Siri báðar sem amerískar)
Kanadískar: 1
Víetnamskar: 1
Brasilískar: 2
Finnskar: 3
Sænskar: 4
Íslenskar: 3
Breskar: 2
Pólskar: 1
Danskar: 1
Króatískar: 1
Franskar: 1
Ítalskar: 1
Tékkneskar: 1
Kóreskar: 1
Athyglissjúklingar í eftirlitssamfélagi
Ég hef líklega takmarkaðan áhuga á dystópíusamfélaginu sem slíku; eða, sá áhugi er í það minnsta sálfræðilegur frekar en félagsfræðilegur, hefur minna að gera með áhuga á samfélaginu og samfélagsbreytingum og meira að gera með „harmanna heim“ – innræti mannsins, manninn í heiminum og heiminn í manninum. Sem þýðir auðvitað ekki að ég sé ekki pólitískur – en Heimska er samt að mörgu leyti „minna“ pólitísk bók en Illska og Gæska þótt hún sé skrifuð inn í rammpólitískt dystópíuformið. „En hvað á ég við með því?“ segir höfundurinn, togar út úr sér pípuna og beinir stútnum að lesendum, „Jú, eitthvað á þessa leið“, heldur hann áfram og stynur einsog HKL. Nöff, nöff. Ég skrifaði hana á bilinu 5-8 sinnum (eftir því hvernig maður telur) – miklu oftar en aðrar bækur sem ég hef skrifað (en hún er líka stysta bókin mín – pínulítið styttri en Eitur fyrir byrjendur) og það sem virkaði ekki í flestum hinum handritunum var höfuðáherslan á hið samfélagslega og pólitíska, að leggja út af samfélagslýsingum, hinu megindlega, frekar en hinu sérstaka og eigindlega. Sagan var alltaf didaktísk – sama hvað ég gerði – það er varla hægt að segja neitt innan dystópíuformsins sem verður ekki strax banalt; innan þess verður allt predikun, hver einasta yrðing er 70%: svona á þetta ekki að ver(ð)a og ekki nema 30% skáldskapur. Eða, jæja. Það er hægt að skrifa innan þess, breyta hlutföllunum svo að þau virki – Atwood getur það, Orwell ekki – og auðvitað væri ofsögum sagt að ég hafi yfirgefið dystópíuna. En ég þurfti að nálgast hana út frá sögupersónum sem áttu sér annað (og ríkulegra) líf en bara það að búa í eftirlitssamfélagi, voru ekki einföld afleiðing þess og bjuggu yfir löngunum og þrám sem áttu ekki augljósan uppruna í því. Og endaði þar í einhverjum skilningi nálægt sjálfum mér – þótt ég hafi þrætt fyrir það í viðtali við Friðriku Benónýs í Stundinni – aðalsögupersónurnar eru að minnsta kosti báðar ísfirskir rithöfundar.
Gróf drög að lögum um útgáfuhóf
1. Í útgáfuhófinu verður skáldsögunni Heimsku fagnað – þar verður skálað og þar verða allir glaðir og reifir.
1.1 Útgáfuhófið skal haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði – líklega Edinborgarsalnum – þann 17. október, 2015, og skal það hefjast eigi síðar en klukkan 20 að kvöldi og standa ekki skemur en til klukkan 23. Takið kvöldið frá nú þegar; síðar verður það of seint, þá verður búið að bjóða ykkur í eitthvað andskotans kvöldverðarboð eða á einhverja hollívúddræpu í bíó. Þið eigið dagatöl, notið þau. Það væri glatað ef það kæmi enginn, þetta er svo stór salur.
1.2. Í útgáfuhófið eru vel að merkja allir velkomnir.
1.3. Eftir útgáfuhófið fara þeir heim sem eru þreyttir en hinir þreyja nóttina á enda. 2. Útgáfuhófið skal sent í beinni útsendingu á netinu, því verður streymt, einsog fljóti.
2.1. Skipuleggjendur skulu leggja sig fram um að gera útgáfuhófið sem vistlegast fyrir þá sem vilja upplifa það á netinu – þeir munu fá að taka þátt að eins miklu leyti og reynist mögulegt.
2.1.1. Fýsísk þjónusta – svo sem sala á veitingum eða listaverkum – mun þó takmörkuð við þá sem komast á staðinn.
2.2. Þetta er allt saman eftir bókinni, enda þemað eftirlitssamfélagið, afhjúpun og svo framvegis.
2.2.1. Gestir verða einnig hvattir til þess að félagsmiðla hófinu eftir fremsta megni, livetweeta, facebooka, periscopa, instagramma, goodreadsa, vine-a og svo framvegis. Þeir sem vilja skæpa við vini sína á meðan gera það. Það má meira að segja blogga. Eða taka með sér dagbók. 3. Í útgáfuhófinu verða kostaboð á eftirfarandi:
a) Skáldsögunni Heimsku.
b) Bjór.
c) Hugsanlega einhverjum öðrum bókum undirritaðs.
d) Gestum í netheimum verður gert kleift að kaupa rafbókina og/eða hljóðbókina á afslætti. 4. Í útgáfuhófinu verður boðið upp á takmarkað magn af veitingum í föstu formi, svo sem, en ekki endilega, kransatertur, eldspýtnakartöflur, tortillaflögur, ritzkex og annað eins.
4.1. Ekki er þó ætlast til þess að gestir mæti sársvangir.
4.2. En kannski ekki útbelgdir heldur.
5. Í útgáfuhófinu verða skemmtiatriði.
5.1. EÖN les upp úr skáldsögunni Heimsku og ræðir hana við bókmenntafræðinginn Inga Björn Guðnason.
5.1.1. Opið verður fyrir spurningar úr sal.
5.1.2. Opið verður fyrir spurningar af neti, úr hinum stóra heimi.
5.2. Pétur Magnússon, einnig þekktur sem fallegi smiðurinn, og Smári Karlsson, stýra bókmenntakvissi.
5.2.1. Þemað í kvissinu verður heimska. Ekki bókin, heldur umfjöllunarefnið.
5.3. Í aðalverðlaun verður úrval verka eftir EÖN.
5.3.2 Þau sem svara hinni svonefndu bjórspurningu rétt fá alls engan bjór nema þau kaupi hann sjálf. Þess í stað geta þau valið á milli þess að fá eintak af skáldsögunni Heimska eða plakat með
a) kápumyndinni eða
b) myndinni af kápunni (munurinn á þessu tvennu mun skýr þeim sem sjá kápuna (sjá mynd)).
5.3.2.1. Fjöldi plakata er þó takmarkaður.
5.4 Fjarþátttaka í kvissinu, með aðstoð netsins, verður gerð möguleg.
5.4.1. Sigri fjarkeppandi fær hann eða hún send sín verðlaun í pósti. 6. Einsog áður segir er skyldumæting.
6.1. Það eiga allir að kaupa sér bók.
6.1.1. Höfundur skuldbindur sig til að árita allar seldar bækur, sé þess farið á leit. 7. Þeim sem vilja vera með skemmtiatriði, halda ræður og svo framvegis eða annað eins, er bent á að hóa í höfund bókarinnar á götu eða félagsmiðlum.
7.1. Skemmtikraftar þurfa ekki allir að vera á svæðinu í sínu fýsíska formi. 8. Lögum þessum má breyta fyrirvaralaust. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. 18. september, 2015
Silfurtorg framtíðarinnar
Ég fékk einn af mínum eftirlætis myndlistarmönnum og góðkunningja Jóhann Ludwig Torfason til þess að hanna kápuna á Heimsku, sem kemur formlega út laugardaginn 17. október en mun líklega ekki fást í útnárabyggðum (les: RVK) fyrren þriðjudaginn eftir. Ég bað hann einfaldlega að framtíða fyrir mig Ísafjörð – sendi á hann nokkrar myndir úr framtíðinni til innblásturs – og þessi dásemd varð niðurstaðan. Kunnugir þekkja þarna auðvitað Silfurtorg á Ísafirði. Á myndinni má sjá húsið sem enn er merkt Björnsbúð (en hýsir nú Bæjarins besta – þegar ég vann þar var blaðið annars staðar), fataverslunina JOV, Sjóvá, Gamla bakaríið, Klæðakot (sem er í helmingseigu systur minnar) og Hótel Ísafjörð (sem var líka á þessum stað þegar ég var næturvörður – en verður fleiri hæðir í framtíðinni). Sjónarhorn myndarinnar er eiginlega úr Bókhlöðunni/Eymundsson. Ég lét svo gera fyrir mig plaköt af bæði kápunni og myndinni af torginu einni og sér – fyrir skrifstofuna og útgáfuhófið. Og langar að láta á það reyna hvort Bókhlaðan vill ekki hirða eitt þeirra – enda þetta eiginlega útsýnið út um gluggann þeirra. Og hafa í glugganum til að auglýsa bókina.
Heimska kenningar 1-3
Heimska kenning eitt Heimska er ekki fáfræði, ekki upplýsingaskortur – hvað sem líður orðsifjafræði um að fara aldrei að heiman og vera ósigldur – heldur vangeta til þess að vinna úr upplýsingum. Sá sem er heimskur getur haft aðgang að öllum heimsins upplýsingum – hann getur þess vegna kunnað þær utan að og hugsanlega hefur hann einhvern grunnan skilning á þýðingu þeirra. En hann getur ekki tengt saman A og B, er ófær um að finna mynstur og brúa bilið milli þekkingar sinnar – eða visku, innsæis, niðurstaðna – og veruleikans sem annars blasir við honum (eða myndi gera það ef sá heimski væri fær um að veita honum annað en yfirborðslega eftirtekt). Heimska kenning tvö Margt af því fólki sem við teljum vel gefið – og þorum ekki öðru, maður slæst ekki við diplómur, slæst ekki við fólk sem talar sértækt mál – er síðan færara í að aðlaga veruleikann að hugmyndum sínum en hugmyndir sínar að veruleikanum. Þessi aðlögun þarf ekki að vera pólitísk, nema að svo miklu leyti sem allt er pólitískt, og kemur sjálfsagt miklu oftar upp í persónulegum samskiptum, ekki síst milli fólks sem er mjög náið. Elskendur manipúlera ekki hver annan með fullum vilja heldur af blöndu af ótta og sjálfsblekkingu, sem er sitthvor útfærslan á heimsku – eða í það minnsta sitthvor orsök heimskunnar. Heimska kenning þrjú Heimskt fólk er oft bæði félagslega agressíft og fært um að stýra skriðþunga samræðunnar í kringum sig – það kann oft að battla, getur verið sannfærandi, og reynir það undantekningalítið án tillits til þess hvort nokkurt sannleikskorn sé að finna í hugsunum þeirra. Heimskt fólk reynir oft frekar að tengja við tilfinningalíf viðmælenda sinna heldur en rökhugsun þeirra (heimskt fólk ræður samt oft ágætlega við lögmál rökhugsunar). Heimskt fólk lætur hins vegar oft einsog það sé að tala til rökhugsunarinnar þegar það talar til tilfinningalífsins – skekkt tölfræði er gott dæmi, talnaklám lætur einsog það eigi erindi við heilann í okkur en það talar í raun bara til … hjartans? Er það ekki hjartað sem er svona auðtrúa, fallega, fallega hjartað okkar?
Viðskiptabann: Mánuðir 3 og 4
Það eru tveir mánuðir liðnir frá því ég síðast gaf skýrslu um hálfsárslanga bókmenntaviðskiptabannið sem ég setti á mitt eigið góða kyn. Auðvitað er þetta viðskiptabann undirorpið alls kyns undanþágum – fyrir það fyrsta les ég einsog allir aðrir frekar stefnulaust það sem lendir á Facebookflæðinu mínu og þar lendir helvíti mikið af bókmenntum, aðallega ljóðum, og ég les þau jafnt þótt þau séu skrifuð af fólki með typpi, á typpinu, með typpinu, einsog það teljist ekki með af því það er á tölvuskjá. Í öðru lagi er ég alls ekki fullkomlega frjáls um hvað ég les – bókmenntir eru líka vinnan mín. Fyrri mánuðinn þurfti ég meðal annars að lesa heila bók eftir sjálfan mig upphátt, tvö leikrit (bæði eftir karlmenn), og þrjá risastóra hauga af ritsmíðum – ljóðum, smásögum og fyrirlestrum – fyrir eitt námskeið þar sem ég var að kenna, annað námskeið þar sem ég þurfti að velja inn þátttakendur (og verður haldið eftir rúma viku) og fyrir ráðstefnu sem ég sótti í Finnlandi. Eftir höfunda af öllum hugsanlegum kynjum, þjóðernum og ekki síst aldri. Nema hvað. Fyrri mánuðinn las ég sem sagt bara eina einustu skáldsögu og gerði það á lúshægu tempói. Everything I never told you eftir Celeste Ng, frá Bandaríkjunum. Dóttir Lee fjölskyldunnar finnst drukknuð úti á stöðuvatni og enginn veit hvers vegna – hún byrjar svolítið einsog þriller – og svo kemur í ljós að foreldrar vita eiginlega ekkert um dóttur sína og bókin verður einhvers konar íhugun. Ég féll ekki fyrir þessu. Það er eitthvað við bandarísk ritlistarskrif, þetta er of fíníserað, búið að umskrifa það of oft og einhvern veginn einsog það sé aldrei hjólað í sjálfa hugmyndina – meira að segja átökin verða tilgerðarleg og ég finn ekki fyrir kjötinu og blóðinu. Það var þó ein sena þar sem móðirin fer í dagbækur dóttur sinnar og uppgötvar að þær eru allar tómar – dóttirin hafði sest niður og þóst skrifa í þær árum saman, raðað þeim snyrtilega í hillurnar, merkt þær með dagsetningum, en aldrei skrifað neitt. Sem var þrúgandi. Og svo voru einhverjar pælingar um merkingu þess að vera af asískum ættum í Bandaríkjunum (einsog pabbinn í fjölskyldunni) – en svo sem ekkert nýtt. Seinni mánuðinn las ég svolítið meira fyrir sjálfan mig. Þar má fyrsta nefna En Plastig Trea eftir Petru Hulova – hún er tékknesk og ég las bókina sem sagt á sænsku, titillinn myndi útleggjast Plastkennd þriggja herbergja íbúð eða álíka. Bókin er eiginlega bara einræða vændiskonu sem býr í téðri íbúð. Hulova fetar einhverja ótrúlega fína slóð milli þess að fegra starfið og fordæma það, sýna það „einsog það er“ (eða einsog maður ímyndar sér að það geti verið). Merkilega mikið af reiðinni (ekkert pun) í bókinni (sem er góður skerfur af) vísar annars út úr íbúðinni og út í samfélagið og margar kaldranalegustu og skörpustu einræðurnar snúa að stöðu vændiskonunnar sem neytanda í neyslukapphlaupinu (þegar hún fer í tískubúðirnar að eyða peningunum). Mjög gott. Það væri líklega rangt að segja að ég hafi lesið Gone with the Wind eftir VANESSU PLACE (altso, ekki Margaret Mitchell). Verkið, sem er einhvers konar konseptljóð, og er stundum bara kallað GWTW, gekk út að tweeta allri skáldsögunni (eftir Margaret Mitchell). Vanessa, sem er bandarískur lögfræðingur og konseptskáld sem hefur aðallega unnið með texta um kynferðisofbeldi, byrjaði á þessu árið 2009 og lauk því fyrir svona tveimur vikum. Þetta vakti enga sérstaka athygli lengst af en einhvern tíma fyrr í sumar, eftir að Kenny Goldsmith var húðskammaður fyrir að lesa rímixaða krufningarskýrslu Michaels Brown sem sitt eigið ljóð, lenti hún í pólitísku hakkavélinni – var rekin úr skipulagningarnefnd fyrir AWP ráðstefnuna, afbókuð á upplestra og hátíðir, og almennt úthúðað á internetinu. Vegna þess sem sagt að bókin er alveg hryllilega rasísk og að Vanessa sé í verkinu að endurfremja rasískan gjörning. Ástandið varð nógu alvarlegt til þess að NCAC (National Coalition Against Censorship) sá sér ástæðu til þess að gera athugasemdir við meðferðina. Hvað um það, svo lauk þessu og fjallað var um Vanessu – sem er svo nístandi gáfuð og riskí að ég svitna bara af því að hugsa um hana – í Dismagazine , þar sem hún sagði meðal annars: [GWTW] is in part about social media, and the way social media works,” says Place. “And social media is an aesthetic medium. What happens when you have overt antagonism or antagonistic content, on social media? On the surface, it’s so much based on affinity, and liking, and following, and a sense of community. But at the same token, the only way to consistently affirm your community is by having something to rally against. And then we can find out who our friends really are. It’s predicated on [the fact that] we all think the same thing. We don’t go to social media to be confronted by things we don’t understand or don’t agree with, which is maybe why we go to museums, or conferences, or universities. Do we really want museums and galleries, especially museums, to be curating based upon what people know they already like? Annars er alveg óhætt að mæla með allri greininni í Dismagazine. En ég las auðvitað ekki öll tweetin heldur las ég bara brot og brot og óhemju af greinum um gjörninginn þar sem hann var krufinn og (fyrst og fremst) fordæmdur. Og ég hef aldrei lesið Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, hef ekki einu sinni séð myndina. Bókin sem ég las best þennan mánuðinn var Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, sem er sænsk af írönskum ættum. Af því ég er að þýða hana. Og þá heitir hún Hvítsvíta – sem er ekki fullnægjandi þýðing en það eru engar fullnægjandi þýðingar á neinu. Hér er lítið ófullnægjandi sýnidæmi: Faðir minn sagði: Væri hægt að keppa í píslarvætti myndi móðir þín gera allt til að tapa Móðir mín sagði: Hjartað er ekki einsog hnéð sem má beygja að vild Faðir minn sagði: Jafnvel haninn sem ekki galar fær að sjá sólarupprásina Móðir mín sagði: En ef hænan verpir ekki verður hún borin fram í kvöldverð Þá las ég Landið sem ekki er til sem er úrval ljóða eftir Edith Södergran í þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Ég hef ótrúlega lítið lesið Södergran þótt ég eigi einhvers staðar heildarsafnið á sænsku en það er samt skrítið að lesa þetta á íslensku – ekki vont, bara skrítið, mér sýnist Njörður gera þetta vel og af vandvirkni. En stundum finnst mér líka einsog ég búi einfaldlega ekki yfir nægri hugarró til að lesa Södergran einsog hún á skilið. Ég hneigist til þeirra ljóða sem búa að orðagnótt og það eru nokkur þannig þarna, nokkrir óðir sálmar – viðkvæmu ljóðin höfða síður til mín. Eða kannski höfða þau síðar til mín. En eitthvað einsog þetta er mjög gott: Afsakið þumalinn. Í gær keypti ég mér svo tvær ljóðabækur í Stokkhólmi (eiginlega þrjár, en sú þriðja bíður haustsins, eða ein og hálf gerir það). Det här är hjärtat er nýjasta ljóðabók hinnar sænsku Bodil Malmsten og sú fyrsta í 22 ár. Bókin fjallar um dauðann – og er stórkostleg, sérstök tegund af kímnisorgarblöndu. Snöggþýtt dæmi. Mér er svo illt Hversu illt?
Á skalanum einn til tíu
Hversu illt?
Hvers illt er þér
núna? Það er sorgarþjálfinn í Ropsten
alla óhelga miðvikudaga
fyrir 15 þúsund kall á tímann Maður tekur leið 55 á
lokastoppistöðina
Ropsten Hjarta mitt brestur
Mér er svo illt — Sársaukinn situr í heilanum
segir sorgarþjálfinn
Ekki í hjartanu
Sársauki er bara
tilfinningin Hugsaðu um eitthvað annað
Andaðu
Einbeittu þér að einhverju utan við sjálfa þig
Sæstu við ástandið Manneskjan mín er dauð
Ég vil vera dauð — Settu það í orð
segir sorgarþjálfinn
í Ropsten
í Ropsten
í Ropsten Gráttu!
Láttu það vaða
Talaðu um það
og þá líður þér betur Mér líður verr
Ég vil fara heim Síðasta ljóðabókin, sem ég las bara hálfa af hákynjafræðilegum ástæðum, er Nervsystem, safn af ljóðum ungra danskra skálda í sænskri þýðingu. Strákarnir bíða fram í október – en ég las ljóð eftir Maju Lee Langvad (sem ég hef þýtt og þekki vel og dýrka), Amalie Smith, Julie Steen Knudsen, Louise Juhl Dalsgaard, Asta Olivia Nordenhof og Olgu Ravn. Við fyrsta lestur hreifst ég mest af Knudsen og Nordenhof en ég held að það geti líka verið vegna þess að þær séu aðgengilegastar við fyrstu sýn. Ég er að spá í að redda mér eitthvað af þessum ljóðum á upprunamálinu og þýða og læt því vera að birta nein dæmi núna. Svo las ég líka Ljósmóðurina eftir Kötju Kettu frá Finnlandi – sem ég á að skrifa um fyrir TMM og kemur út í haust. Eða ég á að skrifa um Kötju, sem er að koma á bókmenntahátíð (hvar ég verð líklega fjarri góðu gamni sjálfur). Ég hugsa að ég segi þess vegna sem minnst um bókina núna, nema að tungumálið sem hún er skrifuð á er ótrúlega magnað og þýðing Sigga Karls er brjálæðislega góð, einhver besta þýðing sem ég hef lesið lengi. Hér er skýrsla fyrir fyrsta mánuðinn og hér fyrir annan .
Ísafjörður
Yfirleitt er þrennt nefnt til sögunnar þegar landsbyggðarflótti er annars vegar. Í fyrsta lagi er því haldið fram að lífið í smábæjum sé einhæft líf og þar sé lítið við að vera. Í öðru lagi að þar sé lítið um vel launaða atvinnu (ergo: öll álverin sem hið opinbera vill prumpa út um allt land). Í þriðja lagi að þar sé lítið um atvinnu fyrir menntafólk. Ég er ekki viss um að þetta sé satt – í það minnsta er það ekki alveg sjálfgefið. En fólksfækkunin er samt staðreynd. Ég er frá Ísafirði – við eigum engin álver, eða neitt sambærilegt – og þar hefur mannfjöldaþróunin verið svona: 1970: 3.005 íbúar
1980: 3.352 íbúar – 11% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 12%)
1990: 3.498 íbúar – 4,3% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 11,6%)
2000: 3.138 íbúar – 10,3% fækkun (þjóðinni fjölgaði um 9,1%)
2010: 2.909 íbúar – 7,3 % fækkun (þjóðinni fjölgaði um 13,8)
2015: 2.719 íbúar – 6,5% fækkun (á fimm árum – þjóðinni fjölgaði um 3,6%) Á níunda áratugnum var gríðarleg verðmætasköpun á Ísafirði – mikið um vel launaða vinnu – en lítið um það sem maður gæti kallað „menningu“, að minnsta kosti í borgaralega skilningnum. Það var mikið fyllerí og böll og áreiðanlega margt við að vera annars – og að alast upp á þessum tíma voru hálfgerð forréttindi, krakkar gengu sjálfala um bæinn í stórum hópum og léku sér í rústum af gömlum skipum og hálfbyggðum nýjum húsum. En annars var Ísafjörður held ég svona smábær einsog maður sér í bandarískum bíómyndum – einhæft atvinnulíf og unga fólkið dreymir um að komast út í heim. Eða í það minnsta til Reykjavíkur (hljómsveitin Reykjavík! er einmitt eftir þessum draumi, með upphrópunarmerki og öllu). Það var svipað uppi á teningnum framan af tíunda áratugnum – ég rifjaði það upp nýlega að þegar ég gekk í menntaskóla áttu svo að segja allir bíl sem á því höfðu á annað borð áhuga, og greiddu hann út í hönd, enda sóst eftir skólafólki (og öllu fólki) í vinnu. Bæjarrónarnir þurrkuðu sig alla jafna upp í nokkra daga annað veifið til að geta unnið og þannig sparað fyrir næsta túr. En frystihúsin byrjuðu að fara á hausinn og um miðjan áratuginn settu snjóflóðin strik í reikninginn – fyrst fór skíðasvæðið og sumarbústaðabyggðin á Ísafirði og einn dó, svo komu snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri þar sem létust vel á fjórða tug í viðbót. Ég man árin fram undir aldamót sem kæfandi og vonlausan tíma – einsog allir vildu bara komast í burtu. Árið 1999 kom Bónus – ég hef svo sem ekki vit á því en mér er sagt það hafi munað nokkru um matarverð. Árið 2003 opnaði Langi Mangi – fyrsta alvöru kaffihúsið á Ísafirði. Sama ár var tónlistarhátíðin Við Djúpið haldin í fyrsta sinn. Ári síðar byrjaði Aldrei fór ég suður og þá var líka í fyrsta sinn haldin leiklistarhátíðin Leikur einn, sem ári síðar fékk nafnið Act Alone. Mýrarboltamótið hefur verið haldið frá 2006, sama ár og Háskólasetrið byrjaði að starfa. Árið 2008 var loksins lokið við að malbika veginn um Ísafjarðardjúp, sem hafði verið tekin í notkun árið 1975. Þegar konan mín keyrði hann fyrst, tveimur árum fyrr, gat hún ekki líkt honum við annað sem hún þekkti en fjallvegi í Afganistan. Internetið kom. Ég fékk það 1995. Því verður eiginlega ekki lýst hversu róttæk breyting það er, þegar maður býr á hjara veraldar. Þegar ég var sautján ára opnaðist mér gluggi og út úr glugganum spratt heimur – og ekki síst bókmenntir, ekki síst ljóð. En hvað um það. Í dag eru milljón veitingastaðir, tónlistarhátíðir og guð veit ekki hvað á Ísafirði og í nágrannasveitum. Viðburðirnir hlaðast að vísu mest á bjartari hluta ársins en veitingastaðirnir eru flestir opnir yfir vetrartímann, þeim fylgja smærri tónleikar og það er hægt að fara í Skúrinn til að horfa á leiki og það er hægt að spila Pub Quiz og svona – það er í öllu falli ekkert sambærilegt við hvernig það var þegar ég var að alast upp, þegar Sjallinn var bara opinn fyrir fyllerí á helgum en opnaði svo sem veitingastaður/kaffihús (og einsog einhver nefndi þegar ég var í menntaskóla var eitthvað pínulítið ósmekklegt að éta úr sér þynnkuna sitjandi í sama sófa og maður horfði á fólk gubba, kela og putta hvert annað í kvöldið áður). Það mæta áreiðanlega færri í bíó núna en áður – það er eiginlega það eina – og það er búið að loka vídeóleigunum. Skítt með vídeóleigurnar en bíóið má aldrei deyja. Og kannski gubbar fólk minna á almannafæri. Puttar hvert annað bara heima. Sennilega eru tekjurnar lægri. Mér finnst líklegt að menntunarstigið sé hærra. Hvað um það. Ég er að reyna að koma orðum að einhverri mótsögn hérna; fólki fækkar á sama tíma og mér finnst sjálfum einsog það hafi aldrei verið jafn aðlaðandi að búa á Ísafirði. Ekki bara Ísafirði sem slíkum, reyndar, heldur smábæjum almennt – það er ódýrara, lífið er einfaldara (maður er fljótari að sinna erindum, skjótast í heimsókn o.s.frv.). Og það er gerlegt án þess að missa af öllum heiminum (eiginlega væri óskandi að maður gæti misst aðeins meira af honum). Vöruúrvalið er kannski ekki það sama og í sérvöruverslununum í Reykjavík – en ég lendi voða lítið í vandræðum, þótt mér finnist gaman að elda og þá stundum „framandi“ mat (og kem oft við í sérvöruverslununum þegar ég á leið um borgina og birgi mig upp á því sem mig vantar). Samanborið við að búa í úthverfi – meira að segja idyllísku úthverfi einsog hér í Västerås eða norður í Oulu – hefur smábærinn alltaf vinninginn. Það er svo miklu meira fyrirtæki að færa alla fjölskylduna frá a til b – jafnvel þótt maður sé á bíl. Og þótt ég kysi kannski heldur stórborg – Berlín eða Helsinki – ef við værum barnlaus, þá, já þá erum við ekki barnlaus. Ég veit það ekki. Kannski er þetta bara eitthvað sem ég hef bitið í mig. Smábæjernishyggja. Ég átta mig á því að ég nýt ákveðinna forréttinda vegna starfs míns – ég get tekið það með mér hvert sem er – en ég þarf líka að ferðast mikið og ég gæti alveg þegið millilandaflugvöll sem væri nær en í sjö klukkustunda akstursfjarlægð (eða dálítið áreiðanlegra og ódýrara innanlandsflug). En ef maður ætlar að búa á þeim útnára sem Ísland er, þá er allt eins gott að fara alla leið. Það verður hugsanlega meira moj fyrir Nödju að redda sér vinnu sem hana langar að vinna – hún er komin í hlutastarf sem frönskukennari í vetur, en það er bara hlutastarf. Sem stendur tökum við því sem áskorun frekar en ókosti. En fólki sem sagt fækkar. Kannski er engin sérstök ástæða til að hafa af því áhyggjur. Ég er bara ekki viss. Ísafjörður leggst ekkert í eyði í minni lífstíð – og vandamálið er varla í sjálfu sér að þar sé færra fólk, heldur það einhæfa og fátæklega líf sem á að fylgja fámenninu. Þegar það er ekki raunin, þegar lífið verður þvert á móti ríkulegra – þá skiptir kannski ekki neinu máli þótt eitthvað af fólki flytji í burtu. Eða ég veit það ekki.