Chez moi

Eftir því sem ég kemst næst eiga Frakkar sér ekkert orð fyrir „heima“. Þeir eru bara „í húsinu“ eða „hjá sér“. Merkingin er svo bundin í setningagerðina – à la maison er heima en dans la maison bókstaflega í húsinu. Þegar ég hef svarað fyrir skáldsöguna Heimsku – mest einmitt í Frakklandi – hef ég oft delerað um sifjar orðsins, hvernig heimska sé það að vera alltaf heima, sjá aldrei næsta fjörð og hvað þá önnur lönd, en hvernig orðin heima og heimur séu líka náskyld. Enda heimurinn heimili okkar. Og þá komið að þeim punkti líka að maður geti orðið alveg jafn heimskur af því að reyna að svolgra í sig allan heiminn í einu – ef maður gefi sér ekki tíma til að skilja heldur stundi lífshlaupið einsog það væri keppni (en það er kannski hjartað í skáldsögunni Heimsku ). Kannski verður það síðan enn ljósara með gervigreindinni að maður skilur ekkert með því einu að vita eða muna. Mér skilst að stærsti munurinn á fúnksjón gervigreindar og mannsgreindar sé sá að gervigreindin noti skrilljón gagnapunkta til þess að komast að niðurstöðu á meðan maðurinn sé einmitt fær um að draga ályktanir og skilja ýmislegt út frá mjög fáum gagnapunktum. Manni þarf held ég að leiðast til að geta verið mennskur – og það eru vélar augljóslega enn ekki færar um (en það er vel að merkja það sem gerist í kvikmyndinni Her – vélinni fer að leiðast). Og raunar er spurning líka hvort að sæborg sem dregur upp símann í hvert sinn sem leiðinn vofir yfir verði ekki á endanum meiri vél en maður. *** Ég er að lesa nýjustu ljóðabók Þórarins Eldjárn – Hlustum frekar lágt . Þórarinn hefur átt einhverja taug í mér frá því ég var unglingur – það eru fáir höfundar á Íslandi sem hafa skrifað af jafn mikilli leikgleði og ástríðu fyrir því hvernig tungumálið hljómar. Í mínum huga er það líka einmitt það sem ljóðlistin er – eða allavega þar sem hún er best – þegar leikið er á tungumálið einsog hljóðfæri. Í Hlustum frekar lágt nýtur þessi list sín jafnt í hversdagslegum athugasemdum, heimsósómakveðskap og meira að segja í hryggðarljóðum – sem og auðvitað í þeim fyndnu ljóðum sem Þórarinn er sennilega frægastur fyrir. Og stundum – eða jafnvel oftast – vefur hann þessu öllu saman í eitthvað innilega Eldjárnskt – með kómískum sorgarsvip og sorgbitnu brosi í senn. Einsog í upphafsljóðinu þar sem ljóðmælandi kemur heim og hengir grímuna sína á vegginn: Gríman er með grettu
glott sem henni er tamt
stjarfa freðna fettu
flíms og hryggðar jafnt. Það er líka umhugsunarvert að Þórarinn skuli hefja bókina á bókina á eins konar yfirlýsingu um grímuleysi – og að bókin hefjist á að hann komi heim, „inn úr ani“, enda á skáldið alltaf fyrst og fremst heima í bókum sínum – og ljúka henni á ljóði um að maður skuli ekki líta niður á neinn, né horfa upp til eins né neins, með dásamlegu lokalínunni: „Dýrð sé guði í augnhæðum“. Það hefur kannski aldrei verið mikilvægari boðskapur – að líta grímulaust á aðra sem jafningja sína – en nú á tímum eftirsannleika, linnulauss leikaraskaps og stigveldis áhrifavaldanna. *** Ég sendi handritið að Náttúrulögmálunum suður með flugfrakt í gær. Það var síðasta próförk sem ég sé. Handritið er sex hundruð blaðsíður og 3,2 kg. Bókin verður jafn löng en eitthvað léttari, gæti ég trúað. Þegar ég var með þetta monstrosítet á borðinu hjá mér í gær varð mér hugsað til senu í byrjun kvikmyndarinnar La vie de bohème eftir Aki Kaurismäki. Franski rithöfundurinn Marcel Marx kemur inn á knæpu og hefur að fyrirlesa um smámunasemi útgefanda sem vilji ekki gefa út bókina hans og það séu allir í þessum heimi, a.m.k. þeir sem einhverju ráði, pípandi fávitar. Barþjónninn sem hlustar á vælið býðst þá til þess að lesa bókina og gefa álit. „Kannt þú að lesa?“ spyr monsieur Marx. Og barþjónninn segist jájá hafa gengið í barnaskóla úti í sveit – tvo-þrjá bekki. Þá lifnar yfir monsiernum. „Já! Að fá álit alvöru alþýðumanns –  til fjandans með þessa skræðunjóla á forlögunum!“ Svo beygir hann sig yfir leðurtöskuna sína og tekur upp risavaxið handrit – a.m.k. 600 síður og áreiðanlega 3,2 kg – og skellir á borðið. Þar lýkur vel að merkja senunni og við heyrum aldrei aftur af þessu handriti. Fyrir mína parta vona ég að bæði skræðunjólar og alþýðan hafi gaman af Náttúrulögmálunum .

Deux amoureux

Ostrur – tékk. Tartare de bœuf – tékk. Dúfa – tékk. Morbier – tékk. Comté – tékk. Phoenicienne – tékk. Bagettur (classique, tradition, rustique) – tékk. Champagne – tékk. Degustation de vin – tékk. Lesa bók á frönsku – tékk. Rautt, hvítt og rósa – tékk. Læra lag á frönsku – tékk. Plat du jour – tékk. Croissant – tékk. Skrifa dagbók á frönsku – tékk. Baða sig í hafinu – tékk. Fara í artí bíó – tékk. Fara í útibíó – tékk. Pain au chocolat – tékk. Fara á nútímalistasafn – tékk. Fara á gamltímalistasafn – tékk. Pastís – tékk. Fara á tónleika – tékk. Carpaccio – tékk. Kaupa Cent mille milliards de poèmes – tékk. Fara í grasagarðinn – tékk. Í Montpellier er maður víðast hvar ávarpaður á frönsku. Og raunar alltaf. Ég lenti að vísu í því í fyrsta sinn áðan að þjónninn skipti í ensku þegar hann áttaði sig á því að ég skildi ekki allt sem hann hafði sagt – eða las það í einbeitingarsvipinn á mér sennilega, því ég skildi hann alveg nóg. Ég svara mest með stökum orðum og bendingum, sem kannski setur fólk úr jafnvægi, en ég vil gjarnan að það tali frönsku við mig svo ég læri eitthvað (ég hef reyndar oft lent í því í Svíþjóð líka að afgreiðslufólk – sem talar sænsku – ávarpi mig á ensku; og þó tala ég sænsku reiprennandi, kannski er þetta bara einhver ára, einhver örlög). Hér er líka furðu lítið af erlendum keðjum sem maður ber kennsl á – langflestar búðir virðast vera annað hvort sjálfstæðar verslanir eða franskar keðjur. Og heitt. Hér er mjög heitt. Líka langt fram á kvöld – það er einsog það kólni ekkert fyrren sólin beinlínis sest. Marga daga hefur mesti hitinn verið milli sex og átta. Þetta er ansi ljúft líf. Og ég hef lítið unnið þrátt fyrir góðan ásetning – en eytt þeim mun meiri tíma í að læra frönsku. Og ætla að halda því áfram bara, held ég – þótt ég verði líka að spýta í lófana og sinna vinnunni minni. Þegar ég kem heim tekur líka við eitthvað meinlætalíf – hollusturispa – maður verður hræðilega sloj af la bonne vie . Að ekki sé minnst á hvað maður verður blankur. Ég legg af stað annað kvöld en Nadja verður í viku í viðbót – vinkona hennar hér aðeins sunnan af heldur fimmtugsafmælið sitt í næstu viku. Ég er búinn að vera nóg að heiman og ætlaði líka á ættarmót – sem var að vísu aflýst – og sakna krakkana og vinnunnar. Verð eina nótt á Kastrup – hafði séð fyrir mér að kaupa mér aðgang að lounge og lúra bara þar en svo loka þau víst yfir nóttina, svo ég verð væntanlega bara á gólfinu.

N’importe qui

Á meðan Nadja situr námskeið um hvernig maður kennir frönsku sit ég heima á hóteli og læri frönsku einn og óstuddur. Eða svona – ég nota duolingo, youtube og smásagnahefti. Og nýja tvíhálsa bassa-og-tenór ukuleleið mitt til þess að syngja Les Champs Elysée. Í gær fór ég líka í bíó á stórgóða ítalska mynd með frönskum texta – Vers un avenir radieux / Il sol dell’ avvenire – og skildi allt sem ég þurfti að skilja. Ég hef í sjálfu sér lengi getað stautað mig í gegnum einfalda franska texta án þess að geta notað málið að ráði – ég skil illa það sem aðrir segja og orðaforðinn minn er nær allur passífur (þ.e. ég þekki orðin oft þegar ég sé þau skrifuð, en get illa kallað þau fram sjálfur). Eiginlega er synd hvað ég er góður í bæði frönsku og þýsku án þess þó að vera nógu góður til þess að þau gagnist mér að ráði – ég get eiginlega ekkert talað þau og lítið lesið af bókmenntum. Nema hvað. Loturnar hér eru þá: skrifa, læra, skrifa, spila á ukulele, læra, skrifa, borða, skrifa, læra, spila á ukulele, göngutúr, borða, göngutúr, sofa. Með þessu öllu hef ég ógrynni af svörtu kaffi, eitthvað af víni, smá pastís, smá bjór og talsvert af hvítu brauði. *** Áður en við komum sáum við Barbie myndina með krökkunum. Það var í Västerås. Sennilega er þetta meira fullorðins mynd en barna – eða meiri barna og fullorðins en minni unglinga. Krökkunum (10 og 14 ára) fannst hún alveg skemmtileg en ég held þau hafi átt von á meiru. Kannski hélt ég bara sjálfur að þau yrðu upprifnari og varð hissa þegar þau urðu það ekki – internetið blekkir mann stundum svo, lætur mann halda að fólk sé spenntara en það er. Mér fannst hún fyndin en kannski ekki mikið meira en það – það truflaði mig sennilega talsvert þegar farið var að gera grín að körlum sem spila á gítar fyrir kærusturnar sínar („Ekki mynd fyrir óörugga karlmenn“ var einhver fyrirsögn, kannski í mogganum, og ég þekkti mig þar aftur – ég er líka aldrei eins óöruggur og þegar ég sit með gítar í fanginu og reyni að komast yfir tilhugsunina um að einhver heyri í mér). En nei, grín, það truflaði mig ekkert (mjög) – hins vegar gat ég ekki látið hjá að hugsa að þessi mynd væri svolítið einsog markaðsdeildin hefði skrifað hana sjálf og ákveðið að velja ekki neinn sérstakan markhóp heldur tikka bara í öll boxin. Þannig er hún bæði ægileg kroppasýning og body-positive, bæði langdregin auglýsing fyrir glóbal vörumerki og gagnrýni á kapítalismann (og svona gagnrýni á kapítalisma er auðvitað löngu orðin markaðsvara í sjálfri sér – ég á líka bolinn og hann var áreiðanlega saumaður af launalausu barni í Bangladesh), bæði alvörulaus skemmtun, óður til léttleikans og brýn gagnrýni á ónýtan heim. Það mætti meira að segja segja að hún sé bæði feminísk og andfeminísk – ef það er túlkað svo að Barbie-heimurinn sé Raunveru-heimurinn á hvolfi eru Barbie og vinkonur hennar auðvitað ígildi Karla, sem þrátt fyrir augljóst hæfi sitt og vanhæfi hins kynsins missa stöðu sína í nafni innihaldslausrar félagsfræði sem einhver heilalaus dúfus nær í á háskólabókasafni í útlöndum (einsog þar sé eitthvað hægt að læra). Mér finnst blasa við að það sé a.m.k. þannig sem karlrembunum líði upp á síðkastið. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart síðan að mynd sem höfðar til allra skuli verða vinsælasta mynd ársins. Annars er ég líka búinn að vera að lesa – endurlas frú Bovary og frumlas Tenth of december og gaf Annie Ernaux sinn þriðja séns, eftir að hafa fundist tvær bækur hennar æði ómerkilegar, og það reyndist auðvitað algerlega þess virði. The Years, einsog hún heitir á ensku – þar sé ég loks höfund sem á öll sín nóbelsverðlaun skilið, þar er samband höfundarins við minnið – sem hún er svo prísuð fyrir – loksins eitthvað til þess að bíta í, og hversdagsleikinn meira en bara eitthvað meh.

Hýdra

Mig langar í nýtt hljóðfæri. Í vor var ég mikið að skoða fimm og sex strengja bassa – einhvern eins ólíkan þeim sem ég á (Fender Jazz Bass með flatwound strengjum) og hugsast getur, eitthvað agressíft hljóðfæri með biti. Síðustu daga hef ég svo haft augastað á tvíhálsa hýdru frá Ortega – sem er tenór-ukulele að neðan en bassa-ukulele að ofan. Ég hef líka verið að skoða mandólín. Áðan las ég svo grein í New Yorker – frekar tilgerðarlega, einsog við á í því riti, en samt einlæga, hugsa ég, og að mörgu leyti fallega – um það hvað hljóðfæri gætu kennt manni um lífið og tilveruna. Og þá fór ég að hugsa um oud og dan bau og fleira gott. Ég er vel að merkja hljóðfærislaus á ferðalagi. Við erum núna hjá bróður Nödju og þar er blessunarlega bassi og klassískur gítar sem ég rauk í strax og við komum inn um dyrnar. Einsog fíkill eftir viku abstínens. Í Svíþjóð er allt annars gott. Vinir okkar, Dóra og Bjarki og fjölskylda, hafa verið í heimsókn. Við eyddum nokkrum dögum í bústað – syntum í stöðuvatni og héngum í heitum potti og grilluðum og sulluðum í bjór. Nú erum við í Västerås – þar sem við höfum meðal annars sýnt þeim fyrstu H&M búðina. Á morgun ætlum við svo að skoða dómkirkjuna. Milan Kundera dó og þá fór ég að rifja upp Óbærilegan léttleika tilverunnar – ég les alltaf Brandarann reglulega en hef ekki litið í léttleikann frá því upp úr aldamótum. Sennilega fer samtíminn fram á að maður lesi hana með kynjagleraugunum einum saman – með þótta ef ekki festu – sem er synd því hún er stórmerkileg ef maður leyfir þeim ekki að vera eina túlkunarlinsan. Og hugsanlega segir manni hún einmitt líka margt um feðraveldið ef maður leyfir henni að tala án þess að líta á hana sem manífestó um konur (sem mér hefur stundum sýnst fólk gera). Ég er ekki heldur viss um að það þyki fínt lengur að vera mjög gáfaður rithöfundur. Eða vera á öndverðum meiði við velmeinandi fólk. Í næstu viku förum við Nadja svo til Frakklands. Þar er víst fremur óþægilega heitt. Við verðum í tvær vikur – ég að vinna og Nadja á ráðstefnu. Ég sef illa – vakna yfirleitt eftir 4 tíma og móki svo í 8 tíma í viðbót og fer þá fram úr gríðarþreyttur. Enn með hælspora og fótafúinn einsog gamalmenni. Þreyttur í öxlum og baki en fæ endalausar auglýsingar á netmiðlum við verk í mjóbaki – sem er um það bil það eina sem hrjáir mig ekki. Samt finnst mér einsog netið sé að njósna um mig. Því ég hef engu gúglað og ekkert gert til að gefa í skyn verki mína – nema þetta, hér, nú, að blogga um það. Annars líður mér ágætlega.

Au revoir

Ég er farinn í sumarfrí. Sem gæti reyndar þýtt að ég bloggi meira, frekar en minna, þótt ég vilji helst engu lofa um það. Ég yfirgaf Ísafjörð í morgun, keyrði til Hólmavíkur og fékk mér hálftíma lúr á bílastæðinu við sundlaugina, hélt svo áleiðis í Búðardal (þar sem vera má að ég hafi séð Jón Karl Helgason út undan mér, á hlaupum – ég, ekki hann, mér var mál á klósettið og við erum ekki nema rétt svo nikk-kunnugir), þaðan brunaði ég um dalina upp á fjall og niður Bröttubrekku – sem mætti nú alveg kalla Bi-Frost, fyrir túristana – í Borgarnes þar sem ég fékk mér borgara og bensín (og pissaði meira) og stoppaði ekkert fyrren ég kom að Heklu – ekki eldgosinu, þar er ekkert eldgos, ég sá hitt eldgosið frá Akranesi, en ég er að meina bílaumboðið við Laugaveg. Þar var bíllinn minn bilanagreindur og fékk tíma í viðgerð einhvern tíma um miðjan september (þetta er að verða einsog heilbrigðiskerfið). Þá ákvað ég að fara í sund, keyrði að Laugardalslauginni þar sem var stappfullt af fólki sem var augljóslega á leiðinni í sólbað, sem mér fannst ekki sjarmerandi svo að ég keyrði upp í Árbæ – í þá laug hafði ég farið einu sinni (með framúrstefnuskáldi) og þá var tómt en nú var allt fullt af fólki með sundbolta undir hendinni á leiðinni í sólbað svo ég hætti bara við þessi andskotans sundplön og fór niður í Nauthólsvík til að hitta Hauk Má þar sem við fórum hreinlega í göngutúr. Þangað hafði ég ekki komið frá því við Haukur héldum sameiginlega upp á afmælið okkar fyrir líklega 23 árum síðan. Margt hefur breyst en ég ætla ekkert að fara að telja það upp. Eftir kaffi og göngutúr lét ég Hauk fá bók til þess að skila til Lomma fyrir mig – God’s Anatomy eftir Francescu Stavrakapoulou, en vegna nýju bókarinnar minnar þurfti ég nauðsynlega að kynna mér líkamslýsingar á Drottni almáttugum, Lommi var vant við látinn og gat ekki tekið við henni sjálfur (að á áheyrn hjá Lomma er einsog að fá áheyrn hjá páfanum). Nú loks keyrði ég í áttina að eldfjallinu, á bilaða bílnum mínum, og svo framhjá því – akkúrat um það leyti [SPOILER ALERT] sem Ásta Sóllilja lést og Sjálfstæðu fólki í flutningi Jóhanns Sigurðarsonar (á 1,5 hraða) lauk – til Keflavíkur þar sem ég fékk mér tælenskan skyndibita. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu. Hér sef ég í nótt og flýg til Svíþjóðar í fyrramálið. Þar verð ég fram að mánaðamótum en þá förum við Nadja til Montpellier í tæpar tvær vikur.

Sjálfstætt fólk

Sænski útgefandinn minn – og góðvinur – kynnir mig stundum á svið með þeim orðum að ég sé eini íslenski rithöfundurinn sem hafi ekki lesið „Fria män“ eftir Halldór Laxness. Það er að segja Sjálfstætt fólk. Á dögunum kom svo fram í útvarpspistli að Kára Tulinius ofbauð svo meðferðin á Ástu Sóllilju – og fannst sálarlíf hennar svo óskiljanlegt – að hann lagði hana frá sér hálfkláraða fyrir margt löngu og hefur aldrei litið við henni aftur (né, að heyra mátti á pistlinum, neinu því sem skrifað hefur verið um hana). Um það mætti svo sem segja margt og flest af því myndi lýsa samtímanum ágætlega en við skulum láta það vera – þetta varð til þess að ýta við mér, nú væri kominn tími til að lesa þessa bók sem allir eru sammála um að sé öðrum ágætari. Fyrst ég væri alls ekki eini íslenski rithöfundurinn til að hafa ekki lesið hana. (Að vísu gæti verið eins farið um Sjálfstætt fólk og 1984 – en félagsfræðingar hafa sýnt fram á að a.m.k. fjórðungur þeirra sem segjast hafa lesið hana hafi alls ekki lesið hana; en margir þeirra telji sig jafnvel hafa gert það, af því hún er orðin hluti af einhverri almannavitund, rist í þjóðarsálina). Fyrir nokkrum vikum var ég síðan staddur í fríhöfninni og kippti með mér eintaki sem ég komst reyndar ekkert í fyrren nokkru eftir að ég var kominn aftur heim. Þá uppgötvaði ég mér til tafarlauss hryllings að þetta fríhafnareintak var með „nútímastafsetningu“ og þess utan fullt af orðskýringum neðanmáls. Einhvern tíma hafði ég íhugað að lesa þessa bók á ensku – ef ekki hreinlega bara á sænsku – í þeim tilgangi að fremja einhvers konar andleg landráð en mér hafði aldrei dottið þetta í hug, að lesa hana bara uppfærða og útskýrða í drep (a.m.k. helmingurinn af orðskýringunum er á orðum sem finna mætti í hvaða nútímaskáldsögu sem er). Ég veit ekki hvort það eru sams konar landráð – en ekki er það sérlega eðlilegt heldur. Stafsetningin truflar mig að vísu lítið, þótt mér finnist stafsetning HKL fallegri á hans eigin bókum, en neðanmálsgreinarnar voru að gera mig vitlausan – ekki af því það væri ekkert á þeim að græða heldur vegna þess að ég get ekki lesið svona með augun á þeytispani út um allar síður, fram og aftur, upp og niður. Ég legg frá mér símann og fer að lesa bók einmitt til þess að komast út úr slíku einbeitingarleysi – komast í einhvern viðstöðulausan þráð, falla inn í annan heim, sem er heill og ekki með einhverju orðabókar-voice-over-i. Og ég er ekki gæddur þeirri athyglisgáfu að geta sleppt því að lesa neðanmálsgreinarnar heldur. Ég á satt að segja mjög bágt með að ímynda mér að það sé auðveldara fyrir nútímamann (nútímaungmenni? fyrir hvern er þetta gert?) að lesa þessa útgáfu en þá upprunalegu. Það tekur áreiðanlega nokkrar síður að venjast stafsetningunni hafi maður aldrei komist í kynni við hana, og undarleg orð lærir maður að skilja af samhengi sínu, það er nú meðal annars listin að lesa – en þetta er einsog að reyna að lesa orðabók og skáldsögu samtímis. Einsog einn amerískur vinur minn orðaði það: „It’s not like it’s Beowulf“. Mér leið í öllu falli einsog ég væri kominn á skólabekk. Ég las þetta samt – mjög hægt fram yfir miðja bók, fram yfir hina hræðilegu senu sem áður var nefnd (og birtist raunar nokkrum síðum eftir að gert er gys að nafninu Tulinius – hjá kaupmanninum Tuliniusi Jensen) – og gafst svo upp og sneri mér að hljóðbókinni í staðinn. Hún er ágæt en ég hlusta eiginlega bara á hljóðbækur þegar ég er að sinna húsinu eða keyra og þessa dagana er ég að gera hvorugt. Svo þetta gengur mjög hægt hjá mér. Ég gæti að vísu hæglega fengið orginalinn lánaðan en ég er byrjaður að lesa annað (Sportswriter eftir Richard Ford byrjar vel; Blixthalka eftir Erik Helmerson var hræðileg; Áður en ég breytist eftir Elías Knörr dásemd) og ætla á aðrar slóðir. Kannski finnst mér hún ekki heldur bara góð – þótt ég sjái hvers vegna hún er það. Auðvitað er þetta „helvíti gott“ en þetta er líka helvíti tilgerðarlegt – hann er rosalega mikið að flexa og virðist hafa haldið að fólk ætti að hafa endalausa þolinmæði fyrir rómantískum deleringum sínum um eðli mannlífsins. Þær eru stundum fínar þessar „perlur í verkum Laxness“ en þær eru líka óþolandi. Þá líður mér svolítið einsog ég sé orðinn tvítugur aftur þegar ég les HKL – og ekki á góða mátann. Ég hef nefnilega ekkert gert það frá því ég var um tvítugt og las megnið – en skildi þessa eftir. Og það var sennilega bara eitthvað fleira en stælar sem gerði það að verkum að ég las ekki þessa bók fyrren nú (sem ég hef auðvitað bara hálflesið enn sem komið er – en það er víst í tísku að tjá sig um hálflesnar bækur). Annars er bara allt mjög gott að frétta!

Sýslumaður og biskup

Einhvern tíma í vor skrifaði Steinar Bragi mér og spurði hvort ég hefði áhuga á ljóðabókum úr dánarbúi og sendi mér myndir af kjölum. Ég safna ljóðabókum og pikkaði út ýmislegt áhugavert en svo dróst að ég kæmist að sækja þær. Um daginn átti ég loksins leið um Reykjavík og stökk til og náði í þetta – tvo poka af bókum – og keyrði með þá vestur. Á helginni fór ég í gegnum pokana og skoðaði og kom fyrir í safninu. Tók ég þá eftir því mér til nokkurrar furðu að margar þeirra voru stimplaðar með nafninu „Jón Hallvarðsson“ og jafnvel áritaðar „til Jóns Hallvarðssonar“. Ég spurði Steinar út í þetta og hann sagði mér að langafi sinn – sem lést 1968 – hefði heitið þetta og verið sýslumaður á Stykkishólmi. Og þá var mér eiginlega öllum lokið. Ein aðalsöguhetja bókarinnar sem ég lauk við fyrir fáeinum vikum – ef ekki bara stjarna bókarinnar – heitir nefnilega Jón Hallvarðsson og er embættismaður frá Stykkishólmi. Að vísu ekki sýslumaður heldur biskup – yngsti, fegursti og óviljugasti biskup Íslandssögunnar – en það er sama. Það fylgir því talsverð óraunveruleikatilfinning að raða ljóðabókum í hillurnar mínar sem stimplaðar eru með þessu nafni á sama tíma og ég er að lesa bókina aftur og aftur. *** Ég er annars frekar peppaður fyrir þessu jólabókaflóði. Kannski væri ráð að halda það bara á sumrin. Maður er svo miklu peppaðri í júní en í nóvember. Svo skrifaði ég líka fyrstu tvær setningarnar í næstu bók áðan. Ég er ekki síður peppaður fyrir þeim.

Tiltekt

Stundum held ég að lífið snúist um að finna stöðugt lausnir sem enginn er svo óánægður með að hann gefist upp. Ég hallast síðan að því til skiptis að það að vera fullorðinn sé að sætta sig við þetta hlutskipti og að sætta sig ekki við það – krefjast þess að vera ánægður, sama hvað það kostar. Börnum þykir yfirleitt alltaf óréttlæti ef á þau hallar – og eiga ríkari kröfu á að vera ánægð en aðrir – en fullorðnir eiga að reyna að setja hlutina í samhengi og fórna eigin hagsmunum, ef við á – fórna réttindum fyrir skyldur, jafnvel, eða í öllu falli leysa úr hagsmunaárekstrum eða ólíkum löngunum með málamiðlunum eða öðrum álíka lausnum, sem eru sem sagt ekki alltaf þess eðlis að allir sem að þeim koma séu bara glaðir. Stundum eru allir bara jafn vonsviknir. Sem er sennilega betra en að allir séu misvonsviknir – að einhver sigri og annar tapi. *** Ég hef lítið sofið frá því flensan leið úr mér. Þetta er að verða viðtekið vandamál – að flensum fylgi margra daga andvökur, stundum með fótaóeirð og stundum án. Ég held ég hafi sofið í tvisvar sinnum tvo tíma í nótt – með göngutúrum um húsið og lestrarpásum inn á milli. Sem er minna en næturnar tvær á undan en ég er samt skárri í dag en í gær þegar ég var líka með einhvers konar mígreni. Ég er ekkert að skrifa. Það er hluti af vandamálinu. Það þarf líka að sinna öðru – hef til dæmis verið að taka til á skrifstofunni, sem var áríðandi verk – en ég veit alveg hvernig það fer með mig. Ekki tiltektin sem slík heldur stefnuleysið utan bókar. Ég hef lifað næstum jafn mikið í fiksjónal heimum síðustu 25 árin – í mínútum og klukkustundum talið – og ég hef lifað lífinu utan þeirra og er löngu orðinn háður þessu. Að ráða aðstæðum. Leika guð. Lífið utan skáldskaparins er alltaf sýsífosískara – eða skortir í öllu falli lögun, það heldur bara áfram, án endurskrifta, athugasemda, eða sjáanlegrar niðurstöðu eða lendingar. Þar er maður líka peð sem bíður þess eins að vera hreyft. Altso, það eru of margar senur þar sem aðalsöguhetjan hangir bara í símanum og veltir því fyrir sér hvort hann hafi skoðun á einhverju (sem maður hefur alltaf, þegar maður hefur hugsað um það nógu lengi – en til hvers?) *** Það er mjög fínt á skrifstofunni minni. Ég hengdi upp gömul nýhilplaköt og verðlaunaskjöl sem ég lét hverfa einhvern tíma í fyrra, þegar þau voru farin að fara í taugarnar á mér. Ég pússaði meira að segja Íslensku bókmenntaverðlaunin mín, sem voru orðin klístruð af gömlu ryki og dálítið bogin eftir að ég notaði þau til þess að negla nagla í skáp – um svipað leyti og ég lét skjölin hverfa. Skrítið hvernig svona hlutir – gamlir sigrar – geta nánast valdið manni jafn mikilli skömm og stolti. Eða kannski er það ekkert skrítið. Velgengni er líka umsátur um sjálfsmynd manns og ég hef alltaf verið viðkvæmur fyrir því að leyfa utanaðkomandi öflum að ákveða hver ég er. En ég hef sem sagt tekið þetta allt í sátt – í bili – og fundið fínan stað fyrir þetta í hillunum, sem er búið að skipuleggja, ljóðabókunum hefur aftur verið raðað í stafsrófsröð, ég er búinn að hækka skrifborðið mitt, þurrka af því kaffiblettina og panta mér nýjan stól, skúra gólfið og búa til nýjar bókastoðir. Hér er allt sem sagt að verða tilbúið fyrir næstu bók. Ég er meira að segja með frekar skýra hugmynd um uppleggið en þarf að vinna dálitla – kannski mikla – heimildavinnu áður en ég get hafist handa. Sem er auðvitað hræðilega frústrerandi. En lífið getur ekki verið endalaus rússíbanareið. Svo bíður líka nittpikk og próförk að nýju skáldsögunni. Og kápa. Auk þess er ég búinn að lofa að kynna hana einhvern veginn á Tálknafirði í næsta mánuði – er með óljósa hugmynd um hvernig ég fer að því, sem ég þarf að vinna betur í. Mig langar svolítið að fara löngu leiðina suður í haust – fara á suðurfirðina og þaðan á Strandir, Norðurland, Austurland, Suðurland og lesa upp víða og þá þarf ég eiginlega að vera með upplegg sem virkar fyrir mig einan. Og eitthvað gistingaplan sem kostar ekki handlegg – því það eru víst ekki miklir peningar í upplestrartúrum. Tálknafjörður mun sennilega skera úr um þetta – hvort þetta sé vænlegt verkefni. Ég er með einhverja óljósa hugmynd líka um að jólabókaflóðið sé bærilegra ef ég held mér bara sæmilega uppteknum.

Fúsk

Í Svíþjóð geisar fúskfaraldur í bókmenntum – skilst mér á tveimur nýlegum greinum sem ég las ( hér og hér ). Annars vegar er um að ræða faraldur alls konar námskeiða í ritlist þar sem kennarar eru víst vægast sagt misvandaðir. Og hins vegar er faraldur af instagram-gagnrýni – sem sagt er að taki yfir bókmenntaheiminn (svo allir eru hættir að hlusta á atvinnugagnrýnendur). Það þarf enga menntun til þess að kenna ritlist og það úir og grúir af námskeiðum, bæði á netinu og í raunheimum, og þeim fylgir víst gjarnan einhvers konar loforð um „uppfyllingu draumsins“ – að nemandinn fái fljótlega eftir útskrift að lifa unaðslífi rithöfundarins, umlukinn aðdáun annarra með alla vasa fulla fjár. Ef sá árangur tefst eitthvað er oft líka til sölu „útgáfuþjónusta“ – þar sem kúnnarnir (því svona nemendur eru auðvitað fyrst og fremst kúnnar) geta annað hvort greitt fyrir „ritstjórn fagmanneskju“ og „aðstoð við sjálfsútgáfu“ eða hreinlega borgað fyrir útgáfu hjá því sem einhvern tíma var kallað vanity-pressa – forlag sem tekur greitt fyrir að gefa út höfunda sína. Í einhverjum tilvikum getur „forlagið“/„ritlistarskólinn“ aðstoðað þá við fjármögnun og hjálpað þeim að fá smálán. Það er svo Gabriella Håkanson sem skrifar um alvöru gagnrýnendur í Sydsvenskan – og kemur með marga punkta henni til varnar. Instagram-krítikin hverfi út í eterinn og því myndist engin uppsöfnuð þekking; gagnrýnendur í blöðum velji sér ekki bækur eftir áhugasviði einsog instagram-krítíkerar; og síðast en ekki síst sé bókagagnrýni í blöðum ekki fyrst og fremst meðmæli einsog instagram-krítíkin getur verið, heldur greining – ekki bara á bókmenntaverkinu heldur samhengi þess. Þetta síðasttalda held ég að sé mikilvægast og snýst ekki beinlínis um „eðli“ – það er ekkert sem segir að maður geti ekki skrifað alvarlega og úthugsaða krítík á instagram – heldur kúltúr, því það er eiginlega enginn sem gerir það (og ef það er einhver sem gerir það grefst viðkomandi augljóslega strax undir í algóritmanum). Dagblaðið getur líka valið að halda að þér vönduðu gæðaefni jafnvel þótt þú myndir bara troða í þig klikkbeitusykri ef þú fengir sjálfur ráðið. Instagram matar þig bara á sykurdrullunni ómengaðri. Ég veit ekki hvaða hliðstæður þetta allt gæti átt sér á Íslandi. Einhverjar, augljóslega. Fyrir að verða áratug ætlaði ég að fá bíómiða fyrir gagnrýnanda Starafugls á einhverja stórmynd en fékk neitun á þeim forsendum að bíókeðjan væri hætt að útvega gagnrýnendum miða – bara „inflúensarar“ fengju miða. Þá hafði ég aldrei heyrt þetta hugtak og fólk var ekki byrjað að tala um áhrifavalda. En frá viðskiptasjónarmiði meikar það auðvitað sens – þú vilt vekja athygli á myndinni og þá er miklu betra að fá eitthvað seleb til þess að birta mynd af sér við innganginn á bíóinu fyrir mynd – „ofsa peppaður!“ – heldur en að senda einhvern lúða í ljótri úlpu til þess að sitja út í sal, hugsa fyrst um myndina og skrifa SÍÐAN eitthvað þegar viðkomandi er búinn að HUGSA MÁLIÐ. Það kann bara ekki góðri lukku að stýra. Enn er samt bíórýni á stóru miðlunum. Svo er slatti af ritlistarnámskeiðum en þau eru nú flest held ég hugsuð fyrir almenning – og ekki til þess að fara í eitthvað meik. Þeir sem ætla í meikið fara væntanlega í ritlistina í HÍ? Eða? Ég hreinlega þekki þetta ekki nógu vel. Ég held að Bókasamlagið bjóði upp á svona útgáfuþjónustu – en veit svo sem ekki hvernig hún lítur út. Það er mjög lítið af instagram-gagnrýnendum – og fæstir birta neinn texta af viti eða myndbönd. Bara mynd af einni og einni bók. Það eru nokkrar bloggsíður og svo er fólk virkt á fb-síðum einsog bókagulli – þar fara bókameðmælin fram. *** Annars er fátt að frétta. Ég skilaði af mér handriti eftir athugasemdir í gær. Var ég búinn að segja einhvers staðar hvað bókin heitir? Er það kannski ennþá leyndarmál? Á laugardaginn þarf að ferma Aram. Borgaralega. Ég er með flensu (og neikvætt covid-próf). Suma daga er veðrið ágætt en aðra daga ekki. Og allt mallar þetta áfram bara.

Hin fráu og trylltu

Ég er á fremur undarlegum stað andlega – hugurinn á mér er í skrifaðri bók sem ég hnika til millimetra fram og aftur en það sækja fáar nýjar hugmyndir að mér. Ég sit yfir handritinu alla daga milli þess sem ég laga til á skrifstofunni minni sem var orðin alger svínastía. Meðal þess sem ég hef gert var að hækka skrifborðið mitt en rak mig þá á að stóllinn minn er eiginlega of lágur núna. Þetta er eitt af vandamálunum við það að vera nærri tveir metrar á hæð – mér veitist oft erfitt að láta venjulega hluti passa mér. Ég er búinn að gúgla öllum mögulegum skrifstofustólum en hef ekkert pantað, ekkert keypt, aðallega af því að ódýra uppþvottavélin sem við keyptum fyrir átta árum gaf upp öndina (í annað sinn á einu ári) og við ákváðum að laga hana ekki aftur og kaupa ekki heldur aðra ódýra og endingarlélega, heldur dýra og endingargóða, og hún kostaði meira en fyrsti bíllinn minn. Og raunar líka helmingi meira en annar bíllinn minn (Nissan Pulsar, 88 módel, sem ég keypti fyrir fyrirframgreiðsluna af fyrstu skáldsögunni minni – ekki samt 1988). En þá erum við auðvitað að bera saman þákrónur og núkrónur, sem er ekki alveg sanngjarnt. Sennilega læri ég bara að sitja í þessum lága stól í bili. Ég er líka að fara að ferma og þvælast um alls konar útlönd í fjölskylduerindum. Sem er auðvitað brjálæði í dýrtíðinni. Annað sem ég keypti mér nýlega – á leiðinni heim frá Grikklandi – eru almennilegir gönguskór. Slíka hef ég aldrei átt og þeir voru auðvitað líka alltof dýrir. Ég hef verið að ganga þá til síðustu daga – aðallega ráfað upp í hlíð og gengið inn í fjörð, í Bónus, í gegnum hið umdeilda kríuvarp. Í dag ætlaði ég að gera eitthvað svipað en endaði á að hangsa við sjúkrarúm Smára vinar míns, sem varð fyrir því óhappi í síðustu viku að falla niður af svölum – sögurnar sem hann sagði af bráðamóttökunni í Reykjavík voru svo æsispennandi, raunar mesta furða að nokkur lifi það af í Reykjavík að fara á spítala, að ég komst ekki út fyrren það var kominn tími til að skunda heim og elda mat ofan í lýðinn og enginn tími til að fara út að ganga. En þá kom í ljós að heima hjá mér yrði ekki horft á Succession í kvöld – einsog var planið – heldur haldinn bókaklúbbur. Sem kom mér ekki við – það eru engir karlar í þessum bókaklúbbi, raunar er ég ekki viss um að það séu neinir karlar í neinum bókaklúbbum eða saumaklúbbum eða gönguklúbbum eða neinu öðru skipulögðu félagsstarfi sem ég veit um, ef frá er talinn einn mjög fámennur klúbbur sem ég er í og fer á rúntinn svona sex sinnum á ári. Ég notaði tækifærið og hélt til fjalla. Einn, að sjálfsögðu, einsog karlmanna er siður, og í nýju dýru gönguskónum mínum. Þegar ég var kominn upp í Naustahvilft settist ég niður og horfði út yfir fjörðinn. Sólin var að stinga sér bakvið Eyrarfjall og ró kominn yfir bæinn – sem var stappfullur af túristum í dag. Skipið var farið en á Sundahöfninni voru nokkrir bílar að spóla í hringi með miklum tilþrifum og gat ég ekki betur séð en minnstu munaði nokkrum sinnum að þeir skyllu hver á öðrum, á einhverjum öðrum bílum eða á gámum, og ekki gat ég vel skilið heldur, þaðan sem ég sat, hvernig þeir sáu í gegnum reykmökkinn sem stóð upp af bílunum. Og þá mundi ég alltíeinu að Fast and the Furious er í bíó.