Ég sá svo fallega einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Hún var dökkvínrauð og öll einhvern veginn vintage – og ég man að ég hugsaði að svona einkaþotu gæti Halldór Laxness hafa átt. Ef hann hefði átt ráð á einkaþotu, sem verður nú að teljast heldur ósennilegt, og var hann þó metsöluhöfundur á þeim tíma er bækur seldust mikið. Einhvers staðar las ég reyndar að gullöld bóksölu og frægðar höfunda hefði verið á níunda áratugnum – að á þeim tíma hefðu vissir höfundar verið sannkallaðar rokkstjörnur – ekki veit ég hvað er til í því og þaðan af síður af hverju það myndi stafa. Þá er sjónvarpsgláp í stöðugri sókn og fólk með fleiri og fleiri rásir og vídjótækin þess utan komin – og ég gæti best trúað því að þetta sé líka sá tími sem bíóhúsin eru sterkust. Að vísu er neysla almennt ábyggilega líka mjög mikil. Á níunda áratugnum gaf HKL út „Dagar með múnkum“ – það var alls ekki hans mesta metsölubók. Líklega er þetta bara tvatl. Höpöhöpö. Quatsch. Ég get allavega sagt ykkur, alveg einlæglega, að þriðji áratugur 21. aldarinnar er ekki gullöld bóksölu. Að minnsta kosti ekki sölu einstakra höfunda. Og ég játa auk þess fúslega að ég á ekki neina einkaþotu, þótt það sé vandræðalegt. Nú er meira að segja svo fyrir mér komið að ég ferðast til Grikklands á styrk sem dugir rétt svo fyrir farangurslausu flugi – ég er með svokallað „personal item“ með mér, lítinn bakpoka með fartölvu, kindli og nærbuxum. Fjórir leggir með þremur lággjaldaflugfélögum. En ég þarf þá ekki heldur að hafa áhyggjur af því að neitt þessara flugfélaga týni farangrinum mínum. Það má vera að það seljist fleiri titlar – að salan sé dreifðari. En sennilega er meira að segja heildarsalan miklu lægri. Á næsta ári eru 20 ár frá því ég gaf fyrst út skáldsögu og fyrirframgreiðslan hefur staðið í stað allan þann tíma. Hún er auðvitað dregin frá söluhagnaði og sú krónutala hefur eitthvað hækkað – per selt eintak – svo hún hefur ekki áhrif á hvað ég græði mikið eða lítið þegar allt er samantalið. En hún segir eitthvað um lágmarkssöluvæntingar forlagsins. Ég sit á Leifsstöð. Eða hvað hún heitir þessa dagana. Svaf í þrjá tíma í nótt, sem er ágætt fyrir mig – yfirleitt sef ég ekki neitt fyrir flug. Endaði gærkvöldið á að horfa á Con Air, sem ég sá mælt með á bloggi og hafði ekki séð lengi. Hún var fín – og miklu betri en sorpið sem ég horfði á þar á undan, Baby Driver, sem er samt með talsvert hærri einkunn á IMDB. Það liggur við maður hætti bara alveg að taka mark á almenningsálitinu þegar það missir svona marks. Sem minnir mig reyndar á að við, fólkið í þessu þjóðfélagi – eða a.m.k. fólkið í kringum mig – er löngu hætt að halda fram þeirri áður augljósu staðhæfingu að „fólk sé fífl“. Og þess í stað drögum við fram einn og einn, réttum yfir honum og kveðum svo upp dóm: „Þessi er fífl. Næsti.“ Og svo bíðum við bara öll með öndina í hálsinum þar til að okkur kemur. Þetta er tímafrekt – en sjálfsagt verður þetta eitt af þeim verkefnum sem ChatGTP gerir okkur kleift að vinna með meiri hraða og nákvæmni.
Postulahrossin
Það er hálfgerður millidagur eftir langa helgi. Ég er að fara suður á morgun og til Grikklands eldsnemma á fimmtudag. Skrifstofan er ennþá í rúst en ég nenni ekki að byrja að díla við hana. Ég er byrjaður að fá athugasemdir á bókina en ekkert byrjaður að bregðast við þeim enn. Og geri sennilega hvorugt fyrren ég kem aftur eftir tæpar tvær vikur. Ég reyni að telja mér trú um að það sé alltílagi en mér líður samt einsog hálfgerðu slytti. Svo er ég líka þreyttur eftir helgina. Á laugardeginum gekk ég til Bolungarvíkur og til baka (32 km) og fór svo í drykk hjá vinafólki – af því ég var óvænt barnlaus og stenst ekki freistingar. Á sunnudeginum var svo fertugsafmæli. Ég er kominn með dálitla göngudellu. Einhvern tíma snemma í vor var ég að hlusta á Will Self tala um „psychogeography“ og flannerisma og hann sagði ýmislegt sem ég tengdi við – eða ýmislegt sem ég vildi tengja við. Muninn á því að ferðast á milli staða (eða um sinn heim) fyrir eigin vélarafli eða í farartæki; og þetta að horfa á alltaf á heiminn í gegnum skjá (sem rúður auðvitað eru). Svo veit ég ekki hvort það er til marks um krísu eða þroska að vera að leita eftir meiri raunveruleikatengingu. Kannski er það bara til marks um eitthvert síðkapitalískt sálarástand. Mig langar – a.m.k. enn sem komið er – ekki neitt að ganga laugaveginn eða fara upp á mér ókunnug fjöll. Mig langar dálítið upp á fjöllin hérna í kring en mest langar mig bara að ganga til Flateyrar og Suðureyrar og Súðavíkur. Kíkja í sund eða borgara og rölta svo aftur til baka. Ég hef oft flannerað um borgir þegar ég er á ferðalagi og held því sjálfsagt áfram – finnst mjög gott að ganga um nýja heima og jafnvel bara ráfa eitthvað út í loftið. Ég á magnaðar minningar af því að ganga einn um Istanbul, sem dæmi, frá því klukkan 7 að morgni og fram að miðnætti – og varla stoppað nema til að fá mér að borða. Einu sinni ráfaði ég um Rio í fimm daga í röð – án þess að hitta neinn eða gera neitt sérstakt eða eiga eitthvað erindi annað en að ganga um. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til New York var að ganga – með bakpoka – eftir Ocean Parkway endilangri. Hún er um átta kílómetrar. Það var fyrir misskilning, eiginlega, og í einhverri þotuþreytu – en það var líka dásamlegt. Einu sinni gekk ég líka frá Rejmyre til Vistinge, í Svíþjóð – sú leið er eins óáhugaverð og Istanbul er áhugaverð en göngutúrinn er af einhverjum orsökum ekki síður minnisverður. Það er eitthvað sem breytist þegar maður gengur svona leið í fyrsta sinn. Hún verður önnur – líka þegar maður svo keyrir hana seinna. Óshlíðina hafði ég að vísu hlaupið áður – út að krossi og til baka – en það er skemmtilegt að sjá hvernig hún eyðist ár frá ári. Á endanum verður hún kannski hálfófær – að minnsta kosti er útlit fyrir að á einhverjum kafla verði á endanum ekkert eftir af veginum eða kantinum. Ég hef vel að merkja óútskýrt antípat á Hopphjólum. Þau eru auðvitað annað vélarafl – þau eru aukin neysla, aukið drasl í þéttbýlislandslaginu, meira viðbót við bíla en staðgengill. Enn eitt appið. Enn ein áskriftin. En þau eru ekki skjár og þeim fylgir útivist og það eru ábyggilega ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið á bíl. En ég gæti best trúað að það séu líka margar ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið gangandi. Og maður á að ganga. Ekki síst einmitt af því það tekur aðeins lengri tíma og manni á ekki að liggja alltaf svona mikið á.
Af óbærilegu léttmeti tilverunnar
Ég verð alltaf svolítið snúðugur í framan þegar ljúflestrar- eða afþreyingarhöfundar kvarta undan því að sér sé mismunað í bókmenntaheiminum. Nýjasta dæmið er viðtal við Jenny Colgan í Morgunblaðinu – þar dregur hún reyndar ástarsagnahöfunda út fyrir sviga og segir þá verða fyrir meiri útskúfun en glæpasagnahöfundar eða vísindaskáldsagnahöfundar. Fái síður verðlaun eða viðurkenningar eða boð á bókmenntahátíðir. Og þó selji þeir helmingi fleiri bækur. Þetta sé ekkert nema kvenfyrirlitning. Ég held það sé einfaldast að segja að þetta með sé heilt yfir satt – þótt þetta sé líka eitthvað sem er að breytast. Ljúflestrarhöfundar birtast oftar og oftar á bókmenntahátíðum, fá oftar verðlaun og svo framvegis – en þeir sjást sjaldnar en a.m.k. fagurbókmenntahöfundar. Hvort þeir eru jaðraðir meira en t.d. krimmahöfundar þori ég ekki að segja. Svo er auðvitað skilgreiningaratriði hvar ljúflestrarbókunum lýkur og fagurbókmenntirnar hefjast, en ég held maður geti samt leyft sér að segja að þetta gildi á einhverjum þannig kvarða – eftir því sem þú skrifar af meiri fagurfræðilegum metnaði (og minna til þess einfaldlega að skemmta) því líklegri ertu til þess að fá verðlaun og boð á alvarlegri bókmenntahátíðir (vinsældahöfundar dómínera hins vegar yfir flestum bókamessum). Ég hafna því að þetta snúist um ástarsögur sem slíkar – enda er mjög mikið af alvarlegri fagurbókmenntum ástarsögur. Í sjálfu sér er síðan spurning hversu mikið bókmenntahátíðir eða verðlaunanefndir eigi að vera eltast við afþreyingarbókmenntir – ég er ekki viss um að Adam Sandler líti á það sem mikla móðgun við list sína að vera aldrei (eða sjaldan) boðið á Cannes; eða að fólkið sem stendur á bakvið Cannes líti á það sem hlutverk sitt að prómótera skemmtiefni Sandlers. Og það alveg jafnt þótt fólki finnist Happy Gilmore og Punch Drunk Love frábærar myndir – með talsverðan þunga. Ég held þvert á móti þá snúist hátíðir og verðlaunaveitingar einmitt um það að horfa framhjá vinsælu léttmeti til þess að vekja athygli á hinu – því sem fæst ekki sýnt í öllum bíóhúsum, á öllum streymisveitum eða stillt upp í stóra hauga á öllum flugvöllum, einsog t.d. bókum Jenny Colgan. Að þær séu oft beinlínis hugsaðar sem mótvægi við vinsældaköltinu eða þeirri hundalógík að vegna þess að einhver selji margar bækur sé viðkomandi augljóslega frábær og eigi að fá verðlaun og viðurkenningu. Afþreyingarhöfundarnir fá síðan auðvitað annað – þeir fá söluna og dreifinguna og þýðingasamningana sem fagurbókmenntahöfundar fá sjaldan eða aldrei. Þeir þéna margfalt á við meira að segja allra vinsælustu fagurbókmenntahöfunda, þótt þeir fái sjaldnar gullmiða á bækurnar sínar eða skrítna skúlptúra til að stilla upp í hillunum sínum. Og þeir fá líka athygli fjölmiðla – þótt þeir birtist sjaldnar í menningarkálfunum, sem eru hvort eð er að hverfa. Jenny Colgan hefur t.d. verið nefnd 115 sinnum á Vísisvefnum – mest í fréttum af vinsældalistum – en Colson Whitehead aldrei. Það er nú öll mismununin. Það er líka skrítið að Colgan skuli vísa til þess að það halli á ástarsöguna vegna þess að það séu aðallega eldri konur sem lesi þær. Eldri konur lesa nefnilega aðallega allt – ekki bara ástarsögur og léttmeti. Þær eru einfaldlega stærsti lesendahópur samtímans. Þú gætir allt eins sagt að ástæðan fyrir því að ólínulegar framúrstefnuskáldsögur njóti ekki sannmælis sé kvenfyrirlitning – af því það eru aðallega eldri konur sem lesa þær. Og ólínulegar framúrstefnuskáldsögur eiga sannarlega miklu erfiðar uppdráttar en léttar ástarsögur sem enda vel. Sjálfur gleðst ég mest þegar verðlaun og hátíðir vekja athygli á höfundum sem ég þekkti ekki – eða sem mér finnst að fleiri ættu að þekkja. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að vekja athygli á Jenny Colgan – og minni tilgang með því að vekja athygli á Colson Whitehead en t.d. Mariönu Enriquez, sem er dásamleg og alltof fáir lesa. Auðvitað er samt ágætt að hafa stórstjörnur á borð við Colgan inn á milli og þær trekkja áreiðanlega helling – bókmenntahátíðir eiga að þjóna breiðum hópi. En mér finnst hálf absúrd að vinsælustu stjörnurnar séu að barma sér yfir hunsun og jaðarsetningu; og ég óttast miklu frekar að bókmenntaheimurinn verði of hallur undir vinsældaköltið heldur en hitt.
Ísfirskar bókmenntir
Í athugasemd við færslu gærdagsins skrifar einhver ókunnugur einstaklingur hvort ég geti hugsanlega listað upp „helstu Ísafjarðarbókmenntirnar“. Það er sjálfsagt mál þótt auðvitað verði maður að hafa ákveðinn fyrirvara á því – í fyrsta lagi er bæjarfélögum „úti á landi“ gjarnan gefið nýtt nafn í íslenskum bókmenntum – og þá verður maður að spyrja sig hvort bækur Guðmundar G. Hagalín um lífið í Tangakaupstað fjalli um Ísafjörð eða ekki. Aðrar gerast bara að litlum hluta á svæðinu eða hafa það einhvern veginn í bakgrunni. Ég á litla grein í bók sem kemur út í haust, á vegum verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða, um birtingarmynd Ísafjarðar sem sögusviðs, og þegar ég skrifaði hana gerði ég þennan lista hér að neðan. Sumar gerast bara „á svæðinu“ – ég nota frekar víða skilgreiningu á „Ísafjörður“ sem fær (hæpna en staðgóða) réttlætingu í greininni sjálfri. Á listann vantar svo eitt og annað – margar ljóðabækur t.d. og Íslendingasögur og þvíumlíkt. Af því að listinn var bara gerður mér til hugarhægðar er ekki heldur allt staðfest á honum. Titill Höfundur Grein Staðsetning Tími Veður öll válynd (1925) GG Hagalín smásögur Á ekki við Samtími/fortíð Brennumenn (1927) GG Hagalín skáldsaga Tangakaupstaður Samtími Kristrún í Hamravík (1933) GG Hagalín skáldsaga Á ekki við Samtími/fortíð Ljósið í kotinu (1939) Óskar Aðalsteinn skáldsaga Ísafjörður (eða?) Samtími Grjót og gróður (1941) Óskar Aðalsteinn skáldsaga Ísafjörður (eða?) Samtími Skáldið á Þröm (1956) Gunnar M. Magnúss æviminningar Ísafjörður Fortíð/sögulegt Margs verða hjúin vís (1956) Arnrún frá Felli smásögur Sandfjörður/Brimtangi Samtími Strákarnir sem struku (1957) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Ævintýralegt jólafrí (1958) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Strákar í stórræðum (1959 Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Fremstur í flokki (1960) Böðvar frá Hnífsdal drengjasaga Eyrarfjörður Samtími Segið nú amen, séra Pétur (1975) GG Hagalín skáldsaga Tangakaupstað Samtími (held ég) Þeir vita það fyrir vestan (1979) GG Hagalín æviminningar Ísafjörður X Fortíð/sögulegt Ekkert slor (1984) Rúnar Helgi skáldsaga Pláss Samtími Í flæðarmálinu (1988) Njörður P. Njarðvík smásögur Sleppt (/Fjörðurinn) Fortíð Múkkinn (1988) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga Sleppt (sýnist mér) Fortíð Dans í lokuðu herbergi (1989) Elísabet Jökulsdóttir ljóð [Veit ekki] Æviminning Hafborg (1993) Njörður P. Njarðvík skáldsaga Ísafjörður Fortíð Landið handan fjarskans (1997) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga [Raunveruleg örnefni] Fortíð Góðir íslendingar (1998) Huldar Breiðfjörð æviminningar Ísafjörður X Samtími Stjórnlaus lukka (1998) Auður Jónsdóttir skáldsaga Sleppt Samtími Þar sem blómið vex og vatnið fellur (1999) Eyvindur P. Eiríksson skáldsaga [raunveruleg nöfn] Fortíð Feigðarflan (2005) Rúnar Helgi skáldsaga Ísafjörður Samtími Himnaríki og helvíti (2007) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Sjöundi sonurinn (2008) Jón Kalman skáldsaga Ísafjörður Samtími Harmur englanna (2009) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Ég man þig (2010) Yrsa Sigurðardóttir skáldsaga Ísafjörður Samtími Hjarta mannsins (2011) Jón Kalman skáldsaga Plássið Fortíð Ariasman (2012) Tapio Koivukari skáldsaga Eyri (sennilega) Fortíð Illska (2012) EÖN skáldsaga Ísafjörður Fortíð Ósjálfrátt (2012) Auður Jónsdóttir skáldsaga Sleppt Samtími/fortíð 1983 (2013) Eiríkur Guðmundsson skáldsaga Sleppt (held ég) Fortíð Heimska (2015) EÖN skáldsaga Ísafjörður Framtíð Útlaginn (2015) Jón Gnarr æviminningar Ísafjörður Fortíð Ránið á Húnboga Höskuldssyni, alþingismanni (2016) Ófeigur Drengsson skáldsaga Á ekki við Samtími Átthagar Herdís M. Hübner æviminningar Ísafjörður Samtími Flóð H. Hagalín/ B. Thors leikrit Flateyri Fortíð Þorpið sem svaf (2018) Reynir Traustason smásögur Kvóteyri Fortíð Eftirbátur (2018) Rúnar Helgi skáldsaga Ísafjörður (held ég) Samtími (heldég) Hansdætur (2020) Benný Sif skáldsaga Arnarfirði Fortíð Brúin yfir Tangagötuna (2020) EÖN skáldsaga Ísafjörður Samtími Grísafjörður (2020) Lóa Hjálmtýs barnabók Ísafjörður Samtími Sterk (2021) Margrét Tryggva skáldsaga Ísafjörður Samtími Djúpið (2021) Benný Sif skáldsaga Sleppt (held ég) Fortíð Ilmreyr (2021) Ólína Þorvarðar skáldsaga Ísafjörður Fortíð Gratíana (2022) Benný Sif skáldsaga Arnarfjörður Fortíð Brimhólar (2022) Guðni Elísson skáldsaga sleppt Samtími Hildur (2022) Satu Rämö skáldsaga Ísafjörður Samtími Raven’s Nest (2022) Sarah Thomas skáldsaga Ísafjörður Samtími
Rúst
Skrifstofan mín er í rúst. Ég byrjaði eitthvað að endurskipuleggja hérna á mánudaginn og losaði mig við gamla lagerhillu án þess að hafa einu sinni pantað nýja vistlegri (billy) hillu í staðinn fyrir hana. Og nú eru bara haugar af bókum alls staðar sem vita ekkert hvar þær eiga að vera. Prentarinn minn er ótengdur og ekkert pláss fyrir hann nálægt tölvunni en ég þarf samt að prenta út örlítið erindi sem ég á að flytja á fundi forsætisráðherra um sjálfbærni á morgun. IKEA er rétt búið að tilkynna mér að hillan mín sé farin í póst þegar ég átta mig á því að mig vantar líka nýja gólfmottu. Sendingarkostnaðurinn er 5.800 per skipti – þetta hefði ég getað sparað mér. Ég er að reyna að spara allt – blankheitin eru að fara með mig. Í fyrradag ákváðum við Nadja t.d. að ég kæmi ekki með á ráðstefnu í Montpellier í ágúst. Hún er að vísu ekki hundrað prósent viss um að hún fari sjálf en líklega gerir hún það. Ég ferðast víst nóg í sumar hvort eð er. Í næstu viku fer ég til Grikklands og í júní fer ég til Englands með Aram í fermingargjafarferð að sjá einhvern YouTubara á sviði. Í júlí fer ég til Svíþjóðar til að hangsa með tengdafólki. Ég viðurkenni samt að ég syrgi dálítið þessa Frakklandsferð – ég hlakkaði til hennar. En sjálfbærnin spyr víst ekki að slíku. Ég get ekki lagt fjárhag fjölskyldunnar í rúst og sótspor sumarsins er löngu komið úr böndunum. Búinn að vera að lesa svolítið nýjar þýðingar. Ungi maðurinn eftir Annie Ernaux – ég las líka Staðinn í fyrra og ég bara … nei, þetta er ekki gott. Kannski er eitthvað í hinum bókunum eða í frumtextanum – ég útiloka það ekki. Mér finnst öll umræða um Ernaux og um bækur hennar fasínerandi – en ég sé bara ekki að bækurnar standi undir þeirri umræðu. Grafreiturinn í Barnes eftir Gabriel Josipovici fannst mér ekki heldur góð. Kramp eftir Maríu José Ferrada var hins vegar góð og líka Arfur og umhverfi eftir Vigdísi Hjorth. Ég hef verið að íhuga að gera aðra tilraun til þess að lesa Infinite Jest. Ég gafst upp á henni fyrir sirka tíu árum síðan – mjög fljótt, vel að merkja, var ekki kominn nema kannski 20 síður inn í doðrantinn. En DFW heillar mig samt – mér finnst gaman að hlusta á hann tala og hugsa. Eins þarf ég að lesa meiri Franzen – las víst aldrei nema Freedom. Árstíðafjórleikur Ali Smith er líka á dagskránni, meiri Zadie Smith, meiri Pynchon, Pale Fire á ég eftir og Shuggie Bain og fleira. Og Sjálfstætt fólk – kannski verður þetta árið sem ég les hana loksins. Annars hef ég fengið mikinn áhuga á gönguferðum og langar af þeim sökum að lesa Psychogeography eftir Will Self. Ég ætla að flannera í sumar, þótt ég komist ekki til Frakklands að gera það – er að hugsa um að ganga svolítið á milli bæja bara. Kannski ég flanneri líka í Þessalóniku og Aþenu í næstu viku. Og svo þarf ég að lesa Raven’s Nest eftir Söruh Thomas. Hún gerist á Ísafirði – og ég les allt sem tilheyrir ísfirskum bókmenntum.
Dagur 96: Búinn
Ég er búinn. Handritið er komið í yfirlestur. Annað hvort er ég úti á þekju eða þetta er það besta sem ég hef skrifað. Með þeim tveimur fyrirvörum þó 1) ég gæti sannarlega verið úti á þekju og 2) ég trúi eiginlega ekki á hírarkískar mælingar á bókum. Nema kannski metsölulistana, þeir eru þó konkret og segja ekkert nema það sem þeir segja: hvaða bækur seljast mest. Og blaðsíðutalið (þessi er heillöng!) Allt hitt er bara einhver sirkus. Ekki síst huglægur samanburður manns sjálfs á eigin bókum. Sennilega er ég bara að reyna að lýsa minni eigin ánægju. Ég er mjög kátur. Það var líka gaman að skrifa hana. Að minnsta kosti bróðurpartinn af tímanum. Annars hræðilegt. Þjáning, satt best að segja. Þetta er í senn gleðileg bók og ógleðileg – einsog veisla sem fer stöðugt úr böndunum. Og kannski líka alvarlegri bók heldur en ég ætlaði að skrifa, sem reyndist gleðilegt þegar allt kom til alls. Það síðasta sem ég gerði var að setja saman þetta kort hérna að ofan. Það er unnið upp úr korti frá 1913 en lítillega breytt svo það passi við 1925. Þetta er vel að merkja engin síldarbók eða Salka Valka, þótt bæði síld og saltfiskur komi við sögu. Hjartað í henni er 100 manna prestastefna og gömul þjóðsaga sem segir að ef „sjö prestar og einn eineygður“ komi saman fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju hrynji Gleiðarhjalli. Hún er mjög rækilega staðsett á Ísafirði eina viku sumarið 1925 en það eru engar sögupersónur í henni sem hafa verið til í alvöru – öllu raunverulegu fólki var skipt út fyrir miklu raunverulegra fólk. Ég er búinn að skila henni en nýi ritstjórinn minn tekur ekki til starfa fyrren á mánaðamótum. Í næstu viku þarf ég að semja og flytja eitt erindi, sem er fyrsta aukaverkefnið sem ég tek að mér í ár. Svo er ég að fara til Grikklands og að fara að ferma dreng (borgaralega) og þarf að dytta aðeins að húsinu og svona. Sofa og svona.
Dagur 93: Hanastél á jarðhæð
Af og til langar mig bara að skríða í fósturstellingu og sofa í svona tvö ár. Eða ganga í jökulinn. Ég er hér um bil næstum svo gott sem búinn. Og þá hellist eitt og annað yfir mig. Ég sé glitta í eftirbókartómið. Á sama tíma er ég auðvitað langt í frá búinn – það hefur enginn lesið neitt af þessu, ef frá eru taldar nokkrar síður sem Nadja fékk síðasta sumar. Ég veit ekki einu sinni ennþá hver kemur til með að vera ritstjórinn minn. Kannski segir viðkomandi mér að breyta öllu. Gefa þessu fimm ár til viðbótar. Fá mér aðra vinnu. Ganga í jökulinn. En handritið fer samt úr húsi á föstudag. Hvað sem tautar og raular. Einhver hluti af mér vildi óska þess að ég sæi það svo aldrei aftur. Það færi bara út í heim og kæmi mér ekki við lengur – ég gæti kannski fengið einhvern ungverskan höfund til þess að „fylgja því eftir“ og í staðinn gæti ég fylgt eftir bók eftir þennan ungverska höfund. Mætt í ungversku Kiljuna, ungversku bókamessuna – jafnvel farið í opinskátt einkaviðtal í ungverska Mannlífi. Ég sveiflast reyndar mjög á milli þess að vilja í alvöru bara vera í útlöndum allt jólabókaflóðið og að vilja pakka bókum í skottið á bílnum og keyra hringinn til þess að lesa upp í öllum mögulegum krummaskuðum. Sprikla og sprikla. Eins sveiflast ég á milli þess að vilja ekki halda nokkurs konar útgáfuhóf og hins að halda eitt heima, annað úti í bæ á Ísafirði og þriðja í Reykjavík. Og þess að vilja helst ekki svara neinum spurningum um innihaldið og vilja semja tveggja tíma powerpoint fyrirlestur um það. Þegar ég skilaði handritinu að Einlægum Önd – sem ég gerði vel að merkja eftir að ég hafði skilað Frankensleiki, sem ég kláraði á undan – ákvað ég að mig langaði að starta einhverri hefð við handritsskil. Því það er þrátt fyrir allt eini staðurinn í ferlinu sem gerist einhvern veginn í friði – áður en sagan verður pródúkt, meðan hún er ennþá bara sagan og hefur ekkert gildi nema gildið í sjálfri sér. Nadja stakk upp á því að við myndum fara og fá okkur kokteil – við vorum í Örebro – og á hverju ári þyrftum við að finna okkur stað sem væri hærra uppi. Planið var að byrja á jarðhæð – sem hefði auðvitað helst þurft að vera kjallari, svo gera mætti ráð fyrir löngum ferli og mörgum bókum – en svo voru engin sæti laus á jarðhæð kokteilbarsins í Örebro svo við enduðum á annarri hæð. Sem þýðir að í ár þarf ég að vera hærra en á annarri hæð. Ég ætlaði að fara til vina minna sem búa á annarri hæð aðeins uppi í brekku – með þeim rökum að þá ætti ég þriðju hæðina enn eftir til góða – og hræra sjálfur kokteil en svo reyndust þau upptekin. Nú veit ég ekki hvernig ég leysi þetta. Hugsanlega kalla ég barinn bara jarðhæðarbar af því við fengum kokteilinn afgreiddan á jarðhæð og fer og fæ mér kokteil á Húsinu – sem er hálfri hæð yfir jörðinni. Eða segist eiga jarðhæðarbarinn eftir og fer á Hótelið eða á Verbúðina í Bolungarvík. Það er auðvitað breyting á prinsippi en ég er sveigjanlegur maður. Þá ætti ég líka eftir kjallarabar. Ég er 45 ára og hef sirka 20 sinnum skilað handriti – ef frá eru taldar þýðingar og ritstjórn og samstarfsverkefni – á 21 árs ferli. Ef ég skrifa 30 bækur í viðbót áður en ég drepst, 95 ára grafomaníker, gæti þetta orðið mjög erfitt ef ég sýni mér ekki líka ákveðna linkind í túlkun á skilmálum. Annars fallast mér eiginlega hendur strax við tilhugsunina um að skrifa heila aðra bók í viðbót við þessa. Hvað þá þrjátíu. Ég er, einsog maður segir, gersamlega búinn á því. Ég er búinn að bæta á mig 15 kílóum frá því ég byrjaði á bókinni, þar af 10 bara síðustu þrjá mánuði. Ég get varla gengið upp tröppurnar heima án þess að verða móður. Skrifstofan mín hefur breyst í ruslakistu af matarleifum og glósumiðum og bókahrúgum og drasli sem ég veit varla hvaðan kom. Í sjálfu sér er það auðvitað bara viðeigandi. En fyrsta verkefnið sem tekur við – þegar ég er búinn að fá mér kokteil og vera þunnur í sundi eina helgi – er að reyna að endurheimta svolitla reglu í líf mitt. Og jafnvel heilsuna líka.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar: Frankensleikir tvítilnefndur
Frankensleikir hlaut á dögunum tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar – annars vegar í flokki frumsaminna verka og hins vegar fyrir myndlýsingar. Fimmtán bækur voru voru tilnefndar í þremur flokkum. Tilnefnd frumsamin verk Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur Útgefandi: Forlagið Frankensleikir eftir Eirík Örn Norðdahl Útgefandi: Mál og menning Allt er svart í myrkrinu eftir Elísabetu Thoroddsen Útgefandi: Bókabeitan Ófreskjan í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn Útgefandi: Mál og menning Héragerði: Ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Verk tilnefnd fyrir myndlýsingar Héragerði: Ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóa H. Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Eldgos eftir Rán Flygenring Útgefandi: Angústúra Leitin að Lúru eftir Margréti Tryggvadóttur og myndlýsing eftir Önnu C. Leplar Útgefandi: Mál og menning Mamma kaka eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur Útgefandi: Salka Frankensleikir eftir Eirík Örn Norðdahl og myndlýsing eftir Elías Rúna Útgefandi: Mál og menning Tilnefndar þýðingar Einu sinni var mörgæs eftir Magda Brol, þýðandi: Baldvin Ottó Guðjónsson Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa Uppskrift að klikkun: Hjartasósa, hafgúuheilar og gvakamóri við leiðindum eftir Dita Zipfel, þýðandi: Jón St. Kristjánsson Útgefandi: Angústúra Ósýnilegur gestur í múmíndal eftir Cecilia Davidsson og Filippa Widlund eftir sögu Tove Jansson, þýðandi Gerður Kristný Útgefandi: Mál og menning Brandur flytur út eftir Sven Nordqvis, þýðandi: Ásta Halldóra Ólafsdóttir Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa Maía og vinir hennar eftir Larysa Denysenko og Masha Foya, þýðandi: Magnea J. Matthíasdóttir Útgefandi: Vaka-Helgafell *** Jafnframt var veitt sérstök viðurkenning Bókmenntaborgarinnar fyrir „mikilvægt starf í þágu lestrarmenningar barna“ og fóru þau til Yrsu Þallar Gylfadóttur, Iðunnar Örnu og útgáfunnar Bókabeitan fyrir bókaflokkinn Bekkurinn minn. Í dómnefnd voru: Sunna Dís Jensdóttir, tilnefnd af Bókmenntaborginni (formaður), Ragnheiður Gestsdóttir, tilnefnd af FÍT og Arngrímur Vídalín, tilnefndur af RSÍ.
Dagur 89: Viðburðurinn fer fram á ensku
Ég er búinn að prenta bókina út. 551 síða í handriti. Tæplega 140 þúsund orð. Ég á eftir að skrifa allra síðustu síðurnar – geri það um miðja næstu viku, þegar ég er búinn að lesa þetta vandlega (ég á 200 síður eftir) og færa inn breytingar. Svo tekur við ritstjórnarvinna fram á haust. *** Bókmenntahátíð er í næstu viku. Þar er margt áhugavert. Haukur Már og Örvar og Kristín Eiríks og Kristín Svava – nærri þriðjungur íslenskra þátttakenda er fyrrum kjarnameðlimir í Nýhil. Svo er ég mjög hrifinn af síðustu bók Colsons Whitehead. Vigdisi Hjorth hef ég hitt nokkrum sinnum og setið í panel með (hún man samt aldrei eftir að hafa hitt mig) og hún er hræðilega skemmtileg. Bókin hennar Mariönu Enriquez á íslensku var líka stórbrotin. Og fleira og fleira. Ég kemst ekki suður – út af bókinni og út af því að ég verð einn heima með krakkana og út af því að strax á eftir þarf ég að fara til Grikklands á bókamessu. Ég tók eftir því að nær allir viðburðir bókmenntahátíðar eru haldnir á ensku. Á einum viðburði er „boðið upp á þýðingar“ – en það er viðburður á frönsku, haldinn af Alliance Francaise. Frakkar eru auðvitað ekki jafn hrifnir af heimsvaldastefnu enskrar tungu og Íslendingar (hin stóra bókmenntahatíðin í Reykjavík heitir ekki einu sinni íslensku nafni – Iceland Noir). Svo er einn viðburður á norsku og dönsku. Fljótt á litið er hugsanlega bara einn einasti viðburður á íslensku – eða bara á íslensku – samtal Gyrðis Elíassonar og Halldórs Guðmundssonar. Hugsanlega líka samtal katalónskra þýðenda og 1-2 upplestrakvöld. Meira að segja samtal Pedros Gunnlaugs Garcia og Auðar Jónsdóttur er auglýst þannig að viðburðurinn fari fram á ensku. Kannski heldur einhver að Pedro kunni ekki íslensku? Eða er þetta fyrir einhverja agenta? Nema þetta sé innsláttarvilla. Ég hef farið á mjög margar bókmenntahátíðir og það er undantekning – sem fólk biðst þráfaldlega afsökunar á – ef viðburðir eru haldnir á ensku án túlks. Auðvitað er þetta ódýrara og minna vesen og kunna ekki allir ensku hvort eð er? En það væri áreiðanlega minna vesen líka að skrifa á ensku og gefa út á ensku. Íslenskar bókmenntir hljóta að standa og falla með því að einhver púkki upp á þetta blessaða tungumál. Þetta er ótrúlega lúseralegt. Mig langar samt að sjá margt þarna og þarf eiginlega að kanna hvort viðburðir verði ekki í streymi. *** Annars var Frankensleikir tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Ég er auðvitað af reykvískum ættum – pabbi minn var einu sinni Reykvíkingur. Eða er Reykvíkingur – þið yrðuð að spyrja hann. En þetta er mjög gleðilegt. Elías Rúni var síðan tilnefndur sérstaklega líka í myndlýsingaflokki svo bókin er tvítilnefnd.
Dagur 78 af 100: Blúsnám
„Vestræn“ menning er óttalegur bastarður og eitt af því sem vert er að velta fyrir sér þegar menningarnám kemur til tals er hvenær eitthvað hættir að vera „nám“ og verður manns eigið. Hvenær það er svo að segja „fullnumið“. Hvenær tilheyrir kebabið manni – og hvenær hættir það þar með að vera „exótískt“ líka? Eða palestínuklúturinn? Einu sinni virtist manni sem hroðalokkar (svonefndir dreddar) væru fullnumdir af hvítum en síðan gerðist eitthvað – þeir voru sendir heim, einsog hver önnur handrit. Fyrir nokkrum árum var gert grín að kínversk-amerískri konu fyrir atlögu sína að hvítri konu sem ætlaði á dansleik í kínverskum kjól – það þótti svipað hallærislegt og þegar Lena Dunham setti sig upp á móti því að hvítt fólk borðaði sushi – en svo hef ég ekki mikið orðið var við svona kjóla síðustu árin. Kannski eru þeir horfnir. Er enn verið að selja Homogenic Bjarkar í sömu umbúðum ? Eru til íslenskar k-popphljómsveitir? Geta þær verið til? Einhver skaut því að mér um daginn í gríni hvernig ég héldi að því yrði tekið ef Straight Outta Compton yrði sett upp sem söngleikur með öllum helstu röppurum landsins í blackface. Þeirri spurningu þarf væntanlega ekki að svara en það sem sló mig við tilhugsunina var að Emmsjé Gauti og Erpur skólabróðir minn (og aðrir rapparar landsins) þurfa ekki að mála sig í framan til að útlit þeirra og atferli beri ramman „keim“ af menningarnámi. Þessi búningur – frá klæðnaði að orðfæri og líkamsbeitingu – er menningarnám. En þar er fullnumið, held ég. Að minnsta kosti er mjög langt síðan ég heyrði einhvern fetta fingur út í það og þegar það var gert – sem var á tíunda áratugnum – var það ekki menningarnámið sjálft sem þótti rasískt heldur viðbrögðin við því og orðfærið sem var notað til þess að fordæma það. Og ég held þess utan að Erpur og Gauti „séu bara svona“ – að svipta þá því væri að svipta þá sinni menningu og gera þá að einhverjum öðrum. Ég man eftir pistli eftir ungan Hauk Má – sennilega einum af Víðsjárpistlunum, sem hann nefnir í nýlegum minningarorðum sínum um Eirík Guðmundsson – sem gekk sirka út á að í raun ættu Njáll á Bergþórshvoli og Gunnar og Hlíðarenda lítið í honum, þeir væru ekki hans menning, heldur væri hann einfaldlega, og einlæglega, alinn upp af Bob Dylan og Bítlunum. (Haukur er auðvitað 20 árum eldri en jafnaldrar sínir – en við höldum okkur samt við sjöunda áratuginn hér af því það er þægilegt). Nema hvað. Bob Dylan fékk nóbelsverðlaunin fyrir að „skapa nýja ljóðræna tjáningu úr bandarískri sönghefð“. Þetta afrekaði hann með linnulausu menningarnámi – ekki síst úr tónlist bandarískra blökkumanna. Þetta held ég að sé ekki umdeilt og er sannarlega ekkert sem Dylan hefur mótmælt. Þvert á móti hefur Dylan, líkt og margir samtímamenn hans, verið duglegur að vísa til þess arfs, til Roberts Johnson, Bukka White, Blind Lemon Jefferson – og jafnvel nefnt þá í lögum sínum, „nobody sings the blues like Blind Willie McTell“ und so weiter. Fyrstu plötur hans voru líka mikið til blús-kover (það er svolítið undarlegt að tala um að kovera þjóðlög – en það er annar debatt). Hann var reyndar ekki endilega alltaf jafn duglegur við að kreditera hetjurnar sínar á plötum – t.d. kennir hann lag sem er (líklega) eftir Big Bill Broonzy og Jazz Gillum við útsetningu eftir Eric von Schmitt. En þá útsetningu, það plokk, lærði Eric von Schmitt einfaldlega af Reverend Gary Davis – og er stíllinn mjög einkennandi fyrir hans spilamennsku. Allir fimm eiga þeir talsvert í laginu en einungis hvítu mennirnir fá nafnið sitt á það. Það er ekki bara svívirða heldur líka nánast regla á þessum tíma (og þegar blökkumaður fékk nafn sitt skráð var það oft Willie Dixon, sem var bassaleikari og upptökustjóri hjá Chess og lét setja sitt nafn á óhemju af standördum frá öllum helstu stjörnum stúdíósins – og það eru víst einhver áhöld um það hvort hann hafi samið mikið í öllum þeim lögum, þótt hann hafi áreiðanlega verið fínt tónskáld – en það er önnur og lengri saga). Þjóðlagatónlistin á þessum upphafsárum Dylans gekk út á þetta og hafði gert í fleiri áratugi – kannski árhundruð, kannski alltaf. Þjóðlagasöngvarinn átti að þvælast um sveitir landsins og læra ný lög til þess að syngja með sínu nefi og til þess að hræra saman við önnur lög svo úr yrðu ný. Dylan er stundum kallaður póstmódernisti í þessu – en þá eru Robert Johnson og Muddy Waters líka póstmódernistar. Því þeir voru allavega jafn þjófóttir. Í árdaga upptökualdar virkaði það líka þannig að ef einhver tók upp hittara var víst að sami myndi gera 10 framhaldsútgáfur – til þess að mjólka vinsældir hins fyrsta; hugsið um Aerosmith-ballöðurnar sem ráku hver aðra allan tíunda áratuginn og hljómuðu allar meira og minna eins – og annar hver starfandi músikant myndi taka upp sín eigin tilbrigði með misnýjum texta. Í grunninn er þetta alltaf menningarnám – og gleðilegt, stórkostlegt – og verður ekki verulega sárt fyrren sá sem hærra situr í samfélagshírarkíunni fer skyndilega að græða meira á því en sá sem kenndi honum músíkina. Muddy Waters og Howlin’ Wolf fannst áhugi ungra hvítra breta á tónlist sinni dásamlegur – það höfðu allir misst áhugann á þeim í Bandaríkjunum og hvítu bretarnir voru duglegir við að benda á Muddy og Wolf sem fyrirmyndir sínar, draga þá með sér á túr og jafnvel í sjónvarpssal (þar sem blökkumenn voru ekki aufúsugestir annars) – alveg þangað til, einsog Muddy Waters orðaði það, hann var farinn að horfa á einkaþotur Rolling Stones og Cream fljúga heimsálfa á milli yfir höfuð sér meðan hann mátti enn þola að rúnta milli klúbba í Chicago á skitnum kadilják. Ég held að fólki finnist það hálffáránleg hugmynd í dag að það sé einhvers konar svívirða að hvítt fólk spili blústónlist. En mörgum fannst það þá – hvítu millistéttinni þótti það skelfilegt, svörtu millistéttinni (sem var hætt að hlusta á blús) fannst það vandræðalegt, svörtum tónlistarmönnum fannst það mest skrítið, en svörtum aktífistum fannst það glæpur. Enn fáránlegri er hugmyndin um að einhver spili blúslausa tónlist, því áhrif blússins – bókstaflega það hvaða nótur þú getur spilað, hvernig þú spilar þær, hvernig stefin líta út og hrynjandin; fyrir utan vinnulagið, þessa stelihrærigrauta og fagurfræði tónlistarmannsins sem hættulegs utangarðsmanns – ganga þétt í gegnum nánast alla nútímahryntónlist. Blús er grunnurinn í djassi og R&B sem er grunnurinn í soul sem er grunnurinn í fönki sem er grunnurinn í diskó. Og blús er grunnurinn í rokki – öllum mögulegum tegundum þess. Blús er náskyldur hipphoppi. Og svo framvegis og svo framvegis. Frá upphafi er blús líka hræringur úr afrískri hryntónlist á evrópsk hljóðfæri – og undir áhrifum frá alls kyns annarri þjóðlagatónlist (á tímabili var m.a.s. mjög vinsælt að jóðla í blús), tin pan alley lagasmíðum og sérstakri tegund þrælasöngs sem varð líklega til í Bandaríkjunum. Einsog til að undirstrika það allt saman var maðurinn sem er gjarnan kallaður „faðir deltablússins“ – Charlie Patton – ekki svartur nema í aðra ættina, og líklega Cherokee (en hugsanlega mexíkóskur eða hreinlega evrópskur) í hina. Og hinn faðirinn – sá sem skapaði djassaðri blúsinn – W.C. Handy var tónlistarskólamenntað tónskáld, jakkalakki sem samdi músík með penna, og hann heyrði blúsinn fyrst sem fullorðinn maður þegar hann sat á brautarstöð og hlustaði á einhvern fátækling gutla úti í horni fór svo heim og endurskapaði það fyrir borgarhljómsveit. Aftur að upphaflegu spurningunni. Hættir menningarnám nokkurn tíma að vera menningarnám – getur menning sem er numin af öðrum þjóðfélagshóp nokkurn tíma orðið „okkar“? Ég held að svarið blasi við og að það sé já. Blústónlist er þægilegt dæmi – en hún er bara eitt dæmi, þetta á við um rosalega, rosalega, rosalega margt annað í menningu „okkar“. Hún tilheyrði einu sinni tilteknum afkima, tilteknum undirokuðum þjóðfélagshópi; hún var innbyrt og endurleikin og stolin af öðrum betur settum þjóðfélagshópi sem elskaði hana og virti (mestmegnis) og lagði mikið upp úr því að vera „ekta“; það olli umtalsverðum sárindum og var fjárhagslega og félagslega óréttlátt. Og svo rann hún saman við bókstaflega allt – meðal annars vegna þess að eðli hennar var þannig að hún var góð til sambræðslu, hafði alltaf verið teygjanleg og til í tjútt. Og afleiðingin er sú að meira að segja þeir sem hlusta ekki á neitt sem þeir myndu kalla „blús“ – meira að segja þeir sem hata blús – eru aldir upp á blússkyldri músík og blúsafbrigðum sem væri ekki til án þessa menningarnáms. Ég veit í sjálfu sér ekki hvort maður „á“ þá menningu sem mótar mann – kannski er menningin ekki „okkar“, kannski er menningin einfaldlega „við“. Ég myndi síðan gjarnan vilja halda því opnu að það sem gerist þegar einhverjir lúðar mála á sér augun til þess að syngja ítalskar óperur um Japani verði kallað eitthvað annað en „menningarnám“ – kannski bara vaudeville? Því þótt menningarnám sé sannarlega próblematískt og endurspegli þá valdastrúktúra sem þjóðfélag okkar byggir á værum við öll fátæk og heimsk og stirð án þess, og hitt – að gera það af vanvirðingu og frekju; frekar en bara illa, því vond list og klaufaskapur er oft guðdómlegra en nokkuð annað – þarf eiginlega að heita eitthvað annað.