Ég er alltaf að setja bakvið eyrað að ég verði að fara að blogga um eitt eða annað og svo týni ég því, einhvers staðar þarna bakvið eyrað. Það sem slær mig oftast er kannski að fara að nöldra yfir landsbyggðarfyrirlitningu hippstera í Reykjavík og því hversu glórulausir þeir virðast um hana. Og hversu lítið allt þetta fólk sem annars les Said, sósíalísk/feminísk rit og alls lags valdgreiningar virðist hugsa um skipulag og vald út frá landinu öllu (skipulagsmál á Íslandi virðast aðallega snúast um þau svæði sem eru miðborg Reykjavíkur og þau svæði sem gætu hugsanlega orðið miðborg Reykjavíkur). Ég hangi of mikið á Twitter. Það er alveg augljóst. Og á Twitter er það Gísli Marteinn sem leggur línurnar. Það nýjasta snerist um gagnrýni – eða meira svona hnus – á þá hugmynd að nota skattkerfið til að auðvelda fólki búsetu úti á landi, líkt og er gert víða (og þykir þjóðhagslega hagkvæmt). Hugmyndin er sem sagt sú að fólk borgi lægri skatta utan höfuðborgarinnar. Þetta má réttlæta á ýmsa vegu – lykilrökin eru auðvitað þau að það er VAL að byggja upp alla þjónustu á höfuðborgarsvæðinu frekar en annars staðar eða bjóða upp á hana í öllum dreifbýliskjörnum – það er VAL hvar við skilgreinum miðjuna – og þessu vali fylgir aukinn kostnaður fyrir þá sem ekki staðsetja sig miðsvæðis. Vegna þess búa fyrirtæki, t.d. á Ísafirði, við miklu hærri útflutnings- og innflutningskostnað en sams konar fyrirtæki (sem fyrirtækið á Ísafirði er í samkeppni við) í Reykjavík. Lógíska niðurstaðan er alltaf sú sama: pakka saman og byrja upp á nýtt í Reykjavík eða verða undir. Vegna þess að alþjóðaflugvöllurinn er óralangt héðan. Og þar fara vinnurnar, fer nýsköpunin, grundvöllurinn að ræktarlegu og lífvænlegu samfélagi. Aðstöðumunurinn gerir það að verkum að við spekilekum. Þennan aðstöðumun er hægt að jafna. Ef maður er jafnaðarmaður, þá vill maður það. Ef maður er hins vegar hægri maður – einsog Gísli – þá vill maður það auðvitað ekki. Maður gæti svo sem viljað að fólk hafi að einhverju leyti jöfn tækifæri (en mis-jöfn þó – það á ekki að nota peninga ríka fólksins til þess að niðurgreiða menntun fátæka fólksins, frekar en það má jafna annan aðstöðumun, því það er svo ósanngjarnt), en um jöfnuðinn sjálfan gæti manni ekki staðið meira á sama. Það er líka að mörgu leyti fínt (les: „eðlileg/óumflýjanleg þróun“) að landsbyggðin leggist í eyði því þá getur maður keypt sér hús fyrir slikk og notað það fyrir sumarbústað og AIRBNB. Því það er svo kósí að koma út á land. Komast í rólegheitin. Rétt einsog einhver verður að vera menntlaus því hver myndi annars vinna í öllum niðursuðuverksmiðjunum og sauma stuttermabolina? Einhvern veginn er líka búið að telja mörgu fólki trú um að landsbyggðin víli og díli með allt vald í þessu landi – líklega vegna þess að búvörumafían og LÍÚ eru einhvern veginn hluti af ímynd landsbyggðarinnar, þú veist, við erum bændur og sjómenn (og hér eru vissulega bændur og sjómenn, en þeir díla ekki með mikið vald). Ég er vel að merkja sammála því að búvörusamningurinn sé satanískur og það þurfi að gæta þess að orkufrek stóriðja eignist ekki smábæina. En við erum hvorki búvörusamningurinn né LÍÚ – þeir toppar eru sennilega í Garðabænum einsog aðrir toppar. Og ef misjafnt atkvæðisvægi (sem mér finnst ægilegt, einsog það virkar í öllu falli) hefði svona mikið að segja, þá færi Vestfirðingum væntanlega ekki fækkandi. En vegna þess að þetta er dagbók en ekki kjallaragrein, verð ég að taka fram að því verður varla lýst með orðum hvað mér finnst orðið leiðinlegt að þrátta um stjórnmál. Það eru mér eilíf vonbrigði að þess gerist einu sinni þörf. Ég myndi ekki lesa þennan texta þótt ég fengi borgað fyrir það. Heldur myndi ég skalla vegginn þar til honum færi að blæða. — Í öðrum fréttum er ég enn móður og þreklaus en þó aðeins skárri en í fyrradag. Ég sef ekki nóg og ég kem ekki nógu miklu í verk. Á morgun fer ég suður með seinni vélinni og svo til Frakklands um nóttina. Ég les varla neitt en ræð mikið af krossgátum.
17. maí
Steinar Bragi segir að ég verði að fara að blogga. Það sé ekki hægt að hafa efstu frétt hérna þá að ég sé allur í hönk. Dögum saman. Ekki þar fyrir að ég er handónýtur. Eða þannig. Ennþá þreklaus og á erfitt með að koma mér í gang. Reyni að hreyfa mig – hjóla eða hlaupa – daglega en líður einsog öldruðum sjúklingi. Hugsanlega er það líka vegna þess að ég ét bara rusl. Þarf að gera eitthvað í því. Ég er enn að lesa Bolaño. Er ekki einu sinni hálfnaður. Fyrsti hlutinn var allur í einni fyrstu persónu, frá ungu skáldi sem fylgist með tveimur aðeins eldri og svalari skáldum og genginu í kringum þá. Arturo Belano (sem á víst að vera Bolaño sjálfur) og Ulises Lima. Annar hluti – ég er í honum miðjum – flakkar svo viðstöðulaust á milli ólíkra persóna sem flestar hafa einhvers konar sjónarhorn á þá Arturo og Ulises eða skáldahreyfinguna þeirra, iðraraunsæisskáldin (e. visceral realists). Eiginlega er bókin samt hingað til 95% útúrdúrar, að minnsta kosti ef maður lítur á kjarna hennar sem skáldin og hreyfinguna. Mér finnst sennilegt að það séu komnar 20-30 nýjar fyrstu persónur það sem af er öðrum hluta. En auðvitað er bókin fyrst og fremst einhvers konar heimslýsing, einhvers konar sjónarhorn. Sem slík er ekki auðvelt að fara að draga hana saman í einhvern þægilegan þráð – en hún er gefandi. Annars er ég bara að reyna að skrifa, pakka saman og taka til (Sjökvist er á útleigu á AIRBNB í sumar; við verðum í Svíþjóð og Finnlandi). Ég var í matarspjalli í Stundinni og með uppskrift að víetnamskri pho súpu (sem er sturlað góð). Hérna . Á fimmtudaginn fer ég til Frakklands í bókmenntastúss. Fyrst á Les Caracteres hátíðina í Auxerre. Síðan á Les Assises Internationales du Roman. Í Lyon. Á vegum Le Monde og Villa Gillet. Ég sit á panel til að ræða illsku og er búinn að skrifa stutta ritgerð. Þaðan fer ég til Berlínar á minningarathöfn um vinkonu mína Susan Binderman, sem lést á dögunum, langt fyrir aldur fram. Og svo Svíþjóð. Ég verð síðan að reyna að vera duglegur að vinna á hverjum degi svo þetta handrit dafni vel. (Hér myndi ég setja einhverja vel valda meðgöngulíkingu, eitthvað um að fósturlát væru algengust á fyrstu vikunum, ef það væri ekki líklegt til þess að gera fólk sem er konur eða empatíserar með slíkum alveg spangólandi vitlaust af kyngremju).
9. maí
Nú er allt í mínus. Í fyrradag hrundu bæði uppþvottavélin og þvottavélin með fimm mínútna millibili. Ég pantaði nýtt fyrir peninga sem ég á ekki. Henti þvottavélinni út í innkeyrslu í dag en næ ekki uppþvottavélinni út – slangan er föst og mig vantar aðra töng. Þannig að uppþvottavélin er úti á miðju gólfi. Það er þess utan allt rennandi blautt á gólfinu undir eldhúsinnréttingunni minni eftir uppvask kvöldsins. Ég er enn með lyfjamæði, enn að éta sýklalyf. Vonandi er þetta bara það. Ef ekki þá kemur það væntanlega í ljós síðar í vikunni því kúrinn klárast á morgun. Ég er líka skrítinn í hálsinum – suma daga tengi ég það við skrifstofuna í bílskúrinni og loftgæðin þar inni. Ég veit reyndar ekki hvað ég get gert fleira án þess að demba mér í rándýrar framkvæmdir – hringja á verktaka. Sem kemur ekki til greina vegna peningaleysis. En það eru lofthreinsunartæki þarna, rakatæki, blóm, ég reyni að lofta út. Og ekki hef ég eytt neinum óskapa tíma þar heldur síðustu daga. Kannski er þetta allt sama heilsuleysið. Leit ekkert í Bolaño í gær og ekkert í dag. Er frekar þungur. Starði svolítið á bókina mína í dag og gerði á endanum eina stóra breytingu sem hafði í för með sér allsherjar yfirferð á þeim texta sem er kominn – kannski tek ég hana til baka. Það væri dæmigert, enda var þetta tímafrekt, þótt þetta séu engin ósköp af texta enn sem komið er. Skrítin bók og ég enn að átta mig á því hvernig hún er í laginu.
7. maí – Twitter og Bolaño
Þegar ég var unglingur var Gulli Helga hressasti maðurinn á landinu. Hann var svo hress, þessa 2-3 tíma sem hann var í útvarpinu, að ég var eiginlega handviss um að hann væri þrælkeyrður áfram á kílóum af kókaíni í auglýsingahléunum og svo svæfi hann í súrefnisboxi þessa 22 tíma sem út af stæðu. Í dag er Gulli Helga bara einsog einhver zen-kóngur. Þrælslakur. Og það sló mig alltíeinu að líklega hefði hann samt ekkert róast, það væri bara veröldin sem væri í yfirgír. Ég hangi svolítið á twitterreikningi Starafugls. Kannski fæ ég þessa tilfinningu þar. Í brandaraflóðinu. Korter á twitter er einsog að éta skál af marsipani í morgunmat. Þá er hysterían á Facebook kannski skárri. Maður verður allur útþembdur. Og það er erfitt að hætta af því að sykur er ávanabindandi. Í gær gengu brandararnir allir út á náungann sem drekkur átta lítra af Pepsi Max á dag og var í viðtali í Fréttatímanum (only in Iceland). Það var eitthvað symbolískt við það. Ég er að lesa Savage Detectives eftir Roberto Bolano. Hún er mökklöng. Ég er búinn með 1/4 því ég les á hraða fimm ára barns. En hún er skemmtileg/sturluð/nýmóðins. Skýrsla síðar.
6. maí
Sumir eru ánægðir með að fá persónustýrðar auglýsingar og að einhverju leyti getum við öll verið ánægð með þetta, en spurningin er þessi siðferðislega: Á mjólkin að kosta mismunandi eftir því hvort einhver hafi fengið sér 15 ára háskólanám eða ekki haft getu til þess? Er það siðferðislega rétt að við borgum ekki sömu upphæð fyrir sömu vöru? Héðan . Það vantar nýja teiknimyndasögu í staðinn fyrir Ást er … Eitthvað í líkingu við Sturlun er … þegar eitt af stærstu vandamálum samtímans er smættað niður í að læknar þurfi kannski að borga meira fyrir mjólkurlítrann en einstæðar, atvinnulausar öryrkjamæður. Því það væri ósanngjarnt.
Smættað niður er kannski ósanngjarnt orðalag. Hún tekur dæmi. Og auðvitað eru það einhvers konar mannréttindi að fólki sé ekki mismunað (og ætti að eiga við um laun líka). En það hvaða dæmi koma upp í hugann á okkur segir eitthvað um það hvernig við hugsum um vandamálin. Því auðvitað væri tekjutenging innkaupsverðs einhvers konar stríð gegn stéttarsamfélaginu. Korporatískt stríð, en samt stríð. Í viðtalinu kemur líka fram að fólk sé farið að teipa fyrir myndavélarnar á símunum og tölvunum sínum. Ég gaf einmitt út skáldsögu um það í fyrra. Á dögunum las ég síðan um leitarvél sem getur fundið nettengda hluti út frá tegundum – Shodan, heitir hún – og þá getur maður t.d. fundið öll nettengd ungbarnatæki, myndavélar eða talstöðvar sem fylgjast með sofandi ungabörnum úti í vakni, í einni borg. Og rúntað um og hirt … tja hvort heldur sem er, myndavélarnar eða börnin. Þetta er allt eftir bókinni. Ég hef heyrt þetta áður um að skrefamælarnir safni „öðrum heilsutengdum upplýsingum“ en því hvernig við göngum en það hefur aldrei verið útskýrt fyrir mér hvaða upplýsingar þetta séu.
5. maí
Svona beygir maður fjölskyldumeðlimi mína: Nadja
Nödju
Nödju
Nödju Aram
Aram
Aram
Arams Aino
Aino
Aino
Ainoar Og ekki orð um það meir. Mér finnst vel að merkja eðlilegt að Nadía – með í-i eða með i-i – taki ekki hljóðvarpi í fyrsta atkvæði og sé Nadíu í aukaföllum. En Nadja með joði tekur hljóðvarpi. Máli mínu til stuðnings bendi ég á Dostójevskíþýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur, þar sem Nödjur eru ö-aðar hægri vinstri. Mér finnst þágufallið Arami líka vera alveg vonlaust. Og Aino sem eignarfall, einsog ég hef heyrt fólk reyna, er líka vonlaust. Hvað er annars að frétta? Ég er framan á Séð og heyrt. Ég vissi að ég yrði í blaðinu en brá talsvert við að vera á forsíðu. Úr fókus og hattlaus. Ekki að ég hafi neitt á móti Séð og heyrt. Slúðurmiðlar sem koma til dyranna einsog þeir eru klæddir eru góðra gjalda verðir (ég hef hins vegar ímugust á menningarkálfum sem morfast út í lífsstílsblöð sem morfast út í slúðurblöð). Og það er víst lítil berstrípun á einkalífi mínu að játa á mig botnlangavesen. Ég var líka í Stundinni. Með uppskrift. Og svo vildi til að blaðið var borið út einmitt í þá mund sem við sátum stynjandi yfir matnum (sem var mjög góður). Þetta er s.s. víetnamskt pho. Og það er á baksíðunni. Ég held það hafi líka eitthvað verið í Fréttatímanum. Um botnlangakastið mitt, einsog í S&H. Ég er bærilegur af því, annars, enn með botnlangann og enn að bryðja sýklalyf og fékk smá verk í dag en hef annars verið verkjalaus.
4. maí: Lestrardagbók
Ég er búinn að lesa tvær viðtalsbækur – eina við James Baldwin (sem skrifaði Giovanni’s Room og ég kláraði um daginn) og aðra við David Foster Wallace, sem ég hef mjög lítið nennt að lesa. Þeir eru báðir með einhvers konar mikilmennskubrjálæði. Baldwin er gjarn á að tala einfaldlega um sig sem snilling eða í það minnsta goðsögn („Þegar maður er goðsögn einsog ég eða Miles Davis, þá …“) og DFW svarar oft spurningum sem honum þykja erfiðar með því að segja að það sé nú ekki pláss til að ræða það í stuttu máli – fyrst þurfi að skilgreina öll hugtökin („hvað áttu við með „bók“? og hvað er þetta „skrifa“ fyrir þér?“) og svo kannski leggjast yfir þetta í nokkra mánuði. Þetta myndu margar vinkonur mínar kalla karlskt og er það sjálfsagt – en það fer ekki beinlínis í taugarnar á mér, það er meira að mér finnist það í senn kjánalegt og aðdáunarvert. Og þarna er líka margt fleira ágætt. Og kannski er einmitt bráðnauðsynlegt (ég skrifaði nærri því brjálnauðsynlegt og hugsanlega var það líka réttara) að vera með svolítið stórt egó ef maður ætlar að skrifa bækur. Eða í einhvers konar mótsögn með það – einhvers konar kontrast við sjálfan sig. Einsog fólk með mikilmennskubrjálæði er yfirleitt reyndar; líklega eru ekki til smærri sálir. Baldwin er brjálæðislega góður í að stara sjálfan sig og samfélagið niður. Einsog hann sé ekki hræddur við neitt. Í einu viðtalinu kemur hann inn á þetta sem ég ræddi í tengslum við Giovanni’s Room, að hann hefði verið gagnrýndur fyrir að skrifa um hvítt fólk, eða réttara sagt að hann skammaðist sín fyrir að vera svartur – og tekur einfaldlega undir með því, það sé rétt. DFW sagði í sinni bók að ekkert væri nær eðli hans en löngunin til að eiga kökuna og éta hana líka, og það er eitthvað sem sér stað í Baldwin þegar hann ræðir stöðu sína gagnvart samfélagi svartra. Á aðra höndina undirstrikar hann stöðu sína sem svarts rithöfundar – að ónefndu mikilvægi rithöfundarins sem vitnis (frekar en talsmanns) – og á hina hafnar hann því algerlega að hann sé svartur rithöfundur – og leggur áherslu á að hann sé að skrifa um úniversal hluti (og leggur kynhneigð og litarhaft oft að jöfnu sem hluti sem þurfi að leysa upp, enda obsessjón meginstraums samfélagsins á kynhneigð og litarhaft ekkert nema vísir um óþroska viðhorf okkar tíma, og alger bóla). DFW er ekki jafn áhugaverður. Hann er of mikið að intelektúalísera án þess að takast á við neitt. Mér finnst alltaf jafn merkilegt reyndar að þeir Franzen hafi verið svona góðir vinir, einsog mér var einhvern tíma sagt, því ég get varla hugsað mér ólíkari höfunda – innan þess mengis hvítra, efri-millistéttar, new york sem þeir tilheyra. DFW vill vera erfiður og skrítinn og les þess utan mikið þannig efni – kennir óvenjulegar bækur og er stærðfræðinörd. Og þolir ekki popp eða meginstraum (á maður kannski að hætta að tala um meginstraum og fara að tala um meðalmennsku? er það of dómhart?) Franzen er það sem hann kallar sjálfur „contract“ höfundur – það er að segja, hann gerir samning við lesandann um að halda sig innan ákveðinna marka og ráfar ekkert. Hann skrifar Dickensískar skáldsögur um þyngstu málefni samtímans – svolítið einsog Houellebecq, nema ekki jafn siðferðislega krefjandi. Að síðustu las ég Strákinn í röndóttu náttfötunum eftir írska höfundinn John Boyne [Varúð: spoilerar]. Mamma gaukaði henni að mér og fannst ómögulegt að ég hefði ekki lesið hana. Þetta er hálfgerð unglingabók um níu ára strák, Bruno, sem á föður sem er fangabúðameistari í Auschwitz. Bruno fer í leiðangra og í einum slíkum kynnist hann Shmuel sem er hinumegin víggirðingarinnar. Shmuel og Bruno eru jafn gamlir (báðir fæddir 15. apríl 1934) og með þeim skapast vinátta. Bókin er stutt og að uppbyggingu er hún smásaga frekar en skáldsaga – það eru engir útúrdúrar og ef eitthvað er að marka höfundinn skrifaði hann allt fyrsta handritið á 60 klukkustundum. Eitt og annað smálegt fór í taugarnar á mér – aðallega að hún er frekar óraunsæ. Bæði voru fáir drengir á þessum aldri í Auschwitz (óvinnufær börn voru flest drepin samstundis – í bókinni eru hundruð barna), á einum stað er óvart látið einsog stríðið hafi ekki verið hafið árið 1940 og svo eru systkinin Bruno og Gréta full vitlaus til að vera níu og tólf ára. Þau virðast ekki skilja almennilega muninn á vikum og mánuðum og hann getur ekki borið fram Auschwitz (Out-With á ensku, Ásvipt á íslensku) eða Führer (Fury/Firringin). Führer er rosalega venjulegt þýskt orð – þýðir t.d. líka bara leiðarvísir (og enskumælandi manni þætti áreiðanlega impónerandi að níu ára Íslendingur geti borið fram „leiðarvísir“ en það er það ekki). Og þetta veldur því að maður fer að vantreysta öðru. En auðvitað er erfitt að ætla að lesa bók af þessu tagi svona. Þetta eru ekki raunsæjar endurminningar úr fangabúðum nasista heldur einhvers konar dæmisaga og (meló)drama. Bruno stendur fyrir hinn bláeyga þýska almenning sem skilur ekki hvað á sér stað og Shmuel fyrir hinn saklausa pólska gyðing sem getur ekkert hafa gert af sér. Á lykilaugnabliki í sögunni er Shmuel fluttur í eldhúsið hjá Bruno þar sem hann á að þrífa litla bolla, enda sé hann með svo smáar hendur. Bruno rekst þar á hann og gefur honum að borða. Þegar einn nasistaforinginn spyr hvort Shmuel hafi verið að éta bendir Shmuel á Bruno og segir að Bruno sé vinur hans og hann hafi gefið honum kjúkling, hann hafi ekki stolið. Þegar gengið er á Bruno með þetta hafnar hann því að þeir séu vinir, segist aldrei hafa séð hann áður. Þetta verður honum til talsverðrar skammar, svo mikillar raunar að hann lætur iðulega einsog það hafi aldrei gerst – þeir hafi aldrei sést öðruvísi en með girðinguna á milli sín. Þetta er auðvitað biblískt. Pétur hafnar gyðingnum Jesús einsog Bruno hafnar gyðingnum Shmuel. Og sjálfsagt hafa margir Þjóðverjar einmitt lent í svipuðum sporum, haft tækifæri til að grípa inn í en látið það vera vegna þess að það gæti kostað – vegna þess að þeir þekktu sjálfir brútalítet ríkisins, þótt það væri meira af afspurn. Bókin endar á því að Bruno ákveður að heimsækja Shmuel í fangabúðirnar – fara undir grindverkið og klæðast náttfötum og nátthúfu einsog hann. Þennan dag eru þeir svo kallaðir í gasklefana, þar sem þeir eru drepnir óforvarendis. Það má lesa alls kyns symbólisma í það. T.d. hreinlega að helförin hafi líka í einhverjum skilningi drepið þýsku þjóðina – að það standi enginn í svona viðbjóði, ekki einu sinni á hliðarlínunum, án þess að það kosti hann sjálfið. Að það lifi það enginn af, í raun og veru, að drepa. Einhverjir gagnrýnendur bókarinnar hafa lesið út úr þessu vilja um einhvers konar syndaaflausn fyrir Þjóðverja – sem er hæpið í írskri bók, finnst mér. Ég held að Boyne sé meira að segja sögu – þetta er klassískur tragedíuendir, skrifar sig næstum sjálfur þótt maður horfi á hann einsog bílslys. En svona gæti Þjóðverji aldrei skrifað – enda er þetta, einsog einhver benti á, fyrst og fremst tragedía um nasistafjölskyldu. Shmuel og fjölskylda hans eru aukapersónur og við sjáum aldrei almennilega inn í líf þeirra – kannski eigum við líka auðveldara með að ímynda okkur þá sögu, hafandi séð hana annars staðar, það er brútalla að fara inn á heimili nasistanna. Í einu viðtalanna við James Baldwin kvartar hann – og viðmælandi hans – undan því að hvítir höfundar séu gjarnir á að skrifa þolendasögur svartra en hann sé enn að bíða eftir því að einhver hvítur maður skrifi sögu rasismans frá sjónarhóli Ku Klux Klan. Þetta er auðvitað þannig saga – a.m.k. í einhverjum skilningi. Kannski er skrítið að segja það en bókin hefði hugsanlega mátt við því að vera ennþá simplari en hún er, ennþá strípaðri, færri lýsingar og kannski pínulítið kaldari viðkomu.
Útskrift og Illska
Ég átti að liggja hérna á spítalanum fram á föstudag en verð sendur heim í dag vegna góðra frétta og slæmra – annars vegar kom blóðprufa vel út í morgun og hins vegar er líkaminn að gefast upp á þessum kjarnorkusýklalyfjum og maginn allur kominn í hönk (búið að drepa svo mikið af góðu bakteríunum líka). Ég illska @oskabornin A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Feb 19, 2016 at 6:22am PST Þessu ævintýri lauk síðan á laugardag. Ég var fjarri góðu gamni – hefði verið gaman að sjá hvernig sýningin þróaðist en svona er það bara þegar leikhúsin eru öll einhvers staðar lengst úti í rassgati. Lokasýningin var á 71 árs ártíð Adolfs Hitlers og afmælisdegi Jaroslavs Hasek (en Hannes Óli er einmitt byrjaður að leika Svejk á öðru sviði). Ég sá bara frumsýninguna – sem var frábær – en hef heyrt mikið og vel af hinum sýningunum látið. Áðan horfði ég svo á lokaþáttinn af Ligeglad – þar sem leikstjóri Illsku, Vignir Rafn, leikur eitt aðalhlutverkanna. Svo nú er hann sennilega bara atvinnulaus. Ég sá á Twitter í morgun að hann var að biðja einhvern að kenna sér að dánlóda. Þetta er hart líf. Ekkert að gera. Engar tekjur. Bara blús. Svo er bara að sjá hver ætlar að gera bíómyndina. Ég gef 25% afslátt af réttinum ef hún verður meira en 4 klukkustundir.
29. apríl: Andri Snær, byggðastefna, Sigurður Einarss, Óttar & Rótin, botnlangabólgan og hver va
Ég er að reyna að skrifa bók. Búinn með fimm síður og veit ekki hvað á að gerast næst. Það var einhver að dingla. En hver? Hver var að dingla? Ég er enn í sjúkrarúminu. Og hvílist, sem er gott. Fæ lyf, sem er gott. Og heimsóknir, sem er gott. Eitt og annað velkist um í huga mér. Líklega er Sigurður Einarsson eini útrásarvíkingurinn sem ég skil. Sem mér finnst vera mannlegur. Ef ég hefði verið útrásarvíkingur væri ég líka alltaf að hringja fullur í sjónvarpið og hóta því að berja fólk sem léti mig ekki í friði tæpum áratug eftir hrun. Ég hefði ekkert þolinmæði í annað. Stóísk ró er fyrir vélmenni. Hegðun hans kemst næst því að endurreisa trú mína á mannkynið. Ruglið í kringum Óttar Guðmundsson er að verða svolítið PC-Gone-Mad. Það er undarleg krafa að skoðanir fagmanns í geðheilsu á geðheilsumálefnum þurfi að vera í samræmi við meginstraum millistéttarháskólasamfélagsins – alveg sama hvaða álit maður hefur á þeim skoðunum, hvort þær séu vel rökstuddar eða annað. Það er algert rugl – einsog Rótin gerir – að krefjast þess að Læknafélagið þaggi niður í manninum (og það er vel að merkja fáránlegur orðhengilsháttur að segja að það sé ekki það sem Rótin er að gera, því það sé ekki orðað þannig). Og þá að vinsælli skoðunum: Ég ætla að kjósa Andra Snæ. Ég held að hann sé talsvert meiri kapítalisti en ég – og ég er með dálítið óþol fyrir startöpp-blæti samtímans, sem Andri representerar svolítið – en ég veit líka að Andri er sólítt, frjálslyndur og ærlegur. Mér finnst aðrir valkostir vera ýmist of borgaralegir eða flipp – og þótt ég kunni vel að meta flipp þá kann ég vel að meta það sem flipp, fyrir skemmtanagildið, fyrir rótið og brjálæðið, ljóðrænuna. Svona einsog ég kann að meta Túrkmenbasí (það er reyndar fleira sem ég kann ekki að meta við Túrkmenbasí en látum það liggja á milli hluta í bili). En sem sagt. Mér finnst merkilegt að Andri njóti jafn lítils fylgis á landsbyggðinni og raun ber vitni enda veit ég ekki til þess að hann hafi gert landsbyggðinni neitt nema vara við einhverri botnlausri þvælu austur á fjörðum. Þar sem hann hafði líka rétt fyrir sér – ekki bara á forsendum fegurðar og náttúruverndar heldur líka byggðaþróunar, efnahags og svo framvegis. Töff lökk fyrir áljakkalakkana en þannig var það nú bara samt. Ég held hins vegar að það sé orðinn mikilvægur hluti af sjálfsmynd landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðis hins vegar að skilgreina sig í ólíkar blokkir. Súgfirðingar geta ekki kosið einsog Vesturbæingar og Vesturbæingar geta ekki kosið einsog Súgfirðingar; því við vitum öll að Súgfirðingar / nVesturbæingar eru fífl sem hafa enga reynslu af raunveruleikanum / hafa aldrei lesið bók. Hópar skilgreina sig ekki bara út frá því hverjir þeir eru heldur ekki síst hverjir „hinir“ eru – hverjir það eru sem eiga ekkert erindi í hópinn. Eitt af grundvallarhugtökum allrar greiningar er lífsbaráttan. Hverjir þurfa að hafa fyrir lífinu og hverjir ekki, hverjir eru að berjast í bökkum og hverjir fitna. Þetta allt saman. Við þekkjum þetta, við erum öll (sem lesa þetta blogg, svona 97-98% á að giska) menntaðir vinstrimenn og þetta heitir að valdgreina á marxísku. Maktanalysen, segja Svíarnir, er hjärtat í allri greiningu. Ef við berum það módel upp að landsbyggð og höfuðborgarsvæði er alveg ljóst að það er landsbyggðin sem á í vök að verjast – mörg svæði eru beinlínis við það að fara í eyði – á meðan vandamál höfuðborgarsvæðisins eru fyrst og fremst vaxtarverkir vegna blómlegrar tíðar. Það er ekki síst af þessum sökum sem t.d. Vestfirðingar fyrtast við þegar þeim er sagt að „flugvöllurinn fari, það sé bara tímaspursmál“ eða annað álíka – þegar það er látið einsog lífsbarátta þeirra (s.s. okkar) sé aukaatriði við hliðina á skipulagsvandræðum borgarbúa. Og einsog gengur þegar burgeisavandamál eru borin saman við öreigavandamál þá finnst voða mörgum burgeisavandamálin einfaldlega vega þyngra og að öll þjónkun við öreigavandamál sé „popúlismi“. Ég veit ekki hvernig eða hvers vegna Andri Snær lenti röngu megin í þessu battli – ég veit ekki til þess að hann hafi neitt til þess unnið. Kannski bara vegna þess að mörgum fannst á sínum tíma að Kárahnjúkavirkjun væri svona kjarnorkusprengjulausn á vanda Austfjarða – eitthvað máttugt og mikilfenglegt og einhvers konar kristileg fórn þar að auki (og við vitum öll, hvað sem þessari virkjun líður, að velmegun vesturlanda er byggð á öðrum eins fórnum – sturlaðri iðnvæðingu – og það er þess vegna sem „Ísland á ein stærstu ósnortu víðerni Evrópu“, það er búið að fórna öllu hinu fyrir verslunargötur og umferðaræðar og nettengingar, þessi taktík svínvirkaði nefnilega í gamladaga). Og þar sem að hann setti sig upp á móti henni hafi hann ekki haft hagsmuni austfirðinga að leiðarljósi. Sem er auðvitað rugl. Kárahnjúkavirkjun er fullkomlega misheppnaður gjörningur og peningana hefði betur mátt nota í margt annað. T.d. alls konar startöpp. Annað sem ég hef tekið eftir er að þegar rýnt er í fylgistölur og greint í kyn, fjárhag, menntun og búsetu þá virðast fjölmiðlar hafa mestan áhuga á menntuninni. Þetta á svo tvöfalt við um félagsmiðlatröllin. Einhvern veginn verður upplagið þannig að fólk sem er lítið menntað kjósi vitlaust. Að ef fólk færi bara heldur í sálfræðinám en stálsmíði eða bara að vinna þá myndi það kjósa betur og hafa þóknanlegri skoðanir. Í einhverjum tilfellum er þetta einfaldlega rökleysa. Þótt mér sé að mörgu leyti þvert um geð að gangast við því þá er ástæðan fyrir því að ómenntað fólk víða í Evrópu er líklegra til að kjósa flokka sem vilja takmarka aðgengi innflytjenda einfaldlega sú að innflytjendur eru líklegri til að keppa við þá á vinnumarkaði en menntafólk. Menntafólk þarf ekki að óttast að sýrlenskir flóttamenn eða afganskir verkamenn veiti þeim nema samkeppni um sín störf. Tekjulægra fólk er líka ósennilegra til að telja sig aflögufært (og ef saga kapítalismans hefur kennt okkur eitthvað þá er það að fátækt fólk er alltaf fyrst til að þurfa að borga fyrir allt – #cashljós). Ómenntað fátækt fólk kýs þannig einfaldlega með hagsmunum sínum – sem markast af stöðu þeirra sem lægsta og óvarðasta lags samfélagsins. Ef við viljum að ómenntað, fátækt fólk hætti að kjósa fasista þá þarf ómenntað, fátækt fólk að eignast (aðra?) fulltrúa innan valdsins – á þingi, ríkisstjórnum, bæjarstjórnum og fjölmiðlum – sem hefur það að stefnu sinni að breyta kerfinu þannig að byrði samfélagsins lendi ekki á þeim. Altso, verkafólk þarf að fá hærri laun, meira atvinnuöryggi og greiðari aðgang að stofnunum samfélagsins (sérstaklega heilsugæslu); það er vinstrilausnin. Já og svo þurfum við að vinda ofan af einkarekstri í skólakerfinu (líka leikskólakerfinu) svo fólk af ólíkum bakgrunni komist í meiri snertingu hvert við annað. Fasistalausnin – að byggja epískar verksmiðjur, „leiða alþýðuna“ og einangra þjóðina er hvort eð er engin langtímalausn. Hún er hugleysi á borð við að hætta að mæta í vinnuna eða hitta fólk vegna þess að það er svo kalt úti. Spurningin er þá auðvitað hvernig hægt sé að hrinda þessari vinstristefnu í framkvæmd; hvernig hún geti orðið traustvekjandi valkostur fyrir lægstu lög samfélagsins – fyrir ómenntað, tekjulágt verkafólk á landsbyggðinni. En nú er ég komin dálítið út fyrir efnið. Þetta hefur ekki nema að takmörkuðu leyti með forsetakjörið að gera. Andri Snær verður góður forseti vegna þess að hann lítur ekki á það sem hlutverk sitt að standa vörð um veröld sem var heldur þá veröld sem verður – og hann er maður sem gæti fóstrað slíkar breytingar ef þær ættu sér stað, frekar en að hann yrði gerandi eða katalysti. ÓRG er forseti veraldar sem hefur verið og er kominn tími til að renni sitt skeið – hann er valdafursti frá vandræðalegasta pólitíska skeiði 20. aldarinnar. Aðrir verða líklega ekki forsetar úr þessu. Og það var sem sagt einhver að dingla.
28. apríl, #Ljóðafimmtudagur
Ljóð eiga rætur sínar að rekja til hefðar sem tók sig (að mestu) frekar alvarlega. Merkilegt nokk voru það einhvers konar sagnamenn – þeir sem lærðu hómerskviður og annað álíka utanbókar – sem stýrðu ferðinni. Og tól ljóðlistarinnar, það sem gerði ljóðin að ljóðum, það er að segja hljóðin (rím, stuðlar, taktur), voru bæði strangir húsbændur, fegrandi og praktísk, þau einfölduðu fólki að muna langa bálka og gerðu þá þægilegri áhlustunar, hreinlega estetískari. Þau voru þokkafull, með mikla undiröldu. Þetta er auðvitað einföldun einsog allar tilraunir til þess að fella þúsundir ólíkra hefða saman í þann eina alþjóðlega meginstraum sem við eigum í dag, því hversu sem hann annars kvíslast erum við í grunninn öll hluti af sama fljótinu – og það er ekki endilega víst að svo hafi alltaf verið. Það er heldur ekki alltaf einfalt að segja til um hvernig heimurinn hafi litið út einu sinni – hvernig t.d. fólk hafi hanterað hómerskviður, hvort það hafi verið meira einsog við hanterum þjóðsöngva, af innilegri virðingu, eða einsog við youtubemyndbönd, að við berum þau á milli til að hlæja (hugsa sér samt ef maður þyrfti að læra youtubemyndböndin utan af; guði sé lof fyrir tækniframfarir / sic transit gloria mundi). Það hefur síðan stundum slegið mig, og hefur ekkert með ljóðagerð að gera, að skáldsagan á uppruna sinn í verki – Don Kíkóta (um þetta er engin almenn sátt, en mesta sáttin sem hægt er að finna þó) – og það er verk sem einkennist fyrst og fremst af stjórnlausum fíflaskap. Don Kíkóti er bókmenntaverk sem á sér félagslega samsvörun í því að ganga um í heimskulegu kokteilboði, ullandi og frussandi með báðar löngutangir á lofti. Sem slíkt mjög fyndið – frábær bók – en í raun tilbreytingarlítið diss. 800 blaðsíður af sama aulabrandaranum. (Og ég sem sagt elska þessa bók). Skáldsagan mátti líka þola það í fleiri hundruð ár að vera óvinsæla bókmenntaformið. Meðal annars vegna þess að hún krafðist markaðar – takk, kapítalismi – sem gat fjöldaframleitt drasl (þ.e.a.s. prentað bækur og dreift þeim víða) og var lengst af ekki til staðar. Það sem Ford gerði fyrir bílabransann gerði Penguin síðan um svipað leyti fyrir bókabransann. Penguin framleiddi ódýrar kiljur sem fólk keypti í massavís á sama tíma og fólk hafði meiri ráðstöfunartekjur og þar með komst fólk í tæri við lengri bókmenntaverk sem ekki var hægt að leggja á minnið og sem maður las kannski ekki nema einu sinni. Á norðurlöndum spiluðu sósíalistar líka rullu – Rauðir Pennar, bókaklúbbar, bókasöfn o.s.frv. Það var talsvert meiri metnaður fyrir því þá að tilheyra alþýðunni og þjóna henni en í dag, þegar menntamenn vilja helst bara gleðjast yfir skoðanakönnunum sem sýna að ómenntað fólk (og fátækt, en það er ekki lögð jafn mikil áhersla á það) „kjósi vitlaust“ (því það staðfestir „yfirburði“ menntamannanna). Kiljubyltingin hefur enn ekki átt sér stað á Íslandi, sem auðveldar margt – allir frá höfundum að prentsmiðjum græða meira á dýrum bókum en ódýrum – en flækir annað. Fátækt fólk kaupir til dæmis síður bækur og jafnvel þótt það geti umgengist bækur með hjálp bókasafna – sem eru miklar fyrirmyndastofnanir – þá skilst mér að allar rannsóknir sýni að fólk sem elst upp á bókaskápalausum heimilum sé síður líklegt til þess að lesa sjálft (það að mamma sé alltaf með þrjár nýjar og nýjar bækur á náttborðinu, sem hún les á hverju kvöldi þegar börnin eru sofnuð, spilar sem sagt litla rullu). Það hefur þá félagslegar afleiðingar á nokkrum kynslóðum – fólk fer að sjá sig sem bókalaust fólk – og ef eitthvað er að marka þá mýtu að á öllum íslenskum verkamannaheimilum hafi mikið verið lesið í eina tíð, held ég að þess sjái nú þegar talsvert stað, t.d. í lestrarhæfiskönnunum. Ég er komin svolítið út í buskann (ég ligg enn á sjúkrahúsinu og sýnist að ég fái kannski aldrei að fara heim, en ég er samt ekki á neinum verkjalyfjum – bara ósköpunum öllum af sýklalyfjum – kannski svolítið ringlaður). En hvar, sem sagt, var ég? Ljóð ferðuðust með munnmælum, ekki bara vegna þess að þau voru stutt (sem þau voru oft), heldur líka vegna þess að þau voru beinlínis smíðuð með það fyrir augum að það væri auðvelt að bera þau á milli fólks og þurftu þess vegna alls ekki á markaðnum að halda. Það hefur meira að segja verið reiknað út að þau stríði gegn markaðnum – einföld, venjuleg pappírsörk er vara sem borgar sig að selja í heildsölu, ef maður á mikið af henni á lager getur maður komið henni í ritfangaverslanir og selt fyrir gróða; prenti maður ljóð á pappírinn snýst dæmið við, þá skilar reksturinn undantekningalaust tapi; ergo, ljóðlistin eyðir peningum, tortímir mörkuðum. Viðskiptamódelið er enn svipað – ljóð berast um með munnmælum, þannig lagað. Þeim er dreift á twitter á #ljóðafimmtudagur, póstað á vefsíður, birtast á Facebook, í YouTubemyndböndum o.s.frv. Sem eru munnmælin á minnislausum tímum. Ljóð gleymast, rifjast upp, gleymast o.s.frv. Margt er drasl, margt er gott, sumt ratar á endanum í bækur. Ég hef það á tilfinningunni að færri og færri ljóð birtist á prenti – það er í það minnsta satt um dagblöð (það voru alltaf ljóð í Lesbókinni, oft vond ljóð, en samt ljóð), sennilega um tímarit og hugsanlega um bækur. Að vísu er markaðurinn þá auðvitað búinn að finna leið til þess að græða á ljóðum – ég held að Zuckerberg tapi a.m.k. ekkert á Facebookfærslunni manns, þótt maður kalli hana ljóð. Leiðin er þá að prenta þau bara ekki. Eyðileggja ekki fullkomlega markaðsvæna hvíta pappírsörk með verðlitlu hrafli. (Ástæðan fyrir þessu með pappírsörkina er síðan auðvitað sú gamla og margsannaða klisja að fólk vill heldur skrifa ljóð en lesa þau; fólk eyðir pening í að kaupa hvíta pappírsörk til að prenta ljóðin sín svo það geti lesið þau á upplestrum, en minni pening í bækur hinna sem eru líka að lesa).