Uppákomur á næstunni (uppfært 16. nóv)

Ég hef eitthvað verið að reyna að skipuleggja upplestra á næstu vikum. Þetta er það sem er komið. Ásamt Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu) – sem skrifaði Í huganum heim.

29. október: Bókakaffið í Bolungarvík Klukkan 20.
30. október: Gamla bókabúðin á Flateyri. Klukkan 15.
4. nóvember: Simbahöllin á Þingeyri. Klukkan 20.
5. nóvember: Bókhlaðan (Eymundsson) á Ísafirði. Klukkan 17.
6. nóvember: Hópið, Tálknafirði. Klukkan 16.

8. nóvember: Upplestur í Tónlistarskóla Ísafjarðar með hljómsveitinni Sjökvist.

12-13. nóvember verð ég að lesa ljóð í Bratislava – á Ars Poetica hátíðinni (sem kemur fyrir í mýflugumynd í Einlægum Endi, reyndar). Vikuna þar á eftir verð ég í Reykjavík. AFLÝST 17. nóvember – Bókakonfekt Forlagsins (sennilega í Rúblunni á Laugavegi 18 – gæti trúað að það byrji 21) AFLÝST 20. nóvember – Bókamessan í Reykjavík. Ég verð við afgreiðslu í bás Forlagsins frá 16-17 og tilvalið að mæta ef maður t.d. vill fá áritun eða eitthvað. FÆRT Á NETIÐ 20. nóvember á Bókamessunni í Reykjavík – panell með Fríðu Ísberg. „Rithöfundarnir Fríða Ísberg og Eiríkur Örn Norðdahl ræða nýútkomnar skáldsögur sínar, Merkingu og Einlægur Önd, sem hvor á sinn hátt fjallar um samspil útskúfunar, skammar, sektar og sakleysis.“ Kl. 15.00 í Rímu. 25. nóvember – Höfn í Hornafirði. Þar verð ég í fögrum félagsskap kollega minna. Nánar um þetta síðar. 27. nóvember – Opin bók á Ísafirði – einnig í fögrum félagsskap. 2. desember: Jólabókadagskrá Bókasafns Hafnarfjarðar. 19.45 10. desember – Útgáfuhófið. Þarna ætla ég að binda endahnút á jólabókaflóðið, fyrir mína parta. Það verður í Dokkunni á Ísafirði. Boðið verður upp á einhvers konar tónlistarskemmtun, a.m.k. eina ritlistaræfingu, dálítið af fríum bjór og svo er útlit fyrir að bróðurpartur gesta fái að taka heim með sér baðönd og hugsanlega líka múrstein. En það er allt í skoðun.

Endur, fyrir löngu

Í dag eru fjórar vikur frá því Einlægur Önd kom út og ef frá er talin umsögn bókavarðarins á Höfn í Hornafirði, sem er að vísu mætur maður og var mjög ánægður með mig, hefur bókin ekki fengið mikil viðbrögð. Með hverjum deginum sem líður verð ég meira og meira stemmdur einsog maðurinn í sögunni um tjakkinn . Svona grínlaust þá held ég að þetta sé nú samt allt að fara í gang. Ég fór í viðtal í Bókahúsinu í gær, í Kiljunni áðan og fer og hitti fulltrúa Víðsjár á morgun. Ég verð meira að segja í Kveik í kvöld, og þótt ég sé ekki að tala um bókina þar er ég samt líka að því, í einhverjum yfirfærðum skilningi. Svo hef ég líka loksins farið að „heyra í fólki“ á síðustu dögum. Fram að því fannst mér bara næstum einsog þetta væri einhver misskilningur, ég væri ekkert búinn að gefa út bók, hún væri bara enn á leiðinni – og hafði ég þó lesið upp úr henni oft og selt mörg eintök sjálfur. Kannski skýrist þessi undarlega þyngdarleysistilfinning líka bara af fremur hamslausu verkjalyfjaáti vegna hnésins. Ég haltra um með staf og hatt í íbúfenskýi. Á morgun fer ég í segulómun. Mig grunar að það verði fremur góðar fréttir en slæmar – hef góða tilfinningu fyrir því að þetta sé allt að batna. Rétt í þessu bárust þau boð að búið væri að aflýsa eina upplestrinum mínum í borginni. Bókakonfekt Forlagsins sem átti að vera á Laugavegi 18, þar sem Forlagið er einmitt með nýja búð, hefur verið blásið af. Jæja.

Hvað verður um baðendurnar ef útgáfuhófinu verður aflýst?

Ég er á Heathrow. Það eru 20 mánuðir síðan ég flaug á milli landa síðast. Að hluta helgast það af því að ég tók Norrænu bæði til og frá meginlandinu þegar við bjuggum í Svíþjóð – Nadja og krakkarnir flugu aðra leið. Og svo hefur bara af einhverjum orsökum verið mjög lítið um ljóðahátíðir og bókamessur síðustu misserin og verður sennilega nokkuð áfram. Það er í öllu falli búið að aflýsa bókamessunni í Reykjavík – sennilega verður eitthvað af viðburðunum haldnir rafrænt. Í streymi. Mér þætti mjög leiðinlegt ef þið horfðuð ekki á öll á samtal okkar Fríðu Ísberg í þessu streymi en mér verður sjálfum næstum flökurt bara af því að heyra orðið „streymi“ svo ég skal alveg skilja það ef þið ákveðið bara að taka slátur eða læra loksins vinnukonugripin eða föndrið jólagjafir eða eitthvað. Frá því svona 2008 hef ég sennilega farið að meðaltali eitthvert einu sinni í mánuði. Eða meira. Árið 2013 bjó ég meira og minna í bakpokanum mínum, sem gaf sig einmitt rétt fyrir covid eftir áralanga dygga þjónustu. Bara það ætti að hækka meðaltalið hressilega. En síðustu tvö lækka það mjög aftur. Síðasta ferðin var í febrúar 2020 og þegar ég kom heim lagðist ég flatur í flensu í fjórar vikur – aflýsti einum viðburði (sem er búið að bjóða mér á aftur, rétt í þessu – Atlantide í Frakklandi) og þegar ég steig á fætur var veröldin öll önnur. Í stað þess að túra heiminn (eða allavega næstu nágrannalönd) stofnaði ég hljómsveit með börnunum mínum. Hún heitir Sjökvist og við lékum á okkar fyrstu tónleikum í fyrradag – á undan og eftir stuttum upplestri úr Einlægum Endi/Önd. Það var sturlað stuð og ég hélt ég myndi springa úr stolti. Mér finnst einsog þjóðareinkenni fólks hafi hugsanlega skerpst á þessum einangruðu 20 mánuðum sem eru liðnir. Íslendingarnir á ferðalagi eru meiri Íslendingar á ferðalagi, einsog Bretarnir og Ameríkanarnir. Einn Íslendingur var (sennilega) fullur í innrituninni í morgun, rosa hress, talaði við alla. Það gerðu Ameríkanarnir í covid-testinu í gær líka – nema þeir voru edrú og alveg fram úr hófi „viðkunnanlegir“ við allt og alla í kringum sig. Ameríkanar eru voðalega hrifnir af mannlegum samskiptum. Síðan var breskt par á flugvellinum í morgun – rúmlega tvítug, bæði svolítið í holdum, hún í þröngu með mikið bert á milli og hann bara með grímuna á nefinu (ath. ekki yfir munninum – bara yfir nefinu, einsog hann vildi ekki byrgja bjórgatið). Eitt íslenskt B-seleb með grímuna á hökunni, einsog hann óttaðist að almúginn bæri ekki kennsl á sig. Ein íslensk stelpa sem sagðist ekki þekkjast í andlitsskannanum af því myndin í vegabréfinu hefði verið tekin „fyrir nokkrum varafyllingum síðan“. Og hamborgarinn sem ég fékk hér áðan var bara ofeldaður kjöthleifur í þurru brauði sem molnaði þegar maður tók það upp – alveg einsog maður fékk alltaf fyrir 20 árum! Áður en hipstermetnaðurinn og glóbalisminn þurrkaði út allan mismun. Í flugvélinni áðan voru farþegar minntir sérstaklega á að í neyðartilfelli þyrftu þeir fyrst að taka niður andlitsgrímurnar áður en þeir settu upp öndurnargrímur. Það þótti mér svolítið fyndið en áttaði mig á því að kannski fattaði fólk þetta ekki og margir köfnuðu og það er auðvitað ekki fyndið, það er harmleikur. Það eru ennþá fjórar og hálf klukkustund þar til flugið mitt til Vínar fer. Mér finnst líklegt að ég verði sóttur – giggið er í Bratislava – en ég hef svo sem ekki spurt. Annars er ég pínu blúsaður. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Svaf lítið í nótt, fyrir flugið; það er leiðinlegt að vera haltur í biðröðum og öryggistékki; venjubundin bókaflóðskvíði og svona. Ég er búinn að gera heilmikil plön fyrir útgáfuhófið mitt en mér sýnist fremur hæpið að af hófinu verði – það er allt að loka. Baðendurnar eru til dæmis komnar. Hvað á ég að gera við endurnar ef það verður ekkert útgáfuhóf? Þær þrífast ekki í streymi, frekar en ég.

„Gerðu heiminum greiða og lestu þessa bók“

Ritdómur birtist í dag á síðu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Þar segir meðal annars: Það er stóra spurningin hvort rétt sé að kalla Einlægan Önd hugrakka, og/eða metnaðarfulla bók ef um leið er sagt að hún sé bæði bráðnauðsynleg og líka í þeirri merkingu að hún gæti einhvernveginn ekki verið öðruvísi en hún er. Og enn fremur. Í bókinni er verið að afbyggja höfundinn um leið og ritverkið, reynt að rýna í gagnvirknina (jafnvel meðvirknina) á bakvið skáldskaparferlið – hvernig efniviðurinn verður til í meðförum hinna mörgu höfunda verksins – og sérstaklega hvernig höfundur horfir á höfundinn horfa á höfundinn stuðla að framvindunni sem knýr fram verkið. Og ekki síst: Gerðu heiminum greiða og lestu þessa bók. Dóminn í heild sinni má lesa hér.

Akkilesarhnéð

Ég er kominn í veikindaleyfi. Fór í körfubolta í gærkvöldi – gegn betri vitund, í fyrsta skipti í 25 ár – og þegar það voru 2 mínútur eftir rústaði ég á mér hnénu. Það var annað hvort það eða fingurnir. Það á enginn – nema í besta falli Zlatan – að leika boltaíþróttir eftir fertugt. Þetta gerðist þegar ég stökk upp á miðjum velli – fjarri öðrum leikmönnum – til þess að ná bolta sem var á leiðinni yfir mig. Ég var að hlaupa á ská afturábak og lenti líka þannig á talsverðum hraða – það kom slinkur á hnéð og ég hrundi í gólfið með harmkvælum. Leikurinn stoppaði ég og ég haltraði út af, setti upp fótlegginn, og fannst mjög fljótlega að kannski væri ég að gera mikið úr engu. Sársaukinn fjaraði hratt út og hnéð virtist virka einsog það á að gera. Leikurinn hófst aftur, við töpuðum (held ég, ég var að hugsa um annað) og síðan ætlaði ég að sýna strákunum hvað hefði gerst og þá – við nánast ekkert átak – gaf hnéð sig aftur. Þá áttaði ég mig á því að það var undarlega valt. Ég fór varlega í sturtu, Háli fylgdi mér svo heim og ég tók bílinn til að sinna tveimur einföldum erindum. Kom svo aftur heim, gekk frá íþróttafötunum mínum og hrundi svo bara inni í þvottahúsi. Þurfti að kalla á hjálp. Aino kom og náði svo í mömmu sína sem hjálpaði mér upp í sófa. Ég komst sjálfur í rúmið síðar um kvöldið og fór niður eftir verkjalyfjum og kuldapakkningu í nótt, þegar ég gat ekki sofið, og gat bjargað mér um morgunmat og kaffi áðan. Ég reif kálfann tvisvar á hlaupum í ár. Fyrst í vor og síðan í sumar. Það var eiginlega ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka mig svolítið í gegn. Síðustu tvo mánuði hef ég verið duglegur í ræktinni og jóga – látið óhollustu að mestu vera – og hef bæði styrkst og lést mikið. Og átti enn mánuð eftir. Planið var að láta af meinlætinu þegar ég héldi mitt síðbúna útgáfuhóf, 10. desember. Ég reyndi að athuga með að hitta lækni en það er enginn tími laus fyrren undir lok mánaðarins. Mér finnst einhvern veginn yfirdrifið að vera að biðja um röntgen á svona skaða eftir mánuð. Mér skilst að vísu að svona nokkuð geti tekið langan tíma en ég vona nú samt að eftir mánuð verði þetta a.m.k. á réttri leið af sjálfu sér (og með léttum æfingum). En ef ég bíð og bóka ekki tíma og þarf hann eftir mánuð þá þarf ég væntanlega að bíða í annan mánuð? Þessi mánuður verður nú eitthvað líka. Ég er með nokkra upplestra nú í vikunni og svo er ég bara farinn af stað – fyrst til Slóvakíu og verð svo í Reykjavík. Það hefði verið ákjósanlegra að vera sæmilega á sig kominn. Sem ég var! Í gær var ég sterkur, fótfrár og léttur á mér og nú er ég örvasa. Ég ætla að rölta til pabba á eftir og fá hjá honum staf. Annars bættist við eitt gigg hjá okkur Diddu á Tálknafirði á laugardag. Og það er búið að útfæra tónleikagiggið í Hömrum – við krakkarnir leikum tvö lög og ég les smá og það verða veitingar. Mánudag klukkan átta. Æfingar standa yfir. Ég les og leik sitjandi.

Sögulegir viðburðir

Ég hef vanið mig á að horfa á Kiljuna yfir morgunmatnum á fimmtudögum. Í gegnum tíðina hef ég nú bara litið á hana þegar mig langar að sjá eitthvað tiltekið viðtal eða tiltekna umfjöllun – ég horfi mjög lítið á sjónvarp þar sem ekki er beinlínis verið að segja mér sögu. En upp á síðkastið hef ég tekið kiljuna með granóla og kaffibolla þegar börnin eru farin í skólann og Nadja í vinnuna. Það er bara frekar næs. Í morgun (eða í gærkvöldi, þá) var góður og vel verðskuldaður dómur um nýja skáldsögu Fríðu Ísberg, Merkingu. Og svo var skemmtilegt viðtal við Hörpu Rún Kristjánsdóttur um sína bók, sem ég er spenntur fyrir, ekki síst öllu kynlífinu í sveitinni, mér finnst allt svoleiðis alveg æðislegt. Harpa virðist líka vera nágranni bróður míns, sem á heima á Hróarslæk undir Heklurótum. Ég reyndi að gúgla bænum hennar til að sjá hvort þetta væri alveg handan hornsins en fann ekkert út úr því. Næst verð ég ábyggilega farinn að líta í Íslendingabók til að vita hvort rithöfundarnir í Kiljunni séu skyldir mér. Guðni Elísson mótmælti því í viðtali við Fréttablaðið að HMS Hermann væri Hermann Stefánsson. Ég ætla ekki að rífast við höfundinn – enda kemur honum minn lestur í sjálfu sér lítið við, undarlegt að vera rétt byrjaður á bók og strax kominn með rithöfundinn inn á gafl hjá sér að leiðrétta mann. En ég held að ef Guðni vildi ekki að maður ruglaði saman Hermanni og Hermanni þá hefði honum verið í lófa lagið að láta Hermann sinn ekki búa í sömu kjallaraíbúð og Hermann hinn. Jón Bjarki og Hlín, vinir mínir, litu í heimsókn á dögunum og sýndu myndina sína – sem Jón leikstýrði og Hlín gerði tónlist við og framleiddi. Hálfur Álfur heitir hún og fjallar um afa Jóns Bjarka og leið hans inn í álfa- og eftirheima. Það er erfitt að lýsa henni svo vel sé – afinn er svo sérstakur maður og stemningin í myndinni líka sérstök. Skemmtileg, falleg og sorgleg eru allt of víðtæk orð en sennilega kemst maður ekkert nær því nema með einhverjum ritgerðum. Það var afar gaman að hafa þau í heimsókn. Svo var ekki síður gaman að hafa gengið sem kom á ráðstefnuna „Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða“ hérna á síðustu helgi. Þar var einmitt umræddur Hermann Stefánsson, og virtist alls ekki með böggum hildar (einsog áðurnefndur Guðni hefur lýst honum í fjölmiðlum). Birna Bjarnadóttir var þarna líka – hún er einhvers konar skríkjandi náttúruafl og gæðir allt í kringum sig lífi. Þröst Helgason hafði ég varla hitt nema í mýflugumynd áður og það var gaman að kynnast honum. Öðrum kynntist ég minna en náði að hlýða á áhugaverð erindi Árna Heimis og Johnny Lindholm um Ólaf á Söndum. Sem orti meðal annars: Oft vill því mín öndin angra mig,
því verðugan hefndarvöndinn hún veit á sig,
sturlan á hana stríðir,
straffinu við hún kvíðir. Sem mér fannst auðvitað kjarna sálarástand mitt ágætlega í miðju jólabókaflóði. Ég spurði málfarsráðunauta mína á Facebook hvernig þeir teldu best að fallbeygja titil bókarinnar minnar. Það er enginn í bókinni sem heitir Einlægur Önd – en aðalsöguhetjan, Eiríkur Örn (sem á EKKERT skylt við mig, þetta er sannarlega engin lykilskáldsaga og ég get sannað það með drögum frá 1835), er uppnefnd Eiríkur Önd á einum stað. Flestir virðast vera á því að Önd eigi að beygjast einsog hjá Andrési (Önd/Önd/Önd/Andar) – ætli það sé þá ekki trakterað einsog ættarnafn? En það er auðvitað staðgengill millinafns og spurning hvort það eigi þá að beygja það einsog Örn – Önd/Önd/Endi/Andar. Svo er það Einlægur. Bent hefur verið á að jafnan þegar lýsingarorð verði að nafnorðum taki þau nafnorðsbeygingu en ekki lýsingarorðsbeygingu. Þannig sé talað um hestinn Rauð, en ekki hestinn Rauðan. Það er hins vegar freistandi að segja frá „Einlægum Endi“ þótt ekki sé nema vegna þess að endirinn á auðvitað að vera einlægur (og er það). Sjálfur hallast ég að því að beita blandaðri þverfaglegri nálgun á þetta og segja: Einlægur Önd Einlægan Önd Einlægum Endi Einlægs Andar En ég er ekki einu sinni viss um að ég sé sammála sjálfum mér í þessu. Það hafa bæst nokkrar uppákomur á bókaflóðsdagatalið . Við Didda, sem ætlum annars í nágrannabæina, ætlum að svara eftirspurn og hitta líka lesendur á Ísafirði. Það verður í Bókhlöðunni (Eymundsson) föstudaginn 5. nóvember klukkan 17. Mér var boðið að koma og lesa upp í tónlistarskólanum með því skilyrði að ég tæki með mér hljómsveitina mína, Sjökvist, og við lékjum tvö lög, eitt á undan og eitt á eftir upplestri. Fyrir þá sem ekki vita það er ég í hljómsveit með börnunum mínum, Aram og Aino. Þau spila á bassa og trommur og syngja og semja en ég útset og spila á gítar. Hljómsveitin hefur aldrei komið opinberlega fram, svo þetta er sögulegur viðburður. Við Fríða Ísberg verðum saman í panel á Bókamessunni í Reykjavík, 20. nóvember, klukkan 15 í Rímu. Við ætlum ekki að lesa upp heldur ræða um bækurnar okkar – það er eitthvað af sameiginlegum þráðum sem okkur tekst vonandi að rekja saman. Mér var boðið að koma að lesa í Jólabókadagskrá Bókasafns Hafnarfjarðar. Það er 2. desember klukkan 19.45. Þegar ég skrifaði upp viðburðadagatalið var ég nýbúinn að líma einhverjar endur inn á Íslandskort þegar kápuhönnuðurinn snjalli, Jóhann Ludwig, hafði pata af því að ég væri að fara á rand og sendi mér – óumbeðinn og þess óvitandi að ég væri að gera þetta – þessa fallegu mynd. Sem fór svo auðvitað með viðburðadagatalinu. Annars er allt ágætt að frétta. Ég er pínu úttaugaður af kaffidrykkju og tölvupóstsendingum og því öllu saman. Skrifstofustörfum. Það er líka flensa á heimilinu sem gerir allt brölt aðeins brattara. En annars bara óvenju góður.

Einlægur Önd komin í búðir!

Nýjasta skáldsagan mín, Einlægur Önd, er komin í allar helstu bókabúðir. Þá er hægt að kaupa hljóðbók og rafbók á heimasíðu Forlagsins. Hér er líka hljóðdæmi úr upphafi bókar, fyrir forvitna. Frá útgefanda: Í skáldsögunni Einlægur Önd leikur Eiríkur Örn Norðdahl sér á mörkum skáldskapar og veruleika í umfjöllun um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu. Launfyndin skáldsaga um rithöfundinn Eirík Örn, sem hefur brennt allar brýr að baki sér, og sögu hans um Felix Ibaka frá Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði. Eiríkur Örn Norðdal hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir bækur sínar, hér heima og erlendis, sem jafnan eru nýstárlegar og ögrandi.

Troll: „Un chef-d’œuvre“

Norddhal nous livre ici un roman explosif, drôlement cruel et cruellement poignant, sur les excès idéologiques des sociétés contemporaines, sur la volatilité anonyme des réseaux sociaux et sur les absurdités morales qui imprègnent nos sphères les plus intimes. L’auteur est un franc-tireur qui semble tirer à l’aveugle sur la foule, mais qui qui vise entre les yeux des contradictions et de l’hypocrisie sociale du xxie siècle. Un chef-d’œuvre qui n’épargne rien ni personne. Nordique Zone Livre sur Troll .