Tagínulán

Ég fékk tagínu í jólagjöf. Sem þýðir að það verður einhvers konar berbaþema hérna um áramótin. Í kvöld verða hins vegar jólaafgangapizzur. Það er hugmynd sem ég fékk rétt áðan og ég eiginlega lofa því að hún á eftir að eldast illa, þessi hugmynd meina ég, pizzurnar eldast sjálfsagt bara einsog þær gera venjulega. Ég fékk líka slangur af bókum. Djúpið eftir Benný Sif, bók um samskipti Íslands og Spánar í gegnum tíðina, nýju Jordan Peterson bókina (mamma þýddi hana) og sitthvað fleira. Svo fékk ég gjafakort á 9 líf og heimalagaða polkagrísi og Macintoshdollu frá litla trommaranum og tvíhliða málverk (með jólamálverki öðrumegin og hversdagsmálverki hinumegin) frá Aino. Og fjöltengi. Og rauðkál. Og margt fleira. Ég hef annars átt betri daga í eldhúsinu. Síðustu daga hef ég verið lasinn og haltur – eða, haltur lýsir því eiginlega ekki, ég er bara eilíflega þreyttur í hnjánum. Bæði því krossbandslausa, sem er enn að þjálfast upp, og hinu sem ber þá hitann og þungan af burði mínum daginn út og inn. Og fór einhverjar styttri leiðir til að hlífa mér. Stressaði mig minna en ég hefði kannski þurft að gera. Hangikjötið sauð ég sennilega of lengi. Það var allavega ólseigt. Steikti mörg laufabrauðanna of stutt líka (og brauðið sem við keyptum í bónus stenst ekki gæðasamanburð við brauðið sem við keyptum alltaf í gamla bakaríinu). Franskbrauðið bara hefaðist ekki og fór í ruslið (átti bónusfranskbrauð sem var þá með laxinum). Gróf aldrei lax, keypti bara. Graflaxasósan varð pínu beisk – góða repjuolían gerir þetta stundum þegar maður hrærir hana, ég man það alltaf of seint. Svipuð sósan í sinnepssíldinni var miklu betri. Súkkulaðifondantarnir gusu allir fyrir tímann. Rækjukokteillinn var samt mjög góður og andaconfitið líka og jarðarberjasósan og mér skilst að vegan-hangikjötið hafi verið fínt. Sósurnar (hvíta með kartöflunum og brúna með öndinni) voru of þykkar. Sennilega er þetta nú samt ekkert stórmál. Maturinn varð góður. En stundum er flækjustigið aðeins of mikið, jafnvel þótt maður kaupi bara laxinn tilbúinn og sé ekki með neitt brjálæðislega flókið. Þetta voru of margir réttir og ég einfaldaði ekki nóg til að vega upp á móti orkuleysinu. Ég reiknaði auðvitað ekkert með því að verða lasinn – hrundi í rúmið 21. des og fór í PCR próf en þurfti svo að rísa úr rekkju 22. (covidlaus) til að díla við jólin og náði aldrei alveg heilsu aftur. Í gær var ég hvínandi þreyttur strax upp úr 21. Í dag sváfum við svo til hádegis. Það fór enginn fram úr fyrren 12. Ekki þannig að jólin hafi verið eitthvað ómöguleg. Ég var bara rólegur allan daginn að sinna matnum á þeim hraða sem ég réð við og naut síðan kvöldsins mjög mikið. Mamma og pabbi voru hjá okkur og allir voru í skýjunum. Maturinn var líka langt í frá ónýtur, þótt hann stæðist ekki væntingar mínar. Ég var bara þreyttur af því ég er haltur og lasinn. Í stað þess að lesa út í jólanóttina lá ég síðan með símann og gúglaði tagínuuppskriftir, staðráðinn í að gera betur á áramótunum. Finna eina eða í mesta lagi tvær (ef ég geri kjöt- og kjötlaust) traustar uppskriftir.