Tilvitnun vikunnar

The history of the sexual vanguard in America was a long list of people who had been ridiculed, imprisoned, or subjected to violence. So it was annoying to hear the hubris of technologists, while knowing that gadgetry or convenience in telecommunication was the easy kind of futurism, the kind that attracted money. A real disruption or hack was a narration that did not make any sense to us the first time it was told, that would provoke too much repugnance to show in a cell phone ad.
Emily Witt – Future Sex

Tilvitnun vikunnar

Inside this greater machine, things are not quite so cut and dried (or cut and pickled) as they have appeared in my experience. Each of us, in our own personal Factory, may believe we have stumbled down one corridor, and that our fate is sealed and certain (dream or nightmare, humdrum or bizarre, good or bad), but a word, a glance, a slip – anything can change that, alter it entirely, and our marble hall becomes a gutter, or our rat-maze a golden path. Our destination is the same in the end, but our journey – part chosen, part determined – is different for us all.
Iain Banks – The Wasp Factory

Tilvitnun vikunnar

„Ég bjóst við þessum móttökum“, sagði ófreskjan. „Allir hata þann sem á bágt, hversu mjög hljóta þeir þá ekki að hata mig, sem á meira bágt en allt annað sem lífsandann dregur! Jafnvel þú, skapari minn, fyrirlítur mig og vísar mér burt, þinni eigin sköpun, sem þú ert tengdur böndum sem aðeins losna við það að annar hvor okkar afmáist. Þú ætlar að drepa mig. Hvernig vogarðu þér að leika þannig með lífið? Gerðu skyldu þína við mig, og ég skal gera mína við þig og alla aðra. Ef þú gengur að mínum skilyrðum þá skal ég láta þig og aðra í friði, en ef þú neitar skal ég fylla vömb dauðans uns hann er mettur af blóði þeirra vina þinna sem enn eru á lífi.“
Frankenstein – Mary Wollstonecraft Shelley

Tilvitnun vikunnar

Ég sá eitt sinn sýn af gríðarmiklu landflæmi sem breiddist út marga kílómetra til sjóndeildarhringsins. Ég sveif hátt yfir og leit yfir landið úr lofti. Ég sá allt í kringum mig stóra lagskipta glerpíramída. Sumir voru litlir, stórir, sköruðust eða stóðu stakir en öllum svipaði til nýtísku skýjakljúfa. Þeir voru allir fullir af fólki sem leitaðist við að ná upp á efsta punkt á hverjum píramída. Eitthvað var þó yfir þeim punkti á sviði fyrir utan alla píramídana þar sem allt hitt kom saman. Þessi staðsetning veitti forréttindi því auga sem gat eða kaus ef til vill að svífa frjálst ofar öllum deilum eða átökum hinna og sem kaus að stjórna ekki neinum sérstökum hópi eða málstað en fara á hinn bóginn og á sama tíma út fyrir þetta allt. Þetta var athyglin sjálf, hrein og óheft, óbundin og vökul athygli sem beið eftir því að starfa þegar réttur tími og staður væri fundinn.
Jordan Peterson – Tólf lífsreglur, bls. 230-231

Untitled

Ég lauk við bókina í hádeginu. Ekki alveg í fyrsta skiptið en hugsanlega í síðasta skiptið. Ég á að vísu enn von á einhverjum athugasemdum – en ég var búinn að ákveða að klára þetta endanlega meðan ég væri enn á fertugsaldri og því lýkur víst á sunnudag. Ég pakka saman hérna í Krems á föstudag og fer til Svíþjóðar á laugardag til að fagna afmælinu með fjölskyldunni. Þangað til veit ég ekki alveg hvað ég á af mér að gera. Ég má víst ekki bara fara – hef skylduviðveru hérna, sem writer in residence út mánuðinn. Einhverjum tölvupóstum þarf ég að svara. Kannski er eitthvað að sjá hér í kring. Á morgun er Ísland-Króatía og á hinn er Svíþjóð-Mexíkó. Ég á enn eftir að fá mér vínarsnitsel – ætlaði að gera það áðan en fann ekki réttan stað svo ég frestaði því bara. Ég á líka eftir að fá mér sachertorte. Og hlaupa upp og niður Dóná – ég hef verið ansi duglegur við það. Ég er enn með slatta af bókum til að lesa – kláraði Wasp Factory eftir Iain Banks í gær (fimm stjörnu skáldverk – en ég veit ekki hvernig hún stenst samtímann) og er að dunda mér í gegnum The Man Who Invented Gender: Engaging the Ideas of John Money eftir Terry Goldie. Mjög áhugaverður maður hann John Money – hetja og skúrkur í senn, einsog ég kom inn á hér, og eftir David Reimer málið hafa allir reynt að hreinsa hendur sínar af honum, en það bara vill til að fingraför hans eru ansi víða og hann hafði mjög mikil áhrif á alla endurskoðun kyngervis á síðari hluta tuttugustu aldar. Meðal annars bara með því að vera þrár – og hafa stundum alveg rækilega á röngu að standa, en koma hugsunum og hugmyndum á hreyfingu. Ég byrjaði líka að horfa á Masters of Sex seríuna samhliða þessu. Það er óttalegt melódrama og einhvern veginn gengur þeim illa að kjarna nokkuð um vinnu Masters og Johnson – og mér skilst að einkalífið sé að miklu leyti tilbúningur. Rannsóknir þeirra og hugmyndir eru bara notaðar sem bakgrunnur fyrir hvert annað HBO-drama. Fínt sosum. Auk þess horfði ég á I Think That We Are Alone Now – sem er alveg botninn á tunnunni. Þetta er heimildamynd um tvo furðufugla – annar hverra vill til að er intersex – sem dásama einhverja eitíssöngkonu sem ég hafði aldrei heyrt minnst á og ímynda sér að líf sín verði fullkomin ef þau bara sannfæri hana um að byrja með sér. Þetta er ekki einu sinni sérstaklega áhugaverð innsýn í þráhyggju. Ma Vie en Rose, frönsk mynd frá 97, var nokkuð skárri. Hún fjallar um ungan strák sem vill vera stelpa og vandræðagang fjölskyldunnar í kringum það. Endirinn er svolítið skrítinn – einsog sé stefnt að hamingjusömum endalokum, og þau eiginlega orkestreruð, en svo eru þau svo half-assed eitthvað að maður dæsir bara. Ætla ekki að kjafta frá þeim samt. En annars líður myndin fyrir að vera svolítið millistéttar. Svo er ég reyndar búinn að horfa á alveg fáránlega mörg myndbönd um gítara – aðallega á vegum tveggja fígúra sem kalla sig Chappers and the Captain og vinna við að nörda yfir sig. Gítarinn minn varð eftir uppi á vegg á Ísafirði, sem voru ótrúlega stór mistök. Þetta kemur að einhverju leyti í staðinn fyrir gítarrúnkið en ekki nærri nógu mikið. En í nótt ætla ég allavega að sofa og á morgun ætla ég að fara út í morgunmat – sennilega á afrískan stað að fá mér shakshuku. Veriði blessuð.

Tilvitnun vikunnar

Ég er […] settur á borgina eins og broddfluga á stóran og kyngóðan hest sem er í latara lagi sakir stærðar sinnar og þarf því eitthvað til þess að pipra sig upp. Mér virðist guðinn einmitt hafa sett mig þannig á borgina, þar sem sá er háttur minn að ég sest á yður, vek yður og vanda um við yður hvern um sig, allan daginn, án afláts og alls staðar. Sókrates – Málsvörn Sókratesar

Untitled

An einem Montag in Krems. Ég vaknaði furðu snemma miðað við hvað ég sofnaði seint – en ekkert sérlega snemma samt. Ég burstaði í mér tennurnar, fór og fann mér ljósritunarstofu niðri í bæ, prentaði út handritið – 338 A4 blaðsíður með góðum spássíum til að krota í – og fór svo á kaffihús og fékk mér morgunmat. Þegar ég var búinn að instagramma fallega nýútprentaða handritinu mínu uppgötvaði ég að hafði gleymt að taka með mér penna og fór að lesa bókina hans Jordans Petersons (sem mamma mín þýddi). Ég er sirka hálfnaður með hana og veit ekki hvort það er nokkurn sérstakan lærdóm af henni að draga enn, annan en að Jordan er klassískur íhaldsmaður og sem slíkum annt um að standa vörð um gömul gildi, fyrst og fremst hina kristnu fjölskyldu og hin skilgreindu hlutverk hvers og eins innan hennar. Hann notar trúarrit – ekki bara biblíuna – oft og iðulega til sönnunar á kenningum sínum um eðli mannsins. Nú er ég ekki frá því að slíkar bækur – sem og hin klassíska kanóna, það sem hefur „lifað af“ – veiti ákveðna innsýn í samfélagið en það er auðvitað fráleitt að gera þá innsýn að módeli fyrir framtíðina, eða einu sinni láta einsog bara vegna þess að þessar sögur og þessi módel séu til, þá séu þau góð. Félagslegi Darwinisminn sem sú kenning byggir á felur heldur ekki í sér að þau módel þurfi að vera eilíf – ef þau lúta í lægra haldi fyrir vælandi transkynjuðum réttlætisriddurum, einsog Jordan vill oft meina að sé hættan, þá ætti það í sjálfu sér (ef maður trúir á Darwinismann) að vera sönnun þess að family values módel hins kristna feðraveldis sé úrelt. Þá eru skringilegar mótsagnir þarna sem hann hefur enn ekki leyst úr um miðja bók. Til dæmis virðist hann í senn gefa í skyn að lúserar þjóðfélagsins eigi skilið að deyja út – eða, allavega að það sé „náttúrulegt“ að þeir geri það og „ekkert við því að gera“ – og að konur séu tíkur fyrir að leggjast ekki með þeim. Í nýlegu viðtali gerði hann því skóna að fjöldamorðingjar samtímans og hryðjuverkamenn þyrftu helst bara að giftast – og það þyrfti að finna fyrir þessa menn konur – en í raun væri það kannski óþarfa inngrip. Það væri einsog að þvinga lúserahumrana, með sína bráðnuðu beta-heila og lúpulegan líkamsburð, til þess að fjölga sér, þegar meiningin er augljóslega sú að þeir deyi út. Hryðjuverkin og ofbeldið er þá beinlínis skárra en að þeir fjölgi sér. Mér finnst líka ákveðin óútskýrð lína, og mikilvæg, hvar hið mikilvæga mótlæti – sem Jordan tignar, meðal annars í löngum „þegar ég var ungur gekk ég nakinn í skólann í 40 gráðu frosti og hríðarbyl“ kafla – þetta mótlæti sem gerir úr okkur alfakarla, all we can be, verður að mótlætinu sem brýtur okkur og bræðir í okkur humraheilann svo við verðum vælandi incel-lúserar með ekkert tilkall til mikilfengleika í heiminum annað en að sprengja í loft verslunarmiðstöðvar. Hvenær er mótlæti styrkjandi og hvenær er það bara niðurlægjandi? Það gengur ekki upp að það sem ekki drepi okkur geri okkur sterkari, á sama tíma og það geri okkur að lúserum. Að síðustu talar hann mikið um taóisma og yin og yang táknið – fyrir glundroða og reglu, fyrst og fremst, en táknið á auðvitað við miklu, miklu fleira – en gerir því svo iðulega skóna að glundroðann verði að uppræta að svo til öllu leyti. En yin og yang táknið er alls ekki það – það tjáir jafnvægið milli glundroðans og reglunnar og í taoískri kenningu tekur reglan ekki yfir glundroðann (sem er líka sköpunin) frekar en glundroðinn tekur yfir regluna. Á því er einfaldlega enginn hætta – enda eru ekki átök í yin og yang heldur samhljómur, harmónía. Jordan fer hins vegar með þau algerlega yfir í það sem hefur verið kallað vestræn tvíhyggja – og einkennist einmitt af átakahugsanahætti – og vill að við berjumst við glundroðann og gerir því skóna að reglan sé eðlilegt ástand. Það er svo sem margt að hugsa um þarna. En hann er svolítið meiri „kjaftaskur“ en ég hafði átt von á. *** Í gær horfði ég á La Piel Que Habito frá Almodóvar. Mikið ofsalega fannst mér hún falleg og sorgleg og erfið. Plottið er auðvitað dálítið súrrealískt – eða horror-fútúrískt og ýkt – en það kom mér á óvart að finna síðan dóma um hana þar sem hún er sökuð um að vera köld og fráhrindandi. Mér finnst alveg merkilegt hvað sumu fólki finnst erfitt að sýna bældum og reiðum söguhetjum samlíðan – jafnt þótt þær augljóslega logi af harmi og ógæfu. *** Annars er ég bara að lesa bókina aftur og aftur og taka við athugasemdum héðan og þaðan. 12 dagar í skil og ég er býsna kátur með þetta allt saman einsog raunar allir yfirlesarar hingað til. En það eru alltaf einhverjir díteilar sem má bóna og pússa.

Untitled

Ég hef stundum setið við skriftir í miklum hita og hugsa þá alltaf til lýsingar á Halldóri Laxness, sem var sennilega frá honum sjálfum komin, þar sem hann sat á Taormínu með penna í annarri hendi og flugnaspaða í hinni, í engu nema einglyrninu. Þá var hann að skrifa Vefarann. Hér í Krems við Dóná er ekki mikið af flugum, a.m.k. ekki í stúdíóíbúðinni minni, en það er mjög heitt. Ég þarf ekki heldur gleraugu og er svo siðprúður að ég fer ekki úr nærbuxunum við skriftir, sama hvað ég svitna, og ekki heldur giftingarhringnum – en allt annað fær að fjúka. Ég er með útsýni yfir Dóná sem rennur hér hjá hundrað metra í burtu og eitthvað lengra, uppi í hlíðunum, er slangur af kastölum. Hinumegin við húsið – hér eru íbúðir fyrir listamenn og „bókmenntahús“ bæjarins (ef þetta 20 þúsund manna þorp getur rekið bókmenntahús þá ættum við að ráða við eitt á Íslandi) – er helsta öryggisfangelsi Austurríkismanna. Þar bjó meðal annars, meðan hann lifði, hinn frægi vændiskonumorðingi Jack Unterweger, en nú er frægasti fanginn enginn annar en Josef Fritzl. Bara hérna hinumegin við götuna. Josef Fritzl. Það er svolítið spes tilfinning að vera svona nánast í kallfæri við hann. Það er mikill múr utanum útisvæði hinumegin við fangelsið og mér hefur stundum dottið í hug að maður gæti kallað til hans – fái hann nokkru sinni að fara út undir bert loft er það þar og hann myndi áreiðanlega heyra í manni. En hvað ætti maður að segja? Varla fer ég að tala um HM – Austurríkismenn hafa ekki komist á HM síðan 1998. Ég skila Hans Blævi þann 1. júlí. Sama dag verð ég líka fertugur. Í gær horfði ég á þá ágætu mynd The World According to Garp, sem gerð er eftir enn ágætari skáldsögu Johns Irving (og ein aðalsöguhetjan, Roberta Muldoon, er trans sem John Lithgow leikur í myndinni). Í þeirri mynd lendir hjónaband Garps og konu hans í heljarinnar vandræðum þegar þau verða miðaldra og gröð í unglinga. Hann heldur framhjá með barnapíunni og hún með nemanda sínum. Og haldiði ekki að það komi fram að þau, þarna þetta miðaldra, lífsleiða fólk sem reynir að ríða æskunni því það hefur glatað sinni eigin, séu ekki bara rétt svo þrítug? Hvað verður þá um okkur, sem verða fertug? Væri ekki bara miskunnsamast að moka yfir okkur strax? Okkur sem eru meira að segja of gömul fyrir gráa fiðringinn. *** Lokametrarnir í skáldsögu eru alltaf þungir. En spennandi. Skemmtilegir og ömurlegir. Maður dundar sér við að gylla sprungurnar, skreyta og laga – sem er gaman – og svitnar yfir öllum mistökunum sem maður hlýtur að vera að gera. Smávægilegar gloppur eru óhjákvæmilegar nema verkið sé mjög smátt að sniðum. En hvað ef manni yfirsést eitthvað ægilegt? Eitthvað sem ógnar sjálfu samhengi sögunnar? Maður starir og starir, breytir kommum í semíkommur (af því einsog Vonnegut benti á, reyndar með vanþóknun, þá eru semíkommur „transvestite hermaphrodites“ og því vel viðeigandi), fellir niður sviga, bætir inn punktum, færir til einstöku setningu, þurrkar svo út heilu kaflana og endurskrifar þá, og er almennt bara að fara á taugum. Kannski eyðileggur maður fleira en maður lagar. En hugmyndin er samt að laga fleira en maður eyðileggur. Ég er líka enn að lesa og horfa á efni tengt bókinni og held því nú sennilega áfram fram yfir útgáfu – allavega út haustið. Í gær kláraði ég Frankenstein. Það eru augljósar tengingar á milli verkanna – öll skrímsli (og tröll) eru afkomendur skrímslis Frankensteins (og þar með doktor Frankensteins líka). Ég hafði í huga að skoða bókina sérstaklega út frá frægri ritgerð Susan Stryker  My Words to Viktor Frankenstein above the Village of Chamounix: Performing Transgender Rage , þar sem hún talar meðal annars um kraftinn sem maður getur fengið út úr því að gangast við skrímslinu, verða skrímslið – og það er eitthvað sem augljóslega höfðar til Hans Blævar – en ég fann svo sem engan æðislegan vinkil á það mál allt saman. Þessir þræðir og þessar hugmyndir eru allar til staðar og það er bara óþarfi að ofgera hlutunum (þar erum við HB reyndar ósammála). Annars hef ég það svo sem fínt, þótt ég sé líka að missa vitið. Mollan bakar mann svo maður verður þrunginn doða, kvíða og vellíðan – pungsveittur og rjóður frá morgni til kvölds. Það erfiðasta hérna er að mér skuli ekki lukkast að sofa með viftuna í gangi – þar er dómadagssuðinu um að kenna. *** PS. Ég er að hugsa um að bæta við aukafærslum á miðvikudögum og föstudögum. Ein verður bara lag – ég á myndarlegan playlista tengdan Hans Blævi – og hin verður tilvitnun.