Untitled

Þetta var furðu viðburðarík vika miðað við hvað ég er eitthvað rólegur. Á miðvikudag hófum við Örn Elías Mugison upptökur á hljóðbókinni Hans Blær, þar sem ég syng og geri eftirhermur, á fimmtudag kom Hans Blær í búðir, á föstudag var sjálfur Hans Blævar dagurinn – dagurinn sem bókin gerist – og á laugardag birtist langt drottningarviðtal við mig á Vísi þar sem kvenréttindaskelfirinn Jakob Bjarnar jós mig svoleiðis lofi að mér verður sennilega aldrei aftur boðið í nein femínistapartí meðan ég lifi. Viðtalið var annars held ég ágætt. Og með því fylgir fyrsti kafli Hans Blævar á hljóðbók . *** Þessi vika fer í að undirbúa útgáfuhófið sem verður á laugardaginn næsta í nýopnuðu kaffi- og öldurhúsi vina minna Lísbetar og Gunnars. Það heitir Heimabyggð og er þar sem Langi Mangi og Bræðraborg voru áður. Og opnar raunar ekki sjálft fyrr en á fimmtudag. Þar verður boðið upp á ísfirskan Dokkubjór sem vill til að bróðir minn bruggar – þetta er dúndurglundur sem hefur hlotið mikið lof. Bókin verður á tilboði og ég ætla að árita bækur og spjalla um bókina og lesa upp úr henni. En aðallega ætla ég bara að reyna að skemmta mér og vera ekki taugaveiklað hrak. Farið hingað og merkið ykkur komandi – og segið vinum ykkar frá þessu. Eða í það minnsta vinum mínum. *** Annað sem gerðist í síðustu viku. Óratorrek kom út í Danmörku – Oratormonologer – og fór í prentun í Svíþjóð, þar sem hún heitir Oralorium. Nanna Kalkar og John Swedenmark þýða. Illska kom úr prentun á Spáni, Enrique Bernandez þýðir, og ætti að detta inn í búðir síðar í mánuðinum, einsog Króatíska útgáfan – sem ég veit hreinlega ekki hver þýðir. Svo fékk ég líka í hendurnar loksins DV Menningaverðlaunin mín, sem eru komin á grobbvegginn, það er nú ekkert eðlilegt hvað ég er mikill verðlaunagrís.