Íslenski draumurinn

Hvað segir það um mann ef maður hefur það að markmiði í lífinu að það leiti enginn til manns í vandræðum? Að maður beinlínis vilji vera náunginn í hverfinu sem enginn biður um bolla af sykri eða afnot af sláttuvél? Eða maðurinn í fjölskyldunni sem enginn myndi vilja gista hjá á ferðalagi? Vinurinn sem er aldrei beðinn um að hjálpa í flutningum? Foreldrið sem er aldrei beðið um að skutla? Bæjarbúinn sem er aldrei beðinn um að leggja hönd á plóg með eitt eða neitt – af því hann hefur lýst því yfir að hann muni ekki hjálpa, vandamál annarra komi honum ekki við? Þetta er svo undarleg afstaða að ef manni birtist svona illmenni í barnabók myndi maður dæsa yfir „boðskapnum“ – þarf í alvöru að troða því ofan í fólk að hluti af því að vera almennileg manneskja sé að leggja sitt af mörkum til þess að sem flestir hafi það bærilegt? Sem kallar á spurninguna: Hvaða barnabækur las eiginlega Sigmundur Davíð þegar hann var barn? Hvernig getur maður haft það að markmiði að enginn sæki um hæli á Íslandi? Eða í Danmörku? Danmörk og Ísland eru meðal ríkustu og öruggustu landa í heiminum og það eru 117 milljóns í vergangi vegna átaka sem má að stórum hluta rekja til pólitískra, efnahagslegra og hernaðarlegra ákvarðana sem voru og eru teknar á vesturlöndum, ákvarðana sem hafa gjarnan verið teknar til þess að viðhalda auðæfum okkar og áhrifum? Er þetta einu sinni umdeilt? Ég er ekki að segja frekar en nokkur annar að við eigum að taka á móti „öllum“ eða öllum sem vilja koma – sem eru ekkert einu sinni mjög margir, miðað við stærðina á hópnum öllum – en hvernig dettur manni í hug að það geti verið uppskrift að velgengni í stjórnmálum að gera út á að auglýsa kaldlyndi sitt og segjast bara ekki ætla að gera neitt? Að vandamál annarra séu ekki okkar vandamál? Hér er ekki til neinn helvítis sykur og sláttuvélin er ekkert leikfang og ekki komst þú til að hjálpa mér að flytja og þessi sófi er nú ekki gerður til að sofa á honum? Er það í alvöru „Íslenski draumurinn“ – að við læsum sveitabýlinu fyrir bágstöddu ferðafólki sem er að reyna að brjótast í gegnum blindhríðar heimsins? Hvernig getur uppspretta stolts – eða ættjarðarástar! – legið í að skilgreina sig út frá kaldlyndi og kjarkleysi, að maður ætli bara ekki að fást við vandamálin sem lífið kallar mann til þess að leysa? Stolt fær maður af afrekum sínum og það eru engin afrek merkilegri en að hjálpa öðru fólki að lifa mannsæmandi lífi. Af uppgjöf og kaldlyndi uppsker maður skömm – skömm annarra, sannarlega, en líka skömm á sjálfum sér. Sem er hugsanlega sýnu verra. Ekki að það séu fréttir að Miðflokkurinn sé fullur af … fyrirgefið orðalagið … getulausum aumingjum.

Vitleysuvandamálin

Ég hafði varla sleppt fingri af orðinu í gær þegar veðrið varð í alvöru dýrvitlaust. Nadja bað mig að sækja sig í vinnuna og ég keyrði sjálfur þessa 500 metra á hljómsveitaræfingu um kvöldið. Hefði nú sennilega gengið samt ef ég hefði ekki verið með hljóðfæri og magnara í fanginu. *** Einsog flest sem fólk sem hefur yfir höfuð áhuga á hugsunum sínum er ég að reyna að láta ekki Trump hertaka í mér heilann. Eða Miðflokkinn. Ég vil kannski samt nótera hérna fyrir sjálfan mig að það hvarflaði að mér í gær að sennilega upplifi kjósendur hans – eða þeir sem íhuga að kjósa þannig – opinskáa umræðu demókrata um það „hvernig eigi að ná til þeirra“ og „hvernig eigi að skilja þá“ sem niðurlægjandi annars vegar og sem loforð um að reyna að manipúlera þá hins vegar, þegar loksins takist að skilja þá. Trump virkar filterslaus – ég er ekki viss um að hann sé það, en hann virkar þannig, og fólk sem virkar filterslaust getur kallað á ákveðna tegund af trausti, jafnvel þótt það virki líka hálfstjórnlaust. Manni hlýtur að finnast maður sjálfur geta „séð í gegnum það“ og kannski er það þannig sem hann skapar þessa nánd við kjósendur. Ef við ímyndum okkur að við sætum við pókerborð með Harris og Trump, báðum í essinu sínu, myndi líklega allt óbrjálað fólk óttast hana frekar en hann – af því hún er augljóslega hæf, hún hefur augljósa sjálfsstjórn, er umkringd ráðgjöfum og fer eftir ráðgjöf þeirra. Það er það sem fólk á við þegar það hugsar um Trump sem „anti-establishment“. Það sér stjórnmálamenn sem andstæðinga sína – gerir jafnvel ráð fyrir því að þeir séu allir (jafn) óheiðarlegir. Þá er ekki betra að þeir virki góðir í að fela það. Og kannski er það grunntónninn í bandarískum stjórnmálum 21. aldarinnar: Fólk er ekki að kjósa sér þjóna vegna þess að það trúir því ekki að kerfið sé gert til þess að þjóna þeim; því hæfari sem frambjóðandi virðist, því líklegri er hann til þess að vera afsprengi kerfisins. Og kerfið sér það sem stærri, sterkari og verri óvin en týpur einsog Donald Trump. *** Í dag pantaði ég mér bók sem ég tók einu sinni á háskólabókasafninu í Þrándheimi. Það var haustið 2001. Howl: Original draft facsimile, transcript and variant versions, fully annotated by author, with contemporaneous correspondence, account of first public reading, legal skirmishes, precursor texts and bibliography . Ég var með hana til hliðsjónar þegar ég kláraði að þýða Ýlfur og ég hef oft hugsað út í ýmis atriði úr henni sem ég er ekki viss um að séu einsog mig minnir. Það er sérstaklega eitt atriði sem mig langar að slá upp og kannski deili ég því með ykkur þegar bókin kemur. En svo fannst mér líka bara að þetta væri bók sem ég ætti að eiga. Þetta er ein af bókunum í lífi mínu. Helst hefði ég viljað kaupa harðkápuna en hún kostar ríflega 200 dollara og ég kaupi of mikið af bókum til að leyfa mér að eyða 200 dollurum í eina – svo ég keypti kiljuna frá 2006.

Október í nóvember

Það er að gera vitlaust veður. Vindáttin er að vísu þannig að kannski lætur hún okkur hérna mest í friði. En það eru samt 13 m/s í spánni. Fjöllin skýla manni ekki frá veðurspánni. *** Í dag eru liðin 107 ár frá októberbyltingunni. Sem heitir þetta af því 7. nóvember er ennþá október samkvæmt gregóríanska dagatalinu. Sú saga er sennilega bæð of flókin og infekteruð til þess að hún verði smættuð niður í slagorðin sem hún þó er yfirleitt smættuð niður í – næstu 70 árin rúmlega fóru í að rífast um það hvort þetta hefði verið góð hugmynd eða ekki, framin af góðu eða vondu fólki með góðar eða vondar fyrirætlanir, eitthvað sem tókst einsog það átti að takast eða eitthvað sem fór hryllilega úrskeiðis, sitt sýndist hverjum og svo hrundu Sovétríkin og þar með lauk því rifrildi. En það hlýtur að vera óumdeilt að hún vakti með mörgum gríðarlegar vonir um að hægt væri að byggja réttlátari heim – og kannski aðeins umdeildara, en þó varla svo neinu nemi, er sú kenning að tilvist kommúnistabyltinganna hafi orðið til þess að tryggja verkamönnum í hinum kapítalísku löndum meiri velferð en annars hefði orðið. Að Sovétríkin, fyrst og fremst, hafi vakið ugg í brjósti iðjuhöldanna. Það voru líka margir sem mökuðu krókinn á kalda stríðinu. Máls og menningarveldið til dæmis – og þar með stór hluti íslensks bókamarkaðar, sem væri ekki einsog hann er í dag án … Stalíns. Svo var auðvitað braskað í kringum herinn. Verktakabransinn væri ábyggilega annar án Roosevelts. Báðir aðilar eyddu miklu fé í menningu – af því þeir vildu sýna hinum að þeirra menning væri æðri. Þannig lagði CIA m.a.s. talsvert fé í framúrstefnulistamenn af því þar á bæ ályktuðu menn að ef Rússar sæju hvað vestrænir listamenn væru flippaðir og róttækir myndu þeir fyllast öfund – og Rússar á móti lögðu jafnvel sömu öflum lið á þeirri forsendu að þeir gætu grafið undan vestrænum kapítalisma (sem var oft í samræmi við markmið framúrstefnulistamannanna sjálfra, og þegar það var það ekki, var markmið þeirra oft óreiða sem hefði gert það hvort eð er). Sögukennarinn minn í menntaskóla, Björn Teitsson, var góður og gegn framsóknarmaður – afar vandaður maður og svo fróður að við gerðum okkur leik að því að reyna að standa hann á gati. Það tókst einu sinni: hann vissi ekki hvað Ku Klux í Ku Klux Klan stóð fyrir – en sló því upp í frímínútum (og ekki á netinu, sem var ekki sú alfræðiorðabók 1996 sem það átti eftir að verða síðar). Ku Klux er sama og Kyklos – hringur eða hópur – og Ku Klux Klan er tátólógía, þetta þýðir bara klansklanið, fjölskyldufjölskyldan. Allavega – Björn sagði einhvern tíma að það væri erfitt að útskýra það eftirá en að á áttunda áratugnum, þegar Kína og Sovétríkin unnu hvern stórsigurinn á fætur öðrum og meira en helmingur jarðarbúa lifði við sósíalíska stjórn, hefðu liðið mörg ár þar sem það fólk sem fylgdist almennilega með gangi heimsins var sannfært um að sósíalisminn hlyti að vinna. Hann væri augljóslega hæfari – þar væri meiri framleiðni og þar væru stærri afrek að eiga sér stað. Svo kom auðvitað í ljós seinna að megnið af afrekum Kínverja voru bara til á pappírunum og að afrek Sovétmanna voru að sliga bæði ríkiskassann og sjálfa þjóðina. En það vissi enginn þá. Ósigur sovét-sósíalismans var áreiðanlega óumflýjanlegur. Skrifaður í kóðann – einsog Marx sagði reyndar um kapítalismans og gæti enn átt eftir að eiga rétt fyrir sér um. Hvað sem því líður ljóst að sigur kapítalismans, að hann skuli ríkja óumdeildur, hefur haft í för með sér að „innri mótsagnir hans sjálfs“ hafa aukist. Hann eirir ekki plánetunni og verðlaunar narsissisma á kostnað alls annars og allra annarra – og misskiptir auðvitað bæði valdi og velferð. Þar er ekki um að kenna neinum „vondum kapítalistum“, heldur bara vélvirkinu sem slíku og aflinu sem það virkjar – það er sami kraftur sem færir okkur þennan myndarlega framtíðarheim sem við lifum í og sem svífst einskis til þess að koma honum á laggirnar, sami kraftur sem færir okkur allsnægtirnar og sem drekkur auðlindirnar í botn. Og kannski er það líka sjálf lífshvötin, kannski er ekki hægt að lifa til fulls án hennar – og kannski er ekki hægt að lifa í raun nema lifa til fulls. Guð veit að Stalín tókst sannarlega ekki að gera út af við frekjuna og hamsleysið og samkeppnisbrjálæðið – ég efast meira að segja um að hann hafi reynt.

Æfingar á uppgjafatóni í h-moll

Ég hraðbugaðist strax og kviknaði á útvarpsvekjaranum. Af því ég er hættur að lesa fréttamiðlana á netinu liggur beint við að reyna að ná útvarpsfréttum og besta leiðin til þess að gera það – ef maður vill ekki bara hafa kveikt á útvarpinu allan daginn – er að vakna bara við fréttirnar. Fréttastofa RÚV, klukkan er átta, veröldin brennur. Ekki einu sinni reyna að fara fram úr. Það er ekki til neins. Rauð viðvörun. Harmur og dauði yfirvofandi. Best að gefast bara upp strax. Það er ekki einsog þetta komi þér heldur við. Þetta er að gerast langt í burtu. Eiginlega mætti segja að þetta sé að gerast í sjónvarpinu, ameríka er ekki staður heldur raunveruleikasjónvarpsþáttur (eða nístandi skáldævisaga einsog við köllum það í bókmenntabransanum) og auðvitað vann raunveruleikasjónvarpsstjarnan, reyndasti sérfræðingur sjónvarpsins í sjálfhverfu. Ég skildi óánægjuatkvæðin 2016. Ég hef samúð með níhilismanum. Stundum vil ég líka bara að veröldin fuðri upp í óreiðubáli. En þeir sem kusu Þrömp núna voru ekki að kjósa einhvern ófyrirsjáanlegan trúð, ekki að kjósa Washington-utangarðsmann, heldur innmúraðan fyrrverandi forseta sem hefur komið sínu fólki fyrir víðs vegar í valdakerfinu og hvers stefnumál eru ekki níhilísk heldur fasísk regla samkvæmt führerprinsippinu. Ég er að hugsa um að tileinka mér einhver skipulögð trúarbrögð bara til þess að geta beðið til guðs um gæsku og kærleika. *** Mér skilst að eitthvert fjölmennasta útgáfuhóf sem haldið hefur verið í geyminum sem er Fiskislóð 6 – hin risavaxna bókabúð Forlagsins – og þar með sennilega á landinu, hafi farið fram á sunnudag. Þar var engin önnur en mamma mín, Herdís Hübner, að kynna ævisögu sína um Auri Hinriksson, Ég skal hjálpa þér. Og kemur ekki á óvart enda er mamma mín fjarska vönduð bókmenntakona – og reyndar líka mikilvirkur þýðandi – og saga Auriar ótrúlega fasínerandi. Ævisaga ársins, ekki spurning. *** Mér skilst að Storytel hafi verið í fréttunum. Og launamál höfunda. Ég þreytist ekki á að nefna að í hvert skipti sem einhver hlustar á ljóðabókina Hnefi eða vitstola orð á Storytel þá fæ ég þrjár krónur. Ég er að safna mér fyrir hamborgaratilboði – þúsund spilanir ættu að duga – en vegna verðbólgunnar og dvínandi áhuga bókmenntafólks á ljóðum (að ég tali nú ekki um skrítnum tilraunaljóðum) þá hækkar upphæðin sem ég þarf hraðar en ég næ að þéna fyrir henni, svo mig vantar alltaf meiri pening á morgun en í dag. Þetta endar sennilega með því að ég svelt í hel. Til þess að eiga fyrir Storytel áskriftinni þyrfti ég að fá 1.100 spilanir á mánuði – 13.160 spilanir á ári. Það þykir gott að selja ljóðabók í 300 eintökum (eða þótti fyrir 8 árum þegar ég gaf síðast út ljóðabók – sennilega hefur þetta dregist mikið saman síðan þá).

Netagjörð

Ég skildi ekkert hvers vegna allir voru sestir þegar ég kom. Og viðburðurinn byrjaður og klukkan samt bara í mesta lagi fimm mínútur yfir. Það hafði tekið aðeins lengri tíma en ég hélt að ganga inn í Netagerð og ég hafði þurft að snúa við til að sækja gleraugun mín og svo voru fjarska falleg norðurljós yfir firðinum svo ég gekk mestalla leiðina með nefið upp í himingeiminn. Kom svo á staðinn, þræddi leiðina milli vinnustofana í átt að viðburðarýminu og þar var fullur salur af fólki að hlusta á Kiru Kiru leika á spiladós. Ég baðst afsökunar á að koma of seint og skaut mér í sæti. Tveimur mínútum síðar hætti Kira að leika á spiladósina og kynnti mig á svið. Ég var ekki einu sinni kominn úr jakkanum. Fiskaði gleraugun upp úr bakpokanum og útskýrði að það væri þeirra vegna sem ég væri seinn. Og aulaðist eitthvað og las svo tvö ljóð. Þegar ég settist tilkynnti Kira svo að nú væri komið að síðasta dagskrárliðnum – stuttmyndasýningu – og þá áttaði ég mig á því að ég hlyti að vera alltof seinn. Búinn að missa af upplestri Þórdísar og Heiðrúnar og tónlistinni og áreiðanlega annarri stuttmynd líka. Þetta var mjög vandræðalegt. Ég lendi sem betur fer sjaldan í svonalöguðu. Fannst einsog allir hlytu að hugsa að ég væri nú meira merkikertið sem kæmi bara til að lesa sjálfur en nennti ekki að hlusta á hina. Mér hafði fundist 21 svolítið seint en hafði ekki orð á því. *** Annars er ég búinn að slökkva á vélinni. Kominn í hvíld frá samfélags- og vefmiðlum – með undanþágu fyrir Liberation sem hjálpar mér að læra frönsku. Og ætla að halla mér meira að útvarpi og prentmiðlum og sjónvarpsfréttum. Og ætla líka að sinna Goodreads og Strava og Duolingo og þessu bloggi og bloggunum hérna á hlekkjalistanum – það met ég sem nærandi hegðun frekar en mergsjúgandi.

Stjörnur

Það er talsvert rætt um stjörnugjöf í Svíþjóð eftir að Aftonbladet tók hana upp. Í morgun las ég svo þýdda grein eftir norskan sérfræðing sem bar saman reynsluna af því þegar NRK tók upp stjörnugjöf – mig minnir að það sé meira en hálf öld síðan – og sagði hana ekki góða. Ekki endilega vegna þess að henni fylgdi skýr gildiseinkunn heldur vegna þess að þessa gildiseinkunn er hægt að nota tölfræðilega til að skapa „meðaltal“. Þannig fá bíómyndir ekki lengur bara þrjár eða fjórar stjörnur – þær fá 7,1 á IMDB og fólk forðast það sem fer undir 7, sem er ekki bara það sem er illa gert, heldur líka það sem er óvenjulegt eða skrítið og kannski ekki ætlað öllum. Þannig ýtir þessi einkunnakúltúr undir meðalmennskuna og verðlaunar áhættufælni listamanna. Þá hefur þetta líka í för með sér að fjölmiðlar vilja helst ekki annað en fimm stjörnu gagnrýni eða slátrun – vegna þess að mælingar sýna að það er það sem fólk les. Það hefur enginn áhuga á að vita hvers vegna einhver bók fékk þrjár og hálfa stjörnu. Einhver fjölmiðill í Noregi (ég finn ekki greinina) bauð meira að segja gagnrýnendum sínum að velja sjálfir verk til að fjalla um (sem er talsvert algengara á Íslandi) og bað þá sérstaklega að velja helst verk sem þeir töldu líklegt að fengi eina eða fimm stjörnur og láta hitt vera. Og vegna þess að fólk vill helst ekki slátra – gagnrýnendum finnst það ekki gaman – völdu eiginlega allir bara fimm stjörnu verk til að fjalla um. Og hitt fékk einfaldlega enga umfjöllun. Þetta hljómar auðvitað einsog ákveðin mótsögn – en kúltúrinn hefur ólík áhrif á skaparana (sem miða á nógu háa einkunn til að ná) en miðlana (sem vilja helst fella eða útnefna dúxa). Mér er þetta hugleikið af því ég tók upp á því nýverið að gerast virkur á samfélagsmiðlinum Goodreads. Þar gefur maður stjörnur – og velur sér auðvitað bækur sjálfur, sem eru gjarna bækur sem maður er spenntur fyrir, og þær fá varla minna en þrjár af fimm nema maður þekki sjálfan sig og smekk sinn þeim mun verr. En kannski ætti maður að hætta að gefa stjörnur?

Nóvember

Go away you rainsnout
Go away blow your brains out
November Það fór auðvitað einsog það hlaut að fara. Nóvember kominn og ég farinn að íhuga að raka af mér skeggið. Í Bandaríkjunum eru menn rétt að byrja að spara. Mér finnst einsog þetta sé farið að íþyngja mér. Ég er að verða svo framþungur. Einsog það sé ekki nóg eitt og sér að veturinn gangi í garð. Ég var að vísu búinn að gefa ljósmyndara sem sérhæfir sig í að taka myndir af skeggjuðum körlum vilyrði um að hann mætti taka af mér mynd áður en ég skæfi þetta af andlitinu. Annars er lífið bara skroll. Fréttir og fréttir og fréttir og einstaka status með ógurlegum skammti af því sem internetið vill troða upp á mann þar á milli. Alls konar sniðugheitum sem eru hönnuð til þess að grípa athygli manns. Sumt er auglýsingar fyrir drasl sem mann vantar ekki, annað fyrir drasl sem mann gæti vantað, en flest er ekki einu sinni að reyna að selja manni neitt og hefur engan sjáanlegan tilgang annan en að afvegaleiða hugsanir manns. Kannski er þetta einhver framtíðarsúrrealismi – eitthvað viðstöðulaust grín á kostnað vitundarinnar. Ég er allavega ekki viss um að ég sé að græða mikið á þessu. Einu sinni þegar ég var svona 10-11 ára var ég úti að ganga, ég man það mjög skýrt, og það hvarflaði að mér – eiginlega var það meira staðfastur grunur, jafnvel volg vissa – að allir í heiminum nema ég væru geimverur (eða vélmenni) og ég þátttakandi í einhvers konar rannsókn eða tilraun, hverrar tilgangur var aldrei ljós og skipti engu máli. Mér skilst að þess konar sólipsismi sé ekki óalgengur hjá börnum – þetta gerist þegar maður byrjar að geta hugsað abstrakt, að sjá heiminn bara út frá sjálfum sér einsog enginn annar sé til er fyrsta skrefið í þá átt að geta sett sig í spor annarra, að skilja hvað sjónarhorn er – en ég er ekki frá því að í dag hvarfli stundum að mér að öll tölvusamskiptin séu bara samskipti við gervigreind og algóritma, sem er eiginlega það sem ég hélt að væri raunveruleikinn þarna árið 1988. Og hafði rangt fyrir mér. En hef rétt fyrir mér núna. Núna er ég þátttakandi í einhverri tilraun frá því snemma á morgnana og þar til ég rekst á einhvern af holdi og blóði – ég held enn að kjötfólk sé raunverulegt, þið leiðréttið mig ef svo er ekki – sem er kannski orðinn mikill minnihluti samskipta. Ég hef síðan alltof mikinn áhuga á að vita hvernig fólki gengur í kosningunum vestanhafs og líka þeim sem verða hér í miðju hafinu og svo auðvitað hvernig fer í jólabókaflóðinu – hver vinnur jólabókaflóðið! – til þess að slökkva á miðlunum og hætta að skrolla. Arnaldur er búinn að selja 20 milljón bækur. Að vísu bara nokkrar í ár og allar þeirra í dag. Kannski vinnur Trump vestanhafs og Miðflokkurinn á Íslandi (ég er ekki að líkja Arnaldi við Trump eða Miðflokkinn en Miðflokkurinn og Trump eru augljóslega af sama sauðahúsi). Ég er áráttuvera og ég á eftir að leyfa vélinni að gera út af við mig á endanum.

Raunir kontrabassaleikarans

Djöfull er erfitt að spila á kontrabassa. Ég er búinn að vera að æfa mig seinnipartinn og það eina sem gerist er að ég spila verr vegna þess að ég er orðinn dofinn í vinstri handleggnum. Ég þarf eiginlega bara að ráða við að spila eitt lag en það eru nokkur trikkí smáatriði sem setja mig út af laginu. Ég hef 23 daga. *** Á laugardaginn verður viðburður á vegum Þúfu hérna uppi í Netagerð. Þar er sem sagt listrými fyrir þá sem ekki þekkja til – alls kyns smiðjur og verkstæði. Þórdís Björnsdóttir, vinkona mín úr Nýhil og alls konar fleiru – við fórum t.d. saman á debutantseminarium í Biskops-Arnö fyrir … 19 árum – er að gefa út skáldævisögu og túrar landið með aðstandendum forlagsins (sem er miklu meira en forlag sýnist mér – einhvers konar almennt framkvæmdabatterí). Þar les hún upp og Þúfa sýnir stuttmyndir og svo er gestum boðið að vera með – ég verð með hér og les úr ljóðabók sem kemur út næsta vor (staðfest!) og á Hólmavík sá ég að Bergsveinn Birgisson ætlar að lesa. Það er held ég á sunnudag. Svo hitti ég Benný Sif í Reykjavík um daginn – og þurfti að byrja á því að biðjast afsökunar að hafa ekki svarað í símann, ég svara nefnilega eiginlega aldrei í símann, einu sinni fannst mér það bara leiðinlegt og forðaðist það og svo fór ég að leyfa mér að svara sjaldnar og sjaldnar og nú er þetta nánast orðið að einhverju syndrómi. Ég er alltaf að hitta eitthvað fólk sem er mér reitt fyrir að hafa ekki svarað í símann. Nema hvað þegar ég var búinn að biðjast afsökunar sagði hún mér að hún væri líka að fara á túr (þess vegna var hún að hringja, til að spyrja mig út í eitt og annað um túrinn sem ég fór í fyrra). Hún sagðist minnir mig ætla með einhverjum öðrum líka – en nú er stolið úr mér hver það var. Og svo er Hallgrímur að fara á túr. Með sýningu sem verður í einhverju leikhúsanna í Reykjavík. Það er eitthvað grand. Þar kostar líka inn. En hann kemur ekki fyrren ég er farinn til Tælands. Mér finnst mjög gaman ef þetta er að fara að komast í tísku. Á norðurlöndunum er það nú eiginlega regla frekar en undantekning að höfundar taki túr – a.m.k. stuttan. Og sennilega víðast hvar. *** Þetta var annar undarlegur dagur. Sennilega var ég bara með flensu í morgun. Það bráði af mér en ég var eiginlega bara frekar lélegur. Lagðist aftur í rúmið. Hristi það svo af mér seinnipartinn og fór að sinna hlutum en kannski engu af viti. Hausinn á mér eða hjartað eða hvað það er sem stýrir þessum tilfinningum mínum er líka enn í einhverju limbói. Það er einsog ég nenni eiginlega ekki að vera ég sjálfur. Og mér fallast nú bara hendur yfir því að eiga að vera einhver annar. Ég er næstum búinn með Skrípið hans Ófeigs. Ég held þetta sé hreinlega besta bókin hans. Ógurlega skemmtileg – alveg til að hlæja að upphátt, hástöfum, lemja á hnéð – stíllinn meistaralegur og sagan einhvers konar fagurfræðileg yfirlýsing – sem fer gjarnan yfir strikið og hefur allar fjarvistarsannanirnar, þetta er skáldskapur ekki kjallaragrein og persónurnar bera ábyrgð á afstöðum sínum, en þegar maður fussar ekki og sveiar þá kinkar maður ákaft kolli. Einmitt svona! Einmitt svona er lífið!

Tilfinningar

Kæra dagbók. Ég er í einhverju undarlegu tilfinningalega ástandi í dag. Ég skiptist á að sýna veröldinni mikla auðmýkt – verja alls konar fólk og málstaði sem ég myndi kannski á öðrum dögum fordæma án minnsta hiks – og að vera fullkomlega vonlaus og svartsýnn. Ég er ekki einu sinni viss um að „skiptist á“ sé rétt – það er eiginlega einsog ég sé í þessum ástöndum báðum í einu. Reiður og dæmandi og bljúgur og afsakandi. Ætli ég sé að fá heilablóðfall? Hvaða lykt er það aftur sem maður á að finna þegar maður er að fara að fá heilablóðfall? Aska? Reykur? Strokleður? Ég held að öfund og valdaátök og hagsmunir og löngun til þess að stýra sögunni um sjálfan sig ráði miklu um það hvernig fólk hagar sér í menningunni (einsog svo víða annars staðar). Hverja það þolir ekki og hverjum það binst böndum. Þetta á líka við um sjálfan mig. Ég held ég sé svolítið þreyttur á því. Þetta er keppni um pláss og ég vildi að hún væri eitthvað annað. Eitthvað göfugra. Sumt finnst mér göfugt og sumt finnst mér lélegt, einsog gengur, en flest finnst mér samt skiljanlegt. Ekki allt, en flest. Menningin er allavega ekki pólitíkin – guði sé lof fyrir það. *** Ég svaf ekki mikið í nótt. Og hljóp 13 km í morgun og fékk mér svo mjög sterkan hádegismat. Og borgaði mjög háan óvæntan reikning. Kannski er ég í einhverri náttúrulegri vímu. *** Gravity’s Rainbow hefur ekkert komið upp úr töskunni í dag. Kannski er ég alls ekki upplagður til þess að lesa hana. Ég hef tekið eftir því að besti tími ársins til þess að hella sér í erfiðan lestur er fyrstu mánuðir nýs árs. Janúar og febrúar og mars. Þá hafði ég séð fyrir mér að lesa Finnegan’s Wake og endurlesa Ulysses – af því ég er að fara í menningarreisu til Dyflinnar með vinum mínum. Við ætlum að lesa Ulysses saman og fara svo í spor Leopolds og Stephens. Það er alltílagi að ná ekki markmiðum sínum. Ég held ég fari bara og kaupi mér Skrípið áður en bókabúðin lokar. Nú er tíminn til að lesa Skrípið. Og kannski hellist yfir mig löngun til þess að tækla Pynchon fyrir áramót. *** Þann 23. nóvember ætla ég og ellefu vinir mínir að halda svokallaða „tribute“ tónleika til heiðurs Tom Waits sem verður 75 ára í desember. Það verða líka haldnir svona tónleikar á höfuðborgarsvæðinu á næstu helgi, minnir mig, en við ætlum að halda okkar eigin hérna. Og svo eru svona tónleikar sjálfsagt haldnir út um allan heim þessa dagana. Tom Waits á mjög heita aðdáendur. Sjálfur hlustaði ég nánast ekki á neitt annað í mörg ár milli tvítugs og þrítugs og reyndi einu sinni mjög mikið að fá miða á tónleika – við Skúli frændi (mennski) vöktum heila nótt, hringdum og hringdum til Írlands og endurhlóðum einhverja miðasölusíðu, en án árangurs. Seinna var ég kominn í eitthvað plott með Ödda mugison um að reyna að redda miðum í gegnum Dag Kára (sem gerði Little Trip to Heaven og var þá í einhverjum tengslum við manninn – minnir mig, þetta er langt síðan). En það gekk ekki neitt. Einu sinni reyndi ég líka að komast á svona tribute tónleika – það var 1999 í Berlín og ég man að heitið var Tom Waits for Charles Bukowski og þetta var svona tvöfalt tribute. En það var samdægurs og allt löngu uppselt.

Regnboginn

Ég hafði séð fyrir mér að lesa kannski svona 100 síður af Gravity’s Rainbow í dag. Ég er búinn með 17 og finnst einsog ég hafi lesið þrjár heilar skáldsögur. Mér skilst reyndar að fyrstu 100 síðurnar – af 770 – séu stærsti hjallinn. Þá sé maður búinn að „ná“ þessu og geti lesið restina í rólegheitunum. Kannski er best að gera ráð fyrir að það taki bara út nóvember að lesa hana. Það tók rúmlega mánuð að lesa bæði Ulysses og Infinite Jest. Eða kannski rétt tæplega mánuð að lesa Ulysses. Infinite Jest varð þess valdandi að í fyrsta skipti frá því við fjölskyldan byrjuðum að halda sameiginlega lestrardagbók fyrir hátt í áratug skrifaði ég enga bók einn mánuðinn. Í byrjun árs gerði ég lista yfir ólesna klassík sem ég vildi komast yfir í ár – 12 bækur – og af stóru þungu bókunum er Gravity’s Rainbow ein eftir. Og hinar tvær – Njála og Karítas án titils – báðar íslenskar og KáT meira að segja frekar stutt held ég. Ætli ég taki þær ekki með mér til Bangkok bara. Það er bara spurning hvað ég geri með jólabókaflóðið. Ég iða í skinninu að lesa Skrípið hans Ófeigs og nýjar bækur Brynju Hjálmsdóttur og Tómasar Ævars og Birgittu Bjargar. Að minnsta kosti. *** Í umræðunni um menningarblöndun sem sprottið hefur af miðflokksflörtandi ummælum Bjarna Ben hefur fólk svo sem réttilega haldið því fram að menningarblöndun sé forsenda allrar menningar – það er engin menning án blöndunar. Í þessu blandast reyndar saman mörg menningarhugtök – Bjarni er sjálfsagt ekki að tala um tónlist, t.d., eða matargerð, hann hefur áhyggjur af því að brúna fólkinu fylgi leti og svindl og fyrirlitning og „skortur á umburðarlyndi“ (sem er auðvitað fyndnast af öllu). Og svo talar hann áreiðanlega um einhvers konar skiptingi – klofið samfélag – alveg án þess að átta sig á því að það sem hann er að tala um þar (og vísar til norðurlandanna og annarra landa sem „við berum okkur saman við“) heitir stéttaskipting og hún er ekki litgreind nema af atvinnulífinu sem raðar fólki af ólíku litarhafti í tiltekna röð, frá hottintottum til Garðbæinga. En það sem kemur stöðugt upp í hugann á mér sem skaðleg erlend áhrif – skaðleg menningarblöndun – er einsleitni alþjóðlega markaðssamfélagsins þar sem allir bæir, frá Bangkok til Auschwitz til Reykjavíkur, hanga saman á keðju sömu verslanakeðjanna – H&M og Dressman og IKEA og Subway og svo framvegis. Og meira að segja þegar það eru ekki keðjur þá er mótið sem verslunin er steypt í það sama – ef það er ekki McDonalds þá er Metro (Hesburger, Max, und so weiter), skyndibitastaður skapaður í sömu mynd. Ungt fólk ferðast síðan á milli staða með tékklista – og einkunn hvers staðar lækkar fyrir hvern faktor sem vantar. Það vantar McDonald’s í Reykjavík. Vantar Subway’s á Ísafjörð. Við gerum kröfu um að allir staðir séu helst sami staðurinn – það eina sem Íslendingar krefjast í útlöndum er að verðið sé lægra. Hver staður í heiminum missir þannig dálítið af sérstöðu sinni með því að verslunarrýmið sé allt hernumið af hinu alþjóðlega fyrirsjáanlega og skyldubundna. Það væri mjög gaman ef það væri hægt að vinda eitthvað ofan af þessu. En það er ekki það sem Bjarni Ben er að tala um. Eða Snorri Más eða Sigmundur eða Arnar Þór eða neinn af þessum trúðum sem halda að veruleikanum stafi fyrst og fremst ógn af fjölbreytileikanum.