Ég var í Ísafjarðardjúpi þegar síminn hringdi tvisvar í röð. Sitthvor Selfyssingurinn að segja mér sömu fréttirnar. Að Ásgeir hefði látist um nóttina og að Lífsvakan sem hann hafði kallað til færi engu að síður fram. Klukkustund síðar keyrði ég fram á dauðan búrhval í Guðlaugsvík. Á stað sem heitir, eftir því sem ég kemst næst, Staður . Það er svo skrítið með óraunveruleikatilfinninguna að hún getur lent hvar sem er. Mér fannst ekkert óraunverulegt að Ásgeir væri dáinn. Það var frekar allt hitt, allt í kringum það. Og kannski fannst mér ég sjálfur óraunverulegastur, stundum einsog ég væri að fylgjast með sjálfum mér ferðast í gegnum heiminn, hlusta á sjálfan mig tala frekar en að ég væri að tala. En líka sem sagt þessi hvalur, hann var líka óraunverulegur. Ég stoppaði og fór niður í fjöruna. Tók mynd. Pissaði. Fylgdist með hröfnunum. Ég var á þessum „Stað“ dágóða hríð en það kom enginn annar bíll. Og svo bara fór ég. Kannski var það þá sem mér byrjaði fyrir alvöru að finnast ég óraunverulegur. Þegar ég yfirgaf hvalinn til þess að fara að hitta ekki Ásgeir. Ásgeir var ekki einn af mínum nánustu vinum þótt ég hafi þekkt hann lengi. Ég heimsótti hann aldrei í Prag og held raunar að ég hafi aldrei komið heim til hans og hann aldrei heim til mín. Óraunveruleikatilfinningin sem andlát hans kveikti lýsti sér í að lágmarki tvenns konar loddaralíðan. Annars vegar spurði ég sjálfan mig ítrekað hvers vegna ég væri að leyfa minni sorg að taka pláss þegar aðrir þurftu pláss fyrir sína sorg. Og hins vegar spurði ég mig hvort ég væri í raun og veru sorgmæddur eða hvort ég væri að látast vera sorgmæddur og var hreinlega ekki viss – óraunveruleikatilfinningin tók yfir og ég hugsaði stöðugt: Af hverju er ég með þetta asnalega bindi? Fyrst ég er sorgmæddur? Af hverju er ég með þetta asnalega skegg? Af hverju er ég að hlæja núna? Af hverju er ég að reyna að vera sniðugur? Af hverju er ég skyndilega klökkur? Af hverju valdi ég að lesa þetta ljóð? Er þetta ekki allt bara eitthvað feik? Einhver látalæti? Og svo óhjákvæmilega líka: Af hverju er ég svona upptekinn af því að hugsa um sjálfan mig en ekki Ásgeir, ekki fólkið sem stendur honum næst, þá sem eiga raunverulegt tilkall til þess að syrgja. Hlustaðu betur, Eiríkur. Var léttir að þurfa ekki að hitta hann veikan? Mig langaði innilega að kveðja hann og þegar ég sagði það upphátt átti ég aðeins erfitt með að tala, af því það var mjög satt, en sennilega óttaðist ég líka að sjá hann veikan, og kannski var það þá líka ósatt. Kannski er dauðinn hvergi jafn hræðilegur og í fordyrinu, í gættinni, þegar hann er bæði til staðar og ekki. Þegar maður trúir því ekki lengur að einhver lifi af. Veislan var góð. Kviðan var góð. Vinir Ásgeirs voru fallegir, þeir sögðu fallega hluti, lásu fallega hluti, sýndu fallega hluti. Ég veit ekki hvað ég drakk mikið sjálfur en ég drakk meira en manni er hollt – það hjálpaði mér ekki í baráttunni við óraunveruleikann eða sjálfhverfuna – og var ekki einn um það en ég held samt að langflestir hafi alls ekki drukkið neitt og það var ábyggilega gott, ábyggilega betra, en kannski var óraunveruleikinn þarna hjá okkur öllum samt. Ég framlengdi hótelgistinguna eina nótt og hékk með Lomma. Við sturtuðum í okkur Pepsi á hótelbarnum og rifjuðum upp gamla tíma, rýndum í nýja. Í gær keyrði ég heim, hlustaði á Kristján Guðjónsson – sem var síðasti maðurinn sem ég kvaddi í kviðunni – tala við unga karlmenn um Krist, Job og Jesaja í Lestinni. Hvalurinn var enn í fjörunni í Guðlaugsvík. Farið að slá aðeins í hann. Hröfnunum hafði líka fjölgað mikið. Ég er búinn að taka niður asnalega bindið en ég er enn með asnalega skeggið og enn að segja asnalega hluti, enn að hlusta á sjálfan mig tala, fylgjast með sjálfum mér ganga, en það stendur allt til bóta. Raunveruleikinn er hérna enn og nú er bara að fálma sér leið að honum aftur.