Líknarmorð og listamannalaun

Klukkan er korter yfir tíu að morgni og aðalfréttir dagsins eru tvær. Fjórir af helstu rithöfundum þjóðarinnar hafa verið samfellt á lágmarkslaunum frá ríkinu í tíu ár; og þörf er á dýpri umræðu um líknardráp hér á landi. Það er eitthvað ljóðrænt við þetta. „Sjaldgæfara en fólk heldur að sjúklingar vilji binda enda á líf sitt“. Virkir í athugasemdum dunda ósáttir við sitt, að venju, en mér finnst einsog fjölmiðlar gangi óvenju hart fram í ár við að kynda bálið. Og í sjálfu sér margt sem mætti athuga og hefur verið lengi – umræðan kannski viðkvæm í sjálfri sér, eftir a.m.k. áratug af eins konar „grunsemdarvæðingu“. Fjölmiðlar slá í bjölluna, virkir fara út í eitt hornið og treflar í hitt, og svo er slegist. — Hvað varðar þörfina á laununum sem slíkum þá er tómt mál að tala um bókmenntalíf á litlu landi án þessa – meira að segja í stærri löndum væri það meira en lítið próblematískt. Það rekur sig ekkert nema barnalegur meginstraumurinn, lægsti samnefnari. Þetta þarf ekkert að diskútera lengur. Auðvitað myndu alltaf einhverjir sinna bókaskrifum – og gerðu það áður fyrr – en það yrði þá ýmist mjög hungrað fólk eða mjög ríkt fólk. Fyrst og fremst yrði þetta miklu færra fólk sem myndi afkasta miklu minna, kæmu kannski út þrjár-fjórar skáldsögur á ári, þar af 90% krimmar – og þá værum við varla þjóð, nema upp á puntið lengur. Kannski færi það einsog á samíska málsvæðinu þar sem á góðu ári kemur ein – og svo kannski nokkrar ljóðabækur. Það á bara ekki að þurfa að segja þetta ár eftir ár. Þetta vitum við einfaldlega (einsog við vitum að peningarnir skila sér margfalt til baka – bara virðisaukinn af bókmenntunum koverar hverja einustu krónu úr sjóðnum). — Hvað varðar krítíkina þá held ég það sé óvitlaust að tekjutengja launin, með einhverjum takmörkunum þó. Listamannalaun eru alveg áreiðanlega ekki hugsuð sem heildarlaun eins eða neins, enda lúsarlaun – 350 þúsund fyrir skatt og gjöld og kostnað er varla nokkurn tíma nema 200-250 þúsund út, rétt svo hálf laun – og ströng tekjutenging myndi festa alla rithöfundastéttina í fátæktargildru. Rithöfundar vita samt illa tekjur sínar fyrirfram og erfitt að ætla að afsala sér tekjuörygginu upp á að það detti eitthvað óvænt inn – hreinlegast væri fyrir þá sem komast í uppgrip upp á fleiri hundruð þúsund að launin skertust sjálfkrafa. Ég hef verið á fullum ritlaunum í þrjú ár, ef mér skjátlast ekki, og á þeim tíma hefur mér gengið bærilega – selt rétt í leikhús og til ótal landa, gefið út nokkrar bækur og meira að segja eina sem seldist ágætlega, ferðast og lesið upp, skrifað pistla og ritgerðir og meira að segja þýtt nokkur verk. En líf mitt er bölvað hark engu að síður og ég er skuldugur upp fyrir haus, á stundum ekki fyrir reikningunum – þótt það gerist blessunarlega ekki of oft. Ég var líka meira og minna í fullu starfi við að skrifa svo til launalaust í svona 6-7 ár – með annarri vinnu, næturvörslu, blaðamennsku, skúringum, elliheimilum, sambýlum, skipamálningu, bókmenntaþýðingum og rækjuþíðingum – áður en ég fékk krónu úr þessum blessaða launasjóði. Og fékk stopult í 4-5 ár í viðbót. Þetta á við um marga aðra á þessum lista. — Það er ekki næg „armslengd“ ef fólk er í þeim sporum að velja nefndina sem svo tekur afstöðu til umsókna þeirra. Vel má vera að valið á nefndinni snúist fyrst og fremst um að rella í fólki – hverjum sem er – að taka þetta nú í guðanna bænum að sér, frekar en að þetta sé eftirsóttur bitlingur, en það bara breytir engu. Þetta er ekki armslengd – í mesta lagi framhandleggs. — Rithöfundar mega ekki vera í meira en þriðjungsstarfi annars staðar, en auðvitað þýðir það bara að þeir mega ekki vera á yfir 33% föstum launum – það er ekkert sem segir að þeir geti ekki bara verið á skíðum 50%, á sólarströndum 25%, á kaffihúsum 15% og svo skrifað bara 10%. Þeir geta verið í launalausri vinnu við allan fjárann – svo fremi sem það sé ekki á pappírunum – og þeir geta unnið alls kyns verktakavinnu sem tengist fagi þeirra. En þeir verða vel að merkja að skila skýrslu um hverju þeir hafi komið í verk á launatímabilinu. — Umsóknirnar eru margs konar. Einu sinni heyrði ég af umsókn sem var bara: „Skrifa bók ef ég nenni.“ Mér finnst það fyndið en nefndinni er kannski vorkunn að hafa ekki húmor fyrir því. Í raun stendur í öllum mínum umsóknum: „Skrifa bók ef ég ræð við það.“ En ég hef um það fleiri orð, sem hafa takmarkaða merkingu, til að hlýða forminu. Sannleikurinn er oft einfaldur. — Og auðvitað orka úthlutanir tvímælis – þær eru huglægt mat nefndarinnar, byggt á gögnum sem enginn sér nema hún. Sumir fá fyrir það sem manni virðist vera lítið á meðan aðrir fá ekki fyrir það sem virðist vera ansi mikið. Sumir virðast vera „innundir“ og aðrir úti í kuldanum. Það hallar á unga höfunda – mér finnst sennilegt að það halli á konur, þótt ég hafi ekki kannað það, á þær hallar víða, það er þekktur tendens, og líklega hallar sérstaklega á eldri konur. En nefndin á að taka tillit til þess. Það hallar meira á mann eftir því sem maður fjarlægist höfuðborgina – þeir höfundar sem ekki búa þar eru með annan fótinn þar (ég fæ reglulega fyrirspurnir um að gera eitt og annað í borginni og fólk verður beinlínis steinhlessa þegar ég segist búa annars staðar). Mér finnst sennilegt að það séu fleiri höfundar búsettir í útlöndum en á Íslandi utan við suðvesturhornið. Oft fær maður á tilfinninguna að þeir sem eru með „vesen“ fái að gjalda þess. Í fyrra var Hermann Stefánsson úti – hann þykir duglegur við að krítísera, var meira að segja krítíseraður fyrir að krítísera of mikið í fyrra, kallaður „vígreifastur orðháka“ (og hefur sjálfur skrifað grein um að ég ætti að rífast minna, í lesbókina fyrir löngu). Í ár er Mikael Torfason úti – hann hefur alltaf verið hornreka í bókmenntaheiminum, held ég reyndar með vilja. Bjarni Bernharður er alltaf úti og oft með vesen. Og svona mætti lengi telja. Það margborgar sig einfaldlega að vera stilltur, í þessum bransa einsog öðrum – þeir sem gera fólki gramt í skapi borga pirringinn fullu verði á endanum. Um það þarf ekki heldur að rífast. — Best væri náttúrulega ef hægt væri að ræða þetta án sturlaða kaffistofuspekingsins í kommentakerfunum. Og án þess að rithöfundum og listamönnum væri stillt upp í vörn svo drita mætti yfir lýðinn, þar til meira að segja við sem erum tilbúin til að vera með vesen erum farin að vitna í hagskýrslur og krefjast þess að umræðan – sem verður fáránleg á fáeinum mínútum – verði tekin af dagskrá áður en við lendum í svelg einhverra fljótræðisákvarðana og öllum skipað að líknardrepa sig fyrir sjúkrahús, öryrkja og umferðarmannvirki.

Njála Þorleifs, Mikaels, Ernu og Sunnevu

„Stefnir í þjóðarrifrildi“ stendur á forsíðu DV um Njáluleikrit Borgarleikhússins. „Arngrímur Vídalín dæmir“. Dómur Arngríms er upp á fjórar og hálfa stjörnu og ber yfirskriftina „Höfundar Njálu fundnir“. Ég er ekki lengur á Facebook og hef því áreiðanlega misst af allra handa röfli um að þetta sé of nýstárlegt eða of mikið havarí og læti – altso því sem verður mótvægið við lofið í þessu aðsteðjandi þjóðarrifrildi – ég á enn eftir að sjá stakt neikvætt orð um uppfærsluna, sem er að vísu markaðssett sem umdeild sýning (einsog Þorleifur hefur um árabil verið kynntur sem umdeildur leikstjóri og fréttir sagðar af því reglulega þegar hann hneykslar fólk á meginlandinu). En Arngrímur spáir því engu að síður í lok leikdómsins að nú upphefjist þjóðarrifrildi. Í miðjum orgasmískum samhljóma fögnuði gagnrýnenda allra miðla. Annars veit ég ekki hvort að rifrildi um gæði Njálusýningarinnar væri mjög spennandi, mér finnst ekkert ólíklegt að þau sem standi að sýningunni séu einfaldlega fullfær um að gera nákvæmlega það sem þau ætla sér og gera það vel. Hins vegar væri áhugavert að fá einhverja texta um hvað sýningin sé – einhverja túlkun á henni aðra en að x, y og z sé svona og hinsegin og vel gert og skemmtilegt (eða mætti fara betur, einsog sagt hefur verið um stöku atriði, en þó yfirleitt með einhverjum fyrirvara).

5. janúar: Menningarneyslan

Stranger than Paradise eftir Jim Jarmusch. Eða fyrsti hálftíminn af henni. Ég hugsa að mér hefði þótt þessi mynd mjög töff þegar ég var 25 ára. Mjög existensíal. En þetta er bara illa leikið röfl – fallegar tökur stundum og ekki beinlínis hjartalaust en drepleiðinlegt. Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson. Einhver sagði við mig fyrir langalöngu að þetta væri skelfilega léleg bók og ég veit ekki hvers vegna en ég virðist hafa tekið mark á því (bókin er búin að vera í plastinu síðan 2010). Hún er vissulega dálítið þreytandi á köflum, en það er líka hluti af sjarmanum hvernig hún hristir allt af sér. Paródía um kjaftatítusamfélagið, hjartnæm saga um vináttu, aðstæðnakómedía, metafiksjón – svei mér þá ef þetta er ekki bara besta bókin hans Braga. Ég hélt annars að þessari bók hefði almennt verið illa tekið – líklega hefur það bara verið þessi ónefndi kunningi minn sem kom þeirri hugmynd að hjá mér – því hún var tilnefnd og virðist hafa fengið bara frekar góða dóma. (Útúrdúr þessu tengdur: Ég var beðinn um það nýlega að skrifa um „vanmetnar“ íslenskar bækur fyrir fyrirbærið Finnegan’s List, sem var nú að koma út, og valdi Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur og Algleymi eftir Hermann Stefánsson – hér má lesa þetta , sem og val níu annarra höfunda frá ýmsum löndum). Piada. Þegar ég var 7 ára fór ég með fjölskyldunni til Rimini á Ítalíu. Meðal þess sem ég man frá Rimini er að hafa verið pest við Svanhildi Hólm og Dóru Björk, systur mína (sem slógu þar upp vinskap og héldu lengi), að hafa fengið hvítt kassettutæki og Arena með Duran Duran (ég á tækið enn, spólan er týnd, en ég keypti mér Arena nýlega aftur á vínyl), og að hafa reglulega borðað eitthvað sem ég hélt að héti piata með t-i og fékkst á einhverri búllu í nágrenni við hótelið okkar. Jú og ég man líka að maður þurfti að vera með sundhettur í sundlauginni og áreiðanlega miða líka og hugsanlega var hún lokuð í síestunni (þegar maður þurfti mest á henni að halda). Allavega. Ég hafði nokkrum sinnum reynt (af takmörkuðum mætti) að komast að því hvað þetta var sem ég át þarna úti – og datt í fyrsta sinn nú í vikunni í hug að gúgla þessu með d-i. Og þetta reyndust vera lyftidufts- og hveititortillur með alls kyns ólíku áleggi – „ítölsku brögðunum“ stóð í uppskriftinni. Ég gerði þetta í kvöldmat og svo aftur í hádegismat fyrir mig og börnin daginn eftir – vafði þeirri síðustu í smjörpappír og álpappír og fór með hana heita upp á skíðasvæði að ná í Nödju, sem var að prufukeyra gönguskíðin sem hún fékk í jólagjöf. Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Við Aram lásum Fúsa. Það er stórvarasamt að reyna að troða gömlum uppáhaldsbókum upp á börnin sín, en virðist hafa heppnast stórslysalaust í þetta sinnið. Aram hló meira og minna samfellt allan seinnihluta bókarinnar og ekki minnst þegar Fúsa var skotið út um fallbyssu. Sagan af furðufugli eftir Sjón með myndskreytingum Daða Guðbjörnssonar. Við Aino lásum þessa. Það er undarlegt að hugsa sér þetta sem bók eftir Sjón með myndskreytingum eftir Daða – einhvern veginn renna verk þeirra of mikið saman, bæði í konsepti, stíl og stemningu, til þess að eitt sé hugsanlegt án hins. Textinn fjallar um myndina og myndin um textann. Þetta er órofa heild. Og rokna skemmtilegt. Mister heartbreak með Laurie Andersson. Ég var að róta í plötukassanum mínum og rakst alltíeinu á þessa, sem virðist keypt notuð í Finnlandi. Ég hef einhverja óljósa hugmynd um að ég hafi keypt hana fyrir löngu síðan en ég hef áreiðanlega aldrei hlustað á hana. Hún er mjög fín, ekkert sérstaklega agressíf eða grípandi, auðvitað, en fín. Ég veit samt hreinlega ekki hvernig maður bindur svona verk í orð, hvernig maður lýsir því eða segir eitthvað um það af viti. Kannski bara svona, fín. Og kannski mynda ég mér ekki skoðun af viti fyrren eftir fleiri hlustanir.

Ilmkerti 3. janúar

Á morgun hefst vinnuárið. Ég er strax tekinn að kvíða því. Finnst ósennilegt að ég fái nokkrar hugmyndir, nema vandræðalegar, en þeim mun líklegra að ég segi frekar en sýni; nykri og skrifi mig út í horn; hver setning verði vandræðalegri en sú á undan; allar lagfæringar geri illt verra og á endanum verði þessar bækur heimskari en höfundur þeirra, öfugt við það sem að er stefnt. Ég á eftir að ofnota semíkommur og þankastrik, þenja málsgreinarnar út þar til þær leka út um allt og þreyta lesendur (hverjum er ekki sama um lesendur, ætla ég ekki að verða forseti á árinu, ég get ekki verið þekktur fyrir að vera eini rithöfundurinn á landinu sem er of metnaðarlaus til að vilja verða forseti?). Annars er allt gott að frétta. Piödur í hádegismat, þriðji í áramótaþynnku, tedrykkja, Laurie Anderson (plata sem ég vissi ekki að ég ætti) og ilmkerti í skúrinni.

Framboð til forseta formlega dregið til baka

Ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum bjóða mig fram til forseta. Hins vegar tek ég nærri mér að þess skuli ekki farið á leit við mig, að ég skuli ekki fá tækifæri til að hafna auðmjúkri bón þjóðarinnar um að ég axli ábyrgðina sem í því felst að vera henni ástkær og virtur. Fyrir skáldskapinn, að sjálfsögðu, fyrir eilífðina, fegurðina, fyrir gjálfrið í vatnsdropunum og glitrið á tunglinu. Hvar eru Facebookhóparnir? Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki haft samband? Hvernig á ég að geta áréttað sjálfstæði mitt og mikilvægi bókmenntanna – alls sem ég á enn óskrifað – ef enginn spyr? Ég bara spyr.

Áramótaávarp

Á sænsku er fólk smám saman að hætta að segja „hvar“ (var) og byrja að segja „hvert“ í staðinn. Hvert er gaffallinn minn? Hvert er Angóla á kortinu? Hvert er draumurinn? Þetta finnst mér forvitnilegt. Ekki síst á áramótum. Áramótaheitið mitt er annars að eignast rafmagnsgítar á árinu.

30. desember: Menningarneyslan

Ég sá Star Wars. Flest sem sagt hefur verið um hana er einfaldlega rétt. Söguþráðurinn er einsog ábreiða af gömlu myndunum en hún er samt skemmtileg. Ég las Ferdydurke eftir Gombrowicz. Hún var einsog Keystone Cops á spítti. Meðmælist en krefst ákveðinnar þolinmæði. Best skrifaði aulahúmor 20. aldarinnar. Ég sá Hrúta. Það hefur verið sagt að íslenskar bíómyndir fjalli allar um skrítna karla úti á landi í tilvistarkreppu og einhverjir hafa heimfært það upp á Hrúta. Nema bræðurnir eru ekkert skrítnir og þeir eru eina fólkið sem ég hef séð lengi sem er alls ekki í neinni tilvistarkreppu. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir vilja vera og hvernig þeir eiga að vera það, og gefa ekki þumlung eftir þótt lífið ráðist á þá af öllu afli. Og það er voðalega lítið um landbyggðarvorkunnina sem annars er svo algeng í bíóheiminum. „Meistarastykki um sigur mannsandans“ – segir maður ekki svoleiðis þegar vinur manns gerir mynd? Fimm stjörnur – eða sex danskar. Ég hlustaði á Don Giovanni. Af því það var á Spotify er ég ekki viss hver söng eða spilaði eða stjórnaði eða hvað það heitir allt saman. Ég veit ekkert um óperutónlist. Sem er ástæðan fyrir því að ég fékk gjafakort í óperuna í jólagjöf. Eða í Hörpu, réttara sagt. Þar sem Don Giovanni verður settur upp í vor. Þetta er mjög langt og ég óttast að fylgja ekki söguþræðinum og þarf líklega að hlusta betur áður en ég mætti uppstrílaður í tónlistarhúsið. Ég óttast líka að það vanti í mig borgaralegt sensíbílitet, ég er óttalegur rusti stundum. Ég gerði rækjukokteil og eyddi hátt í klukkustund bara í að smakka til sósuna. Í henni var heimalagað majones, tómatsósa, tabascosósa, sérrí, cayennepipar, sítrónusafi og worcestershiresósa. Á endanum varð hún himnesk. Meistarastykki um sigur mannsandans. Ég þýddi leikrit eftir Jonas Hassen Khemiri. Eða, ég þýddi leikritið fyrir löngu en leikritið var sviðsett – ég sá það ekki enda var það ekki sviðsett á Ísafirði. Þegar ég skilaði þýðingunni var titillinn [≈um það bil jafn mikið og] en það þótti einhverjum í leikhúsinu alltof langt og klunnalegt svo það var stytt niður í [≈um það bil] – í minni óþökk. Í dag birtist svo gagnrýni þar sem ég var skammaður fyrir að stytta titilinn. Svona er lífið ósanngjarnt. Ég hlustaði á nýja plötu Leons Bridges. Þetta er fínt soul, snerti mig fyrst, en eftir nokkrar hlustanir varð hún svolítið þunn. Af því að nú er rímlaus netöld man ég ekki hvað platan heitir. Líklega sá ég titilinn bara á lítilli s.k. thumbnail mynd og það var sjálfsagt búið að stytta hann. Ég horfði á fyrstu tvo þættina í fyrstu seríu X-Files. Stíllinn er fríkaður. Illa leikið, illa skrifað, og allt er þetta mjög ósannfærandi. En það er næstum því einsog þættirnir hafi verið skrifaðir með það fyrir augum að verða költ. Og erfitt að njóta þeirra ekki, krefst hreinlega átaks. Ég horfði á fyrstu tvo þættina í nýrri (annarri) seríu af Fargo. Ógæfa ofan í ólukkans óheppni. Það er merkilegt hvað maður endist til þess að njóta ófara annarra. Ég hengdi stórt plakat af þessari mynd Louise Bourgoise á stofuvegginn hjá mér. Moderna Museet prentaði og Dagný Þrastar rammaði inn. Fimm stjörnur, sex danskar, meistarastykki um sigur mannsandans.

Jólagjöf Schrödingers

Ég átti jólagjöf sem týndist. Nema kannski átti ég hana aldrei, því hún týndist áður en ég fékk hana í hendurnar. Þetta var stóra gjöf ársins. Makagjöfin, sem tekur við af foreldragjöfinni þegar maður er loksins genginn út. En hver ætli eigi hana þá? Ég fékk að vita hver hún var, eða átti að verða, í hádeginu í dag eftir að hafa haldið í mér andanum frá því á aðfangadagskvöld. Og hún er endurheimtanleg. Hún hefur ekki glatast. Hún er – eða verður – í formi upplifunar sem ég mun upplifa í félagsskap við þann sem gaf hana. Það er að segja makann. Sem á þá hálfa gjöfina. Eða mun eiga hana þegar hún hefur að fullu endurheimst. Ég er löngu búinn að missa sjónar á því hvar þessi gjöf er eða hver á hana, hvort hún hefur verið gefin eða týnst eða endurheimst, eða hvort hún er ekki einu sinni til enn. En ég held að ég fái hana samt, mér sýnist það.