Ég veit ekki hvort það telst sem ég hafi misst úr bloggdag þegar það er bara rúmur dagur af vökustundum sem fellur úr. Hvað um það. Í gær fór ég og reddaði neyðarvegabréfi hjá ræðismanninum í Caen; síðan settumst við Eric Boury niður heima hjá honum í Herouville og fórum yfir þýðinguna á Heimsku sem kemur út hjá Metailie á næsta ári. Konan hans, Claude, gerði dásamlegan hádegismat og svo fórum við öll aftur til Le Havre. Um kvöldið var maraþonupplestur úr Illsku – þau töluðu um 50 mínútur en samkvæmt minni klukku þá var lesturinn nær einum og hálfum tíma. Sem var fínt, eða það fannst a.m.k. þeim sem tala frönsku (ég var að verða svolítið þreyttur). Eftir upplesturinn var samtal á sviði í svona 40 mínútur og svo – klukkan 23 – var farið út að borða kvöldmat. Ég var kominn á hótelið klukkan 02 og vaknaður aftur klukkan 06 til að ná bílnum til Parísar, þar sem til stóð að ég færi áfram til Istanbul. Jamm. Til stóð. Þetta er að verða einsog kafli í bók. Ég hrekst um heiminn á óheppninni (og ekki í fyrsta skiptið – nægir að nefna þegar ég svaf yfir mig í Norrænu og missti af Færeyjum). Þegar ræðismaðurinn spurði mig í gær hvort ég þyrfti þriggja mánaða eða sex mánaða neyðarvegabréf sagði ég að þrír mánuðir væru feykinóg, ég væri að fara heim eftir viku. En svo var mér snúið við á deskinum áðan – enda þarf maður að hafa vegabréf sem gildir í a.m.k. sex mánuði eftir að maður kemur og mér hefði aldrei verið hleypt inn í Tyrkland. Ég breytti miðanum – missi ekki af neinum viðburðum ef ég kem á sama tíma á morgun (en missi af túristatíma – og lúrnum í flugvélinni, sem ég var farinn að hlakka til). En það var dýrt, og einsog mér er tíðrætt um er ég svimandi blankur. Nú er ég búinn að ræsa út utanríkisráðuneytið til að opna sendiráðið á sunnudegi – og þá er að sjá hvort óbilandi stuðningur minn við Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina skilar sér ekki í einhverri forgangsmeðferð. Ég á eftir að redda mér gistingu í París í nótt. Allar tillögur vel þegnar. Og bíða þess að utanríkisráðuneytið hafi samband aftur, upp á að fá nýtt vegabréf. Og redda mér nýjum passamyndum, reikna ég með. Og hvernig var með stigagjöfina? Ég fór út að hlaupa, las, gerði jóga, reykti (en bara lítið). Hvað er það þá? 7 af 10? Ég þyrfti eiginlega að bæta á þennan lista ellefta atriðinu: ekki klúðra ferðalögum.