Untitled

Guns N’ Roses hafa tilkynnt um komu sína til Íslands í sumar. Önnur eins tíðindi hafa ekki heyrst frá því Berlínarmúrinn féll. Ég verð að vísu „fjarri góðu gamni“ einsog „sagt er“ – sá þá síðasta sumar í Hämeenlinna og ef ég sé þá nokkuð í sumar verður það í Gautaborg með Vigni, leikstjóra Hans Blævar, þremur dögum fyrir Íslandsgiggið. En það er viðeigandi að nefna þessi tíðindi hérna vegna þess að Axl er á listanum yfir fyrirmyndir Hans Blævar – ekki bara fyrir Hans Blævi sjálfa, heldur ekki síður höfund hánar (við sköpun Hans Blævar, s.s., frekar en sem fyrirmynd í persónulegi tilliti). Þegar ég var að byrja skrifin settist ég niður og skrifaði lista yfir hátt í 20 manns sem saman mynduðu sálina í Hans Blævi og á þeim lista var s.s. Axl Rose. Hans Blær er fyrir löngu orðin sjálfstæð vera óháð fyrirmyndum sínum, en líkindin við sumar fyrirmyndirnar eru auðvitað engu að síður til staðar. *** Axl er auðvitað narsissisti, einsog rokkstjörnur eru gjarnan, og sennilega aðeins ríflega. Hann er auk þess erkitýpa hins særða dýrs – maður sem ólst upp við mikið ofbeldi og upplausn, varð vandræðaunglingur og ofsóttur af lögreglunni – handtekinn ríflega 20 sinnum – sem endaði með því að hún beinlínis hrakti hann úr bænum. Lögreglustjórinn hótaði að kæra hann fyrir að vera „atvinnukrimmi“ (habitual criminal) sem hefði haft í för með sér lengri fangelsisdóm – hann sat lengst inni í þrjá mánuði fram að þessu – ef hann færi ekki. Í sem stystu máli húkkaði Axl sér far til L.A. og restin er mannkynssaga. Við tekur ferill sem ber með sér óseðjandi löngun til þess að skandalísera og hrista upp í fólki ef ekki hreinlega meiða það – ekki bara á sviði eða í viðtölum (það sem Axl lét hafa eftir sér um konur, blökkumenn, gyðinga, homma o.s.frv. á þessu tímabili er ekki prenthæft – og svívirðingar hans í garð nafngreindra óvina sinna í viðtölum og lagatextum fullkomlega yfirdrifnar) heldur líka prívat og persónulega. Samfarastunurnar í lok Rocket Queen á Appetite eru t.d. Axl að ríða kærustu trommarans, Stevens Adler, í stúdíóinu. Það mátti aldrei segja neitt til að styggja Axl og í raun gat enginn átt í neinum samskiptum við hann nema Slash, sem vill til að er sennilega meðvirkasta mannvera á jörðinni (Slash er sama um allt á meðan hann fær að spila á gítar). Axl gerði sem sagt alltaf sitt allra besta til þess að eitra samskipti sín við umheiminn. Það er ástæðan fyrir að hann mætti aldrei á svið fyrren 2-3 tímum eftir auglýstan tíma, til þess að fara í taugarnar á bandinu, starfsfólkinu, aðdáendunum, til þess að fullvissa sig um að þau elskuðu hann nógu helvíti mikið til að fyrirgefa honum. Steven hefur lýst honum sem mesta skíthæl sem hann hafi kynnst, en líka sannasta vininum, manneskju sem er í senn hreinn kærleikur og hrein fyrirlitning og alltaf ófyrirsjáanlegt kaos. Axl var líka (eini) maðurinn sem sat við sjúkrabeð Stevens dögum saman þegar hann tók of stóran skammt. Enginn „lenti í Axl“ einsog Steven en ekki einu sinni Steven hefur viljað afskrifa hann. Það vita það allir sem hafa tilfinningar (feis!) að viðbrögðin við samfélagslegri fyrirlitningu, sérstaklega ef persónuleg trámu koma til, geta mjög auðveldlega orðið blanda af bræði og ofsafenginni sókn eftir ást og viðurkenningu. Þetta, og eitt og annað fleira, eiga Axl og Hans Blær sameiginlegt. Það er auðvitað mikið gleðiefni að tilkynna, þeim sem ekki vissu, að Axl er talsvert betri manneskja í dag – raunar er hann (að mörgu en ekki öllu leyti) fullkomið ljúfmenni. Eftir að GNR leystist upp tók við eins konar púpuskeið – Axl fékk sér cornrows og hegðun hans varð verri og verri, tónlistin verri og verri. Hann var ekki lengur leðurklædda skordýrið af Appetite og ekki orðinn fiðrildið á … Not in This Lifetime, hann var í fullkomnum stasis. Þeir sem sáu „Guns N’ Roses“ (þetta eru kaldhæðnisgæsalappir) spila á þessum tíma, live eða í sjónvarpi, vita hvað ég á við og hafa borið þess vitni. En í dag er Axl fiðrildi. Hann er jafnvel svalari sem þessi sáttur-í-eigin-skinni drumbastrumpur sem hann er orðinn, en óargardýrið sem hann eitt sinn var (ég mun samt aldrei afneita óargardýrinu), og maðurinn sem eitt sinn mætti aldrei á svið á réttum tíma og þurfti alltaf að vera með skæting var á tímabili, rétt eftir endurkomu GNR, á þeysireið um heiminn með tveimur hljómsveitum (líka AC/DC – ég hef Young bræður grunaða um að kenna Axl að höndla auðmýktina), á sitt hvorum heimstúrnum og var aldrei seinn, ekki einu sinni þegar hann var fótbrotinn, og talar aldrei öðruvísi um neinn en af stakri virðingu (eða í það minnsta tongue-in-cheek ástúðlegri kaldhæðni). *** Það er annars sýning á Hans Blævi annað kvöld , fyrir þá sem hafa áhuga.