Ég er búinn að prenta bókina út. 551 síða í handriti. Tæplega 140 þúsund orð. Ég á eftir að skrifa allra síðustu síðurnar – geri það um miðja næstu viku, þegar ég er búinn að lesa þetta vandlega (ég á 200 síður eftir) og færa inn breytingar. Svo tekur við ritstjórnarvinna fram á haust. *** Bókmenntahátíð er í næstu viku. Þar er margt áhugavert. Haukur Már og Örvar og Kristín Eiríks og Kristín Svava – nærri þriðjungur íslenskra þátttakenda er fyrrum kjarnameðlimir í Nýhil. Svo er ég mjög hrifinn af síðustu bók Colsons Whitehead. Vigdisi Hjorth hef ég hitt nokkrum sinnum og setið í panel með (hún man samt aldrei eftir að hafa hitt mig) og hún er hræðilega skemmtileg. Bókin hennar Mariönu Enriquez á íslensku var líka stórbrotin. Og fleira og fleira. Ég kemst ekki suður – út af bókinni og út af því að ég verð einn heima með krakkana og út af því að strax á eftir þarf ég að fara til Grikklands á bókamessu. Ég tók eftir því að nær allir viðburðir bókmenntahátíðar eru haldnir á ensku. Á einum viðburði er „boðið upp á þýðingar“ – en það er viðburður á frönsku, haldinn af Alliance Francaise. Frakkar eru auðvitað ekki jafn hrifnir af heimsvaldastefnu enskrar tungu og Íslendingar (hin stóra bókmenntahatíðin í Reykjavík heitir ekki einu sinni íslensku nafni – Iceland Noir). Svo er einn viðburður á norsku og dönsku. Fljótt á litið er hugsanlega bara einn einasti viðburður á íslensku – eða bara á íslensku – samtal Gyrðis Elíassonar og Halldórs Guðmundssonar. Hugsanlega líka samtal katalónskra þýðenda og 1-2 upplestrakvöld. Meira að segja samtal Pedros Gunnlaugs Garcia og Auðar Jónsdóttur er auglýst þannig að viðburðurinn fari fram á ensku. Kannski heldur einhver að Pedro kunni ekki íslensku? Eða er þetta fyrir einhverja agenta? Nema þetta sé innsláttarvilla. Ég hef farið á mjög margar bókmenntahátíðir og það er undantekning – sem fólk biðst þráfaldlega afsökunar á – ef viðburðir eru haldnir á ensku án túlks. Auðvitað er þetta ódýrara og minna vesen og kunna ekki allir ensku hvort eð er? En það væri áreiðanlega minna vesen líka að skrifa á ensku og gefa út á ensku. Íslenskar bókmenntir hljóta að standa og falla með því að einhver púkki upp á þetta blessaða tungumál. Þetta er ótrúlega lúseralegt. Mig langar samt að sjá margt þarna og þarf eiginlega að kanna hvort viðburðir verði ekki í streymi. *** Annars var Frankensleikir tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Ég er auðvitað af reykvískum ættum – pabbi minn var einu sinni Reykvíkingur. Eða er Reykvíkingur – þið yrðuð að spyrja hann. En þetta er mjög gleðilegt. Elías Rúni var síðan tilnefndur sérstaklega líka í myndlýsingaflokki svo bókin er tvítilnefnd.