Ég hafði varla hitt Svavar Pétur þegar ég hét honum ævarandi vináttu. Það var að hans undirlagi, ég þekkti hann ekki neitt – var úti á lífinu ásamt fleirum og var kallaður í stúdíó til að syngja í stórum kór fulls fólks í laginu Friends Forever, sem kom svo út á plötu Rúnks, Ghengi Dahls. Ég kynntist honum ekkert að ráði fyrren í Berlín árið eftir – aftur í stórum hópi. Eiginlega var Svavar mjög oft í stórum hópi, vinamargur þótt hann virkaði líka oft á mann sem einfari. Vinsæll einfari sem var elskur að mörgum. Einu sinni fékk hann lánaða íbúðina mína á Ísafirði þegar ég var í burtu – ég held hann hafi einmitt verið þar með stórum hóp sem fór svo út og málaði bæinn rauðan. Hann skrifaði mér nokkrum dögum síðar til að þakka fyrir sig og sagðist þá hafa farið mjög þunnur inn á baðherbergið mitt um morguninn – alveg svona epískt timbraður, himinn og jörð að farast – og setið þar lengi á dollunni og starað út í alltof bjartan alheiminn um þakgluggann ofan við klósettið áður en hann rak augun í útprentað lesefni sem ég hafði skilið eftir á þvottavélinni. Það var þá útkrotað handritið að óútgefinni skáldsögu Hauks Más Helgasonar sem hét og heitir Svavar Pétur & 20. öldin . Ég man ekki hvað honum fannst eða hvort honum fannst nokkuð eða hvort hann einu sinni las neitt nema titilinn. Sennilega skrifaði hann mér bara til að láta mig vita. Til þess að augnablikið yrði aðeins minna skrítið. Bókin hafði vel að merkja ekkert með Svavar Pétur að gera – Haukur hafði bara fengið nafnið að láni. Þetta fallega nafn. Síðar gerði hann kápur á nokkrar bækur fyrir mig – Maíkonunginn, Hnefa og átti bestu tillögurnar á Gæsku (en ekki þá sem Forlagið valdi á endanum). Við sáumst á tónleikum og upplestrum og í partíum og á laugaveginum. Mest þekktumst við samt bara í gegnum þennan stóra hóp af fólki sem umlék hann á alla kanta. Stundum var einsog hann væri allsstaðar að gera allt. Og gera það allt vel. Fallega hönnun, góðan mat, ótrúleg popplög, frábæra texta – og allt var það svo óumræðilega hans einhvern veginn. Hann átti einhvern tón, einhverja rödd – auðþekkjanlega og einstaka – og meira getur varla neinn listamaður beðið um. Hana eigum við enn og það er ekki svo lítið ríkidæmi til að hugga sig við – listin er hérna enn. En vinur okkar er farinn og eftir situr stór hópur og syrgir sinn besta dreng. Ég sendi fólkinu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.