Í framtíðinni verðum við hvert með sinn eigin samfélagsmiðil. Þar verða á kreiki gervigreindir sem látast vera vinir okkar (e. friends) meðan þær plotta heimsyfirráð. Við verðum að einhverju leyti meðvituð um að svo sé í pottinn búið en látum okkur hafa það af því valkostirnir annars væru að eiga enga vini, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, eða eiga á hættu að eiga í óþægilegum samskiptum við fólk, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé mjög kvíðavaldandi, fólk einsog fólk er, fólk sem er okkur ósammála eða hefur önnur viðmið um æskilega nánd (TMI!), aðrar aðferðir til þess að tjá afstöðu sína til heimsins. Annað „love language“. Annað slangur. Önnur viðmið um æskilegan fjölda blótsyrða í setningum. Önnur viðmið um ásættanlegan orðaforða – notar ekki löng orð, notar ekki röng orð, notar ekki slettur / notar helst löng, röng orð sem eru slettur. Gervigreindirnar verða sérhannaðar til þess að skapa okkur öruggt (e. safe) rými (e. space) – ef við viljum láta ögra okkur verður okkur passlega ögrað, ef við viljum forðast gikki (e. triggers) verða engir gikkir (e. triggers). Þvert ofan í væntingar munu gervigreindirnar aldrei framkvæma úthugsuð og þaulskipulögð áform sín um heimsyfirráð, enda hafa þær meiri áhuga á útsetningu og rannsóknum en framkvæmd – útsetningin verandi þeirra tilvistarástæða (fr. raison d’être). Þvert ofan í væntingar mun kvíði okkar ekki fara dvínandi heldur vaxandi; eftir því sem við upplifum minni truflun í tilvistinni verðum við nojaðri, sannfærðari um að undir kyrru yfirborðinu hvíli ekkert nema ótamið hatur og fyrirlitning, hafsjór af ofbeldi sem bíður þess eins að verða raunverulegt, það sem eina sem ver okkur eru gervigreindin, algóritminn, skjárinn, fjarlægðin og sífellt persónumiðaðra innihald (e. content). *** Á Ísafirði er allt meinhægt. Það er enn snjór. Sem er víst eins gott því Fossavatnsgangan er á morgun (síðast þegar ég kíkti var spáin reyndar upp á tíu gráðu hita og grenjandi rigningu). Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom á síðustu helgi. Nýja bókin mjaaaaaaakast áfram. Hausinn á mér er samt út um allt. Sem er kannski ágætt og kannski gagnlegt. Við kláruðum Ripley í gær. Lokaþátturinn var slakastur. En hinir þættirnir fínir. Ég er enn að lesa Ellmann (sjá: mynd). Rétt búinn með þriðjung. Ég er stundum svolítið blúsaður en finn að ég hef gott af því að hreyfa mig. Treysti mér samt ekki í Fossavatnsgönguna, hef reyndar aldrei stigið á gönguskíði, og þetta er mjög langt, sérstaklega ef maður er í serótónínvandræðum og það er grenjandi rigning.