Dagur 72 af 100: Góður bissniss

Óvænt Reykjavíkurferðin dró nóg úr tempóinu hér í Draumaverksmiðjunni til þess að ég hef bætt tíu dögum við þá níutíu sem ég gaf mér til að komast út á enda bókarinnar og eru þeir þá sléttir hundrað. Markið er sem sagt sett á 25. apríl. Mig langar alltaf að segja bara að það gangi ágætlega. Og það gerir það, svona mestan partinn. En ég er líka dálítið misjafn milli daga og ekki bara í skrifunum. Í gær missti ég til dæmis stjórn á skapi mínu. Ég var á leið í vinnuna eftir snjóþunga nótt og það var ekki göngufært á gangstéttum svo ég gekk eftir miðri Silfurgötu. Við enda götunnar var kyrrstæður bíll þar sem tveir menn, bílstjóri og gangandi vegfarandi töluðust við. Þegar þeir luku samræðum sínum gaf bílstjórinn mjög hressilega í – svona einsog hann væri að sýna sig fyrir vini sínum, fannst mér, þótt ég geti auðvitað ekkert vitað um það. Og svo brunaði hann í áttina að mér. Eftir Silfurgötunni er sannarlega ekki 15 km hámarkshraði, þótt hann sé það í mörgum hliðargötum – sem eru vistgötur. Mér gremst reglulega að fólk skuli bruna niður Tangagötuna. En í Silfurgötunni er samt 30 km hámarkshraði – maðurinn var sennilega strax kominn vel yfir það, og gangstéttir voru ófærar – og þarna er grunnskóli og skólalóð. Í stað þess að stökkva upp í skafl gerði ég það sem ég geri eiginlega aldrei. Ég veifaði bílnum að stoppa (eða fórnaði höndum með „hvað í andskotans ósköpunum ertu að gera“ svip í framan) og svo hellti ég mér yfir aumingjans manninn. Hann sagði fátt – það er reyndar alls ekki víst að ég hafi hleypt honum mikið að – aðallega sagði hann bara „ég veit“ nokkrum sinnum – en ég lét dæluna ganga og slúttaði þessu með hinum fleygu orðum „Skammastu þín bara!“ og skálmaði svo í burtu. Eftir á er ég eiginlega bæði stoltur af sjálfum mér og fullur af skömm. Og held ég eigi bæði skilið. Þannig er nú lífið mótsagnakennt stundum. *** Annars hefur orðunum „öld efans er lokið“ slegið niður í höfuðið á mér ítrekað alla vikuna. Ég held þetta hljóti að vera satt, fyrst ég hugsa þetta svona ítrekað. En kannski eru þetta líka ýkjur. Með þessu á ég ekki við – að svo miklu leyti sem ég veit sjálfur hvað ég á við með fjögurra orða áráttuhugsun (segi ég, talsmaður efans!) – að fólk sé hætt að efast heldur að fólk efist ekki út á við um eigin hugsanir, gjörðir, ætlanir. Það sé ekki lengur merki um heimsku að vera ófær um að sýna að maður efist. Þetta er meðal annars sjáanlegt í stóru Falak-Frostason deilunni, þar sem þátttakendur kepptust/keppast um að efast ekki. Ekki um sinn málstað, ekki um sínar hetjur, ekki sínar gjörðir, sín orð, fortíð sína, framtíð, nútíð, ekki um neitt. Og þá er ég ekkert endilega að tala um Frostason og Falak sjálf – þótt ég undanskilji þau ekki – heldur það fólk sem tók til máls þeim til varnar, hífði upp fána og blés í herlúðra, mikið til án þess að hafa kynnt sér meira um málið en eldfim slagorð samherja sinna og ósanngjarnt hnjóð andstæðinganna. En til þess að allrar sanngirni sé gætt, þá fer nú einmitt mest fyrir þessu tvennu. Sennilega er ástæðan fyrir þessu einföld, og hana hef ég áreiðanlega nefnt áður. Sá sem efast í loftslagi samtímaumræðunnar – eða geðslagi samtímaumræðunnar, öllu heldur – gefur slíkt færi á sér að viðkomandi gæti allt eins sagst hafa skipt um skoðun. Hafi hann engan málstað að verja er fólk þess utan fljótt að lýsa viðkomandi hálf vitfirrtan. Svo hjálpar ekki til að margt af því fólki sem tekur til máls hefur beinlínis atvinnu af málstað sínum. Með því á ég ekki við að það trúi ekki á hann – en það hefur augljóslega áhrif, ef ekki „raunveruleg“ þá „lævís“ eða „sálfræðileg“ að lifibrauð manns hangi á spýtunni. Oftar en ekki gengur starfið líka út á að „vekja umræðu“ og „sækja athygli“ – á meðan sá sem vill rækta efa sinn gerir það heldur í næði. Og kannski má halda því til haga að fólk sáir alveg efa – bara ekki um neitt af því sem það hefur hugsað sjálft, bara það sem aðrir hafa hugsað. Heldur um orðspor náungans, fyrst og fremst. Sem er einmitt, í minni bók, merki um heimsku ef ekki hreinlega óheiðarlegt innræti. *** Jæja. Rantríkur Rant Rantdahl hefur lokið máli sínu. Ég loggaði mig alls ekki inn til að segja um þetta. Svona er nú nútíminn stjórnlaus. Ég ætlaði að deila með ykkur tímariti sem ég fann á Tímarit.is og heitir Fonnið . Ég rakst á þetta í gær þegar ég var að athuga hvort mér væri óhætt að nota orðið „bissniss“ í bókinni minni – sem gerist 1925. Afstaða mín til tungutaksins í bókinni er vel að merkja sú að ég sé sennilega líklegri til að gera málið óeðlilega fornlegt en hitt; og ég held að það sé svona almennt það sem fólk gerir þegar það skrifar um fortíðina. Það færir hana nokkrum áratugum of langt aftur í tímann og alltíeinu segir enginn „líka“ og allir bara „einnegin“. En afstaða mín er líka frekar afslöppuð – ég er að skrifa nútímamál með örlitlum blæbrigðum, ekki það mál sem var skrifað 1925. Stundum koma hins vegar upp orð eða orðasambönd sem ég vil nota en finnst einsog gætu hugsanlega stuðað einhverja lesendur – í stað þess að hugsa að það sem stuði lesendur stuði þá hvort sem ég hef rétt eða rangt fyrir mér, sem væri eðlilegast, fer ég á tímarit.is og kanna málið svo ég geti bara sent lesendum mínum tölvupóst og sagt: „Sko! Hvað sagði ég!“ Nema hvað. Ég get glatt ykkur með því að það var hægt að segja „bissniss“ árið 1925 – og það var notað víðar en í Fonninu . Ég verð hins vegar einnegin að valda ykkur vonbrigðum og viðurkenna að ég notaði það ekki. Þess gerðist einfaldlega ekki þörf. Það er því einu orðinu færra í þessari alltof löngu bók og því fagna allir, sérstaklega þeir sem þurfa að eiga tíma aflögu til þess að lesa þessar löngu bloggfærslur mínar. Fonnið var gefið út í einu tölublaði árið 1921 í smábænum Foldar í Manitoba. Að vísu var það fyrst gefið út handskrifað en svo prentað – þannig að til eru tvær útgáfur. Orðið bissniss kemur fyrir í svohljóðandi auglýsingaljóði fyrir „Lundar Billiard-rúm“: Þegar lífið er töff
þegar bissniss er sló
þegar heimurinn aktar sem fúl,
þá má kaupa hér snöff
þá fæst tikket á sjó
þá má drekka og pleia hér púl, Í eðlilegu samfélagi myndi þetta kalla á ítarlega rannsókn á því hvort Megas hafi logið til aldurs. Í eins konar ritstjóragrein stendur svo: Enda þótt vér, sem rennum þessu bissnissi ríalæsum að það er ekki mikið í því að fara inn fyrir blaða- mensku, og vitum að það muni verða töff á þessum hörðu tímum, þá höf- um vér samt dísædað að taka tjans á því vegna þess að vér erum reddí að sakrifæsa miklu til þess að seiva íslenzka tungu og kípa málið hreint og óbjagað.

Stærsti plankinn í plattforminu, sem vér stöndum á, er því verndun íslenzkunnar: eiginlega er það meira enn einn planki, því hann kovrar alt plattformið. Vér vonum að allir landar söpporti okkur í þessu fæti; að bissnissmenn bæjarins styðji Fonnið með auglýsingum og margir aðrir patrónæsi það á ýmsan hátt. Fonnið intendar að lyfta hugum mann upp á hærra plan og edjúkeita þá á marga vegi. Fonnið akseptar ekki neinar greinar um jarðneska pólitík eða kirkjumál, en það verður fyrsta blað- ið sem hefir ríporters á öðrum hnöttum og poblíserar njús þaðan; öll önnur blöð hafa hingað til verið svo konservatív að halda sér við jörðina, en svoleiðis gengur ekki lengur. Ýmislegt efni er þarna annað, aðallega ljóð, en líka stuttar fréttir frá öðrum plánetum (já, öðrum plánetum) og tilkynningar úr sveitinni í kring. Þá má kannski kalla eftirfarandi klausu „hagsmunaskrá“. Editorinn að Fonninu var innveitaður fyrir söpper hjá bankamanitjernum á föstudagskvöldið ásamt Rev. Leo og eru þeir figgeraðir fyrir mestu fiókætur í táninu. Söpperinn fór næs fram og var ekkert expensis sparað. Því miður kom aldrei út nema þetta eina tölublað. Mér finnst þetta kannski sérstaklega skemmtilegt af því sumar setningarnar þarna eru bókstaflega einsog þær gætu hafa komið upp úr þrettán ára syni mínum eða vinum hans í gær. Sagnir einsog „intenda“ og „ríalæsa“ og jafnvel nafnorð einsog „ríporters“ og „tánið“ – þó kannski helst ef þeir eru að ræða um eitthvað í tölvunni. Fonnið getið þið í öllu falli lesið á Tímarit.is.