Flensuskýrsla

Ég skrifa lítið, les lítið og geri mest lítið. Í dag hef ég verið veikur í 14 daga samfleytt. 18 daga reyndar ef ég tel með fjögurra daga heyrnarleysi sem ég varð fyrir áður en ég veiktist. Á öðru eyra reyndar bara – það leystist með skolun á heilsugæslunni og ég gekk hress út til þess eins að hrynja niður í 39 stiga hita daginn eftir. Ég sem fer venjulega aldrei upp yfir 36,3 – ekki einu sinni þegar ég er veikur. Ég verð reyndar æ oftar veikur í seinni tíð, finnst mér, án þess ég hafi tekið það sérstaklega saman. Í þetta sinnið var það óvenju óverðuskuldað því ég tók allan janúarmánuð í hollustu og aðhald – borðaði ekkert nema heilsufæði, hreyfði mig daglega, snerti ekki áfengi eða tóbak, svaf vel og svo framvegis. Og þetta voru launin. Fyrst lagðist ég bara flatur. Þá kom að því að nærveru minnar var óskað í Jönköping – en þar er einmitt ground zero fyrir kórónaveiruna í Svíþjóð, ekki að það hafi verið þess vegna sem kallað var eftir mér, heldur til þess að sinna bókmenntunum. Ég ætlaði að blása þetta allt af og var búinn að skrifa skipuleggjandanum og segja henni að það væru nær engar líkur á að ég kæmi – bæði væri ég með flensu og svo væri spáin þannig að líklega yrði ekki flogið innanlands svo ég yrði þá að keyra suðureftir með háan hita. Sem væri af og frá, þetta myndi ég ekki leggja á mig, mér þætti það mjög leitt. Svo leit ég fyrir rælni á samninginn minn og sá að launin voru miklu hærri en gengur og gerist svo ég dró í land með allt saman – skítblankur og skuldugur – keyrði suður og flaug út eldsnemma morguninn eftir, tók síðan lestina til Jönköping og lá fárveikur í hótelrúminu mínu á milli gigga. Á heimleiðinni dópaði ég mig til þess að komast í Kiljuviðtal – heimkominn dópaði ég mig til að komast á þorrablót með konunni minni, sem hefur farið ein á þetta þorrablót síðustu árin vegna þess að ég er alltaf á einhverjum bókmenntahátíðum á þessum árstíma. Ég get varla sagt að ég hafi farið á alvöru þorrablót um ævina – fór í tíundabekk á svona æfingablót, einu sinni með íslendingafélaginu í Helsinki og svo á fusionblót með hrútspungapizzum og súkkulaðihúðuðu slátri og fleira hnossgæti sem endaði nú mest bara í ruslinu held ég. Maturinn í Hnífsdal á laugardaginn var nú samt bara góður – bæði klassíski þorramaturinn og svindlmaturinn (grafin gæs, hangikjöt og fleira nammi). Ekki skil ég hvað fólki finnst þetta „vont“ – spes, jújú, en þetta er einfaldlega ekki vont, það er bara einhver búraminnimáttarkennd. Ég var hins vegar búinn að éta rétt nógu mikið af verkjalyfjum – ofan í bjór, romm, brennivín, plómuvín og tekíla – til að vera bara svolítið einsog illa gerður hlutur megnið af ballinu. Ég dansaði örlítið, en ég er klaufi á dansgólfinu á góðum degi, og það var misgaman – í hlutfalli við það hversu miklu máli það skipti dansfélagann að þetta væri allt rétt gert. Svo lagðist ég aftur þunnur og lasinn á sunnudag – og fékk mikið af einhverjum svona „glætan þú sért lasinn“ kommentum sem mér fannst glötuð, búinn að harka þetta af mér í tíu daga. Lá aftur í gær. Í morgun fór svo ég á fætur – eða, þið vitið, klukkan 11 held ég. Át haug af verkjalyfjum, fór í sturtu, drakk Gatorade, fór í hrein föt, göngutúr. Ég er ennþá lasinn. Sennilega er ég bara að drepast. En ég nenni ekki að liggja lengur í rúminu. Þetta fer hrikalega með sjálfsvirðinguna. Ekki það að ég hafi gert neitt af viti – las ekkert, skrifaði ekkert (nema þetta). Jú, ég gekk frá skattamálum, skrifaði einn reikning og nokkra praktíska tölvupósta. Það er sennilega ágætt bara. Ef ég er ekki örendur á morgun get ég þá kannski byrjað aftur að þýða ljóð og jafnvel haldið áfram að smíða nýja gítarinn.