Hafið þið tekið eftir fólkinu sem svarar öllu sem ekki smellur að siðferðislegri heimsmynd þeirra með því að ranghvolfa bara augunum? Ekki kannski bókstaflega, en svona … „djísus“, „byrjar þessi“ … o.s.frv. einsog viðkomandi séu í senn svo lífsreynd að þau hafi séð allt áður og svo kúl að þau þurfi aldrei að gaumgæfa neitt. *** Pínu þreytt! *** Djók. *** Annars er óþarfi að þræta um alla hluti. Og þá meina ég að skiptast á skoðunum viðstöðulaust, grafa sig ofan í facebookþræði. Það á við sums staðar og stundum – getur verið gagnlegt – en það á alls ekki alltaf við. Oft er hraðinn einfaldlega of mikill. Hlutir eru skrifaðir of hratt, lesnir of hratt og það heyrir enginn í neinum fyrir öllu garginu. *** *** Við nýtum einkadagana okkar feðgarnir til þess að laga mat. Í gær skrifaði Aram Nói sína aðra uppskrift í uppskriftabókina – að skánskri eggjaköku með beikoni og sultu. Hann er kominn upp á lagið með að brjóta egg (það lærði ég ekki fyrren eftir tvítugt) og finnst þetta gaman, sem er fyrir öllu. Það er enn vetrarfrí í skólanum svo við sváfum út og lágum svo í rúminu og lásum í morgun. Ég hef verið að vinna bara heima, ekki að það skipti máli – hann getur allt eins fundið mig á kontórnum, og svo er hann hvort eð er farinn út á rand með vinum sínum núna. *** Ég er að lesa Museum of Innocence eftir Pamuk, sem ég keypti á samnefndu safni í Istanbul í fyrra, korteri áður en það fór allt til andskotans. Frábær bók, en kannski ekki sá ástaróður, sá óður til ástarinnar, sem kynntur er á bakkápu – Kemal Bey, aðalsöguhetjan, er eiginlega hálfgerður sósíópati, sjálfselskur dekurkjói og í einhverjum skilningi einmitt fullkomlega ófær um að elska. En bókin er góð fyrir það. *** Bíð eftir jólabókaflóðinu. Slitförin eftir Fríðu Ísberg kom út í síðustu viku – ég pantaði hana fyrir löngu en hún er enn ekki komin. Ef hún fer ekki að birtast klaga ég útgefandann (Valgerði Þóroddsdóttur hjá Partus) í landsbyggðarlobbíistann pabba sinn (Þórodd Bjarnason fv. formann Byggðastofnunar) fyrir að sinna ekki okkur dreifurunum sem skyldi. *** Annars bíð ég spenntur eftir Vali Gunnarssyni og Tóta Leifs og Kristínu Eiríks. Ætla að skrifa um Ko Un fyrir Starafugl – hún verður sennilega tekin ásamt ensku ljóðasafni eftir sama mann þegar ég lýk við Pamuk (þetta eru 700 síður af sósíópatískri þráhyggju). Svo skoða ég hvað og hvort ég les fleira úr flóðinu eftir því sem á líður. Ég hef verið í mótþróa gagnvart flóðinu lengi, fundist þessi skyldulestur óþægilegur, en er eitthvað að íhuga að vera með „í umræðunni“ í ár.