Leifsstöð. Ég svaf í þrjá tíma. Börnin í þrjá og hálfan. Nadja sama og ekki neitt, skilst mér. *** Ég er að reyna að ákveða hvort ég geti lifað án þess að eiga Apple Watch. Mér sem er illt í hnénu og get líklega ekkert hlaupið næstu daga. *** Í gær hittum við franska sendiherrann. Hann átti erindi við Nödju en var áhugasamur um að hitta mig líka. Ásamt menningarfulltrúa frá Alliance Francaise og þriðja sendiráðsstarfsmanni. Of mikið af samtalinu fór fram á frönsku. Fólk er almennt hryllilegt með að skilja aðra út undan með tungumálamúrum. Ég reyni að taka því vel en stundum gengur það allhressilega á þolinmæði mína. Í gær var ég farinn að hanga bara í símanum á meðan hinir töluðu saman. Og það var alveg ljóst, fannst mér, að öllum fannst ég vera sá dónalegi. *** Við fórum líka í sveitina til Maju systur. Hún er alveg að verða sjálfbær, held ég hreinlega. Leysti mig út með alls kyns heimalöguðu heimaræktuðu marmelaði og bbq-sósum og chilimauki. Ég stakk því í farangurinn og ætla að njóta þess í allt sumar. *** Það gengur hægt að lesa Kaputt. En vel. Þetta er alvöru bók. Dokument sem er líka skáldskapur. Myndi prýða sér vel í skáldævisagnaæðinu. *** Talandi um það er ég fyrir lifandis löngu kominn með leið á Knausgaard og liggur við að mér sé skítsama á hvaða tungumáli hann talar. Almennt er heimsborgarabragur á að ræða við fólk á eigin tungumáli og heimóttarskapur að gera það á amrísku. Og ástæðan fyrir því að færri og færri skilja talaða skandinavísku er að við heyrum hana sjaldnar og sjaldnar. *** Öðru máli gegnir um persónuleg samskipti, vel að merkja. Það er full ástæða til þess að reyna að hafa þau á jafningjagrundvelli – frekar en á blandinavísku nýlenduherranna. Og ég hef verið talsmaður enskunnar í norrænu samstarfi, ekki síst vegna Íslendinga og Finna, sem annars eru aldrei fullgildir meðlimir.