Untitled

Í gær sagðist ég latur að lesa yngri skáld og taldi svo upp skáldin sem ég þrái að lesa en gleymdi einu, sem á ljóð dagsins á Starafugli, en það er Guðrún Brjánsdóttir, sem ég hef þekkt frá því hún var á aldur við Kristínu Eiríksdóttur þegar ég kynntist Kristínu. Guðrún var að gefa út sína fyrstu bók, Skollaeyru, frábær titill og frábær bæði ljóðin á fuglinum. Á hverju ári síðan svona 2013, sennilega, hef ég kennt á vikulöngu ritlistarnámskeiði í Biskops-Arnö í Svíþjóð, þangað sem mætir créme de la créme af norrænum ungrithöfundum, á aldrinum 14-19 ára, sirka, og þar var Guðrún fyrsta árið. Ég gæti sagt að ég hafi kennt henni allt sem hún kann, en það væru ýkjur, ég kenndi henni ekki einu sinni allt sem ég kann, vika er stuttur tími, en þetta var samt mjög góð vika og Guðrún er frábær, og ef mér skjátlast ekki er hún fyrsti debutantinn til þess að hafa sótt námskeiðið. Það er líka hressandi að debutantar séu ekki allir 35 ára. *** Ég las líka tvær fréttir í gær um menn sem fóru illa af að horfa á klám. Annar var að gera það undir stýri og varð manni að bana fyrir vikið en hinn horfði á klám í vinnunni, þetta var stjórnmálamaður í Bretlandi, og þurfti að segja af sér. Svo skilst mér að maður verði blindur af þessu líka. Það hef ég frétt. Þetta er svokallaður faraldur.  Menn missa vinnuna, verða valdir að dauðsföllum og blindast, og hugsanlega missa útlimi. Þá er loksins ljóst hvað varð um hina svonefndu klámkynslóð, sem tröllreið (hehe) hér öllu fyrir fáeinum misserum. *** Fjallabaksleiðin er bókstaflega að drukkna í dularfullum lesendabréfum. Ég hef bara ekki haft tíma til að lesa þau öll, en í einu þeirra er fullyrt að Hannes Hólmsteinn (sem hefur ekki verið til umræðu hér, ég veit ekki hvers vegna þetta bar á góma í lesendabréfi ) sé svo ómögulegur kennari og mikill vitleysingur að þótt hugsanlega sé rangt að reka hann fyrir að triggera nemendur, þá væri það samt til bóta. Lesandi þessi, frægur rithöfundur einsog aðrir sem mér skrifa, hélt því aukinheldur fram að þegar búið væri að reka Hannes kæmi loks í ljós hvað stjórnmálafræðideildin er hryllilega léleg – árum saman hefði hún skákað í skjóli Hannesar, hann væri fjarvistarsönnun andlausrar deildar.