Snjólskin

Þegar ég fór heim af kontórnum í gær – í ofboði, vegna þess að ég hafði gleymt að ég átti að skutla tveimur stúlkum á skíðaæfingu – varð ég fyrir fyrstu sólargeislunum frá því einhvern tíma í haust. Ég held það hafi að vísu skinið eitthvað á bæinn inn á milli lægða en þá hef ég verið innandyra og verð ekki einu sinni var við það úr skrifstofuglugganum, sem veit í austur (á þessum árstíma kemur sólin upp í suðri – ofan við Engidal – upp úr eitt). Ég yfirgaf skrifstofuna klukkan fjögur, vestan megin, og þá blasti hún bara við. Blastaði mig. Ofboðið rann af mér í augnablik og ég stóð bara kyrr í augnablik og saug hana í mig. Og var samt ekki of seinn með stelpurnar á æfingu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *