Líf mitt þessa vikuna er heldur þungbær tilraun um það hversu mörg lög af þreytu maður getur borið. Í fyrsta lagi er það bara 45 ára þreytan. Að vera ekki lengur 25 ára. En ekki samt nógu þroskaður til að kunna að slaka bara á. Í öðru lagi er það túrþreytan. Og hún triggerar kannski mikið af hinu. En hún er líka í lögum. a) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið í bíl. b) Fýsísk þreyta af því að hafa verið mikið á þeytingi. c) Andleg þreyta af því að hafa verið „on“ linnulítið í mánuð. d) Andleg þreyta af því að hafa verið rútínulaus í mánuð. Í þriðja lagi er það bókaþreytan. Ég vinn of mikið. Ég byrjaði að setja saman þessa bók fyrir þremur árum – með glósum og heimildavinnu (Einlægur Önd var tilbúinn í byrjun árs 2021 og Frankensleikir var löngu tilbúinn) en megnið af henni skrifaði ég samt í ár. Og það tókst bara af því ég tók mér engan frídag í marga mánuði af því ég var svo hræddur um að missa dampinn, detta úr synki. Og þótt það sé á endanum nærandi að skrifa skáldskap – og þótt það hafi verið sérstaklega gaman að skrifa Náttúrulögmálin – tekur það líka rosalega mikið úr manni. Ég er svo þurrausinn að ég get varla skrifað innkaupalista nema með herkjum. Í fjórða lagi jólabókaflóðsþreytan. Þrjú ár af vinnu breytast smám saman í þrjú ár af eftirvæntingu sem puðrast svo út í loftið á örfáum mínútum daginn sem brettin mæta á lager. Þetta er svolítið einsog að fara í fjórfalt heljarstökk og lenda því, að manni fannst fullkomlega, og þurfa svo að bíða í tvo mánuði meðan áhorfendur gera upp við sig hvort þeir ætli að klappa og dómnefndin ræður ráðum sínum um einkunnina. Ég er bara ekki gerður fyrir þannig þolinmæði. Í fimmta lagi þynnka. Ég drakk kannski engin lifandis ósköp á laugardagskvöldið en ég hef varla snert áfengi síðan í ágúst og þetta fór alveg með mig. Samt gaman! (Þetta er allt gaman). Í sjötta lagi skammdegiskvíði. Ég finn að dagurinn er nánast að engu orðinn. Í sjöunda lagi veðrið. Ég er alveg fáránlega viðkvæmur fyrir veðrinu. Það er gott í dag – fallegur og bjartur dagur og nærandi. En síðustu dagar hafa verið myrkir og vindasamir og blautir. Og því fylgir alveg sérstök þreyta. Í áttunda lagi hvíldarþreyta. Ég hef bókstaflega legið í rúminu flesta daga það sem af er þessari viku. Af því ég er svo þreyttur. Og þá fær hálffimmtugur karl í hnakkann og auma hnéð og hælinn og byrjar að fá höfuðverk. Og verður meira þreyttur. Í níunda lagi flensa. Eða „aðkenning“ (einsog ein sögupersóna Náttúrulögmálanna kallar það að vera ekki beinlínis veikur, en samt sennilega með „eitthvað“ í kerfinu). Í tíunda lagi skrollþreyta. Ég er búinn að lesa alla samfélagsmiðlana og alla fjölmiðlana. Búinn að endurhlaða því öllu tólf sinnum á mínútu í rúmlega mánuð. Mig verkjar í fingurna, augnbotnana og ég er kominn með varanlegan framheilaskaða. Í ellefta lagi íþróttaþreyta. Ég fór í ræktina í morgun eftir letiskeið. Ofan í þetta eru svo alls konar nútímaþreytur – þriðjuvaktardót, félagslífskröfur, jólin-á-næsta-leiti und so weiter. Góðu fréttirnar eru þær að ég er allavega ekki kominn í kulnun. Og ef ég bara haga mér einsog ég sé hundrað ára næstu vikurnar þá gengur væntanlega allt nema framheilaskaðinn til baka.