Hlutverkaleikur

Gærdeginum eyddi ég í viðtal við sjónvarpsfólk frá finnska ríkissjónvarpinu Yle. Þau eru að gera sex þátta þáttaröð um árekstra pólitískra og listrænna sjónarmiða. Sérílagi hvernig aktífismi og list rekast á. Einn þátturinn kemur til með að fjalla um Hans Blæ – leikrit og bók og havarí. Þetta verður sýnt eftir ár – að minnsta kosti í Finnlandi og Noregi og sennilega fleiri löndum. Og þættirnir fjalla líka um mál – skandala, havarí – sem áttu sér stað í ólíkum löndum. Tilfinning mín eftir á – minningin af viðtalinu í gær – er að þetta hafi verið ekki ósvipað því og ég ímynda mér að það sé að fá hægfara heilablóðfall og keyra á vegg samtímis. Kannski er það bara afleiðing af því að fá ekki heimsmyndina sem maður er að reyna að svara til að ganga upp. Að finnast forsendurnar ósanngjarnar en sýna málstaðnum nægan skilning til þess að geta ekki einfaldlega vísað þeim á bug. Að reyna að svara spurningunni: „Af hverju ertu svona mikill fáviti“ með málalengingum um að þetta sé flóknara – sé ekki allt svona beint af augum. Í bland við að mæta í viðtal hræddur við bæði spurningarnar og svörin. Hræddur við skuggann sinn. Hræddur við að gera of lítið úr sumu og of mikið úr öðru – hræddur við að segjast hræddur, hræddur við að segjast sorgmæddur. Að minnsta kosti get ég ekki sagt með hreinni samvisku að þau hafi verið ósanngjörn eða aðgangshörð umfram það sem hlýtur að teljast eðlilegt (þau spurðu t.d. aldrei bókstaflega hvers vegna ég væri svona mikill fáviti). Ég fer í gegnum þetta aftur og aftur hugsa um það hvernig ég sagði fæst af því sem ég hefði átt að segja og að flest sem ég hafi á annað borð komið frá mér hafi verið óskýrt og illa orðað. Og raunar að kannski hefði það heldur aldrei getað verið öðruvísi – ég hefði kannski getað verið skýrari en það er ekki víst það hefði breytt neinu. Ekki fyrir mögulegar viðtökur. Mér finnst einsog þetta handrit sé löngu skrifað. Ég reyni alla jafna að hugsa á hreyfingu – að vera ekki með tilbúin utanbókarlærð svör, helst vil ég aldrei svara sömu spurningunni eins tvisvar í röð, því afstaða manns á að vera plastísk – og því fylgir kaos. Síðan er auðvitað góð og gild ástæða fyrir því að ég valdi mér starfsvettvang þar sem ég get setið einn yfir orðum mínum, íhugað þau og editerað – ég er í fyrsta lagi einfaldlega ekki mjög mælskur og í öðru lagi vil ég starfa í nafni efans, á gráu svæðunum, en ekki á svæði vissunnar. Því fylgir að stundum gref ég viljandi (og óviljandi) undan sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég tala. Og ég er áreiðanlega að gera of mikið úr þessu líka. Að minnsta kosti vona ég það. Hvað sem því líður töluðum við saman í tvo klukkutíma og allur þátturinn – með 6-7 viðtölum – er ekki nema hálftími, af honum á ég í mesta lagi fimm mínútur, svo útkoman stýrist 99% af því hvernig þetta verður klippt. Hvað sé álitið aðalatriði og hvað aukaatriði og hvað skemmtiatriði og hvort YLE-fólkið hafi sjálft fengið skilning á afstöðu minni og áhuga á að koma henni til skila. En það er líka hægt að klippa þetta þannig að ég komi út sem alger fáviti. Ég hef ekki um annað að velja en að leggja það í hendurnar á einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Sennilega er ég líka brenndur af því að hafa farið í Kveiksviðtal síðasta vetur um mjög viðkvæm málefni þar sem „gleymdist“ að segja mér að viðtalið yrði lagt fyrir panel í sjónvarpssal – þar sem þátttakendur gætu ranghvolft augunum í beinni yfir því sem ég hafði sagt og gert lítið úr því í rauntíma. Það fannst mér kvikindislegt – og ekki forsendur sem ég hefði nokkurn tíma samþykkt aðspurður. Það var soldið einsog að láta henda sér fyrir strætó. Ég hugsa oft – og nefndi áreiðanlega í gær – að sennilega hefði verið betra fyrir mig, a.m.k. svona prívat og persónulega, ef ég hefði aldrei gefið þessa bók út. Og aldrei hleypt leikritinu á svið. Og ekki vegna þess að ég álíti bókina ranga eða sprottna af annarlegum hvötum eða gagnslausa fyrir eilífðina heldur vegna þess að (sumir) aðrir geri það – og þá skiptir engu máli hvort þessir aðrir hafi ekki lesið bókina eða séð leikritið (nær allt havaríið um árið átti sér stað áður en verkið fór á svið – og hálfu ári áður en bókin kom út – það var búið að ákveða hvers lags verkið væri með miklum fyrirvara). Mér var fengið hlutverk í þessari narratífu og sennilega skiptir engu hvað ég segi eða geri. Það kemur allt jafn illa út. Hlutverkinu fylgir túlkun. Maður er nefnilega ekki bara sá sem maður heldur að maður sé – maður er líka sá sem aðrir segja að maður sé. Hvað um það. Það eru átta ár frá því Hans Blær birtist fyrst sem aukapersóna í óútgefinni bók og sjö ár frá því ég byrjaði á bókinni þar sem hán er í aðalhlutverki, sex ár frá því það fór að verða leikrit, fjögur ár frá útgáfu og fjögur og hálft ár frá sviðssetningu leikritsins. Þrjú ár frá því bókin fékk dálitla uppreist æru og varð bók vikunnar á Rás 1 – hún hreyfðist meira og fékk meiri eiginlega umfjöllun ári eftir að hún kom út, þótt það hafi aldrei verið mikið. Tvö og hálft frá því hún kom út á Spáni og tvö frá því hún kom út Frakklandi. Ár frá Einlægum Önd – sem er líka einhver tilraun til að hantera þetta. Og ár þangað til þetta viðtal, sem hefur verið yfirvofandi frá því í vor, birtist. Nú er ég endanlega hættur að tjá mig. Næst þegar kallað verður eftir viðmælenda til að verja verkið þarf að tala við einhvern annan. (Það á vel að merkja líka við um spurningar á FB eða í kommentum á þessu bloggi).