Þetta orð dúkkaði upp í huga mér í morgun. En hvernig væri æruleysisbænin? Væri hún kannski bara áþekk æðruleysisbæninni? Eða verður hún til á skrifstofum almannatengslaráðgjafa? Guð gefi mér styrk til að troða allar dræsurnar í svaðið, æruleysi til að vera alveg sama og vit til að lifa það allt saman af? Kannski væri hún auðmjúkari – guð gef mér styrk til að bæta ráð mitt, æðruleysi til að játa syndir mínar og vit til að lifa það allt saman af. Annars lærði ég í dag að tíu árum eftir að fyrsta bifreiðin kom til Ísafjarðar (1924) og sex árum eftir að fyrsti flugfarþeginn (Þórbergur Þórðarson) kom til Ísafjarðar kom fyrsti tómaturinn til Ísafjarðar. 1934. Og þótti hreint ekki ómerkilegri en Þórbergur Þórðarson fljúgandi. Það er dæmalaust hvað maður kemst yfir að lesa þegar maður hangir ekki á Facebook og Twitter og Instagram og YouTube og Vísi og DV og Stundinni og MBL alla daga jafnt. Ég man að ég las einhvern tíma í viðtali við Árna Bergmann, hið annálaða gáfumenni, að fólk sem teldi sig aldrei finna tíma til að lesa ætti að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til (þetta var fyrir FB – þar sem Árni er/var reyndar vinur minn). Ég á örfáar síður eftir í Landið handan landsins eftir Guðmund Daníelsson og annað eins í Að lesa ský – ljóðaþýðingum Magnúsar Sigurðssonar, sveitunga míns, og eru það þá níunda og tíunda bókin sem ég klára frá áramótum. Samt er ég heilmikið búinn að horfa á sjónvarp og spila á gítar líka og fara í búð og gera mat og leika við börnin mín og vinna fullan vinnudag alla virka daga (og m.a.s. smá á helginni líka).