NOR-tríó, Húsið á sléttunni og Hable con ella

Menningarneyslan var í lágmarki í síðustu viku. Það helgaðist af ýmsu. Lestur var fyrst og fremst endurlestur – annars vegar blaðaði ég meira í Meira eftir Günday og hins vegar blaðaði ég í Eitur fyrir byrjendur og nýju bókinni minni (þær eru skyldar). Ég byrjaði að vísu líka á Impostor eftir Javier Cercas en er ekki kominn nema þriðjung í gegnum hana. Þá var Fossavatnsgangan á helginni og börnin fóru í pössun svo það varð ekkert úr föstudagsbíóklúbbnum. Við Nadja horfðum á eitthvað slangur af sjónvarpsþáttum – Bardagann um Winterfell, Billions og svo reyndum við að finna nýja seríu, gáfumst upp í miðjum þætti af Lucifer en horfðum á heilan Dead to Me, sem mér finnst nú samt viðbúið að sé að fara að klúðrast. Ég las eitthvað af ljóðum en bara stök og enga bók. Ég hef verið að birta „ljóð dagsins“ á samfélagsmiðlum, ekki síst einmitt til að „þvinga“ mig til þess að róta í ljóðabókaskápnum daglega (virka daga – hann er á skrifstofunni). *** Á miðvikudaginn fór ég á djasstónleika. Richard Anderson NOR lék fyrir laumudillandi bjórþambi í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins. Auk Richards, á bassa, eru í sveitinni þeir Matthías Hemstock, trymbill, og Óskar Guðjónsson á saxafón. Lögin voru flest af síðustu plötu sveitarinnar, The Six of Us. Platan er þannig lögð upp að hvert lag er tileinkað einhverjum úr fjölskyldu Richards – In it for the long haul var fyrir móður og eiginkonu, Miss Weightless fyrir dóttur, Mr. Contra fyrir íslenska afann o.s.frv. Inn á milli var svo hent í standarda, sem var dálítið vandræðalegt því við Gylfi nágranni röltum niðreftir með Villa Valla og Gylfi fullvissaði Villa um að það yrðu nú engir standardar á þessum tónleikum – bara einhver tilraunamennska. Sem er nú í sjálfu sér ósanngjörn lýsing á tónlist NOR, líklega er þetta nú bara frekar íhaldssöm djasstónlist núorðið – ég meina það ekki sveitinni til hnjóðs – „bara bípopp“. Ekki að ég hafi mikið vit á því, reyndar, ég er enginn sérstakur djasshaus. Ég á nokkrar plötur sem fara á fóninn í matarboðum og set stundum á Charlie Parker eða Wes Montgomery á Spotify þegar ég er að skrifa – en þar fyrir utan er „nýjasta“ djassplatan mín Far með hinum sama Óskari Guðjónssyni (og hún er í kassa með þúsund öðrum geisladiskum úti í bílskúr). En það er eiginlega aldrei leiðinlegt á djasstónleikum. Tónlistarmennirnir í NOR eru líka af þannig kaliberi að ég yrði sennilega agndofa bara af því að sjá þá reima skóna eða fá sér pulsu. Músíkin á The Six of Us er líka falleg og þessir tilteknu djasstónleikar hreinn unaður. *** Annar tónlistarviðburður vikunnar var Fossavatnsballið. Húsið á sléttunni lék fyrir dansi – Valdi og Biggi Olgeirs, Kristinn Gauti og gítarleikari sem ég þekki ekki. Þetta er frekar solid ballsveit. Biggi er þekktur fyrir að vita ekki hvað feilnótur eru – Valdi er bara einn af betri bassaleikurum á landinu, og Kristinn Gauti og gítarleikarinn gáfu þeim bræðrum ekkert eftir. Valdi nefndi það við mig eftir ballið að þeir væru frekar illa æfðir en fyrir svona týpum er það eitthvað allt annað en fyrir dauðlegum hljóðfæraleikurum – ég varð einu sinni var við það, milli danskasta, að Kristinn Gauti var eitthvað að flissa yfir trommusettið og blikka hljómsveitarfélaga sína með látbragði sem gaf til kynna að nú hefði nú eitthvað farið verulega úrskeiðis, en það fór alveg framhjá mér hvað það var. Prógramið var „klassískt ball“ með áherslu á diskó og eitístónlist. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Hable con ella eftir Almodóvar frá 2002. Nadja valdi. [Ath. Hér að neðan eru höskuldar]. Við vorum ekki alveg viss hvort við hefðum séð hana og í ljós kom að Nadja hafði séð hana en ég ekki. Og kemur eiginlega ekki á óvart, eftir á að hyggja. Á þessum árum vann Nadja svo mikið í bíói – meðal annars fyrir kvikmyndahátíðina Rakautta ja Anarkiaa í Helsinki – að hún hefur áreiðanlega séð alla helstu kvikmyndahátíðartitla 2001-2006. Myndin fjallar um tvo menn, Benigno og Marco, sem vaka yfir tveimur konum í dái, Aliciu og Lydiu. Benigno vakir yfir Aliciu, dansara sem hann fékk á heilann og var byrjaður að stalka létt áður en hún varð fyrir bíl. Hann er sjúkraþjálfi og hefur séð um hana árum saman og þarf enginn að efast um að tilfinningar hans í hennar garð eru allt annað en eðlilegar. Marco kynnist kvenkyns nautabana, Lydiu, og hefur við hana einhvers konar samband skömmu áður en hún slasast í ati. Hann veit ekki að hún ætlaði að hætta með honum og fara aftur til síns fyrrverandi. Afstaða Marcos til nautabanans er þveröfug við afstöðu Benignos til dansarans – hann álítur hana í raun og veru látna, hugsunarlaust kjötflykki, vill ekki tala við hana, getur ekki snert hana og svo framvegis. Benigno vill aldrei yfirgefa Aliciu, tekur aukavaktir um nætur, talar við hana einsog þau séu gömul hjón og sinnir líkama hennar einsog – kannski einsog brjálaður bílaáhugamaður sinnir eldgömlum kadilják. Hann er alltaf að dytta að henni og meðvitaður um minnstu breytingar. Benigno er mjög hneykslaður á Marco og reynir að hjálpa honum, sem gengur lítið, en þeir þróa samt með sér nána vináttu. Allt fer svo í loft upp þegar í ljós kemur að Benigno hefur barnað Aliciu. Samúð verksins – sjónarhornið – er mestöll hjá Benigno og þar á eftir Marco. Alicia birtist manni ekki að neinu marki fyrren í lokin þegar hún vaknar úr dáinu og Lydia gerir það eiginlega alls ekki – nema að svo miklu leyti sem hún virkar lokuð, hörð, við komumst ekki inn fyrir þann múr frekar en neinn annar. Þetta er saga Benignos og narratífan fylgir honum – hans sorgir verða okkar sorgir. Javier Carama leikur hann ótrúlega afslappað og óþvingað. Maður gleymir því ítrekað að hann er fyrst og fremst mikið veikur á geði ef ekki hreinlega illmenni og er stöðugt dreginn inn í ást hans – Benigno er mjúkur maður, í tengslum við tilfinningar sínar, hann er ljúfur og hugulsamur fram í fingurgóma, fullur af ást, en hann býr líka í sinni eigin búbblu og áttar sig sennilega ekki nema að mjög litlu leyti á sjónarhorni eða afstöðum annarra. Og þess vegna sér hann ekki að það sem hann gerir er rangt, að hann er ofbeldismaður. Hann er bara að elska – og ástin getur ekki verið röng. Almodóvar passar sig líka á að láta okkur aldrei sjá Benigno brjóta á Aliciu – hann er oft á mörkunum, nuddar á henni innra lærið, en alltaf þannig að það virkar lögmætt, innan marka sjúkraþjálfunar. Hvað er meginþemað í bíómyndum Almodóvars? Er það yfirráðin yfir líkamanum? Alicia er kjötflykki bróðurpartinn af þessari mynd – og þótt við sjáum hana aðeins áður en hún lendir í dáinu kynnumst við henni ekki fyrren eftir að hún vaknar. Þau kynni verða sárari fyrir meðlíðan okkar með Benigno. Marco og hans saga – ég náði minni kontakt við hana og kannski var það aldrei ætlunin að maður færi að kynnast honum, þannig. Kannski er hann bara ekki nógu áhugaverður. Hann er linsan sem maður sér Benigno í gegnum. Í upphafi myndar, áður en Benigno og Marco kynnast, lenda þeir hlið við hlið á danssýningu hjá Pinu Bausch – Marco grætur á sýningunni og Benigno tekur eftir því, finnst það mjög áhugavert. Kannski var það þar sem maður átti að byrja að skilja að Benigno væri sósíópati, að gráta ekki frammi fyrir Pinu Bausch – kannski er það samt of einfalt, of banalt. En það er líka áhugavert að skoða hvernig þeir vinna ólíkt með tilfinningar sínar, þessir karlmenn – Marco sem grætur á danssýningum en getur ekki snert ástkonu sína þegar hún lendir í dái, eða einu sinni talað við hana; og Benigno sem grætur aldrei, er alltaf afslappaður, meira að segja frammi fyrir dauðanum, en fórnar sér og sjálfu velsæminu fyrir stjórnlausa ást (hér verða sjálfsagt margir til að segja að þetta sé alls ekki ást – en jú, sennilega er sjúk ást einhvers konar ást líka). Ég er ekki hrifinn af hugtökum einsog „toxískri karlmennsku“ og ég er alls ekki viss um að þeir séu að reyna að vera nein karlmenni – þótt ídeológían að baki ást þeirra sé sannarlega í takt við hin klassísku ástarsagnagildi, fórn og rómantík og uns-dauðinn-aðskilur og bitið-á-jaxlinn – en viðbrögð þeirra og gjörðir, eins ólíkar og þær eru, eru samt karllægar, held ég.