Einn gallanna við að ferðast mikið er að hausinn á manni – og hjartað – er alltaf á mörgum stöðum samtímis. Hér auðvitað – í Biskops-Arnö, í góðra vina hópi að kenna ungmennum ritlist, fimmta árið í röð. En þess utan hjá fjölskyldunni sem þvælist hingað og þangað, ég held þau séu í Linköping núna. Og svo á Ísafirði, þar sem Helena vinkona mín var jarðsett í gær. Mér finnst alveg dálítið erfitt að hafa ekki getað verið í jarðarförinni, að hafa ekki verið í félagsskap þeirra sem þekktu hana. *** Ungmennin hér eru dálítið svag fyrir 13 Reasons og það sést á sumum textunum. Mér finnst það líka svolítið erfitt, svona miðað við aðstæðurnar. Það er eitthvað fúndamentalt óþægilegt við að sjálfsmorð sé notað sem metafóra eða skáldskapartól – farartæki til harmsville. *** En auðvitað er ekkert rangt í skáldskap. Það er bara spurning um að vinna fyrir því. Hver var það aftur sem sagði að stærsta synd rithöfundarins væri að biðja um óverðskulduð tár? *** Ég reyndi að gúgla því og þá kom upp síða hjá sænska Systembolaget fyrir þetta áfengi.