Ég man ekkert hvað ég gerði í ár. Síðustu áramót vorum við í Helsinki. Krakkarnir fóru snemma að sofa og við Nadja skáluðum ein uppi á efstu hæð húss með dásamlegt útsýni, hausana út um þakgluggann og horfðum á náttúruhamfarir flugeldamengunarinnar eyðileggja allt sem er fagurt og gott í veröldinni. Húsráðendur höfðu flúið hvort í sína áttina – hún til Lapplands og hann í djammferð til Rússlands og nú eru þau skilin og allir anda léttar. *** Ég sveik öll áramótaheitin mín, sem gengu mestmegnis út á lestur og sparnað. Ég fór á Guns N Roses í Hämeenlinna á afmælinu mínu, það var mjög gaman, hápunktur á árinu. Ég lærði að spila fullt af AC/DC lögum á gítarinn minn og meira að segja nokkur sóló (Thunderstruck, Hells Bells, Shook Me All Night Long, Back in Black og eiginlega Touch too Much og Dirty Deeds líka). Og skrifaði auðvitað smotterí um hverja plötu hér á bloggið. Kom mér almennilega fyrir á skrifstofunni minni loksins, flutti inn ljóðabókasafnið og útvegaði mér lestrarstól og svona. *** Við Nadja fórum til San Francisco. Það var annar hápunktur. Ég fékk kokteilabakteríu. Við fórum á hafnaboltaleik og kynntumst hinum dásamlega Randy Weiss. Þrömmuðum um í rauðviðarskógunum. Átum einsog kóngafólk. Fórum á 150 ára gamlan blúsbar. Eyddum eftirmiðdegi í City Lights bókabúðinni. Fórum þúsund sinnum í Hop On Hop Off rútuna. Skoðuðum veggmyndir. Heimferðin var epískt rugl – ein striklota frá SF til Stokkhólms, þar sem við fengum börnin afhent, flugum til Keflavíkur og keyrðum vestur. Til að bæta gráu ofan á svart svaf ég ekkert í Ameríkufluginu – og Nadja er ekki með bílpróf. *** Við Aram fórum líka til Berlínar. Þriðji hápunktur. Héngum með Hauki Má og fórum í dýragarðinn og á Spiderman í bíó og borðuðum kebab. *** Ég þvældist líka nokkrar ferðir til Frakklands að venju og nokkrar til norðurlanda – meðal annars á bókamessuna í Gautaborg, þar sem nærvera nasista setti ansi „skemmtilegan“ brag á allt saman. Sem betur fer skíttöpuðu þeir ömurðarinnar lúserar. *** Óratorrek kom út í vor. Hún fékk litla krítík enda kom hún út utan vertíðar – ein sjálfboðarýni í DV frá Bryndísi Schram, en mjög jákvæð. Hins vegar endaði hún á tveimur árslistum – annars vegar nefndi Steinunn Inga í Víðsjá hana með áhugaverðari bókum ársins og Toggi Tryggva setti hana á topp 10% yfir það sem hann hafði lesið á árinu (og það les enginn meira en Toggi – bara 4 af 14 bókum voru íslenskar og þar af var ein þeirra Grettis Saga). Hún er líka seld til Danmerkur, Svíþjóðar og Grikklands og ég hef ágætis vonir um að hún komi út á ensku líka. Þar hjálpaði að ég átti talsvert mikið úr henni á hinum ýmsu tungumálum og gat því sýnt útgefendum sirka út á hvað þetta gengur. Það er svo langt síðan ég byrjaði á henni – ég hef þvælst með hana milli ljóðahátíða síðan svona 2013, sennilega. *** Illska kom líka út í Grikklandi og er komin á þriðju eða fjórðu prentun. Heimska kom út á frönsku í byrjun árs og hlaut Transfuge verðlaunin og afar lofsamlegar umsagnir, sérstaklega í Le Monde du Livre. Illska er seld áfram til Spánar, Bandaríkjanna/Bretlands og Króatíu. *** Ég flutti ávarp á borgarafundi á Ísafirði þar sem ég tíundaði allar mögulegar afleiðingar þess að fara illa með náttúruna – og taldi upp verstu manngerðu hamfarir sögunnar, því til áhersluauka – og fór auk þess fram á að sjálfsákvörðunarréttur Vestfirðinga yrði virtur. Því var tekið með kostum og kenjum. Ingi Freyr skrifaði grein í Stundina – sem ég hef enn ekki lesið, reyndar – um hvað ég væri skelfileg mannvera. Að mér skilst. Andri Snær varð brjálaður, en róaðist svo og við ræddum þetta í betra tómi síðar. Hér fyrir vestan var fólk að þakka mér fyrir í margar vikur. Einsog oft þegar maður „hittir í mark“ var það að hluta til byggt á misskilningi – maður hittir yfirleitt í mark vegna þess að fólk heyrir það sem það vill heyra eða það sem það heldur að maður sé að segja, frekar en að núansarnir komist til skila. Það sama á auðvitað við hinumegin víglínunnar – Andri Snær var byrjaður að skamma mig kvöldið áður en ég flutti ávarpið. Þetta er mótsögn bókmenntanna og mér finnst hún oft þungbær. En mér þótti vænt um að mega tala máli byggðarinnar hér fyrir vestan – hvað sem líður rómantískum staðhæfingum Reykvíkinga um hversu dásamlegt væri að búa í þjóðgarði. *** Öllum í fjölskyldunni heilsast vel. Aram er í þriðja bekk og allra hugljúfi. Aino sömuleiðis í leikskólanum, í foreldraviðtalinu var helst fundið að því að ég kæmi svo seint með hana – sem er satt, við höfum síðasta árið verið ansi dugleg við að taka því rólega á morgnana, í einhverju lúxuslífi. Stundum komum við ekki fyrren ellefu – hálftólf. Á því verður breyting nú eftir áramótin, ég er fara í intensífa törn í Hans Blævi. Bæði þarf ég að vinna mikið í leikritinu en ég þarf líka að klára eins mikið og ég get af skáldsögunni áður en leikritið verður frumsýnt 1. mars, svo að leikritið fari nú ekki að þrýsta um of á skáldsöguna – hún þarf að vera nógu burðug til að þola álagið. *** Nadja er sem fyrr á fullu við kennslu – oft langt fram á nótt, reyndar, og er þó ekki í fullu starfshlutfalli. Ekki skil ég hvernig þetta er reiknað. Þess utan er hún á gönguskíðum og kajak og bókaklúbb og saumaklúbb og alls konar kennarafélagslífi. *** Dálítið af fólki dó í ár. Nú síðast minn gamli samstarfsmaður á BB og þýskukennari í menntaskóla, Hlynur Þór Magnússon. Einsog mörgum þótti mér afar vænt um Hlyn þótt hann væri líka manna erfiðastur þegar sá gállinn var á honum. Hann svipti sig sjálfur lífinu og bannaði öllum að minnast sín – einsog hann vildi kenna heiminum um að hafa gleymt sér og hunsað sig og sennilega fyrirlitið sig líka. Sannleikurinn var auðvitað flóknari en svo. Fyrst og fremst var Hlynur mjög veikur. *** Helena svipti sig líka sjálf. Það var óvæntara og ekki síður sárt. Ég er enn orðlaus yfir því og verð það sennilega bara alltaf. *** Aðrir létust af öðrum orsökum. *** Felicia, systurdóttir Nödju, var í heimsókn hjá okkur í 6 vikur, ásamt 9 mánaða barni sínu, og nú er Simon bróðir Nödju hjá okkur. Auk þess komu Philip og Nina frá Finnlandi í haust. Það var slatti af ljóðskáldum í bænum á páskum – Lommi, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje – og við skelltum í upplestur í Tjöruhúsinu. *** Er þetta ekki bara allt og sumt?