Engar myndir í dag. Ég er fátt búinn að gera annað en að pússa þessa vikuna. Í sjálfu sér var það að meira að segja dálítill óþarfi því ég á eftir að þurfa að pússa sumt af þessu aftur – enda verða einhver átök við skrokkinn áður en yfir lýkur. Ég er að bíða eftir hlyni frá Króatíu og hálsi frá Bandaríkjunum og fékk sendingu með fínum sandpappír og púðum, skapalóni fyrir hálsvasann, dremilstönn og tólhaldi (jig) til að fræsa fyrir bindingunni. Sem ég kalla stundum líningu. Það er margt sem ég veit í raun ekki hvað heitir í þessu öllu saman – sérstaklega á íslensku. Eitthvað get ég samt gert áður en hlynurinn kemur. Ég get borað fyrir ólhnöppunum. Ég þarf að dýpka aðeins rásirnar fyrir snúrurnar. Tala við gullsmiðinn um að grafa í hálsplötuna. Hanna merkingu á hausinn. Prófa að bæsa afgangsspýtur til að sjá hvernig það lúkkar. Ég boraði reyndar fyrir plasthlífinni aftaná. Það gekk bærilega og skrúfurnar sem ég fékk eru allt í lagi aftan á gítarinn en ég þarf að finna einhverjar fallegri til að setja í klórplötuna – sem ég sendi suður til Adda í síðustu viku. Ég boraði líka fyrir innputtinu og þar er allt í fína. *** Ég spilaði líka fyrir framan fólk á föstudaginn. Í fyrsta skipti í þrjú eða fjögur ár, held ég, og við svipaðar aðstæður og þá. Sem sagt í óæfðri partíhljómsveit af stórtilefni – þá var það 10 ára brúðkaupsafmæli vina minna en nú fertugsafmæli annars vinar. Það var mjög gaman þótt ég kynni ekki lögin og væri aðallega að elta hljómsveitarstjórann, Gumma Hjalta. Ég var gríðarlega stressaður og bókstaflega skalf einsog hrísla fyrstu 20 mínúturnar og sneri baki í áhorfendur eins mikið og ég komst upp með. Og hefði ábyggilega ekki farið upp á svið ef ég hefði ekki pínt mig til að taka með mér gítarinn, af því ég var búinn að nefna það við Nödju og afmælisbarnið (sem spilaði á cajon trommukassa) og hefði skammast mín fyrir hugleysið ef ég hefði sleppt því, og Gummi svo nánast komið og sótt mig þegar þau voru búin að spila 2-3 lög. Stressið fer líka alveg með mann. Maður er talsvert betri gítarleikari heima í stofu að djamma með sjálfum sér. Sennilega skánar maður mjög hratt af því að venjast þessu en það munar ábyggilega alltaf a.m.k. tíund. Ég átti í mestu erfiðleikum með að muna einföldustu hljómaskiptingar og þurfti því að stara á fingurna á Gumma allan tímann – og eyrað, sem er kannski ekkert frábært, var alveg úr sambandi. Ég tók nokkur sóló og hékk bara í fyrstu stöðu pentatóníska blússkalans og var ekkert að flækja spilamennskuna með dýnamík, tvíhljómum eða lærðum likkum, og var alltof frosinn til þess að velta því fyrir mér á hvaða nótum ég væri að lenda í hljómaskiptingum. Hugsaði bara um að lifa af. Í einu laginu, ég man ekki hverju, gekk ómögulega að spila pentatónískan blús og þá lenti ég bara á einhverjum villigötum. En mér tókst svo sem að feika mig í gegnum megnið af þessu. Og það var mjög gaman. Ég væri til í að spila meira – alls konar tónlist í sjálfu sér, en mest blús og blússkotið. Næst væri ég líka til í að vera minna stressaður og með minn eigin magnara og pedalana mína (ekki að fenderinn hans Gumma hafi ekki verið frábær – en það er þægilegra að þekkja sjálfan sig í hátalaranum). *** Gítarleikari vikunnar er Eddie Hazel í Funkadelic og lagið er viðstöðulaust tíu mínútna fönksóló fyrir lengra komna – spunnið frekar en samið. Hljómsveitarstjórinn, George Clinton, ku hafa beðið Eddie Hazel að ímynda sér fyrst að hann hefði fengið fréttir af dauða móður sinnar – en svo að hún væri á lífi og þetta var hin harm- og gleðiþrungna útkoma.