Í morgun var ég (einsog venjulega) á hlaupabrettinu og þá byrjaði (einsog venjulega) einhver frekar lélegur (einsog venjulega) sjónvarpsþáttur en þar var engu að síður – óvenjulegt nokk – lögð fram áhugaverð kenning um skáldskap, nánar tiltekið frásagnarlistina, að það væru til sjö ólíkar tegundir af sögum (og einungis sjö – þótt mælandi hefði fljótlega bætt áttundu tegundinni við líka, þá var það í gríni). *** Maður gegn manni. Maður gegn hundi. Hundur gegn uppvakningi. James Bond. Sögur af konungum og lávörðum. Konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Bílaauglýsingar. *** Spurningin sem vaknar í höfði mér er þá einfaldlega hvort að sögur sem fjalla um menn (fólk) sem kljást við sjálfa sig sé undirflokkur af fyrsta – maður gegn manni (þá sjálfum sér) – eða sjötta, konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Hugsanlega má reyndar umorða sjötta flokkinn, með aðeins minni kvenfyrirlitningu, og segja: Forréttindamaður vorkennir og vinnur í sjálfum sér. Ofdekraður vesturlandabúi leitar að tilgangi lífsins. Eitthvað þannig. Þessi umorðun er vel að merkja ekki fordómalaus, einsog mætti ímynda sér á ætlun minni að svipta hana kvenfyrirlitningunni, en hvað er svo sem fordómalaust, þegar maður lítur undir húddið? *** Bókmenntir eru líka alltaf tegund naflaskoðunar. Líka bílaauglýsingarnar og hundur gegn uppvakningi. Einhver sagði að vísu – og ég las það nýlega en man ekki alveg hvar – að rithöfundar ættu að eyða meiri tíma í að rýna sársauka annarra en sinn eigin, en meira að segja þegar maður rýnir í sársauka annarra finnur maður, greinir og ertir sinn eigin. Bókmenntir eru kannski tegund naflaskoðunar sem fer þannig fram að rithöfundurinn reynir að brjótast út úr sjálfum sér með því að fara í gegnum naflann – einsog einhvers konar ormagöng (ég held ég hafi nefnt þetta í ljóði einu sinni). Maðurinn er sem sagt fastur í sjálfum sér og aldrei eins fastur og þegar hann situr á eintali og enginn situr jafn mikið á eintali og rithöfundar (og jájá, það á fólk að lesa þetta allt, og ég verð mjög foj ef þið hunsið mig, hættið að dá mig, en ég er bara að tala við mig, tack så mycket, einsog alltaf). *** Að öðru. Það er orðið svo mikið af fyrirtækja- og stofnanafánum. Allir flaggandi. Leikskólarnir, bensínstöðvarnar, innheimtustofnun sveitarfélaga, Nettó, menntaskólinn – allir eru með fána. Það er mjög lítið af þjóðfánum – hér er það aðallega fyrir utan Kaupmanninn, sem flaggar alls konar fánum, sennilega ætlar hann lokka til sín útlendinga með því að sýna þeim og menningu þeirra áhuga. Annars búum við í fyrirtækja- og stofnanaræði. Og ef við búum í fyrirtækja- og stofnanaræði erum við aftur í gamaldags lýðræði þar sem einungis efnamenn og aðall hefur atkvæðisrétt. Samfélagið fer fram á lokuðum stjórnarfundum.