Ég ætlaði að taka síðasta AC/DC bloggið í dag en sennilega þarf ég að eyða tímanum í annað. Og kannski skipti ég því líka niður í tvennt. Það þarf annars vegar að afgreiða þessu glæstu endalok – því þau eru endalok, hvað sem hver segir, ef Malcolm rís ekki frá dauðum og Brian fær heyrnina aftur (eða Bon snýr aftur með Malcolm) og Phil verður hleypt úr fangelsinu og Cliff hættir við að vera hættur þá er AC/DC með bara Angusi ekki AC/DC lengur. Hann er augljóslega hin ADHDaða stafnmey þessa skriðþunga ferlíkis – en sveitin er ekki bara hann; hann lifir og tryllist í skjóli festunnar sem sveitin hefur veitt síðustu hálfa öldina. AC/DC er hætt, það á bara eftir að senda út fréttatilkynninguna. *** Viðbót [hér vantaði eitt hins vegar] : Og hins vegar þarf að draga saman ferilinn og ræða hann sem eina heild. *** Snæbjörn, kollegi minn í bloggheimum, fær hótunarbréf þess efnis að hann skuli hætta að mæra Ólaf Jóhann, eða hafa verra af – þar sem nafnlaus höfundur umorðar nokkuð sem ég skrifaði hér um daginn um að grand old men væru alltaf að vígja sér bókmenntaprinsa. Snæbjörn gerir því jafnvel skóna að hér hafi kannski „þekktur rithöfundur“ skrifað undir dulnefni, sem ég tek til mín og þykir eiginlega skot undir beltisstað. *** Ég legg það annars ekki í vana minn að skamma fólk undir dulnefni. Það væri enda fáránlegt, ég er alltaf að skamma fólk og stríða því bara undir mínu eigin vesæla nafni. Ég sé ekki hvað ég myndi græða á því að skrifa einhverju fólki í útlöndum undir dulnefni – og þess utan til að segja því að hætta að hafa gaman af því að lesa Ólaf Jóhann! Einsog það komi mér við. Ég hef ekki einu sinni lesið Ólaf Jóhann. Það er varla að ég hafi spilað Playstation. *** Ég hef reyndar oft haft Snæbjörn grunaðan um að skálda mikið af blogginu sínu. Það gerir það ekki endilega neitt verra. Kannski er það bara vegna þess að ég fæ aldrei nein bréf, sem þetta slær mig oft svona, eða í það minnsta ekki mikið af bréfum frá ókunnugu fólki, nema fólki sem á við mig önnur erindi en t.d. að segja mér hvað ég eigi að lesa. Fólk skammar mig ekki einu sinni fyrir tónlistarsmekkinn, sem ég deili þó ekki nema með litlum hluta vina minna í bókmenntaheiminum – þeirra sem eru líklegastir til að skrifa mér bréf. *** Hann er líka mjög gjarn á að skrifa áþekkar senur – þar sem ónefnt fólk, yfirleitt rithöfundar eða fólk úr bókmenntaheiminum, er bleyður eða dónar eða gerir eitthvað annað sem kveikir áhuga lesendans, eða réttara sagt forvitni hans, stígur rétt svo aðeins út yfir ramma þess sem okkur þykir æskilegur, bara pínkulítið, svo við byrjum að hvískra: Um hvern er Snæbjörn að tala núna? *** Kannski skrifaði ég honum bara í blakkáti. Ég fékk mér einn í gær – sat fram eftir kvöldi og las óútgefin ljóð eftir Fríðu Ísberg (sem er meðal annars þeim kostum búin að kunna að meta AC/DC og spila á SG), drakk einn gamaldags og hlustaði á „classical music for reading“ playlistann á Spotify. Þetta var mjög kósí. En kannski fór þetta úr böndunum og ég endaði rallandi fullur að skrifa níð til Danmerkur. Maður er svo ófyrirsjáanlegur þegar maður er byrjaður að blanda sér í glas. *** Ég er í þeirri öfundsverðu stöðu að vera frekar ósáttur við nýja ríkisstjórn en samt ekki pípandi brjálaður – og finnst eiginlega þeir sem garga beggja vegna línunnar vera jafn mikið á valdi eigin bræði. Þetta var ekkert besta lendingin en úrslit kosninga eru úrslit kosninga og það er glatað að Bjarni Ben skuli alltaf eiga afturkvæmt en það er líka kjósendum hans að kenna. Vinstri velferð, hægri hagstjórn – hann Gylfi vinur minn í Viðreisn er ábyggilega hæstánægður. Ég er hins vegar skíthræddur við hægri hagstjórnir og held þær muni á endanum leiða til þess að þjóðfélagið allt logi, það verði reistar hér fallaxir og gapastokkar á torgum og burgeisarnir ristir upp. Ekki að ég haldi heldur, reyndar, að Samfylkingin eða Viðreisn hefðu komið í veg fyrir það – ég held m.a.s. að Vinstri Grænir séu bara nokkurn veginn á sömu línu og kapítalið með þetta. *** Um daginn hitti ég þingmann sem sagði við mig – a propos ræðuna sem ég flutti á borgarafundinum, um að það væri ofbeldi að breyta heimkynnum fólks í þjóðgarð – að þetta væri áhugaverð líking en að hann vildi búa í þjóðgarði. Ég svaraði þessu engu þá, velti því bara fyrir mér í nokkra daga, hvað þetta þýddi. Er maður þá á móti t.d. þéttingu byggðar? Móti nýjum strætóleiðum? Augljóslega getur fólk búið í þjóðgörðum en það getur ekki gert hvað sem er – margt af því sem mannlífinu fylgir gengur ekki upp í þjóðgörðum. Ef maður býr í litlu bæjarfélagi getur maður heldur ekki jafn auðveldlega skipt því upp í „vinnustaðahverfi“ og „kaffihúsahverfi“ og „íbúðarhverfi“ – þótt slíkar línur séu stundum dregnar – því allt blandast óhjákvæmilega svolítið saman. Mér hefur aldrei þótt það af hinu verra. *** Annars rifjaði ég það upp – og ég talaði víst ekki um þjóðgarð heldur friðland. Ég held að í friðlandi geri maður ekki neitt. Ef maður býr í friðlandi þarf maður að fara í tveggja tíma bátsferð bara til að komast í sjoppu. *** Augljóslega býr maður heldur ekki í friðlandi eða þjóðgarði með mörgum öðrum. Hitt fólkið raskar allt friðlandinu. Skilgreiningin á því er hreinlega að það fái að vera í friði fyrir manninum – að hann búi ekki þar, vegna þeirra augljósu áhrifa sem hann hefur á umhverfi sitt. (Það er vel að merkja ekki þar með sagt að friðlandið sé „náttúrulegt“ eða „ósnortin náttúra“ – margir helstu spekingar í þeim fræðum eru farnir að líta svo á að slíkt sé einfaldlega ekki til lengur, hugtakið sé bull; það sem maður girðir af er manngerður garður, og friðlönd og þjóðgarðar sem ætluð eru túristum eru bara manngerð söfn). *** En jæja. Ég blogga bara um AC/DC á morgun eða eftir helgi, sjáum til, kannski bæði.