Ég man ekki hvenær ég var síðast svona hressilega lasinn. Ég fann fyrir þessu koma yfir mig alla síðustu viku – hamaðist í ræktinni til þess að koma henni í gang (ég veit ekkert leiðinlegra en að vera hálflasinn í þrjár vikur, betra að ljúka þessu bara af) en gekk ekkert fyrren ég datt frekar kyrfilega í það með Steinari á föstudaginn. Laugardagur fór í að sjá rennsli á Hans Blævi og lifa af. Nú er ég rúmliggjandi annan daginn í röð. *** Það útskýrir sem sagt heilaþokuna. *** Eðli málsins samkvæmt – eða í samræmi við ráðandi móral augnabliksins, in situ 2018 – hefur komið upp spurningin um hver megi segja hvað , hver megi skrifa um hvern, hvaða „hóp“ og hvernig og svo framvegis. Nánar tiltekið má sísheterókarlmaður (að svo miklu leyti sem fullkomið slíkt eintak er einu sinni til) skrifa um intersex-transa á borð við Hans Blævi – og enn fremur, má skrifa um slíkan einstakling út frá einhverju öðru en kyngervi hánar einvörðungu? Það er að segja: að hversu miklu leyti má Hans Blær vera eitthvað fleira en kynseginmanneskja og að hversu miklu leyti má saga um hána (verandi obsessífur einstaklingshyggjumaður beygir hán nafn sitt og persónufornafn eftir eigin duttlungum) snúast um annað eða fleira en útkomu- eða tilurðarsögu. Hér er auðvitað ekki síst spurt um vald en líka um staðalmyndir og svo leyfi skáldskaparins – eða jafnvel leyfisleysi, og þá nauðsyn . Nauðsyn skáldskaparins má skilja tvíþætt – annars vegar þá þá verður skáldskapurinn að fást við það sem hann verður að fást við (enda list unnin instinktíft, maður bara eltir á sér halann). Þar er engin afsökun fyrir því að skrifa ekki það sem maður vill/þarf að skrifa – engin afsökun fyrir því að hætta að elta á sér halann. Hins vegar má skilja nauðsyn skáldskaparins sem hálfgerðan tilvistarvanda. Þá gæti maður sagt: Það skiptir kannski engu þótt ég skrifi þetta ekki – en bara að svo miklu leyti sem það skiptir engu máli að við eigum heiðarlegan literatúr. Eða literatúr yfir höfuð. Ég held vel að merkja að list einkennist einmitt oft af tilgangsleysi – fallegu, ögrandi, ljótu, ómerkilegu tilgangsleysi, einhvers konar poti í myrkrinu. *** Það eru til ótal dæmi um bókmenntir og listaverk sem brjóta á siðferðishugmyndum samfélagsins. Klassískust og þau sem flestir eru einfaldlega sammála um að séu „yfir strikið“ eru verk þar sem einhver meiðist líkamlega – Guillermo Vargas svelti hund í galleríi, Teemu Mäki drap kött og fróaði sér yfir skrokkinn. Aðeins nær strikinu eru verk þar sem einhvers konar „val“ á sér stað – einsog þegar Santiago Serra borgar vændiskonum fyrir að mega tattúvera þær. Í þessum tilvikum nær listaverkið inn fyrir hold einhvers annars og flestum ofbýður. *** En listaverk geta auðvitað meitt án þess að rista í holdið og er oft talið það til tekna – ef bók grætir gagnrýnanda er því skellt á bókarkápuna sem hæstu mögulegu meðmælum. Aðrar bækur stefna t.d. að hreinsun fyrir sakir ógeðs – de Sade er eitt, Saga augans eftir Bataille (eftirlætis bók Hans Blævar) er annað. Bókum og listaverkum af því tagi er ætlað að koma manninum í samband við skepnuna sem býr innra með honum, ekki til þess að hún taki yfir vel að merkja – eða í það minnsta ekki endilega, það má jafnvel sjá það sem aflausn eða útrás, leið til að losna við skepnuna úr sínu daglega lífi – en fyrst og fremst til að afhjúpa þann sannleika að við séum fyrst og fremst skepnur og ekki yfir það hafin. Og bækur geta ætlað sér kaþarsis fyrir sakir fegurðar, samstöðu með hinu valdlausu, gáfnaþunga o.s.frv. o.s.frv. *** Mögulegar transgressjónir í frásögnum geta líka snúið að raunverulegum persónum. Þar er satíran samþykktust – þótt hún geti oft verið grimmileg, skemmst er að minnast skrifa Steinars Braga um Jón Kalman í Kötu, þar sem höfundareinkenni JK eru höfð að athlægi og ein sögupersónan endar á að klæða sig í eins konar húðklæði úr líkama Jóns Kalmans. Vægari dæmi er að finna í hverju einasta áramótaskaupi. En transgressjónir inn á „raunverulega persónu“ einhvers annars þurfa ekki að vera settar fram í neinu gríni – Hallgrímur Helgason hefur oft gengið freklega, að mörgum þykir, á líf raunverulegra manneskja, bæði undir eigin nafni og nafni endurskírðra skáldsagnapersóna. Laxness þótti oft ganga hart að sínum fyrirmyndum. Í hvað-ef bókum á borð við Örninn og fálkann eftir Val Gunnarsson er delerað heil lifandis býsn um hvað raunverulegt fólk hefði gert við aðstæður sem aldrei komu upp – og þar hlýtur það fólk ekki alltaf fallegan dóm, eðli málsins samkvæmt. *** Oft er viðmiðið hérna að það megi skrifa satíru um „opinbera persónu“ – en annað viðmið væri að það mætti skrifa um opinbera persónu sem nyti valds. Þannig mætti t.d. segja að fórnarlömb glæpa væru opinberar persónu, hafi mál þeirra verið í fjölmiðlum, en það mætti samt ekki nota þau í satírur – og að einhverju leyti gildi sama um glæpamenn, sem séu oft sjúklingar (ótal dæmi um brot af þessu tagi má finna á fyrstu plötu Rottweiler hundana). Aðrir myndu telja með fólk í mannréttindabaráttu – í raun væri hægt að halda áfram ansi lengi. Segja að grínið verði að vera góðlegt, og því góðlegra sem manneskjan er valdaminni (þarf t.d. grín um Trump að vera góðlegt?) Og hvað gerum við þá við Múhameð – sem er auðvitað valdmikill, og á meðan sumir fylgjenda hans eru augljóslega meðal valdamesta fólks heimsins þá eru aðrir meðal þeirra allra valdaminnstu. Valdagreining er aldrei neitt sérstaklega einföld. *** Hermann Stefánsson notaði Ólaf Jóhann í einni af sínum bókum – og bað að sögn einfaldlega um leyfi og fékk það. En þá var heldur ekkert sérstaklega særandi í gangi þar – og stundum geta bókmenntir þurft að fara á særandi slóðir. Bókmenntir eru ekki bara til fróunar og huggunar, ekki bara skemmtiatriði. Hvað hefði Hermann gert ef bókin hefði leitt hann þangað – og ef Ólafur hefði orðið hvekktur? Hætt við að gefa út bókina? Skrifað plástur á bágtið? Ólafur er náttúrulega rosalega ríkur maður. Getur bara keypt sér sína eigins plástra. *** Önnur transgressjón bókmennta snýr einfaldlega að sanngildi. Þar getur verið um að ræða verk á borð við helfararminningar Mishu DeFonseca, sem sagðist hafa flúið úr Auschwitz og lifað með úlfum, eða dópistasöguna A Million Little Pieces eftir James Frey – sem gabbaði m.a.s. Opruh og var orðinn solítt bókmenntastjarna þegar í ljós kom að þetta var allt lygi. Eða, það er að segja, þetta var allt skáldskapur . Önnur tegund sanngildis er svo nær mörkunum – einsog í skáldsögum JT Leroy, sem voru skilgreindar nær skáldsögunni, en samt gefið í skyn að höfundur byggði á eigin reynslu (af því að vera HIV-smitaður samkynhneigður dópisti í New York) – sem var svo einfaldlega af og frá. Höfundur var amerísk úthverfakona úr efri millistétt sem hafði í besta falli fengið sér advil og hvítvín af og til. *** Sanngildistransgressjóninni lýkur samt ekki þarna. Það er hægt að fara ansi langt. Þannig náði rithöfundurinn Forrest Carter talsverðum tökum á hippakynslóðinni með bók sinni Uppvöxtur Litla Trés – sem til er í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin fjallar um dreng sem er að fjórðungi, minnir mig, Cherokee og elst upp hjá afa sínum sem kennir honum um mikilvægi arfleiðarinnar, að bera virðingu fyrir náttúrunni og svo framvegis. Aftur var því haldið fram að hún byggði á reynslu höfundar. Nokkru eftir að bókin kom út kom hins vegar í ljós að höfundurinn, Forrest, átti sér enga greinanlega barnæsku – það voru engar heimildir. Kom upp úr kafinu að hann hafði skipt um nafn og áður heitið Asa Carter, verið útvarpsmaður og ræðuskrifari, háttsettur í Ku Klux Klan og meðal annars skrifað hina fleygu og frægu ræðu George Wallace, þar sem hann lofar því að aðskilnaðarstefnan verði aldrei afnumin: *** Við þetta má svo bæta að það hefur aldrei almennilega fengist úr því skorið hvort að Forrest var að hluta Cherokee eða ekki – en það er ekki endilega neitt í heimspeki bókarinnar sem er í andstöðu við heimspeki KKK. Hann hélt því fram að hann væri Cherokee en Forrest neitaði því einfaldlega alla tíð að hann væri eða hefði verið Asa – en það eru hins vegar til heimildir um að Asa hafi sagst vera Cherokee og það var alls ekkert óalgengt í klaninu að menn teldu sig hafa rætur til innfæddra (rætur á landinu – það gerist auðvitað ekki betra). En gamall vinur Asa úr KKK sagðist hafa komið að hitta hann einu sinni eftir að hann var orðinn frægur og dottið í það með honum og Forrest hefði þá játað því að hafa skrifað bókina til að afhjúpa hvað hipparnir væru grunnhyggnir og vitlausir. Þeir gleypa við hverju sem er, sagði hann. *** Enn eitt dæmi eru ljóðasvindl á borð við Ern Malley – þar sem tveir náungar tóku sig til, bjuggu til módernískt ljóðskáld og ortu bók í hans stað, á einni kvöldstund, til þess að sýna fram á að módernísk ljóðlist væri bara rugl og kræfist hvorki kunnáttu, vinnu né þekkingar. *** Spurningin sem sprettur oftast upp er þá eitthvað á þessa leið: Væri þetta verk annað verk ef höfundurinn væri önnur manneskja? Ef að Crosby, Stills og/eða Nash hefðu skrifað Uppvöxt Litla Trés, væri það þá önnur bók? Ef að ljóð Erns Malleys hefðu verið ort af einlægni og natni – en væru samt alveg eins – væru þau þá „betri“ (gagnrýnendum þótti bókin alltílagi – og ljóðin eru satt að segja fín)? Ef að Forrest væri Asa en væri líka Cherokee – hvað þá? *** Nú vill til að flest listaverk sem gerð eru um transfólk sögupersónur eru ekki skrifaðar, leiknar, framleiddar, leikstýrt o.s.frv. af transfólki og þær sögur sem hafa verið sagðar um transfólk eru eins misjafnar og þær eru margar, bæði að gæðum og innihaldi. Auk þess vill til að flestar sögur sem sagðar eru fjalla um fjöldann allan af fólki sem allt á sér sinn eigin bakgrunn, sína eigin sögu, tilheyrir sinni eigin demógrafíu, hefur sín eigin völd, dílar við sitt eigið valdleysi, er fast í sínum eigin mótsögnum – enda eru bækur, líka karakterstúdíur á borð við Hans Blævi, ekki síst um heil samfélög. *** Það er mjög mikið af mér í flestum mínum sögupersónum, sérstaklega þeim sem eru í forgrunni, en samt eru þessar persónur yfirleitt alls ekki ég – og kannski síst af öllu ísfirsku rithöfundarnir í Heimsku og miklu frekar hin litháíska Agnes í Illsku, tranströllið Hans Blær eða Lotta mamma hans, nú eða nasíski sagnfræðineminn Arnór. *** Að því sögðu hef ég heldur aldrei skrifað sögupersónu sem er jafn mikill einstaklingur og einstaklingshyggjumaður og Hans Blævi – öll hánar tilvist snýst beinlínis um það að tilheyra ekki neinum hópi . Hán er mótþróaröskunin holdi klætt. Og þar með engu líkt. *** Leikverkið verður frumsýnt á miðvikudag. Mér finnst það auðvitað óttalega lítið miðað við bókina – fjögur hundruð blaðsíðna bók soðin niður í 40 síðna leikrit. Textinn er skorinn við nögl. En svo bætir leiklistin auðvitað heilmiklu við (þau ætla ekki bara að leiklesa þessar 40 síður – og hafa raunar líka kokkað þær mikið sjálf, blandað saman senum o.s.frv.). Það var að mörgu leyti auðveldara að stytta Illsku vegna þess að hún innihélt svo margar sögur sem mátti hoppa yfir eða sleppa. Hans Blær er meiri karakterstúdía og núansarnir mikilvægari – einmitt kannski vegna þess að hún er á brúninni. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig til tekst á miðvikudag. *** Það vill til að ég er að klára bókina á alveg sama tíma. Ef ég kemst úr rúminu á morgun ætti ég að geta náð að klára leiðréttingar og fix annað kvöld – tek þá með mér útprentið suður og út og færi inn krotið á hótelinu. *** Á fimmtudag flýg ég sem sagt til Umeå í Svíþjóð, þar sem ég átti að vera lesa upp með nóbelsverðlaunakandídatinum Ko Un – sem er einmitt aftur dæmi sem mætti taka í umræðunni um hvort höfundurinn skipti máli. Ég skrifaði helling um Ko Un fyrir Starafugl í vetur í tilefni af þýðingum Gyrðis. Í sem skemmstu máli er hann gamall andófsmaður sem sat lengi í fangelsi og var pyntaður vegna mótmæla gegn suður kóresku ríkisstjórninni og hefur ort mikið af fallegustu ljóðum síðustu aldar. Hann er fjörgamall og var metooaður á dögunum – kemur í ljós að sennilega hefur hann verið dónakall, að því er ég kemst næst svona sirkabát af Dustin Hoffman alvarleika (þ.e.a.s. berar sig, klæmist, káfar og vill hluti, frekar en að hann nauðgi og berji og kúgi) – og suður kóreska ríkið gerði sér lítið fyrir og fjarlægði hann bara úr kennslubókum. Enda, sagði talsmaður ríkisins, hefðu ljóð hans aðra siðferðislega merkingu nú þegar í ljós er komið að hann var ekki góð manneskja heldur vond (einsog ríkið hélt náttúrulega fram, árum saman, með réttu). Og þá er best að ljóðin hans séu ekki til lengur. Hann aflýsti öllum evróputúrnum sínum af heilsufarsástæðum (hann hefur líka verið í uppskurði, að sögn). En ég verð nú samt sem betur fer ekki einn í Svíþjóð. *** Maður verður svolítið óðamála af að liggja svona í rúminu með sótthita. Svona hlýtur Raskolnikov að hafa liðið.