Ég lauk gærdeginum á að tæma eldhúsið mitt og færa það inn í stofu. Nú er eldhúsið tómt en allt á hvolfi annars staðar í húsinu. Það á að fara inn í vegg í eldhúsinu í leit að myglu. Ég ætla ekki að gera það sjálfur; ég er með iðnaðarmenn í þessu sem munu sennilega bæði rýja mig inn að skinni og leggja húsið í rúst. Nei, djók. Ég er sem sagt eldhúslaus. Í gær gerði ég líka snjókall með Aino, sem var „lasin“ heima (hún var bara með smá höfuðverk um morguninn, en hafði verið með hita daginn áður – ég er alltof linur við þessi börn). Og í gær gerði ég hvítlauksristaðan skötusel með ribeyesteik. Það er auðvitað frekar langt gengið að elda ribeyesteik þegar maður er að halda hátíðlegan #fiskars – fiskimars – en þegar ég tók þá ákvörðun var ég búinn að gleyma að Nadja yrði í Frakklandi seinnihluta mánaðarins. Og Nadja sem sagt borðar ekki kjöt. Því er kærkomið tækifæri fyrir kjötátak þegar hún er í burtu. Sem verður þá Surf&Turf – í fyrradag var ég með beikonvafða löngu. Í gær lauk ég líka við að þýða tvö ljóð eftir Derek Walcott sem birtast á Starafugli á morgun, en Walcott dó á föstudaginn síðasta. Í dag er ég mættur í vinnuna. Voðalega er oft erfitt að einbeita sér. Jæja.