Þegar Roseanne Barr var rekin fyrir sinn annars alræmda strigakjaft í síðustu viku spurði ég sjálfan mig fyrst af öllu hvort það væri of seint að setja hana á listann yfir fyrirmyndir? Svona í ljósi þess að bókin er alveg, alveg, alveg að verða tilbúin. Sennilega væri enn vafasamara að kalla hana eftirmynd – hún hefur verið að þessu frá því áður en Hans Blær fæddist (hvort heldur sem litið er til fæðingarárs persónunnar eða tilurðar sögupersónunnar). Ekki get ég útskýrt heldur hvers vegna mig langar svona að hafa hana á þessum lista – nema bara til að benda á skyldleikann. Roseanne Barr hefur alla tíð – frá fyrsta degi – stundað list óheflaðrar transgressjónar og dónaskaps. Hún er myndlíkingin um fílinn í postulínsbúðinni holdi klædd. Sjónvarpsþættir hennar frá níunda og tíunda áratugnum eru viðstöðulaus brussugangur – og nýmæli einmitt þess vegna. Roseanne var feit og dónaleg lágstéttarkelling með hvínandi kynhvöt og jafn grimmilegan húmor fyrir sjálfri sér og öllu öðru . Nýju þættirnir – sem er búið að aflýsa – eru af sama meiði og jafnvel enn mikilvægari í dag, einsog bent hefur verið á, vegna þess að þeir eru svo til eini snertipunkturinn milli rauðra og blárra kjósenda í Bandaríkjunum, eini staðurinn þar sem eru átök sem eru ekki bara fyrirlitning . Ég rifjaði af þessu tilefni upp það þegar hún söng bandaríska þjóðsönginn á fótboltaleik árið 1990 – svo falskt að það lá við að veröldin stöðvaðist. Eg man eftir þessu úr fréttum, og þau okkar sem eru nógu gömul til að muna tímann fyrir internet vita að það komust ekki allir heimsins smáskandalar inn á borð á litla Íslandi árið 1990; það þurfti eitthvað sérstakt úmf til. Meira að segja Bandaríkjaforseti – George Herbert Bush – sá sér ástæðu til að nefna hvað þetta hefði verið ósmekklegt. Fyrir tæpum áratug pósaði hún líka í Hitlergervi á forsíðu gyðingatímaritsins Heeb – við takmarkaðar vinsældir, Bill O’Reilly úthrópaði hana fyrir að gera lítið úr helförinni. Sem hún auðvitað gerði – en þar er aftur spurning hversu mikið olnbogarými listamenn fá. Það hefur aldrei verið búið til listaverk sem snerti við helförinni sem ekki gerði lítið úr henni – þótt margir hafi verið nærgætnari en Roseanne. Og þá getur maður líka spurt sig hvort nærgætnin sé alltaf besta leiðin til þess að hantera viðkvæma hluti. Mitt svar er alla jafna nei. Nærgætni verður mjög auðveldlega klámfeng og melódramatísk og sérhlífin – og þá er hún verri en heiðarlegt kaos. Fyrir utan auðvitað að vera drepleiðinleg. Sem þýðir vel að merkja ekki að umrætt tíst – þar sem hún lýsti fyrrum ráðgjafa Obama, sem er hálf írönsk og hálfur svartur-bandaríkjamaður, sem afkvæmi Bræðralags múslima og Apaplánetunnar – sé réttlætanlegt. Og það var svo sannarlega ekki það fyrsta og eina sem Roseanne hefur sagt á Twitter sem var gersamlega yfir strikið. Þetta varð mér síðan tilefni til að velta því fyrir mér hvort að grínistar nútildags (eða sirka eftir 1990) hefðu meiri þörf fyrir trúnað og tryggð áheyrenda sinna. Þar er spurt um eitthvað annað en nærgætni, vel að merkja. Margir af grínistum áttunda og níunda áratugarins – George Carlin, Eddie Murphy, Richard Pryor, Roseanne Barr, Bill Hicks, Andy Kaufmann, Rodney Dangerfield o.s.frv. o.s.frv. – voru ekki bara á einhverri siðferðislegri grensu heldur virtist þeim algerlega fyrirmunað að svara spurningunni um hvort þeim væri alvara eða hvort þeir væru „bara“ að grínast. Í mörgum tilvikum hafði maður góðar og gildar ástæður til þess að efast um andlegt heilbrigði þeirra. Post-Simpsons og post-Friends er einsog grínistar leiti meira að skiljanlegra samhengi – traustari fótfestu. Að þeir vilji að við vitum hvað þeim finnst í raun og veru . Simpsons eru (eða voru) oft pínu grófir en maður vissi alltaf sirka hvar þeir stóðu. Þegar Apu-málið kemur upp á síðustu misserum þá efast maður samt ekkert um að Matt Groening meini vel – við vitum að hann meinar vel – en veltum fyrir okkur hvort hann sé ekki bara orðinn risaeðla. Og sama gildir um endurmat Friends þáttanna – það er ekki einsog nokkrum detti í hug að þau hafi öll verið pípandi fordómafífl, þau voru bara svolítið lost. En það var aldrei hægt að vita hvort að Roseanne, Andy Kaufmann eða Rodney Dangerfield meintu vel – og það var (en er ekki lengur) málinu algerlega óviðkomandi. Það er helst mér detti í hug að Rick & Morty séu á þessu óþægilega rófi – en þeir þykja heldur ekki par fínir í góðu kreðsunum, enda gæti maður þá óvart verið að hlæja í kór með einhverjum sem er ekki í góðu kreðsunum. Kaldhæðnin er auðvitað ekki dauð – en þessi hysteríska meinhæðni í listum er það kannski, í það minnsta alvarlega löskuð. Í dag eru flestir þeir grínistar sem nokkurrar velgengni njóta mjög augljósir í afstöðu sinni – það á líka við um Milo Yiannapoulus, sem kallar sig gjarna grínista. Colbert, John Oliver, Samantha Bee og aðrir sporgöngumenn Jons Stewarts eru allir að djóka í nafni réttlætisins – það er sárasjaldan sem maður efast um afstöðu þeirra. Kaldhæðni þeirra er kaldhæðnin einsog hún var skilgreind í Reality Bites: Að segja eitt og meina augljóslega eitthvað annað. Kaldhæðni Roseanne Barr, Andy Kaufmanns og alls þess gamla skóla var kaldhæðni þess sem segir eitt og enginn veit hvað í andskotanum hann, hún eða hán er að meina.