Það var grein um grát karlmanna í Svenska Dagbladet sem ég las með kvöldmatnum. Dálítið dýpra blik inn í þetta klassíska með að karlar gráti ekki nóg og hvers vegna það sé ekki nógu gott. *** Meðal annars var því haldið fram að karlmenn hefðu grátið mikið fram að Upplýsingu þegar Kant hefði kennt þeim að þeir yrðu að vera yfirvegaðir ef þeir ætluðu að sjá heiminn skýrt. Upp frá því hafi hið opinbera og hið yfirvegaða/rökræna orðið umdæmi karlmannsins en heimilið og hið tilfinningalega orðið umdæmi konunnar. *** Sennilega hefur einhver þurft að elska börnin, jafnvel þegar það meikaði ekkert sens. Fromm talar um að ást feðra sé skilyrt en ást mæðra skilyrðislaus (og vill raunar meina að allir þurfi að alast upp við hvorutveggja). *** En þarna fyrir Upplýsingu. Til dæmis grétu karlar víst mikið saman. Það voru tiltekin dæmi úr bókmenntum þar sem vinslit urðu með körlum og þeir hættu að gráta saman. Það var helsta teiknið: Hví grætur þú ekki með mér lengur, erum við ekki vinir? *** Og svo grétu þeir með konum. „Sínum“ konum og mæðrum „sínum“ og svo framvegis. *** Fysiológískt getur lítill grátur haft mjög neikvæð áhrif á hormónabúskapinn og tilfinningalífið almennt. Það safnast einfaldlega fyrir streituhormón (ef ég skildi þetta rétt) sem fara ekki vel með mann. Sálrænt getur maður líka allur endað í hnút af því að sleppa þessu eðlilega ferli allra sorga. *** Lítill grátur er ekki heldur einfaldlega val – það er lærð hegðun sem er erfitt að vinda ofan af. Maður ákveður að maður eigi ekki að gráta og svo getur maður það ekki. Og þetta er ekkert sem karlmenn hafa einkarétt á – það eru dæmi um konur í opinberum stöðum, til dæmis, sem hafa sagst hafa tamið sér sams konar sjálfsstjórn og misst með því getuna til að gráta. *** Litlum gráti fylgir líka lítill hlátur. Tilfinningalífið er samhangandi held, og tilfinningar hafa innbyrðis verkan hver á aðra. *** Ein kenning sem kom fram í greininni var að ástæðan fyrir því að karlmenn eru svo stór hluti af ofbeldiskúltúrnum – sem gerendur og þolendur, vil ég nefna – og ástæðan fyrir því að þeir eru líklegri til að misnota eiturlyf og áfengi og/eða fremja sjálfsmorð – sé þessi bæling. Hún valdi yfirdrifnum viðbrögðum. *** Karlmenn gráta sjaldnar en þeir gráta af meiri ofsa. Þeir lyppast niður og orga. Og oft er það tákn um uppgjöf, frekar en einfalda sorg. Þegar þeir hafa misst stjórn á aðstæðum sínum. Þegar þeim finnst einsog harmurinn muni drekkja þeim. *** Einsog þeir óttist hann. Óttist að hann muni drepa sig. *** Margir karlmenn segjast vilja gráta meira. Samfélagið nútildags styður þá í þessu. Margir karlmenn skammast sín meira fyrir að gráta ekki en að gráta. Sérstaklega eftir að unglingsárum lýkur. Þeir fara í jarðarfarir og óttast að fólk taki eftir því að þeir gráta ekki. Gera sér jafnvel upp vol. Finnst þeir afbrigðilegir. Enda allir í hnút. *** Það er gott fyrir fólk að gráta. Fólki líður betur ef það grætur. En því líður ekki betur ef það grætur í samfélagi sem er líklegt til þess að gera lítið úr því fyrir vikið. Ef það er híað. Það þykir víst alveg sannað. Þá er betra að harka af sér. *** Maður gæti ímyndað sér að þetta væri pólitísk afstaða. Að íhaldssamir repúblikanar vilji að karlmenn séu hörkutól sem gráta og að meðvitaðir femínistar vilji að karlmenn séu „í tengslum við tilfinningar sínar“. En línurnar eru alls ekki svo skýrar. *** Í fyrsta lagi er mikið af íhaldskúltúr miklu þolinmóðara gagnvart dramatískum karlmönnum – ég leyfi mér að nefna amerískan köntríkúltur sem dæmi. ***
*** *** Í öðru lagi eru femínistar alls ekki barnanna bestir þegar kemur að afmaskúleringu sem vopni í samræðu. Útgangspunktur greinarinnar í SVD er það sem kallað er „male tears“ – meme sem femínistar nota til að gera lítið úr umkvörtunarefnum svokallaðara karlréttindasinna. *** *** *** Búhúhú, viltu ekki bara fara að grenja? *** Línurnar eru sem sagt úti um allt og skarast. Sama fólkið segir „harkaðu af þér“ og „gráttu bara væni“ – og sama fólkið segir „vertu í tengslum við tilfinningar þínar“ og „ég nærist á væli þínu“. *** Ef ég man rétt stóð að karlmenn grétu að meðaltali 6-10 sinnum á ári en konur að meðaltali 30-64 sinnum á ári. Mér finnst það ekki mikið. Ég ætti kannski að taka það fram. En ég græt sjálfur eiginlega aldrei.