id““:““2p6ne““

Ég fór á Vísindaport um raforkumál Vestfjarða í hádeginu. Þar mælti Orkubússtjórinn – og brá upp fremur neikvæðri mynd án Hvalárvirkjunar. Sem sagt virkjun eða fjárfesting upp á 6-10 milljarða – við tvöföldun Vestfjarðalínu. Það er boðið. Það sárvantaði einhvern á fundinn sem hafði vit á tölunum og var ósammála Orkubússtjóra, sem skorti aðhald – sum okkar voru lost, aðrir ekki í stöðu til að tjá sig, og hinir bara virkjunarsinnar. Ég held mig við þá afstöðu að þarna megi ekki virkja nema það sé á einhvern hátt tryggt að orkan verði ekki bara svolgruð af einhverri stóriðju við hringveginn. *** Í Dagblaðinu Vísi – ekki fréttasíðunni Vísi, heldur Dagblaðinu Vísi, DV – er dómur um Sprungur Lomma þar sem hann fær þrjár og hálfa stjörnu. Ég hefði gefið honum fjórar en ég hefði heldur ekki sagt eiginlega neitt af því sem stendur í dómnum. Textinn er eiginlega ekki upp á meira en tvær stjörnur, topps, en hugsanlega hefur ritdómara bara þótt hann (þ.e.a.s. hún) hafa verið fullneikvæð í textanum og viljað bæta upp fyrir það með stjörnugjöfinni. Jafna þetta út. *** Stjörnugjöf er áhugaverð. Ég held að fólk noti hana misjafnlega. Ég var á tímabili eitthvað að myndast við að vera Goodreadsari og þá þarf maður að gefa stjörnur. Ég gaf eiginlega engu meira en fjórar stjörnur. Fimm gat bók kannski fengið ef hún hafði varanlega umturnað lífi mínu og ég fann ennþá til hennar í brjósti mér 10 árum eftir að ég las hana – og ekkert lát á kraftinum. Fjórar stjörnur var meistaraverk. Þrjár og hálf gat verið besta bók ársins. *** Mér finnst eitthvað óþægilegt þegar það er misræmi milli texta og stjörnugjafar. Þegar mér finnst einsog ritdómarinn hafi verið of vægur í stjörnugjöfinni miðað við stemninguna í textanum. En svo þekki ég það reyndar líka að skrifa dóm og finna bara gallana – þótt manni finnist verkið gott. Ég var að myndast við það fyrir nokkrum árum að skrifa dóm um bíómyndina Málmhaus og sá texti var ekkert nema aðfinnslur – en ég kom ekki orðum að því hvað mér fannst gott við myndina. Það hefði verið eitthvað off, fannst mér, að birta textann en bæta það upp í stjörnugjöf (solítt þriggja stjörnu mynd). Maður þarf að geta komið orðum að gæðunum, finnist manni þau yfir höfuð til staðar. *** „Bókin er afsprengi ákveðinnar kynslóðar ljóðskálda sem hafa tekið það að sér að pönkast í ljóðinu og reyna sitt besta við að finna ljóðrænu í því sem alla jafna er ekki talið ljóðrænt.“ Segir í áðurnefndum ritdómi. Ég velti því dálítið fyrir mér hvaða kynslóð þetta væri, hverjir væru með honum í þessari kynslóð. Jón Örn er fæddur 1983 – fimm árum yngri en ég – gefur út fyrstu bókina sína (með Arngrími Vídalín) 2008. Þá eru tíu ár liðin frá því Steinar Bragi gefur út Svarthol. Nýhil er sex ára og á sirka eitt ár eftir af almennilegri starfsemi (seinni bók Lomma, Gengismunur, er sennilega síðasta kjarnabók Nýhils – síðasta sem er lýsandi fyrir starfsemina). Það eru fjögur ár í að Bragi Páll gefi út sína fyrstu bók. Sama ár kemur fyrsta Meðgönguljóðabókin. *** Ég reikna með að það sé meint eitthvað svona. Transgressjónin. Bergsveinn Birgisson var einn af þeim fyrstu til að veita Nýhil athygli og skrifaði útvarpspistil um selskapinn þar sem hann líkti Nýhil við ógeðsskáldskap – poetry of disgust, minnir mig að hann hafi kallað það og vísað í einhvern enskan hóp sem ég þekki ekki. *** En þetta er auðvitað hægt að túlka miklu víðar. Bónusljóð er líka tilraun til að finna ljóðrænu í því sem alla jafna er ekki talið ljóðrænt. Raunar má segja að stærstur hluti ljóðsögunnar gangi út á þetta – eða í það minnsta átök milli hamslausra rómantíkera, sem finnst nóg að nefna blómið og fegurð þess, og þeirra sem leita fegurðarinnar á óvenjulegri stöðum: í slorinu, furðum tungumálsins, drykkjunni, hatrinu, dauðanum, skúmaskotunum. Þetta á líka við um sonnettuskáldin, hækuskáldin og módernistana – þessi átök eru alls staðar – og eiga sér yfirleitt ekki stað milli ólíkra kynslóða heldur einmitt innan sömu kynslóða. *** *** Ljóð skáldsins Su Hui (fjórðu öld) eru til dæmis palindrómur (sennilega þær fyrstu) sem gersamlega brutu niður öll þekkt viðmið í ljóðlist. Ljóð hennar er hægt að lesa í margar áttir og fá alls kyns ólíkar frásagnir og ólíka ljóðrænu – það munu vera alls 7.839  leiðir í gegnum þetta ljóð. Þetta kalla ég að finna ljóðrænu í hinu óljóðræna (ljóðið fjallar annars um framhjáhald), að hafa róttæka afstöðu til tungumálsins, brjóta það niður og byggja það upp samtímis, leyfa því jafnvel að gróa saman sjálft að einhverju leyti. Lommi er svolítið einsog þessi kelling. *** Svo fannst mér líka dálítið einsog dómurinn sneri, meðvitað og ómeðvitað, meira að ljóðatröllinu Lomma en ljóðabókinni Sprungum. Einsog það væri verið að skamma Lomma fyrir það hvernig hann hefði hagað sér á internetinu í gegnum tíðina („Lommi, farðu heim!“) frekar en að viðkomandi hefði lesið bókina. *** *** Annars er dómurinn hérna , fyrir þá sem vilja lesa þriggja og hálfrar stjörnu ljóðabókardóm. *** Ég ætlaði að blogga um eitthvað allt annað þegar ég vaknaði. Nú man ég ekki einu sinni hvað það var. Er, hvað það er, það er sjálfsagt þarna ennþá.