createdTimestamp““:““2024-05-11T20:58:36.554Z““

Ég er stundum að reyna að skilja raforkumálin. Þá kemur sér ekki alveg nógu vel hvað ég er heimskur. Því ég skil bara ekki neitt. Einn segir að það verði að virkja til þess að Vestfirðingar geti fengið rafmagn, annar segir að það sé til nóg rafmagn, þriðji segir að það megi nú samt ekki menga landið með rafmagnslínum (og þess vegna ekki hægt að flytja það vestur, nema í jörð fyrir trilljónir sem enginn tímir), og fjórði að það sé búið að selja allt þetta rafmagn til útlenskra stórgróssera, og þá segir fyrsti að það myndi duga að loka einu stóriðjuveri á austfjörðum til þess að rafmagna alla vestfirði og þá spyr fimmti hvort vestfirðingar ætli í raun og veru að láta loka heilum vinnustað á austfjörðum, við sem þekkjum svo vel afleiðingarnar af því þegar stórir vinnustaðir leggjast í eyði. En þurfum við þá að virkja, spyr ég, og er sagt að nei við þurfum ekki rafmagn, svo fremi sem við höfum internet og „hugvit“ – sem er held ég það sem Bandaríkjamenn kalla „startup“ og er rekstur sem einkennist af miklum vaxtarmöguleikum en talsverðri fjárfestingarþörf, altso, hann þarf pening og borgar lítið útsvar og það þarf útsvar til þess að lappa upp á Húsmæðraskólann, sem er að grotna niður og leggja götustein í Tangagötuna, sem er að leysast upp í holufyllingarbútasaum, að ég tali nú ekki um göturnar í nágrannabyggðalögunum – úthverfunum – hvort við megum ekki fara í einhvern rekstur sem er líklegur til að borga skatt – það þarf auðvald til að skattpína, til lítils að skattpína favelurnar – og þá er mér sagt að við ættum náttúrulega að hafa fellt kvótakerfið fyrir löngu, og ég segi að það hafi nú verið reynt ansi lengi, með litlum árangri, og þá reiðist viðkomandi og spyr hvers vegna við höfum selt frá okkur kvótann og ég segist engan þekkja sem seldi kvóta, en mér ég skiljist að það hafi nú ekki alltaf verið gert af gróðafíkn heldur til þess að halda fyrirtækjum gangandi, án þess að ég viti það, eða til að borga upp þrotabú, skulduð laun og svo framvegis, sjálfsagt hafi líka margir fengið glýju í augun af peningunum og svikið bæjarfélögin – ég þekki það ekki, en það sé til lítils að skamma okkur sem vorum börn þegar kvótinn var seldur fyrir að hafa selt kvótann, mér líður svolítið af þessu einsog það sé verið að kenna mér um galdrabrennurnar á Kirkjubóli, hér í firðinum, þar sem Jón brenndi Jón og Jón, einsog frægt er. Svo kemur eitthvað meira. „Þið þurfið bara að keyra á túrismann, miklir vaxtamöguleikar þar“, segir einhver (og gefið í skyn að það sé græni kosturinn). „Gefið handfæraveiðar frjálsar“ segir einhver annar og ég segi „já, takk, ókei – er það sem sagt á borðinu?“ Nei, nei, það sem er á borðinu er að fjársvelta menntaskólann og háskólasetrið og heilsugæsluna og svelta okkur á rafmagni þar til búið verður að virkja hverja einustu sprænu upp og niður djúpið, þá verður byggðin lögð niður og þessi 40MW, sem mér skilst að vanti uppá, seld í stóriðju á suðurnesjunum. En það viljum við auðvitað ekki, segja fyrsti til fimmti, eða að minnsta kosti annar til fimmti, okkur þykir svo vænt um landsbyggðina, amma mín er nú fædd í Viðey, og ég er giftur konu sem ólst upp á Bíldudal, og við förum reglulega í Ásbyrgi, sem okkur finnst vera fallegasti staður á landinu og við prentuðum út alla fossana hans Tómasar læknis – og ekki bara í prentaranum heima heldur hjá fagmanni, ég veggfóðraði skrifstofuna mína með þessu, þar sem ég framleiði einmitt áðurnefnt hugvit, viltu ekki bara krossfesta þig við sjávarþorpið þitt, djöfulsins væl.