Untitled

Ég skreið lúinn fram úr í morgun – hálfþunnur eftir harða rúmið hérna í Maunula. Inni í eldhúsi stóð Nadja í engu nema nærbuxum og alltof stórum Guns N’ Roses bol og hellti upp á kaffi. Í augnablik fannst mér einsog árið væri 1988. Og ég í senn þrjátíu árum yngri og tíu árum eldri. *** Af því að fyrir þrjátíu árum var ég 10 ára. Og mér leið einsog ég væri 20 ára. Sko. Ekki einsog ég væri fimmtugur. *** Yfir morgunmatnum ræddum við bókamessuna í Gautaborg við mág minn. Og uppgang fasismans. Lýðræðið. Málfrelsið. Jihadisma. Þvert ofan í það sem má lesa í fréttum á Íslandi (og í Danmörku, þar sem íslenskar fréttir fæðast oft) eru Svíar nefnilega alltaf að tala um hlutina. Alveg viðstöðulaust. *** Í dag ætla ég að gera jóga og fara út að hlaupa og vinna örlítið. Mér bauðst að þýða ljóð fyrir rótgróna stofnun fyrir sirka einn fjórða af viðmiðunartaxta Rithöfundasambandsins. Sem er auðvitað mjög gott, yfirleitt gerir maður þetta bara ókeypis. Ég gerði þeim gagntilboð – ég myndi bara þýða annan af tveimur textum og ég myndi gera það fyrir einn þriðja af viðmiðunartaxtanum. Þriðjung af lágmarkslaunum. Og einsog öllum þrælum finnst mér ég í senn hafa verið dónalegur við húsbóndann og óforskammaður af frekju. Er ekki fegurðin verðlaun í sjálfri sér? Og myndi ég ekki gera þetta ókeypis? *** Svarið er jú – sennilega myndi ég gera þetta ókeypis. Ég hef gert það. Ég hef þýtt álíka mikið af texta eftir sama skáld fyrir enga peninga. En þá var heldur enginn húsbóndi í spilinu. *** Ég nýt þess líka að elda mat heima hjá mér en ég myndi samt ekki vinna fyrir 400 krónur á tímann á veitingastað. Þess vegna setti ég hnefann í borðið og sagðist skyldu gera þetta fyrir 600 krónur á tímann. Og á raunar allt eins von á því að verða hafnað. *** Sennilega er þetta líka til marks um að ég eigi alltof mikla peninga. Eða yfirdrátturinn sé sjúklega grunnur. Yfirleitt þigg ég bara allt sem ég fæ og sprikla svo þar til mér finnst einsog hjartað í mér muni springa. *** Kannski er þetta bara til marks um að ég sé í sumarfríi. *** Finnland er alla jafna mjög fallegt á sumrin og veðursældin önnur og meiri en margir ímynda sér. Að vísu er sjaldgæft að hitinn farinn langt yfir 30 gráður, þótt það komi fyrir, en það er samt sólríkt – 20-25 gráður. En ekki núna. Í dag er skýjað og sennilega ekki nema 13-14 gráður. Sem er auðvitað alveg voðalegt. *** Á morgun yfirgefum við borgina og förum út í sveit fram á laugardagskvöld. *** Og nú kom sólin út. Ég ætla líka út. Að hlaupa.