Flónið mitt, litla flónið mitt, við tvö erum ein eftir, allir aðrir löngu dauðir, þrifnir, rakaðir, greiddir, meikaðir, syrgðir, grafnir, snyrtilega uppstillt, skreyttir blómum, hvíla í friði hættulaust. Bara þú og ég finnum enga leið til að deyja hröpum með höfuðið á undan alltaf ofan í sama himin alltaf þar til næst. Í jaðri augna okkar standa tveir kanarífuglar, jafn ólíkir og tvö augu sömu manneskjunnar, flónið mitt, litla flónið mitt, í kvöld finnum við enn á ný enga leið til að deyja, í kvöld græt ég kanarífuglum og tár mín syngja. *** Hvernig hefurðu það? – Fínt bara, segi ég, fínt. Ég svaf vel. Dreymdi ekkert. Vaknaði af sjálfri mér. Leit í spegilinn. Sá ekkert óvenjulegt. Mundi eina eða tvær manneskjur. Eina eða tvær mundi ég ekki. Sópaði mylsnunni af borðinu. Fann rúsínu. Opnaði glugga. Var hamingjusöm einu sinni. Óhamingjusöm tvisvar. Fann ekki fyrir neinu þrisvar. Hugsaði um merkingu lífsins þrisvar. Hóstaði. Var hvergi illt. Skorti ekkert. Enginn hafði áhyggjur af mér. Horfði á fréttirnar. Þau klipptu bandið. Fóru í viðtal. Sprengdu í loft upp. Tvö börn og bíll drukknuðu (sitt í hvoru lagi). Þau töluðu lengur um bílinn en um börnin. Leit út í garð. Leit ofan í veskið mitt. Skoðaði fortíðina. Lagði fram tap mitt. Fagnaði uppgötvunum mínum. Gaumgæfði atburði. Íhugaði samhengið. Lagði mat á hlutinn. Uppgötvaði tengingar. Útskýrði ástæðurnar. Heiðraði þá dauðu með mínútu þögn. Andvarpaði vegna elskhuga míns. Hugsaði um móður mína. Skipti um föt. Klóraði mér í höfuðið. Fínt bara, segi ég, fínt. Þýtt úr enskri þýðingu Jonas Sdanys.