createdTimestamp““:““2024-12-06T14:58:30.918Z““

Ég hef verið að taka upp hljóðbók síðustu vikur. Illsku – loksins. Það kom til tals að gera það á sínum tíma, eða fljótlega eftir að hún kom út, en þá féllust mér hendur að dvelja lengur í þessum heimi. Hún er alveg ægilega löng líka. Mér sýnist hljóðbókin ætla að verða 25 tímar. Upptökur fara fram í Studio Västerås hjá afskaplega fínu fólki. Þetta er stórt og fallegt tónlistarstúdíó sem eigendurnir tóku yfir þegar Sænska Ríkisútvarpið flutti sig um set fyrir einhverjum árum. Ég sit í trommuklefanum og les. Hljóðmaðurinn Stephan situr svo í mixerherberginu og dundar sér á meðan – hann editerar ekki neitt af því hann skilur ekki tungumálið, sú vinna fer öll fram á Íslandi, hlustar bara með öðru eyranu og svo fáum við okkur kaffi í pásunni. Ég les í kannski þrjár klukkustundir á dag. Þetta er svolítið spes. Ég er nýbúinn að vera að lesa yfir sænska þýðingu á Brúnni yfir Tangagötuna og er að fara að lesa yfir athugasemdir við nýja skáldsögu sem kemur í haust. Þannig að það hefur fátt verið á dagskránni annað hérna en að lesa eigin bækur. Ég er nú óvenju skemmtilegur, einsog mér verður tíðrætt um, en maður getur nú samt fengið leið á þessu – þetta er svolítið solipsískt, að vera svona fastur í sjálfum sér. Stephan og Vladi spurðu mig líka í gríni hvort ég myndi ekki vilja gera breytingar á bókinni. Og það er nú ekki svo – mig klæjar ekki að breyta neinu. Einhvern veginn á ég meira að segja erfitt með tilhugsunina um smávægilegar breytingar þegar ég hef lokið við bók – þegar ég hef gengið frá henni. Ég hef auðvitað gert leiðréttingar á málfari og þannig – frá einni prentun til annarrar og ef það hafa komið upp villur við þýðingar og í sjálfu sér er eitthvað smotterí þannig núna líka. Það er alveg óhemja af smá-skyssum sem er hægt að finna í einni bók. En það kemur alls konar upp þegar maður fer yfir bók sem kom út fyrir rúmum átta árum (og ég byrjaði að skrifa fyrir tæpum þrettán). Til dæmis er í tvígang talað um „kynskiptiaðgerð“ – sem er ekkert gert lengur (heldur kynleiðréttingu) og í einu tilfelli er nefnd manneskja sem hefur síðan skipt um nafn og komið út sem trans. Afstaða mín til þess er bara sú að þetta séu ekki endurskriftir heldur upplestur á bók sem kom út tiltekið ár þegar veruleikinn var sá sem hann var þá og þar með geri ég engar slíkar breytingar. En ef það stendur óksöp þar sem á að standa ósköp segi ég ekki óksöp. Þegar Óskabörnin settu leikritið á svið þurfti að uppdatera verkið – ekki síst til þess að koma Sigmundi Davíð að. Enda hefði verið undarlegt að leikverkið kommenteraði ekki á hann. Það var 2016 og ég man að við hugsuðum öll þá hvað væri skrítið að hann hefði nánast ekki verið til – ekki sem þessi fígúra – 2012. Og núna 2021 er fáránlegt að hugsa til þess að Trump hafi ekki einu sinni náð að vera með í leikritinu. Ég man ekki hvort hann kom eitthvað við sögu á endanum – verkið var margsinnis uppfært á sýningartímanum – en ég held hreinlega ekki. Ef ég ætlaði að endurskrifa Illsku – færa hana tíu ár fram í tímann – væri Trump fyrsta viðbótin. Agnes hefur auðvitað áhyggjur af því alla bókina að ritgerðin hennar – um popúlisma í samtímanum – sé að verða úreld vegna þess að allir hafi misst áhugann á útlendingahatri í kjölfar hrunsins. Svo er auðvitað kórónaveiran og orðræðan í kringum hana önnur eins gullkista af þjóðrembingi – hvort sem það eru hetjurnar sem slá sér á brjóst fyrir einstakan árangur og samstöðu þjóðarinnar eða illmennin sem atast að Pólverjum úti á götu. En þetta segir líka sitthvað um mismuninn á bókmenntaverki og leikverki. Leikverkið á sér stað aftur og aftur – en bókmenntaverkið á sér bara stað einu sinni og er eftir það dokúment. Leikverkið hættir að vera til – gufar upp. Og samtímabókmennt – alveg sama hvað hún er körrent – verður að eins konar sagnfræði. Þannig er Illska ekki lengur samtímabókmennt af því samtími hennar er liðinn – eða að minnsta kosti smám saman að líða – en það segir vel að merkja ekkert um hversu vel hún á við. Hún getur þess vegna átt betur við. Eða verr. *** Plata vikunnar í blúshluta bloggsins er Ice Pickin’ með Albert Collins. Þetta er ein af fyrstu plötunum í blússafninu mínu – ég man ekkert hvenær ég keypti hana eða hvar en sennilega keypti ég hana fljótlega eftir að ég keypti mér aftur plötuspilara fyrir svona fimm árum. Ég heyrði fyrst í Albert Collins á einhverjum svona „gítartónleikum“ sem voru sýndir á Stöð í byrjun tíunda áratugarins. Ég var eitthvað að reyna að gúggla þessu en finn það ekki. Það eina sem ég man var að Joe Walsh var líka og þetta er ekki Jazzvisions þáttur sem var á dagskrá 1988 – heldur eitthvað stærra dæmi, seinna, sennilega nær dauða Collins (1993). En það gengur sem sagt ekkert að gúggla því. Kannski ég gæti fundið VHS spóluna á heimili foreldra minna ef ég legðist í rannsóknir en þetta skiptir sennilega ekki öllu máli. Ice Pickin’ kom út árið 1978 – árið sem ég fæddist – og er svokölluð gegnumbrotsplata fyrir tónlistarmann sem hafði lengi verið á sjónarsviðinu, orðinn 46 ára gamall, en fyrsta breiðskífan hans kom út 1965. Hann hafði ekki fullt lifibrauð af tónlist – þrátt fyrir aðdáun blúsnörda á borð við Canned Heat – og vann mest sem iðnaðarmaður þar til Ice Pickin’ kom út. Platan var tilnefnd til Grammy verðlauna – í flokki sem þá hét „ethnic or traditional“ – en tapaði fyrir Muddy Waters, sem var með live plötu (sem er alltílagi en ekkert meistaraverk á borð við Ice Pickin’ – þetta var þriðja árið í röð sem Muddy vann, en fyrsta árið fékk hann fyrir Hard Again, sem er ein af hans bestu). Albert Collins er með mjög sérstaka rödd á gítarnum – og raunar í munninum líka. Hann lætur telecaster gítarinn nísta hærra en aðrir megna – og því er þessi ísnálslíking ekki alveg úr lausu lofti gripin og fylgdi honum lengi. Lagið sem ég heyrði hann spila á þessum tónleikum sem ég nefndi er af síðustu breiðskífunni hans og heitir einmitt Iceman. En lagið sem við ætlum að heyra hér í dag heitir Master Charge og fjallar um mann sem hefur gert þau hrapalegu mistök að leyfa konunni sinni að fara út að versla með nýja kreditkortið sitt. Textinn er einsog hann er – en tilfinningin er sönn, lagið stendur fyrir sínu, þetta band sem er með honum er æði og kúlið svoleiðis drýpur af mínum manni.