Þessi vika hefur verið svo löng að ég man varla hvar hún byrjaði. En jújú, sennilega byrjaði hún á danssýningunni í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar (LRÓ). Aram og vinir hans áttu stóran þátt í að semja sýninguna og plottið var fremur kynjað hjá þeim. Hópur drengja kemur að litlu systrum sínum í tölvunni hans Arams, heima hjá okkur, svo finna þeir gamla tösku sem „pabbi hans Arams“ á og ferðast í gegnum hana inn í aðra vídd – tölvuleikjavíddina. Þar væflast þeir um en finna loks „skrítinn karl“ (sem Matta í Edinborgarhúsinu lék, ein fullorðinna á sviði) sem reddaði þeim til baka með einhverjum skrítnum aðferðum. Hvort hann sendi þá ekki eftir einhverjum töfragrip og þeir töfruðust til baka. Inn á milli voru svo dansatriðin – aðallega í tölvuleikjavíddinni. Þetta var allt saman mjög skemmtilegt þótt við kynjameðvitaða fólkið hefðum látið hlutverk „pirrandi litlu systra“ gera okkur gramt í geði. Aram og félagar fengu líka mikið hól. Í tölvuleikjavíddinni var Aram klæddur einsog Link í Zelda. View this post on Instagram Aram Link eftir danssýningu. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on May 21, 2019 at 11:04am PDT //www.instagram.com/embed.js
Aino átti að vera í sýningunni líka en hún veiktist og gat ekki farið. Hún tók það merkilega lítið nærri sér miðað við hvað hún var búin að vera spennt fyrir þessu. Sennilega er hún bara svona stóísk. Ekki veit ég hvaðan hún fær það en það kemur sér ábyggilega vel í lífinu. Þær höfðu frjálst búningaval – af því þær voru ekki í tölvuleikjavíddinni heldur okkar megin – og Aino ætlaði að fara í körfuboltagallanum. Var meira að segja komin í hann áður en hún fékk skyndilega verk í eyrað og lagðist flöt með hita. *** Næst voru tónleikar í þeim sama LRÓ. Daginn eftir sennilega. Aino var búin að jafna sig og lék Maja átti lítið lamb og Óðinn til gleðinnar á píanó. Þetta er fyrsta árið hennar á píanó og það hefur svolítið rokkað hvað henni finnst þetta skemmtilegt en hún endar árið áhugasöm. *** Ég las Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson og Stormfugla eftir Einar Kárason. Ég hafði reyndar lesið þá fyrrnefndu í handriti og fékk hana alveg fríkeypis. Ég man ekki eftir nema einni einustu athugasemd og það gladdi mig að Hermann hafði ekki farið eftir henni heldur fundið aðra lausn sem var ennþá skemmtilegri. Ég ætla ekkert að segja ykkur hvað það var enda trúnaðarmál. En bókin er mikið fyrirtak – líka hin hneykslanlega saga um Vitaverðina sem woke-liðið ranghvolfdi augunum yfir. Stormfuglar er líka merkileg bók. Það hefur verið furðu lítið um alvöru fagurbókmenntir um sjómenn og þeirra ævintýri – sérstaklega ævintýri þeirra á hafi úti. Ég ræddi þetta við Smára vin minn í hádeginu og við breinstormuðum eitthvað um ástæðurnar fyrir þessu. Smári hélt að kannski væri þetta bara of nálægt okkur ennþá – of mikið af sjómönnum frá hetjuárum íslenskrar sjómennsku. Þegar þeir fara að deyja verður kannski hægt að segja sögurnar ótruflaður. Svo eru auðvitað (nánast) engar konur um borð og þá er a.m.k. heterónormatífa rómantík úr sögunni. En það er líka bara að áhöfn skips er eitt lið í átökum við hafið og þá vantar eitthvað í spennuna – vantar „fólkið á næsta bæ“ eða einhvern kontrast. Í Moby Dick er þetta leyst með því að hafa skipstjórann snargalinn, en meira að segja þar er söguþráðurinn nokkurn veginn bein lína. Það er eitt markmið og það þarf að nást og það gerist ekkert mikið annað en bara það. Stormfuglar er ólíkt styttri – og kannski líkari Gamla manninum og hafinu en Moby Dick en þær eiga það allar sameiginlegt að vera svona einn þráður. Það er einsog hafið bjóði ekki upp á flókna söguþráði með neinum vendingum. Þar er bara farið fram og til baka – einsog í síðustu Mad Max mynd, þeirri frábæru ræmu. Í Stormfuglum er markmiðið bara að lifa af. Eða deyja ekki, þrátt fyrir að vera alltaf á barmi þess. *** Á laugardaginn lék hin víðfræga sveit Hatari á Ísafirði ásamt palestínska tónlistarmanninum Bashar Murad. Þeir buðu mér að hita upp fyrir tónleikana með upplestri og Högni Egilsson lék á flygil meðan gestir tíndust út – svo var DJ en ég missti af honum. Þeir voru mjög þreyttir að sjá þegar við Aram fórum og hittum þá í hljóðprufunni en ekkert nema orka og einbeiting á sviðinu. Þetta vel smurð vél, vél smurð vel. Við Hálfdán Bjarki fórum með Aram, Hálfdán Ingólf og Christakis, son Dóra Eró og Sigurlaugar. Þeir fóru vægast sagt sáttir heim. Annars var mjög breitt krád í salnum – fólk á öllum aldri og héðan og þaðan. Þetta voru, það best ég veit, einu tónleikarnir á túrnum þar sem ekki var aldurstakmark. Það var engin óhemja af börnum, enda tónleikarnir seint, en samt slatti. Úti í smók rakst ég á náunga – Patreksfirðing – sem kynnti sig með því að segjast vera 58% síonisti og 42% hitt. Tók það svo til baka og sagðist vera 56% síonisti og 44% hitt. Svo talaði hann um ofsóknir gegn gyðingum og sagði svo sem ekkert svívirðilegt – það var meira að niðurstaðan væri skrítin. Að vera síonisti. Ég las Ljóð um forgangsröðun úr Óratorreki. Það er tíu mínútur í flutningi og tekur svolítið á – það er ljótt í því og það er endurtekningasamt (einsog öll ljóðin i bókinni). Einar trommugimp (sem er núna þriðji eftirlætis trommari Arams á eftir Nicko McBrain og Alex Van Halen) trommaði mig inn á sviðið, svo las ég og hann kom aftur inn í endann. Ég fékk svo það hlutverk að kveikja á tónlistinni þegar ég gekk út af sviðinu. Þessu var almennt vel tekið – mikið klappað og mikið hrópað og mikið talað við mig á eftir. En það voru ekki alveg allir jafn rosalega ánægðir með mig. Alveg ofan í mér á sviðinu var að minnsta kosti einn aðili – kona, sem ég sá aldrei en skilst að sé Ísfirðingur, nokkuð við skál. Og allan tímann sem ég las heyrði ég hana segja stundarhátt hluti einsog „Nei, heyrðu nú vinurinn, ert þú ekki eitthvað að villast?“ og „Hálfdán Bjarki, viltu stoppa manninn!“ Og svo framvegis. Þetta var hilaríus en af því að annars var þögn í salnum átti ég allt eins von á að öllum hefði bara þótt þetta glatað. Enginn er spámaður í eigin föðurlandi og svona – ég les sjaldan upp hérna og aldrei fyrir tónleikakrád. Þegar við komum heim var Aram mjög forvitinn um þessa konu. Ég er ekkert viss um að hann hafi vitað neitt hvað honum átti sjálfum að þykja um upplesturinn – þetta er mjög langt og ruglandi fyrir börn, en honum fannst mjög spennandi að Hatari skyldi biðja mig að gera þetta. Hann vildi vita hvort ég væri ekki reiður eða sár. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að sennilega hefði ég farið í kerfi ef þetta hefði gerst fyrir 10-15 árum en núorðið væri mér alltaf meira og meira sama um svona. Sá sem höfðar til allra höfðar ekki mjög mikið til neins og ég reyni ekki að miða á fjöldann. Svo er líka fullt fólk bara oft einsog algerir bavíanar. Og ég fór síðan á útskriftarball í menntaskólanum að hitta Nödju (sem er frönskukennarinn) og fékk að segja söguna af fullu röflandi kellingunni nokkrum sinnum og það var bara gaman. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á spænsku bíómyndina Toc toc. Nadja valdi – en hún var ekki síst valin fyrir að a) vera á spænsku b) á netflix og c) ekki mjög löng. Myndin fjallar um hóp fólks sem hittist á skrifstofu frægs sálfræðings. Þau eiga fyrir mistök öll bókaðan tíma samtímis og í ofanálag er sálfræðingurinn, sem ekkert þeirra hefur enn hitt, seinn fyrir. Öll þjást þau af áráttu- og þráhyggjuröskun (sem er skammstöfuð TOC á spænsku). Einn þarf að reikna út allt sem fyrir nef hans rekur, önnur endurtekur allt sem hún segir, þriðji er með tourettes (sem furðulegt nokk hinir virðast bara aldrei hafa heyrt um), fjórði er með hreinlætisæði o.s.frv. o.s.frv. Myndin er byggð á leikriti og ber þess merki – sennilega verið vinsæll farsi einhvers staðar. Ég gat ekki séð að myndin fjallaði um neitt sérstakt eða hefði neinn annan tilgang en að reyna að stytta manni stundir – sem tókst ekki nema rétt svo bærilega. *** Við Aram og Aino kláruðum Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson. Aram valdi og Aino velur næstu bók. Flóttinn mikli fjallar um ungan dreng, Loga, sem er munaðarleysingi og elst upp hjá stjúpa sínum, illmenninu Þorláki frá Gili (sem Aram hefur stundum kallað Þorstein frá Hamri – hann las ljóð eftir Þorstein á framsagnarprófi í morgun) eða Svarta-Láka, sem lemur stjúpson sinn og kemur almennt mjög illa fram við hann. Svarti-Láki á vin sem heitir Bjössi Blátönn og saman skipuleggja þeir innbrot í skartgripaverslun. Þegar Logi heyrir óvart ráðabrugg þeirra ákveða þeir að gera hann samsekan með því að taka hann með. Í miðju innbroti flýr Logi svo undan þeim og gengur út í sveit. Þeir elta og hann húkkar sér far og kemur sér fyrir á bóndabæ, þeir finna hann og hann flýr aftur, fer á annan bóndabæ, hittir laxveiðandi leynilögreglumann sem heitir Hansi, þeir finna hann aftur, Hansi bjargar málunum og stingur Bjössa og Láka í steininn og Logi er tekinn í fóstur á seinni bóndabænum. Sagan er mjög spennandi í upphafi en missir svolítið dampinn. Bókin er gamaldags – hún kom út 1974 og ber þess ekki mikil merki að hafa komið út á þeim annars upplýstu tímum. Það er mikil sveitarómantík í henni – óhamingjan er í sollinum (þeir stjúpfeðgar búa á Vesturgötu, sem virðist hálfgert slömm) en hamingjan meðal bænda. Karlar eru ýmist góðmenni eða illmenni en konur eru allar góðmenni – ekki síst látin móðir Loga sem virðist hafa verið einhvers konar dýrðlingur og hafa viljað bjarga Svarta-Láka frá sjálfum sér. Áður en hún svo dó. Ég man eftir að hafa sjálfur lesið bækur Indriða Úlfssonar þegar ég var lítill. Hélt mikið upp á Kalla kalda. Man ekkert eftir henni samt. Ég get ekki sagt að upp hafi sprottið miklar og nostalgískar tilfinningar við lestur Flóttans mikla heldur – þótt ég hafi áreiðanlega lesið hana (hún er í láni frá mömmu og pabba og það er óhugsandi að í því húsi séu barnabækur sem ég hef ekki lesið). Aram fannst Flóttinn mikli skemmtileg og Aino líka – þótt hún hafi ekki náð öllum söguþræðinum. Mér finnst alltaf gaman að fá svona innlit í annan tíma – ekki bara sjálfan sögutímann heldur líka hugarfar höfundar. 1974 er bæði svo nýlega og fyrir svo langa löngu – það er kyrfilega í nútímanum í mörgum skilningi en samt ekki. Og ég held að það veki líka athygli þeirra – síðustu bækur sem við höfum lesið, Elías og Sitji guðs englar trílógían eru allt svona innlits bækur (þótt hinar hafi verið nútímalegar í öðrum skilningi – Auður betri höfundur en Indriði svo mjög miklu munar og Guðrún Helgadóttir … er bara ekki í sömu deild og aðrir barnabókahöfundar, og trílógían ómetanlegt listaverk). *** Gítarleikari vikunnar er Slash.