Í gær horfði ég á Rocky Horror Picture Show kvikmyndina frá 2016, með Laverne Cox í aðalhlutverki. Það eru sennilega ekki nema 2-3 vikur frá því ég horfði aftur á orginal kvikmyndina með Tim Curry. Mér fannst hún mjög góð – einhvern veginn hressilega ómórölsk. En nýja myndin er satt að segja ömurleg. Hún er svo vond að mann langar að meiða sig. Ég veit ekki alveg hvað veldur – handritið er svo til óbreytt, þetta er bara sviðsett með nýjum leikurum – en hugsanlega hefur það einfaldlega eitthvað með samtímann að gera. Hún flúttir ekki. Það fyrsta sem truflar mann er hvað hinn íhaldssami mórall – hreinlyndu sálirnar Brad og Janet og heimurinn sem þau tilheyra – er úreltur. Hann var það auðvitað líka árið 1975 en ég ímynda mér að hann hafi samt verið til, á annan máta, verið konsekvent afl í heiminum. Íhaldssemi samtímans er miklu líkari Söruh Palin og Donald Trump – og móralisminn hefur hreiðrað um sig víðar, og einfaldlega breyst, lítur öðruvísi út, virkar öðruvísi. Að millistéttarplebbar óttist dragdrottningastemningu og búningadrama – meðan þau raða í sig bókum Tracy Cox (óskyld Laverne) og 50 gráum skuggum og frásögnum Ragnheiðar Eiríksdóttur úr Swingpartíum eða mökunarlýsingum Köru Kristelar – á sér einfaldlega enga stoð í raunveruleikanum. Millistéttarplebbar þyrpast auk þess á Rocky Horror sýningar um veröld alla. (Það munaði minnstu að upprunalega myndin floppaði – vinsældir hennar komu loks, öllum að óvörum). Næst truflar fegurð leikaranna. Í upprunalegu útgáfunni er eitthvað fríkað við leikarana. Meira að segja Brad og Janet eru pínu off – eins falleg og þau eru – og þótt Frank sé sannarlega hott er hann ekki fullkominn. Leikararnir í nýju sýningunni líta allir út einsog þeir hafi fengið einkaþjálfara í skírnargjöf. Við sköllótta fólkið veltum því líka fyrir okkur hvers vegna allir eru alltaf svona vel hærðir í Hollywood. Nýi Riff Raff reynir síðan bókstaflega að herma eftir gamla Riff Raff. Og gerir það vel. En það er svolítið einsog að fá Örn Árnason til að leika Davíð Oddsson – það er skopstæling. Fagurfræði sýningarinnar er í samræmi við þetta slétt og felld – mixið er ofmixað, allt er flatt og agnúalaust, ef frá er talinn performans Tims Curry sem afbrotafræðingurinn. Curry fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og leikur hann af fremsta megni, hikandi og af erfiðleikum – einsog Johnny Cash að syngja Personal Jesus, maður á sínum síðustu andardráttum – og einmitt vegna þess að hann er ekki fullkominn er hann langsamlega bestur. Það er líka eitthvað saklaust við nekt fullkomins fólks – eitthvað sem er ekki afhjúpandi, þegar líkaminn hefur verið undir það búinn frá fæðingu að birtast nakinn. Eða – þið vitið – hálfnakinn. Þegar Susan Sarandon stóð á náttkjólnum var hún allsber – nýja Janet (ég nenni ekki að gúgla nafn leikkonunnar) er ekki naktari en fótósjoppuð Kim Kardashian á forsíðu Paper. Í þriðja lagi – ég veit ekki hvort transgressjónin er minni í nýju myndinni, hvort það er beinlínis gengið skemmra (senan þar sem Frank nauðgar/tælir Brad og Janet er umtalsvert sakleysislegri – það er einsog leikstjórinn hafi ekki getað ákveðið sig hvort Frank ætti að penetrera eða penetrerast og þau Brad enda á að liggja saman og slá hvort annað á fullklæddan rassinn). En tilfinningin fyrir hættunni er engin – tilfinningin fyrir leiknum er engin. Kannski er Rocky Horror í samtímanum alltaf bara eitthvað kits – fólk að LARP-a ógn, klætt einsog krossfarar, einhvers konar períóðustykki, fólk að spila á lútur og rifja upp nostalgíu sem það á ekkert í (bróðurpartur áhorfenda var ekki fæddur 1975). Kannski er þetta bara ekki hægt, alveg sama hvað lögin eru góð, jafnvel þótt leikararnir væru betri og handritið eitthvað uppfært – það hjálpar í það minnsta ekki hvað þessi uppfærsla var skelfilega geld (no pun intended) og ógnarlaus. En það er hægt að horfa á orginalinn – það er meira að segja fínt og sannfærandi. Og Tim er guðdómlegur. *** Annars veit ég ekki hvort Frank er trans – hann er náttúrulega geimvera og alveg óvíst hvort hann sé þar með kynjaður yfir höfuð. En í upprunalega textanum segist hann vera „transvestite“ – þ.e.a.s. klæðskiptingur – og hvernig það fer saman við að vera trans veit ég ekki. Ef maður skiptir um eða leiðréttir kyn líkama síns svo það samræmist hinni ytri kyntjáningu er maður sennilega ekki klæðskiptingur lengur – en maður getur auðvitað stundað klæðskipti í hina áttina. Vandamálið við Frank er að hann klæðir sig ekki í samræmi við neina standard kyntjáningu karla eða kvenna. Hann ögrar skilgreiningunum. Það er mikilvægt líka að hafa í huga að þegar Frank segist vera frá „Transsexual, Transylvania“, er hann að tala um plánetuna Transsexual í vetrarbrautinni Transylvania – það er komma þarna, hann er hvorki frá kynfráu né kynsegin Transylvaníu, einsog það hefur verið þýtt. Hvort nafngift plánetunnar sé meira lýsandi fyrir íbúana en Grænhöfðaeyingur eða Hvít-Rússi veit ég ekki heldur og það best ég hef getað tekið eftir, kemur það aldrei fram.