Untitled

Í dag hef ég verið þreyttur, einsog í gær. Ég píndi mig samt út að hlaupa – rauk út á Hnífsdalsveg og ætlaði að hlaupa eftir göngustígnum en þá var ekki búið að ryðja hann og ég var fastur í vegarkantinum. Sennilega hafa bílstjórarnir hugsað mér þegjandi þörfina einsog ég hugsaði snjómokstursyfirvöldum þegjandi þörfina. Ég fór líka með orkídeu til pabba – gróðurhúsbóndans – en annars hef ég mest verið fastur í eldhúsinu, að taka til og ganga frá og þrífa. Gerði nýja gúrkublöndu, eldaði blómkálssúpu úr afgöngum í ísskápnum, hrærði í eitt brauð – og eldaði hádegisverð þarna einhvern tíma í millitíðinni. Mér finnst gaman í eldhúsinu en þetta var helst til mikið gaman í dag og kannski ekki alveg skemmtilegustu verkin heldur (ég er að reyna að koma því að hversu pirraður ég varð af því að vakna síðastur og fá þar með að ganga frá morgunverði hinna fimm heimilismannanna áður en ég gat farið að borða morgunverð sjálfur, að koma því að sem sagt án þess að það hljómi einsog ég sé algert fífl sem nenni aldrei að gera neitt fyrir neinn). *** Nú er ég að drekka Dark ‘n’ Stormy með alvöru Gosling rommi sem ég keypti í stórborginni fyrir sunnan. Ég ætlaði líka að kaupa Peychauds Bitter en stórborgin er greinilega ekki nógu stór fyrir þannig – og því fæ ég víst engan Sazerac í bráð. Annars er orðið til svo mikið af brennivíni í þessu húsi að ég gæti drepið heilt fótboltalið, með varamönnum, þjálfurum, sjúkraliðum, mökum og afkomendum, úr áfengiseitrun. Ef ég lendi einhvern tíma í vandræðum með afborganirnar af húsnæðisláninu sel ég kokteila, ljóðabækur og svitabönd út um eldhúsgluggann – af þessu á ég slíka ógrynni.