Óskipulögð glæpastarfsemi

Ég las í fréttum að Jón Gunnarsson ætli í stríð. „Ég vil kalla það stríð við skipulagða brotastarfsemi“, sagði Jón við fréttamann Vísis. Þetta er auðvitað kunnuglegt tungutak en líka til marks um ákveðna uppgjöf. Eða bara fullkomna uppgjöf. Stríð er það sem maður háir þegar ekkert siðmenntaðra er í boði. Og hefur nánast undantekningalaust hræðilegar afleiðingar fyrir alla sem taka þátt í því – stríð skilja eftir sig sviðna jörð. Jón á væntanlega við stríð í „yfirfærðri merkingu“ – ég reikna ekki með því að hann ætli að fara að fordæmi filipseyska kollega síns Duterte og fara að safna saman glæpamönnum og láta skjóta þá í húsasundum. Hann á sennilega við eitthvað svipað og þegar bandaríkjamenn hafa talað um „war on drugs“. Konkret ætlar hann að vopna lögreglu og gefa þeim auknar valdheimildir. Ég held það séu engin dæmi um það að svona „tough on crime“ stefna skili mannúðlegra samfélagi eða dragi úr ofbeldi. Eiginlega finnst mér andstæðan blasa við. Friðsæl samfélög eru samfélögin sem standa vörð um friðsæld sína – þar sem hið opinbera fer ekki í stríð, vopnar ekki lögreglumenn um fram það sem er bráðnauðsynlegt og svo framvegis. Vopni lögreglan sig vopna glæpamenn sig bara meira. Og þannig vopnakapphlaup boðar ekkert gott fyrir hina. En það blasir auðvitað ekki við hvernig maður dregur úr glæpum (nema einmitt með góðu menntakerfi, lítilli misskiptingu og umhyggju gagnvart hvort öðru – en það eru dýr langtímaverkefni og því nennir enginn né tímir). Nú er t.d. mikil ofbeldisalda í Svíþjóð. Byssuárásum fjölgar mjög og átök milli gengja eru hörð. Fyrir nokkrum árum skáru Svíar upp „herör“ gegn gengjunum – fóru í stríð og náðu miklum árangri. Með hjálp upplýsinga úr Encrochat-spjallappinu voru tæplega 200 manns dæmdir í samanlagt ríflega þúsund ára fangelsi. „Þetta er stærsta högg sem skipulögð brotastarfsemi hefur orðið fyrir í gervallri glæpasögu Svía“, skrifaði Expressen. „Allt annað fölnar í samanburði.“ Síðan þá hefur ríkt hálfgerð óöld. Mest voru þetta toppar og millistjórnendur. Meðalrefsingin var frekar há á sænskan mælikvarða – sex ár. Og þá sitja Svíar sem sagt eftir með nokkur þúsund unga smáglæpamenn til þess að mæta nákvæmlega sömu eftirspurn eftir eiturlyfjum og vændiskonum – og þessari eftirspurn verður mætt, vegna þess að fólk er tilbúið til að borga góðan pening fyrir sín eiturlyf og sínar vændiskonur. Það er sterkasta lögmál síðkapítalismans. Á kaupsýslumáli held ég að þetta sé kallað „tómarúm á markaði“ og verður jafnan til þess að koma feykimiklum krafti í öll viðskipti og auka átök milli samkeppnisaðila – enda er skyndilega hvorki til Pepsi eða Kók en ljóst að einhver (RC Cola? Ískóla? Bónus kóla?) verður næsti kóngur markaðarins. Einhver af þessum götustrákum verður fáránlega ríkur eftir nokkur ár (og margir þeirra verða dauðir eða í fangelsi og eymdin eykst). Einhver sænskur kriminalóg lét hafa eftir sér í fréttum síðasta vetur að á meðan skipulögð brotastarfsemi væri sannarlega erfið viðfangs þá væri það því miður ekkert á við óskipulagða brotastarfsemi.