Ferðalagið er hafið og það bætist sífellt á listann yfir allt sem getur farið úrskeiðis. Nú er farið að rigna svo mikið í Bohuslän – þar sem Gautaborg liggur – að fólk er varað við því að vera á ferðinni. Sem betur fer á það enn sem komið er helst við minni vegi og við ætlum bara að halda okkur á hraðbrautinni. Í gær missti ég líka af símtali frá Smyril Line – og fékk auðvitað hálfgert taugaáfall, var handviss um að eitthvað hefði farið úrskeiðis og við kæmumst ekki heim. Þau reyndust þá bara að hringja til að minna alla á að mæta með PCR vottorð. Það er áreiðanlega ekki gaman að þurfa að vísa fólki frá. Það gekk mjög vel í Gautaborg og Åmål. Sérstaklega var gaman að vera í Åmål með John Swedenmark, þýðandanum, sem hafði umtalsvert gáfulegri hluti að segja en ég. Ég verð gjarna óðamála og óöruggur í viðtölum – ég ætla sosum ekki að gera meira úr því en efni standa til, ég held ég komi ekkert fyrir einsog fábjáni, en ég er sjaldnast ofsaglaður með frammistöðu mína. Ég er rithöfundur af því mér finnst þægilegt að hugsa á lyklaborð – ekki að tala upphátt. En ég nýt þess þá að vera umkringdur alls konar snillingum sem þess utan gera alltaf sitt besta til að láta mig líta vel út. Hér á myndinni fyrir neðan má t.d. sjá Yukiko Duke – sem er þekktur gagnrýnandi í Svíþjóð, og gaf mér minn fyrsta dóm, fyrir Eitur fyrir byrjendur, fjórar stjörnur í Go’morgon Sverige fyrir hundrað árum. Við hliðina á henni er svo Per Bergström, útgefandinn minn og góðvinur – sem er varla kynntur öðruvísi í dag en tekið sé fram að hann gefur út nóbelsverðlaunahöfundinn Louise Glück (auk mín, sem sagt) – ég og svo áðurnefndur John, sem er mikill sendiherra alls sem íslenskt er og annálað gáfnatröll – og svo loks Victor Estby, framkvæmdastjóri Bókadagana í Dalslandi, sem „sleppir“ Brúnni yfir Tangagötuna (að gefa út bók á sænsku heitir að sleppa bók – þetta er hið formlega útgáfuhóf og var ekki síst skemmtilegt vegna þess að ég náði aldrei að halda neitt útgáfuhóf þegar hún kom út á Íslandi (út af covid). Í dag er ég sem sagt þunnur. Nú er ég í lestinni frá Karlstad til Hallsberg. Þar skipti ég yfir í lestina til Norrköping. Hér er allt fullt og ég fæ áreiðanlega covid á leiðinni. Á morgun er hvíldardagur. Ég ætla að fara út að hlaupa, gera jóga og taka upp blús mánaðarins – sem verður sænskur að þessu sinni. Og á sunnudag keyrum við til Gautaborgar í rauða býtið.