Untitled

Það er frétt um það í Stundinni í dag að ungur Ísfirðingur, Stefan Octavian Gheorge, sem hefur getið sér gott orð fyrir leik í kynferðislegum vinjettum samkynhneigðra – svonefndum hommaklámmyndum – hafi mætt í tíma í Menntaskólanum á Ísafirði til þess að ræða kynheilbrigði. Honum var ekki boðið til að ræða starf sitt heldur upplifun sína af að vera samkynhneigður ættleiddur drengur á Ísafirði. Að sögn nefndi hann starf sitt en það kom að öðru leyti ekki til umræðu. Það er svolítill vandlætingarfnykur af fréttinni, einsog svo mörgu sem skrifað er á Stundinni, en keyrir svo sem ekkert um þverbak. Kennarinn fær nægt rými til að útskýra hvað átti sér stað í raun og veru þótt áhersla í fyrirsögnum og myndefni sé sensasjónalísk. Ekki er rætt við Stefan sjálfan og maður fær það á tilfinninguna að blaðamanni og/eða ritstjóra, einsog athugasemdakórnum, finnist ekki við hæfi að hann hafi rödd – að við hann sé rætt – og ekki einu sinni kennarinn sem bauð honum kærir sig um að leyfa krökkunum að ræða við hann um hvað sem er. Þeim er ekki treyst til að takast á við hugmyndina um starf hans eða sjónarhorn hans á þetta starf. DV hefur farið alveg hina leiðina og lagt ofuráherslu á það sem mætti kannski kalla hægri-sensasjónalisma – það er Daily Mirror súpum-saman-hveljur stíllinn. Bæði er í grunninn íhaldssamt og niðrandi. Í báðum tilvikum er manneskjan gerð að farartæki fyrir eitthvað annað en sjálfa sig eða eigin boðskap; hún er verkfæri til að koma mórölskum boðskap á framfæri. Í grunninn er það sami boðskapur beggja vegna borðsins –  sjáið hvað þetta er óheilbrigt og ógeðslegt.  Stundin dulbýr það sem umhyggju fyrir börnunum – eða jafnvel samfélagsmóralnum – en DV sem umhyggju fyrir frjálslyndi og áhugasviði lesenda sinna (smellunum). Hvorugt er algerlega úr lausu lofti gripið – klámiðnaðurinn er (oft á tíðum a.m.k.) kúgandi, en á sama tíma brjóstvörn frjálslyndis og (margra) kynferðisbyltinga (Playboy var t.d. fyrsta alþjóðlega tímaritið til að birta myndir af trans (og intersex) konu – Caroline Cossey, 1991). Það er hins vegar ekki laust við að manni finnist allir bara vera að leika sitt hlutverk í sirkusnum – það sæki enginn á djúpið, vilji enginn takast á við óþægindi margbreytileikans – nema kannski Stefan og að einhverju leyti kennarinn í MÍ. Stundin bara sussar og DV básúnar einhverri afmyndaðri glansmynd 4theclickz. Mestu skiptir þegar fólk lendir í þessum sirkus – fyrir augliti fjölmiðla – að einhver ræði við það (sjálft) af einlægni og heiðarleik. Opinberlega. Að það sé ekki gert að trúðum eða útskiptanlegum staðgenglum í einhverjum mórölskum skylmingum. Í þetta skiptið sýnist mér Stefan ekki verða fyrir mestum fordómum vegna kynhneigðar sinnar eða líffræðilegs ætternis, þótt það hafi afar líklega verið þungbært líka, heldur vegna starfs síns í kynlífsiðnaðinum.