Hin órómantíska angist

Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum. Meiri tími í símanum fer illa með sálarlífið. Meiri tími á covid-síðunum. Við erum kannski öll almannavarnir en við erum ekki einn aðili og fáum ekki ein meðmæli og það er ómögulegt að vita hvort það sé rétt að vera með appið eða vera með grímu eða vera í algerri einangrun – eða applaus, grímulaus og hanga á kaffihúsum (en „fara varlega“) einsog í Svíþjóð. Það er ekki bara þannig að allar ákvarðanir hins opinbera orki tvímælis – og hin opinberu (bæði rannsóknastofnanir og ríkisvald) séu með alls konar skoðanir og niðurstöður sem allar stangast á – heldur orka allar manns persónulegu ákvarðanir tvímælis. Ég get keypt brauð í Heimabyggð og séð til þess að staðurinn verði ekki orðinn að lundabúð (eða bara lokaður) þegar þessu lýkur eða ég get sleppt því að fara þangað svo það deyi enginn. Lokað mig niðri í kjallara svo það deyi enginn. Bakað mitt eigið helvítis brauð. Og einhvern veginn finnst mér samt einsog þetta myndi virka best ef við hefðum bara einn mauraheila. Um stundar sakir. Einn sovét-skipulagðan heila – einn fyrir alla og allir fyrir einn-heila. Það getur vel verið að ekkert sé hættulegra – þetta orkar tvímælis einsog allt annað. Og kannski drepur okkur bara tvímælið. Helst vildi ég bara að það væri app sem segði mér hvort það sé góð hugmynd að fara niður á skrifstofu að ná í ljóðabækur og prenta út eitt skjal sem ég þarf. Eða hvort það deyi þá einhver. Hvort það sé betra að fara á morgun. Eða í nótt. Og stundum líður manni samt vel. Alveg í svolítinn tíma jafnvel – en einhvern veginn skellur maður alltaf aftur á vegg. Svo líður manni vel. Svo ekki. Og þannig hring eftir hring þar til maður verður geðbilaður.