Untitled

Það er ekki mánudagur, einsog þið hafið tekið eftir, en ég var vant við látinn á mánudaginn og gat ekki skrifað neitt – Starafugl gekk fyrir þær fáu fríu mínútur sem ég átti. *** Nefndi ég það ekki einhvern tíma hérna að einn flokkurinn á gömlu heimasíðu Nýhils hét „Mánudagur“ og þar var bara allt sem átti ekki heima annars staðar, aðallega greinar minnir mig. Þeir mánudagar birtust bara hvenær sem er. *** Frá því síðast hefur heldur ekkert gerst. Ekki nokkur skapaður hlutur. Að minnsta kosti ekki sem viðkemur Hans Blævi. *** Ojæja, það eru ýkjur. Ég las upp á Bókakonfekti Forlagsins – á leiðinni til Tromsø – og fékk eitt aðdáendabréf. Og hef þurft að útskýra fyrir ótrúlega mörgum ólíkum formönnum félagasamtaka að ég búi ekki á höfuðborgarsvæðinu og geti ekki komið og lesið upp (oftast fyrir engan pening) nema sé annað hvort fyrir tilviljun í nágrenninu eða einhver geti lagt út fyrir ferðalögum og gistingu. Það kom meira að segja Ísfirðingafélaginu í Reykjavík á óvart að ég byggi á Ísafirði. Hver býr eiginlega á Ísafirði? *** Ég er pirraður og vansæll. Helvítis jólabókaflóð. Helvítis haust. Helvítis myrkur og kuldi. Ég þarf að fá mér aðra vinnu einhvers staðar í heitu löndunum. *** Ég verð samt á Opinni bók í Edinborgarhúsinu á laugardag, í góðum félagsskap. Og kem við á suðurfjörðunum á leiðinni heim frá Króatíu í byrjun næsta mánaðar. Annað er ekki í spilunum. *** Sennilega er ég líka bara ferðalúinn. Tromsø er nú bara í Noregi en ég þurfti auðvitað að keyra suður fyrst, sofa eina nótt í Keflavík, millilenda síðan í Osló á leiðinni þangað – og í Bodø, Þrándheimi og Kaupmannahöfn á heimleiðinni – gista aftur í Keflavík, keyra svo til Akureyrar í viðtal (ótengt bókinni) og heim. Nærri því 13 klst í loftinu og 1600 km í bíl. Svo gekk ég líka upp á fjall í Tromsø í einhverjum óskiljanlegum fíflagangi. *** Ég er byrjaður að smíða hillu undir Hans Blævar bækurnar. Hugsanlega verður hún nógu stór fyrir Illskubækurnar líka. Þá losna ég við þetta af skrifborðinu og rými aðeins til í hinni hillunni.